Súkkulaði hnetusmjörs ostakaka, svakalega gott!

Ég hef aldrei gert alvöru ostaköku áður, mig langaði að prófa, það er fyrsti febrúar 2020, janúar verið algert helvíti, alls konar slys og snjóflóð ofl.  Nú er kominn tími til að njóta og hafa það gott.  Ég skoðaði nokkrar uppskriftir og datt inn á þessa, súkkulaði hnetusmjörs ostakaka frá Nigella Lawson.  Ég elska hnetusmjör, sérstaklega þegar það er tengt við súkkulaði og því ákv ég að prófa.  Ath, þessa þarf að baka deginum áður en á að njóta.

Það sem þarf í þetta

Fyrir botnin

  • 200 g digestive kex
  • 50 g salthnetur
  • 100 g sökkt súkkulaði (t.d. dropar)
  • 50 g ósaltað mjúkt smjör

Fyrir fyllinguna

  • 500 g rjómaostur
  • 3 stór egg
  • 3 eggjarauður aukalega
  • 200 g sykur
  • 125 g sýrður rjómi
  • 250 g fínt hnetusmjör

Fyrir kremið

  • 250 g sýrður rjómi
  • 100 g rjómasúkkulaði dropar
  • 30 g mjúkur ljóst púðursykur

wp-1580730874813.jpg

Aðferðin

Setjið kexið (200g), 50g salthnetur, dökka súkkulaðið (100g) og 50g mjúkt smjör í matvinnsluvél og maukið þar til þetta er orðið eins og rakur sandur og klumpast saman.

Finnið til hringlaga springform, 23cm í þvermál, dreifið úr deiginu í botninn, pressið niður í botninn og aðeins upp með hliðum. Setjið þetta í kæli meðan þið græjið annað. ATH ég smurði formið vel með smjöri en það er líklega betra að hafa bökunarpappír í botninn?

Takið til skál fyrir hrærivél, setjið allt í sem fer í fyllinguna, 500g rjómaostur, 200g sykur, 3 egg, 3 eggjarauður, 125g sýrður rjómi, 250g hnetusmjör og hrærið vel saman þar til orðið mjúkt og án kekkja. Hellið þessu svo yfir kexbotninn og inn í ofn.  170 gráður í um 50 mín.

Kakan á að vera eins og bökuð í yfirborðinu en ekki í gegn, dálítið eins og himna sem hægt er að rjúfa með skeið.  Takið kökuna út og látið standa meðan þið gerið kremið.

Í lítinn pott setjið þið 100g rjómasúkkulaði, 250g sýrðan rjóma og 30 g púðursykur.  Kveikið undir, og látið bráðna saman á vægum hita.  Hrærið stöðugt með sleikju td þannig að ekkert brenni við botn.  Muna, vægur hiti.  Þegar þetta er bráðnað vel saman takið þið pottinn af og hellið þessu varlega yfir kökuna.

Þetta ætti að fljóta vel yfir kökuna en ef það er þykkt má nota skeið til að dreifa yfir en passið þá að rjúfa ekki yfirborðið á kökunni, þá blandast kremið dálítið við deigið undir yfirborðinu.  Þetta fer svo inn í ofn í svona 7-10 mín.

Svo látið þið kökuna kólna í forminu og setjið matarfilmu eða álpappír yfir og inn í ísskáp í sólarhring.  Kakan er nú klár í slaginn.

wp-1580732178204.jpg

Pörunin

Hér erum við með ofsalega þunga og mikla köku.  Ein lítil sneið er meira en nóg.  Með þessu væri gott að hafa stout eða jafnvel porter sem er mildari og léttari.  Ekki skemmir ef notað er kaffi í bjórinn en oft er bara kaffikeimur af brennda maltinu sem notað er í þessa stíla.  Nettir humlar rífa aðeins upp þetta mikla þunga og kaffiristin tónar vel við kökuna og súkkulaðið í kexbotninum.   Hnetusmjör og stout er líka vel þekkt blanda enda mörg brugghús sem gera hnetusmjörs kaffistout.  Imperial stout er líklega of þungt en mig langaði samt að prófa og fór því í Bjössa Bollu frá Malbygg  en þessi bjór er frábær ef þú fílar bakkelsisbjór (pastry beer) yfir höfuð.  Í bjórinn nota strákarnir ma. kókosbollur sem skapa sætuna og fyllingu líka.  Þetta er mikill bjór og dálítið þungur, sætan í bjórnum gæti reynst mönnum of mikið með kökunni en ég elska sætt og mér fannst þetta algjört gúmmilaði saman.   Ég var samt alveg búinn á því eftir eina sneið.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s