Banana Toffee Ostakaka

Sunnudagar eru svona tiltektar dagar hjá okkur, það er einhvern veginn ekki hægt að liggja með tær uppí loft án þess að fá samviskubit.  Ég hef samt komist hjá því stundum að vera á haus í tiltekt ef ég tek mig til og baka.  Ég er lengi að baka, mikill dútlari þannig að sunnudagar eru orðnir dálítið bökunardagar hjá okkur.  Ég sé þá um eldhúsið og skil það eftir eins og dauðhreinsaða skurðstofu…….. fyrir aðgerð það er að segja.

Ég leitaði einu sinni sem oftar til Nigellu Lawson í leit að ostakökuuppskrift, ég meina þessi kona er nautnaseggur fram í fingurgóma og hún kann svo sannarlega að gæla við bragðlaukana.  Ég datt niður á þessa hér og sá allt í einu lausnina á bananavanda heimilisins.   Þannig er að við kaupum inn banana en það þarf að gera eftir ströngum reglum því sú yngsta vill helst hafa þá græna og harða en unglingurinn vill hafa bananana gula og mjúka en alls ekki með neinum blettum á.  Það endar því oft þannig að einhver er ósáttur og bananarnir fá að dúsa í ávaxtaskálinni þar til þeir eru svo svartir að það er varla hægt að handfjatla þá.   Hér er komin uppksrift sem krefst þess að bananarnir séu vel þroskaðir og djúsí.

wp-1581262518647.jpg

Alla vega!

Það sem þarf

Í botninn

  • 250 g Digestive kex
  • 75 g ósaltað mjúkt smjör

fyrir fyllinguna

  • 4 ofþroskaðir bananar, milli stórir
  • 60 ml sítrónusafi
  • 700 g rjómaostur, við stofuhita (mikilvægt)
  • 6 stór egg
  • 150 g mjúkur ljós púðursykur

fyrir toffee sósuna

  • 100 g ósaltað smjör
  • 125 ml gyllt sýróp
  • 75 g mjúkur ljós púðursykur

Aðferðin

Ok til að svekkja ykkur, þá þarf kakan að standa yfir nótt þannig að planið tímanlega.

  1. Takið til springform, 23cm í þvermál.  Smyrjið vel að innan með smjöri eða klippið til smjörpappír í botninn.  Pakkið forminu svo vel inn í álpappír að utan.  Þetta á að vera þannig að vatn sleppi ekki inn í formið þegar það er sett í vatnsbað.  Það má alls ekki leka.
    .
  2. Setjið kexið (250g) og mjúka smjörið (75g) í matvinnsluvél og maukið þar til þetta er orðið eins og rakur sandur og farið að klumpast ögn saman.   Pressið blöndunni svo í botninn á springforminu og setjið inn í kæli
    .
  3. Stappið banana (4 stk) með gafffli í skál, bætið við 60ml sítrónusafa og leggið til hliðar.
    .
  4. setjið mjúka rjómaostinn (ath þarf að vera við stofuhita, ekki beint úr kæli) í hrærivél og hrærið þar til orðið silkimjúkt og fínt, bætið þá 6 eggjum og 150g púðursykur samanvið.   Hrærið áfram til að blanda þessu vel saman.  Loks fer bananastappan með sítrónusafanum útí.  Hrærið þar til þið eruð komin með silkimjúka blöndu.
    .
  5. Takið formið úr kæli og hellið blöndunni yfir.  Finnið til djúpa ofnplötu og leggið formið í miðjuna.  Hitið ofn í 170 gráður.  Sjóðið vatn og látið það standa ögn.  Þegar ofninn er orðinn heitur setjið þið ofnplötuna í ofninn og hellið vatninu ofan í þannig að það nái upp á mitt springformið.  Vatnsbaðið gerir baksturinn hægari og jafnari þannig að kakan verður meira frauðkennd og „fluffy“.
    Bakið í um klst, ég var með 55 mín.  Tékkið á kökunni eftir klst, hún á að vera orðin stíf í yfirborði en dálítið eins og óbökuð í miðjunni þegar þið ýtið við henni.
    .
  6. Takið kökuna út og látið kólna, setjið svo álpappír yfir hana og inn í ískáp í sólarhring.  Takið kökuna út um 1/2 klst fyrir framreiðslu.wp-1581260663814.jpg
    .
  7. Toffee sósuna má gera hvenær sem er, 1-2 dögum áður eða á meðan kakan er í ofninum.  Aðal málið er að hún á að vera köld þegar hún er sett á. Þetta er skv Nigellu, ég gerði þetta fyrst deginum áður en þá var sósan orðinn mjög stíf og ómeðfærileg.  Þurfti að hræra upp og hita í örbylgjuofni.  Líklega best að gera þetta sama dag og þið berið kökuna fram.
    Setjið 100g smjör, 75g ljós púðursykur og 125ml ljóst sýróp.  Látið malla á lágum hita.  Hrærið öðru hvoru í.  Þegar þetta er farið að búbbla og farið að myndast froða (sjá mynd) þá látið þið búbbla áfram í um 1-2 mín og takið svo af hitanum og látið kólna ögn.  Svo er þessu hellt í könnu og látið kólna alveg niður.  Ekki í kæli samt.
    .
  8. Takið kökuna út um 1/2 klst fyrir framreiðslu, opnið springformið og flytjið kökuna varlega yfir á kökudisk.  Hrærið í toffee sósunni og hellið henni svo yfir.  Ekki hella öllu því það er fínt að hafa aukalega fyrir þá sem vilja bæta enn meiri sælu í líf sitt eftir á.

Pörunin

Það er hægt að leika sér dálítið hér, t.d væri gaman að prófa bananastout með þessari köku en hann er svo sem ekki auðfundinn hér heima og gæti orðið heldur væmin útkoma.  Imperial stout er augljós uppástunga en hann hefur sætuna, kaffiristina og svo auðvitað er oft áberandi súkkulaðikeimur af slíkum bjór en bananar og súkkulaði er vel þekkt blanda.  Founders Imperial Stout, sem ég held að fáist enn hér heima er frábær með þessu, þar er súkkulaðikeimur í bragði og ögn kaffirist.  Stundum finnst mér bananakeimur af bjórnum líka.

Annar skemmtilegur möguleiki er að tengja við karamelluna, þá er hægt að para bjór með mikinn maltkeim sem  stundum minnir á karamellu, eins og t.d. bock eða doppelbock, scotch ale væri líklega alveg magnaður með líka, verst að það er ekki hægt að fá slíkan bjór hér heima síðast þegar ég vissi.

 

Súkkulaði hnetusmjörs ostakaka, svakalega gott!

Ég hef aldrei gert alvöru ostaköku áður, mig langaði að prófa, það er fyrsti febrúar 2020, janúar verið algert helvíti, alls konar slys og snjóflóð ofl.  Nú er kominn tími til að njóta og hafa það gott.  Ég skoðaði nokkrar uppskriftir og datt inn á þessa, súkkulaði hnetusmjörs ostakaka frá Nigella Lawson.  Ég elska hnetusmjör, sérstaklega þegar það er tengt við súkkulaði og því ákv ég að prófa.  Ath, þessa þarf að baka deginum áður en á að njóta.

Það sem þarf í þetta

Fyrir botnin

  • 200 g digestive kex
  • 50 g salthnetur
  • 100 g sökkt súkkulaði (t.d. dropar)
  • 50 g ósaltað mjúkt smjör

Fyrir fyllinguna

  • 500 g rjómaostur
  • 3 stór egg
  • 3 eggjarauður aukalega
  • 200 g sykur
  • 125 g sýrður rjómi
  • 250 g fínt hnetusmjör

Fyrir kremið

  • 250 g sýrður rjómi
  • 100 g rjómasúkkulaði dropar
  • 30 g mjúkur ljóst púðursykur

wp-1580730874813.jpg

Aðferðin

Setjið kexið (200g), 50g salthnetur, dökka súkkulaðið (100g) og 50g mjúkt smjör í matvinnsluvél og maukið þar til þetta er orðið eins og rakur sandur og klumpast saman.

Finnið til hringlaga springform, 23cm í þvermál, dreifið úr deiginu í botninn, pressið niður í botninn og aðeins upp með hliðum. Setjið þetta í kæli meðan þið græjið annað. ATH ég smurði formið vel með smjöri en það er líklega betra að hafa bökunarpappír í botninn?

Takið til skál fyrir hrærivél, setjið allt í sem fer í fyllinguna, 500g rjómaostur, 200g sykur, 3 egg, 3 eggjarauður, 125g sýrður rjómi, 250g hnetusmjör og hrærið vel saman þar til orðið mjúkt og án kekkja. Hellið þessu svo yfir kexbotninn og inn í ofn.  170 gráður í um 50 mín.

Kakan á að vera eins og bökuð í yfirborðinu en ekki í gegn, dálítið eins og himna sem hægt er að rjúfa með skeið.  Takið kökuna út og látið standa meðan þið gerið kremið.

Í lítinn pott setjið þið 100g rjómasúkkulaði, 250g sýrðan rjóma og 30 g púðursykur.  Kveikið undir, og látið bráðna saman á vægum hita.  Hrærið stöðugt með sleikju td þannig að ekkert brenni við botn.  Muna, vægur hiti.  Þegar þetta er bráðnað vel saman takið þið pottinn af og hellið þessu varlega yfir kökuna.

Þetta ætti að fljóta vel yfir kökuna en ef það er þykkt má nota skeið til að dreifa yfir en passið þá að rjúfa ekki yfirborðið á kökunni, þá blandast kremið dálítið við deigið undir yfirborðinu.  Þetta fer svo inn í ofn í svona 7-10 mín.

Svo látið þið kökuna kólna í forminu og setjið matarfilmu eða álpappír yfir og inn í ísskáp í sólarhring.  Kakan er nú klár í slaginn.

wp-1580732178204.jpg

Pörunin

Hér erum við með ofsalega þunga og mikla köku.  Ein lítil sneið er meira en nóg.  Með þessu væri gott að hafa stout eða jafnvel porter sem er mildari og léttari.  Ekki skemmir ef notað er kaffi í bjórinn en oft er bara kaffikeimur af brennda maltinu sem notað er í þessa stíla.  Nettir humlar rífa aðeins upp þetta mikla þunga og kaffiristin tónar vel við kökuna og súkkulaðið í kexbotninum.   Hnetusmjör og stout er líka vel þekkt blanda enda mörg brugghús sem gera hnetusmjörs kaffistout.  Imperial stout er líklega of þungt en mig langaði samt að prófa og fór því í Bjössa Bollu frá Malbygg  en þessi bjór er frábær ef þú fílar bakkelsisbjór (pastry beer) yfir höfuð.  Í bjórinn nota strákarnir ma. kókosbollur sem skapa sætuna og fyllingu líka.  Þetta er mikill bjór og dálítið þungur, sætan í bjórnum gæti reynst mönnum of mikið með kökunni en ég elska sætt og mér fannst þetta algjört gúmmilaði saman.   Ég var samt alveg búinn á því eftir eina sneið.

Dásamleg Nutella Ostakaka parað við Kirsuberja Súrbjór (Kirek) og Porter!

Nú fer að líða að konudeginum og þá er eins gott að fara íhuga trít fyrir betri helminginn. Ég er mikið fyrir súkkulaði og súkkulaðieftirrétti og það er sem betur fer eiginkonan líka þannig að þetta er nokkuð borðleggjandi.  Þegar kemur að eftirréttum þá leita ég oft til Nigellu Lawson til að fá hugmyndir því ég veit að hún er mikill nautnaseggur eins og ég og eftirréttir hennar svíkja sjaldan.  Þessi er t.d. eins og sniðin fyrir mig nutella ostakaka!   Eins og ég segi oft, það næstbesta við þessa uppskrift (það besta er auðvitað útkoman) er að það er sára sára einfallt að gera hana, meira að segja ég get gert hana!

Gott er að gera kökuna daginn áður en hún er borin fram því þá verður hún stíf og fín í ísskápnum.

Innkaupalistinn er hér (fínt að taka bara mynd af honum með símanum):

– 400 g Nutella við stofuhita
– 250 g hafrakex, Digestives
– 75 g mjúkt ósaltað smjör
– 100 g saxaðar ristaðar herslihnetur
– 500 g rjómaostur við stofuhita
– 60 g flórsykur, sigtaður

-Myrkvi frá Borg
-Oud Beersel Kriek

Aðferð:

  1. Myljið kexið í blandara, bæti við smjörinu og um 15 ml af Nutella.  Blandið saman.  Bætið svo 3 mtsk herslinetum við og blandið þar til orðið eins og aðeins rakur sandur.
    .
  2. Finnið til hringlaga springform ca 25cm í þvermál eða þannig að kexbotninn verði ca 1 cm á þykkt þegar kexblandan er sett í. setjið kexblönduna svo í formið. Mér finnst fínt að hafa smjörpappír í botninn og smyrja hliðarnar á forminu með smjöri.  Þéttið með skeið eða bara lóanum.  Skellið inn í ísskáp
    .
  3. Þeytið svo rjómaost og flórsykur saman í hrærivél þar til orðið mjúkt og án kekkja.  Bætið þá afganginum af nutella saman við og þeytið áfram.  Við viljum enda með silkimjúka og algjörlega ókekkjótta blöndu.
    .
  4. Takið formið út úr ísskápnum og setjið blönduna varlega yfir kexbotninn.  Þekjið svo yfirborðið með herslihnetunum og setjið filmu yfir og inn í áskáp þar til næsta dag.  Berið fram beint úr ísskápnum.


Pörunin
:
Kakan er ekki eins þung og ætla mætti, rjómaosturinn gefur netta sýru sem léttir aðeins á.  Engu að síður erum við með helling af nutella og svo kexbotninn sem er dálítið þungur.   Við gætum farið í imperial stout með þessu sem er nokkuð klassískt með svona rétt en fyrir mér væri það of þungt.  Við viljum létta á þessu og opna upp með t.d. spriklandi gosmiklum kirsuberja súrbjór eða kriek eins og hann heitir á frummálinu.  Hér á landi er ekki mikið úrval sem stendur en við höfum þó aðgang að einum besta kriek í heimi, OUD BEERSEL KRIEK.  Kakan þekur góminn með silkimjúkri hnetusúkkulaðiskán sem gælir við bragðlaukana en gæti orðið aðeins þrúgandi til lengdar en bjórinn skefur þessa skán af með kolsýrunni og bætir svo léttri sýru ásamt kirsuberjum við bragðupplifunina.  Sýran í ostinum tengir algjörlega við sýruna í bjórnum.  Svo er bjórinn svo fallegur á borði, fagur rauður og konudagslegur ekki satt?  Þetta er frábær leið til að heilla konuna upp úr skónum, ja eða bara hvern sem er.

IMG_6911Við Sigrún vorum mjög sátt, hins vegar fannst okkur jafnvel vanta smá kaffirist með þessu. Það er alltaf gott að fá sér kaffi eftir góða máltíð.  Það er auðvitað hægt að fá sér rjúkandi kaffibolla með, það kemur mjög vel út en ef við erum að einbeita okkur að bjórnum þá er MYRKVI frá Borg algjörlega máli.  Þetta er fullkomið combo, Myrkvi er kaffi porter ef bestu gerð sem þýðir ristað korn og kaffibaunir er gefa ljúfa kaffitóna í bakgrunni.  Súkkulaði og kaffi er órjúfanleg heild ekki satt?  Nett beiskjan frá humlunum virka líka ofsalega vel á móti rjómaostinum og fitunni í þessu og hjálpar til við að létta á pallettunni milli bita.  Ristin á korninu er svo eins og beint framhald af ristuðu herslihnetunum á kökunni.  Þetta bráðnar allt einhvern veginn í fullkomna heild.

Já hér eru tveir mjög skemmtilegir möguleikar í boði, er ekki bara um að gera að prófa báða?