Gómsæt Sítrónu Marengs Terta með bjór á súru á nótunum á konudaginn?

Nú er konudagurinn á morgun og þá er nú eins gott að græja eitthvað trít fyrir konuna.  Ég er forfallinn súkkulaði fíkill og reyni að nota öll tækifæri til gera eftirrétti þar sem súkkulaði er í aðalhlutverki.  Hins vegar er ekki hægt að hugsa um eigin hagsmuni þegar kemur að því að gera vel við hinn helminginn, maður verður stundum að láta undan.  Konan mín féll algjörlega fyrir sítrónu marengs tertu sem við fengum okkur í París fyrir nokkrum árum síðan.  Þetta var reyndar ofsalega gott og fór vel niður með frönsku kampavíni af bestu sort, ég verð bara að viðurkenna það.  Ég ákvað því að reyna að líkja eitthvað eftir þessu og sem oft áður kíkti ég á vefsíðu Nigellu og fann þessa uppskrift hér.  Það er gaman að lesa á síðunni hennar að hún gafst upp fyrir löngu síðan að reyna að gera  hefðbundna stírónu marengs tertu, þær voru bara aldrei nægilega fullkomnar hjá henni að hennar mati.  Þessi uppskrift á að vera einfaldari en alls ekki síðri.   Sigrún mín var alla vega virkilega sátt!

Það sem þarf í þetta (gott að smella bara mynd af listanum hér) :

Í botninn

  • 125 g mjúkt ósaltað smjör
  • 4 stór egg, annars 5, rauður og hvítur aðskildar, rauðurnar fara í botninn
  • 100 g sykur
  • 100 g hveiti
  • 25 g maís mjöl
  • 1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsóti
  • rifinn börkur af 1 sítrónu
  • 4 tsk sítrónusafi
  • 2 tsk mjólk

Í marenge-inn

  • ½ tsk „cream of tartar“
  • 200 g sykur
  • eggjahvítur úr 4 eggjum

Annað

  • 150 ml þeyttur rjómi
  • 150 g „lemon curd“, ég notaði 320g (heil krukka)

Bjórinn með

Súrbjór með ögn beiskju biti ss Sur Simcoe frá To Øl.  Eins kemur berliner weisse vel til greina, prófið t.d. Stone Berliner Weisse já eða Brjánsa frá Borg ef hann er enn til. Svo er belgíski gueuze alveg stórbrotinn með þessu líka. Tropical Rumble frá To Øl er geggjaður með þessu líka en hann er hlaðinn tropical ávöxtum og er með notalegt bit frá Mosaci humlum sem er nauðsynlegt hér.

Aðferð:

IMG_6946Ok til að byrja með verð ég að taka fram að ég er virkilega lélegur með eggjahvítur og svona marenge.  Ég ælta líka að viðurkenna að marenge dæmið mitt féll í fyrstu umferð hjá mér en útkoman var samt geggjuð. Það sést vel á myndinni að ofan að marenge lagið er ansi aumingjalegt og ekkert í líkingu við það sem maður sér hjá Nigellu. Ég veit samt hvað klikkaði, komum að því á eftir.  Viðbót, ég endurtók þetta á 2. í konudegi og þá lukkaðist þetta svona líka vel (sjá hér til hliðar).

 1. Byrjið á að forhita bakarofn í 190 gráður.  Finnið til tvö hringlaga form, 21 cm í þvermál og smyrjið með smjöri.

2. Blandið eggjarauðum, 100 g af sykrinum, mjúka smjörið, hveiti, maís mjöl, lyftidufti, matarsóda og sítrónu berki í blandara og blandið vel.  Bætið svo sítrónu safanum og mjólk við og blandið áfram.

3. Deilið blöndunni milli formanna tveggja.  Hér fær maður smá panic, þetta virðist voðalega lítið en þetta nær samt að dekka formið.  Bara anda með nefinu og dreifa úr þessu í formin.

4. Þetta finnst mér alltaf erfiðast.  Þeytið eggjahvíturnar og „cream of tartar“ vel í þeytara (hrærivél) þar til þið fáið rjómakennda áferð og hægt er að mynda toppa.  Stillið svo á aðeins hægari stillingu á þeytaranum, og þeytið meðan þið bætið sykrinum (200g) smátt og smátt saman við.   Ég hrærði honum varlega saman við í fyrstu tilraun með sleif en þá held ég að hvíturnar hafi fallið hjá mér, alls ekki gera það.  Ég gerði þetta í hrærivél í annað sinn og þá var þetta flott.  Blandan á að verða  töluvert þykk og stíf í lokin. Deilið svo blöndunni á milli formanna og dreifið úr.

5. Svo er Nigella með einhverjar tilfæringar, í annað formið á maður að slétta vel úr eggjahvítunum með málmspaða en hitt formið þá notar maður bakhliðina á skeið til að ýfa upp og mynda toppa í yfirborðið.   Stráið svo ögn sykri yfir toppana. Smellið báðum formunum svo í ofninn í ca 25 mín.

6. Látið svo botnana kólna alveg.  Takið slétta botninn (þann sem þið gerðuð ekki toppa í) og snúið á hvolf (marengs hliðin niður) á kökudisk.

7. Þeytið rjóma, ekki þannig að verði alveg stífur samt.  Dreifið svo „lemon curd“ yfir botninn og svo rjóma þar yfir.  Takið svo hinn botninn og leggið ofaná þannið að hliðin með marengs toppunum snúi upp.  Þá er þetta bara klárt.

Kakan kom dásamlega vel út, súr en líka nokkuð sæt.  Ég hefði alveg vilja meira krispí marengs en það kemur bara næst.  Bjórinn gerði svo alveg útslagið.

IMG_6962
Sur Simcoe
frá To Øl er skemmtilegur súr session pale ale, sem sagt blanda af súröl og pale ale.  Við erum þarna með aðeins beiskjuna frá simcoe humlunum og sítrus furunálarnar sem oft fylgja simcoe og svo er einhver ögn ferskja sem skín í gegn.   Þegar bjórinn kemur strax á eftir munnbita af kökunni er eins og hann taki bragðið sem er að fjara dálítið út og blæs lífi í það og togar fram aftur súra sítrónukeiminn, beiskjan ræðst svo á rjómafituna og opnar allt upp á þægilegan hátt.  Skánin sem byrjar að myndast í gómnum hverfur alveg.  Þannig er eins og bjórinn framlengi braðinu frá kökunni og heldur gangandi þar til næsti biti mætir á staðinn.  Svo kemur sykursætan í kökunni vel út á móti súr-beiskjunni í bjórnum og gerir mjög skemmtilegt mót.  Þetta er sannarlega súr en góð upplifun.

Þegar ég endurgerði kökuna (taka tvö), köllum það bara 2. í konudegi, þá prófaðir ég ansi magnaðan bjór með sem algjörlega negldi þetta.  Tropical Rumble frá To Øl er 4.3% tropical IPA bruggaður með mango, ástaraldin og ferskjum ásamt helling af mosaic humlum.  Bjórinn er virkilega nettur með þægilega beiskju frá humlunum og djúsí sítrus og ávaxtaríka humla en svo koma ávextir inn með dálítið beiskum ávaxtakeim.  Virkilega flott með tertunni sem sem fyrr segir er dálítið sæt.  Beiskjan trappar sætuna niður og heldur vel við sítrónukeiminn.  Geggjað.

Gott freyðivín er líka algjörlega geggjað með þessu og nánast betri pörun en hér er talað um að ofan.