Sunnudagar eru svona tiltektar dagar hjá okkur, það er einhvern veginn ekki hægt að liggja með tær uppí loft án þess að fá samviskubit. Ég hef samt komist hjá því stundum að vera á haus í tiltekt ef ég tek mig til og baka. Ég er lengi að baka, mikill dútlari þannig að sunnudagar eru orðnir dálítið bökunardagar hjá okkur. Ég sé þá um eldhúsið og skil það eftir eins og dauðhreinsaða skurðstofu…….. fyrir aðgerð það er að segja.
Ég leitaði einu sinni sem oftar til Nigellu Lawson í leit að ostakökuuppskrift, ég meina þessi kona er nautnaseggur fram í fingurgóma og hún kann svo sannarlega að gæla við bragðlaukana. Ég datt niður á þessa hér og sá allt í einu lausnina á bananavanda heimilisins. Þannig er að við kaupum inn banana en það þarf að gera eftir ströngum reglum því sú yngsta vill helst hafa þá græna og harða en unglingurinn vill hafa bananana gula og mjúka en alls ekki með neinum blettum á. Það endar því oft þannig að einhver er ósáttur og bananarnir fá að dúsa í ávaxtaskálinni þar til þeir eru svo svartir að það er varla hægt að handfjatla þá. Hér er komin uppksrift sem krefst þess að bananarnir séu vel þroskaðir og djúsí.
Alla vega!
Það sem þarf
Í botninn
- 250 g Digestive kex
- 75 g ósaltað mjúkt smjör
fyrir fyllinguna
- 4 ofþroskaðir bananar, milli stórir
- 60 ml sítrónusafi
- 700 g rjómaostur, við stofuhita (mikilvægt)
- 6 stór egg
- 150 g mjúkur ljós púðursykur
fyrir toffee sósuna
- 100 g ósaltað smjör
- 125 ml gyllt sýróp
- 75 g mjúkur ljós púðursykur
Aðferðin
Ok til að svekkja ykkur, þá þarf kakan að standa yfir nótt þannig að planið tímanlega.
- Takið til springform, 23cm í þvermál. Smyrjið vel að innan með smjöri eða klippið til smjörpappír í botninn. Pakkið forminu svo vel inn í álpappír að utan. Þetta á að vera þannig að vatn sleppi ekki inn í formið þegar það er sett í vatnsbað. Það má alls ekki leka.
. - Setjið kexið (250g) og mjúka smjörið (75g) í matvinnsluvél og maukið þar til þetta er orðið eins og rakur sandur og farið að klumpast ögn saman. Pressið blöndunni svo í botninn á springforminu og setjið inn í kæli
. - Stappið banana (4 stk) með gafffli í skál, bætið við 60ml sítrónusafa og leggið til hliðar.
. - setjið mjúka rjómaostinn (ath þarf að vera við stofuhita, ekki beint úr kæli) í hrærivél og hrærið þar til orðið silkimjúkt og fínt, bætið þá 6 eggjum og 150g púðursykur samanvið. Hrærið áfram til að blanda þessu vel saman. Loks fer bananastappan með sítrónusafanum útí. Hrærið þar til þið eruð komin með silkimjúka blöndu.
. - Takið formið úr kæli og hellið blöndunni yfir. Finnið til djúpa ofnplötu og leggið formið í miðjuna. Hitið ofn í 170 gráður. Sjóðið vatn og látið það standa ögn. Þegar ofninn er orðinn heitur setjið þið ofnplötuna í ofninn og hellið vatninu ofan í þannig að það nái upp á mitt springformið. Vatnsbaðið gerir baksturinn hægari og jafnari þannig að kakan verður meira frauðkennd og „fluffy“.
Bakið í um klst, ég var með 55 mín. Tékkið á kökunni eftir klst, hún á að vera orðin stíf í yfirborði en dálítið eins og óbökuð í miðjunni þegar þið ýtið við henni.
. - Takið kökuna út og látið kólna, setjið svo álpappír yfir hana og inn í ískáp í sólarhring. Takið kökuna út um 1/2 klst fyrir framreiðslu.
. - Toffee sósuna má gera hvenær sem er, 1-2 dögum áður eða á meðan kakan er í ofninum. Aðal málið er að hún á að vera köld þegar hún er sett á. Þetta er skv Nigellu, ég gerði þetta fyrst deginum áður en þá var sósan orðinn mjög stíf og ómeðfærileg. Þurfti að hræra upp og hita í örbylgjuofni. Líklega best að gera þetta sama dag og þið berið kökuna fram.
Setjið 100g smjör, 75g ljós púðursykur og 125ml ljóst sýróp. Látið malla á lágum hita. Hrærið öðru hvoru í. Þegar þetta er farið að búbbla og farið að myndast froða (sjá mynd) þá látið þið búbbla áfram í um 1-2 mín og takið svo af hitanum og látið kólna ögn. Svo er þessu hellt í könnu og látið kólna alveg niður. Ekki í kæli samt.
. - Takið kökuna út um 1/2 klst fyrir framreiðslu, opnið springformið og flytjið kökuna varlega yfir á kökudisk. Hrærið í toffee sósunni og hellið henni svo yfir. Ekki hella öllu því það er fínt að hafa aukalega fyrir þá sem vilja bæta enn meiri sælu í líf sitt eftir á.
Pörunin
Það er hægt að leika sér dálítið hér, t.d væri gaman að prófa bananastout með þessari köku en hann er svo sem ekki auðfundinn hér heima og gæti orðið heldur væmin útkoma. Imperial stout er augljós uppástunga en hann hefur sætuna, kaffiristina og svo auðvitað er oft áberandi súkkulaðikeimur af slíkum bjór en bananar og súkkulaði er vel þekkt blanda. Founders Imperial Stout, sem ég held að fáist enn hér heima er frábær með þessu, þar er súkkulaðikeimur í bragði og ögn kaffirist. Stundum finnst mér bananakeimur af bjórnum líka.
Annar skemmtilegur möguleiki er að tengja við karamelluna, þá er hægt að para bjór með mikinn maltkeim sem stundum minnir á karamellu, eins og t.d. bock eða doppelbock, scotch ale væri líklega alveg magnaður með líka, verst að það er ekki hægt að fá slíkan bjór hér heima síðast þegar ég vissi.
You must be logged in to post a comment.