Dásamleg Nutella Ostakaka parað við Kirsuberja Súrbjór (Kirek) og Porter!

Nú fer að líða að konudeginum og þá er eins gott að fara íhuga trít fyrir betri helminginn. Ég er mikið fyrir súkkulaði og súkkulaðieftirrétti og það er sem betur fer eiginkonan líka þannig að þetta er nokkuð borðleggjandi.  Þegar kemur að eftirréttum þá leita ég oft til Nigellu Lawson til að fá hugmyndir því ég veit að hún er mikill nautnaseggur eins og ég og eftirréttir hennar svíkja sjaldan.  Þessi er t.d. eins og sniðin fyrir mig nutella ostakaka!   Eins og ég segi oft, það næstbesta við þessa uppskrift (það besta er auðvitað útkoman) er að það er sára sára einfallt að gera hana, meira að segja ég get gert hana!

Gott er að gera kökuna daginn áður en hún er borin fram því þá verður hún stíf og fín í ísskápnum.

Innkaupalistinn er hér (fínt að taka bara mynd af honum með símanum):

– 400 g Nutella við stofuhita
– 250 g hafrakex, Digestives
– 75 g mjúkt ósaltað smjör
– 100 g saxaðar ristaðar herslihnetur
– 500 g rjómaostur við stofuhita
– 60 g flórsykur, sigtaður

-Myrkvi frá Borg
-Oud Beersel Kriek

Aðferð:

  1. Myljið kexið í blandara, bæti við smjörinu og um 15 ml af Nutella.  Blandið saman.  Bætið svo 3 mtsk herslinetum við og blandið þar til orðið eins og aðeins rakur sandur.
    .
  2. Finnið til hringlaga springform ca 25cm í þvermál eða þannig að kexbotninn verði ca 1 cm á þykkt þegar kexblandan er sett í. setjið kexblönduna svo í formið. Mér finnst fínt að hafa smjörpappír í botninn og smyrja hliðarnar á forminu með smjöri.  Þéttið með skeið eða bara lóanum.  Skellið inn í ísskáp
    .
  3. Þeytið svo rjómaost og flórsykur saman í hrærivél þar til orðið mjúkt og án kekkja.  Bætið þá afganginum af nutella saman við og þeytið áfram.  Við viljum enda með silkimjúka og algjörlega ókekkjótta blöndu.
    .
  4. Takið formið út úr ísskápnum og setjið blönduna varlega yfir kexbotninn.  Þekjið svo yfirborðið með herslihnetunum og setjið filmu yfir og inn í áskáp þar til næsta dag.  Berið fram beint úr ísskápnum.


Pörunin
:
Kakan er ekki eins þung og ætla mætti, rjómaosturinn gefur netta sýru sem léttir aðeins á.  Engu að síður erum við með helling af nutella og svo kexbotninn sem er dálítið þungur.   Við gætum farið í imperial stout með þessu sem er nokkuð klassískt með svona rétt en fyrir mér væri það of þungt.  Við viljum létta á þessu og opna upp með t.d. spriklandi gosmiklum kirsuberja súrbjór eða kriek eins og hann heitir á frummálinu.  Hér á landi er ekki mikið úrval sem stendur en við höfum þó aðgang að einum besta kriek í heimi, OUD BEERSEL KRIEK.  Kakan þekur góminn með silkimjúkri hnetusúkkulaðiskán sem gælir við bragðlaukana en gæti orðið aðeins þrúgandi til lengdar en bjórinn skefur þessa skán af með kolsýrunni og bætir svo léttri sýru ásamt kirsuberjum við bragðupplifunina.  Sýran í ostinum tengir algjörlega við sýruna í bjórnum.  Svo er bjórinn svo fallegur á borði, fagur rauður og konudagslegur ekki satt?  Þetta er frábær leið til að heilla konuna upp úr skónum, ja eða bara hvern sem er.

IMG_6911Við Sigrún vorum mjög sátt, hins vegar fannst okkur jafnvel vanta smá kaffirist með þessu. Það er alltaf gott að fá sér kaffi eftir góða máltíð.  Það er auðvitað hægt að fá sér rjúkandi kaffibolla með, það kemur mjög vel út en ef við erum að einbeita okkur að bjórnum þá er MYRKVI frá Borg algjörlega máli.  Þetta er fullkomið combo, Myrkvi er kaffi porter ef bestu gerð sem þýðir ristað korn og kaffibaunir er gefa ljúfa kaffitóna í bakgrunni.  Súkkulaði og kaffi er órjúfanleg heild ekki satt?  Nett beiskjan frá humlunum virka líka ofsalega vel á móti rjómaostinum og fitunni í þessu og hjálpar til við að létta á pallettunni milli bita.  Ristin á korninu er svo eins og beint framhald af ristuðu herslihnetunum á kökunni.  Þetta bráðnar allt einhvern veginn í fullkomna heild.

Já hér eru tveir mjög skemmtilegir möguleikar í boði, er ekki bara um að gera að prófa báða?