Ég rakst á þessa uppskrift um daginn einhvers staðar og varð strax hugfanginn, þetta getur ekki verið vont. Stout kirsuberja baka! Ég hef verið að bíða eftir rétta augnablikinu til að henda í þetta og svo kom Rebekka Cherry Wild Ale frá Borg út og þá voru bara engar afsakanir lengur. Hljómar eins og drauma combo og það kemur svo í ljós að það er það svo sannarlega.
Ég er ekki flinkur að baka en mér tókst þetta og þá tekst ykkur þetta líka, líklega jafnvel betur.
Það sem þið þurfið:
Böku botn, (pie crust), það eru margir möguleikar, veljið það sem þið eruð vön að nota. Hér er ein hugmynd. Þessi er dálítið rífleg fyrir 31cm form.
- 240g smjör
- 180g flórsykur
- 1 tsk salt
- 60g möndlumjöl (fínt hakkaðar möndlur)
- 1 stk egg
- 1 stk eggjarauða
- 470g hveiti
Fyllingin
- 300g 70% súkkulaði brotið í bita
- 4,5 msk ósaltað smjör
- 3 msk hlynsíróp
- 120ml stout
- 4,5 msk rjómi
- 2 og 1/2 bolli steinlaus kirsuber, má vera 3 bollar ef þið nennið
Þeyttur rjómi
- 2 bollar rjómi (473ml)
- 2/3 bolli flórsykur (158ml)
- 1 tsk vanilludropar
- 2 msk stout
Bjórinn
- Stout fyrir rjómann og fyllinguna. Hér notaði ég Lepp frá Brothers Brewing sem er frábær í þetta. Leppur er milk stout en þetta má vera hvaða stout sem er svo lengi sem hann er góður.
- Kirsuberjabjór (kriek) eða flanders red. Má svo sem prófa frambozen eða svipað. Hér notaði ég Rebekku Cherry Wild Ale frá Borg sem er magnaður, ég prófaði líka Rauðhettu og Úlfinn frá Borg og Brekeriet sem kom álíka vel út.
Aðferðin
Böku botn
Byrjið á bökunni, hafið allt hráefnið við sama hita og setjið saman í hrærivél nema 350g af hveiti. Blandið þessu saman í vélinni, bætið svo afganginum af hveitinu eftir þörfum, ekki víst að þurfi allt. Byrjið á að bæta við og notið hnoðarann á hrærivélinni, færið svo á borðið og hnoðið í höndunum. Þetta á að vera aðeins rök klessa, ekki of þurrt. Kælið í ísskáp í 5 mín, því best er að vinna með deigið kalt.
Á meðan deigið er að kólna er gott að skera kirsuberin í tvennt og steinhreinsa, það er dálítið dúlt..
Takið svo tvær arkir af bökunarpappír, stráið smá hveiti á deigið og fletjið mjög þunnt á milli pappírsarkanna. Við erum að tala um ca 3mm þykkt. Setjið svo deigið í böku form og látið standa í ca 30 mín. ATH miðað við 31 cm form þá verður afgangur af deiginu. Gott er að pikka nokkur göt í botninn. Loks er þetta bakað í ofni við 160 gráður þar til kominn er aðeins litur á þetta. Þetta tekur um 20 mín. Takið svo bökuna út og látið kólna alveg.
Fyllingin
Brytjið 200g súkkulaði, 3 msk smjör, 1/3 bolli stout og 2msk hlynsýróp í skál sem þolir hita. Setjið ögn vatn í pott og látið malla á lágum hita. Setjið skálina yfir og látið bráðana. Hrærið reglulega í með sleikju. Passa að ekkert vatn komist í súkkulaðið, þá kekkjast allt. Þegar þetta er bráðnað og komið vel saman bætið þið 3 msk rjóma saman við og blandið vel saman. Loks hellið þið öllum kirsuberjunum saman við og hrærið saman þar til öll berin eru hulin súkkulaði.
Látið þetta kólna aðeins, þó ekki þannig að byrjið að storkna. Hellið svo ofan í böku botninn sem er orðinn kaldur. Dreifið vel úr og setjið svo plastfilmu yfir og inn í ísskáp í amk 4 tíma. Best að láta þetta bara vera yfir nótt.
Rjóma toppur
Skömmu áður en þetta er borið fram er allt sett í skál og þeytt í hrærivél þar til myndast dálítið stífir fallegir toppar. Smakkið þetta þetta er fáránlega gott. Svo dreifið þið bara úr þessu ofan á kældu bökuna og skreytið með ferskum kirsuberjum. Þetta má svo stífna aftur í ísskáp en þá verður rjóminn dálítið eins og stíft krem ofaná sem er líka gott.
Pörunin
Þetta er ofsalega skemmtilegt, kakan er svo glæsileg með dökkvínrauðum kirsuberjum og Rebekka kemur ofsalega vel út með þessu í glæsilegu flöskunni með korktappa og vírneti. Allt voðalega elegant og spennandi að bera fram. Gestir reka upp stór augu.
Kakan ein og sér er virkilega flott, 70% súkkulaðið og stoutinn í fyllingunni gefa áberandi beiskju og seltu en berin og sætur rjóminn ofaná jafna þetta aðeins út. Útkomonan er flott og alls ekki væmin, frekar hallast þetta aðeins yfir í beiskju hliðina. Svo koma notalegir kontrastar fram þegar stökkur botninn mætir lungnabjúka rjómanum ofaná. Það góða við þetta er að börnin voru ekkert voðalega hrifinn og létu kökuna vera, ekki nógu sætt fyrir þau. Ef maður vill hafa þetta meira barnvænt og væmið væri hægt að hafa 55% súkkulaði t.d. En við viljum það ekki hér því bjórinn gerir það sem þarf.
Rebekka cherry wild ale er algjörlega frábær með þessu, léttur og sýrður með kirsuberjatónun og skemmtilegu gerkryddum. Berin tengja saman við berin í kökunni og draga fram bragið þannig að maður áttar sig á að hér erum við með kirsuberja böku. Sýran léttir á beiskjunni í kökunni og léttir á öllu og svo er eins og sætan í kökunni verði meiri sem líklega má hengja á kirsuberin í bjórnum. Loks gerir kolsýran góðverk með því að kljúfa fituna í rjómanum og smjörinu í botninum upp og hreinsa þannig gómboga og bragðlauka. Þessi blanda er geggjuð og ég verð að segja að hér er bjórinn ómissandi.
Við prófuðum líka Rauðhettu og Úlfinn sem er flanders red/IPA eða wild IPA. Hér eru berjatónar á borð við kirsuber áberandi og bjórinn er funky og súr sem smellpassar við þessa böku. Já hér eru alla vega tveir möguleikar en það má leika sér með aðra stíla líka. t.d. Gæti stout virkað vel eða porter, t.d. bjórinn sem við notum í fyllinguna og rjómann. Hér var það Leppur (milk stout) frá Brothers Brewing en ég var bara búinn að drekka hann þegar kom að því að smakka bökuna.
You must be logged in to post a comment.