Ég var í Kaupmannahöfn í vikunni og kíkti að sjálfsögðu á Spontan aftur. Að þessu sinni valdi ég 4 rétti og bjórpörun með 4 bjórum. Ég fékk allt annan mat en síðast en hann var algjörlega stórkostlegur eins og við var að búast. Hver rétturinn algjört lystaverk, já ég setti „y“ hér með vilja! Bjórinn var fínn og passaði vel við matinn en síðasta pörunin fór alveg með mig. Rétturinn var eftirréttur og heitir á seðlinum „Cloudberry, Sea Buckthorn, Ymer, Honey“ en til að lýsa þessu þá er þetta eins og kalt sorbet með berjasósu, (cloudberry og Sea Buckthorn) sem var sætsúr og berjuð og svo næfurþunn kristalliseruð hunangsplata ofan á með fíngerðu lakkrískurli og claudberry dufti. Skemmtileg blanda af berjum, sýru og svo sætu hunangi með ögn seltu frá lakkrísnum. Bjórinn sem var serveraður með var Yule mælk frá To Øl en þetta er 15.5% imperail stout. Venja er að drekka imperial stout frekar volga en þessi var serveraður ískaldur. Í fyrstu var ég pínu hissa á þessu, ætti þessir snillingar ekki að vita þetta? Svo rann það upp fyrir mér að þetta hlyti að vera með vilja gert. Ég spurði því þjóninn sem sagði mér að bjórinn ætti einmitt að vera kaldur þegar maður fær hann á borðið því þannig verður hann ekki eins „overpowering“ og stelur ekki senunni frá þessum dálítið viðkvæma eftirrétt. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei látið mér detta í hug að tefla svona öflugum bjór á móti svona berjuðum og viðkvæmum eftirrétti. Hins vegar þegar bjórinn er svona kaldur þá virkar þetta frábærlega. Bjórinn er líka mjög sætur og mjúkur þrátt fyrir 15.5% og tengir þannig rosalega vel við hunangssætuna og svo kemur allt þetta súra og ferska alveg svakalega vel á móti ristinni og aðeins kaffitónunum í bjórnum. Það er bara erfitt að lýsa þessu en þessi blanda var algjörlega „mindblowing“. Maður þarf að reyna eitthvað svipað hér heima…..hmmmm veit samt ekki með þessi ber og hunangsplötuna, verður pínu snúið 🙂
„Mindblowing“ pörun á Spontan
