Svakaleg hvítsúkkulaði kókos brownie með ítölskum marens og ástaraldin

Ég viðurkenni það að við á B&M erum mjög hrifin af sætum eftirréttum, það er bara eitthvað svo fullnægjandi við að enda góða máltíð á ljúfum og sætum nótum. Við höfum prófað ýmsa eftirrétti á veitingastöðum borgarinnar og það er einn sem stendur uppúr. Hvítsúkkulaði ostakakan á KOL er einfaldlega hrikalega góð. Við höfum meira að segja stundum farið út að borða á einu veitingastað en endað kvöldið með eftirrétt á Kol. Það má!

Við frúin höfum undanfarið verið að reyna að gera þennan rétt heima í eldhúsinu, vonarljósið kveiknaði fyrst fyrir nokkru síðan þegar Elísabet mágkona Sigrúnar bauð okkur í hvíta brownie með ristuðum kókosflögum. Þetta minnti nokkuð á réttin á Kol og gaf okkur hugmyndir til að þróa þetta áfram. Við bættum aðeins í kökuna, hvítu súkkulaði t.d. og svo höfum við þróað mascarpone krem ofan á með kókos og sítrónu. Svo þegar við bættum fersku ástaraldin og ítalska marensnum við var þetta eiginlega komið. Ástaraldin ísinn (gelato) fær maður svo t.d. hjá Valdísi eða einhverri af betri ísbúðum borgarinnar. Þetta er einfalt og skemmtilegt að gera. Endilega að prófa, best er að gera kökuhlutann sólarhring áður en borið fram.

ÞAÐ SEM ÞARF (það mætti í raun gera helmingi minni uppskrift)

Þetta er líklega nóg í efitrrétti fyrir 10 manns eða meira.

150 g ósaltað smjör
100 g hvítt súkkulaði
2 egg
2,5 dl hrásykur
1 tsk vanilludropar
½ tsk salt
1 sítróna
1,5 dl hveiti

4 eggjahvítur
½ tsk cream of tartar
200 g sykur

Kókosflögur, ristað á pönnu
3-4 ástaraldin
ástaraldinn sorbet/ítalskur ís (má sleppa en er geggjað með)

1 stk mascarpone ostur
2 tsk sítrónusafi
1 tsk kókosekstrakt

1 msk flórsykur

4-5msk rjómi

AÐFERÐIN

Kökubotninn

Best að byrja á kökunni, helst deginum áður en veislan fer fram því þá nær kakan að þéttast og verður meira djúsí. Látið smjörið (150g) og hvítt súkkulaði (100g) í skál og bræðið á vægum hita yfir vatnsbaði. Hrærið vel saman. Ef þetta virðist skilja sig þá er það alveg ok. Þetta fer allt saman þegar rest er bætt við. Látið þetta svo kólna aðeins.
Setjið svo 2 egg, 2,5 dl hrásykur og vanilludropa í skál og þeytið saman. Bætið svo ½ tsk salt, safa úr 1 sítrónu saman og hrærið áfram. Bætið svo 1.5 dl hveiti saman við og hrærið vel. Þegar þetta er allt komið saman er loks súkkulaðismjörblöndunni bætt útí og allt hrært saman. Svo er þetta sett í form, gott er að hafa smjörpappír í forminu og pennsla með olíu.

Bakið svo við 150 gráður í ofni í um 40 – 45 mín. Látið svo kólna og setjið inn í ísskáp til næsta dags.

Kremið

Heill mascarpone ostur, við ca stofuhita sett í skál. Bætið ½ – heilli tsk kókosextract saman við. Ég vil hafa smá kókosbragð af þessu og notaði heila tsk. 2 msk flórsykur, má vera 3 msk og loks 2 tsk sítrónusafi (má auka eftir smekk). Hrærið þessu saman með þeytara eða í hrærivél. Bætið svo dass af rjóma saman við og hrærið áfram. Hvað er dass? Ég hellti tvisvar úr rjómanum, líklega um 4 msk?

Passið að þeyta ekki of mikið þannig að rjóminn skilji sig og verði að smjöri.

Smyrjið þessu svo á kökuna og látið standa í kæli þar til tilbúið til framreiðslu.

Marensinn

Það eru til alls konar tilfæringar yfir hvernig maður gerir ítalskan marens. Ég nennti ekki að spá í því heldur gerði klassískan franskan marens og flamberaði það svo með brennara í lokin.

Sem sagt, setjið 4 eggjahvítur í skál, helst að láta standa í amk 20 mín áður en þið hrærið þær saman. Passa að ekki komist arða af eggjarauðu með. Skálin þarf að vera þurr og alveg hrein. Hrærið svo saman með ½ tsk cream of tartar á meðalhraða til að byrja með. Þegar þetta virðist vera komið nokkuð vel saman og farið að lofta um þá má auka hraðann. Þegar hvíturnar eru orðnar mjúkar og hægt að mynda toppa þá fer sykurinn útí. Bætið 200g sykri saman við, mjög varlega á meðan þið hrærið. Við erum að tala um ca matskeið í senn með mínotu millibili. Já þetta tekur tíma. Þegar allur sykurinn er kominn er hrært á góðum hraða áfram þar til blandan er orðin þykk og aðeins stíf og þið finnið helst ekki sykurkorn milli fingranna.

20190828_212038-01669838994.jpeg

FRAMREIÐSLAN

Skerið kökuna í bita, ca 3 x 10 cm kubba og setjið á diska. Létt ristið kókosflögur á pönnu og setjið til hliðar. Setjið marensinn strax í sprautupoka, varlega þó. Hafið hringlaga stút á og sprautið svo á diskinn fallegan marenstopp. Flamberið svo með brennara þannig að það komi aðeins litur á þetta.

Skerið ástaraldinn í tvennt og skóflið úr hálfum slíkum innvolsið og látið leka yfir kökuna og diskinn. Loks sáldrið þið kókosflögunum yfir þetta og berið fram.

Það er frábært en ekki ómissandi að hafa með þessu ástaraldin sorbet eða ítalskan ís (gelato). Ég hef prófað að kaupa ástaraldin ís hjá Valdísi en hann er frábær með þessu, ferskur og kaldur. Æi hann er eiginlega ómissandi með, amk ef þetta á að verða eins og á Kol. Ef þið hafið ísinn með þá bætið því honum síðast á diskinn, myndið kúlu eða ef þið getið svona möndlulagaða ískúlu og setjið á hvern disk og berið fram. Þetta er svakaleg hamingjubomba.

Með þessu eru nokkrir möguleikar, kampavín gengur alltaf með hvítu súkkulaði og ástaraldin. Frábært combo en ef maður er í bjór þá held ég að súrbjór væri snilld, ég er að hugsa Peche n Brett frá Logsdon en sá bjór er algjörlega magnaður súrbjór með ferskjum og ætti að fást enn í Vínbíðinni. Þetta verður líklega prófað á næstu dögum!

Breyttu miðbænum í stóra mathöll eina kvöldstund

Það er dálítið fast í okkur að þegar við gerum okkur glaðan dag og förum út að borða að þá þurfum við að verja öllu kvöldinu á einum og sama staðnum. Við veljum okkur veitingastað sem okkur líst vel á og erum þar þangað til við höfum borgað reikninginn og höldum heim á leið. Oft er það samt þannig að við erum ekkert endilega ánægð með alla réttina sem við fáum, forrétturinn er kannski fínn, aðalrétturinn geggjaður en eftirrétturinn bara lala. Oft er maturinn frábær en drykkirnir ekkert spennandi eða öfugt. Við Sigrún höfum stundum talað um hvað væri sniðugt að prófa það besta á mismunandi stöðum, t.d. taka eftiréttinn á öðrum stað en aðalréttinn, og jafnvel milli drykk á enn öðrum stað!

Um daginn ákváðum við að prófa þetta. Við fengum óvænt pössun fyrir börnin og ákváðum að nýta tækifærið og gera vel við okkur. Auðvitað allt of seint að panta borð á laugardagskvöldi á veitingastað. Við tókum því prufukeyrslu á þennan títt nefnda draum okkar.

RVKMEAT
Reykjavík Meat í forrétt

Við byrjuðum á Reykjavík Meat í forrétt og drykk, þessi staður er bara frábær, við höfum borðað á honum áður og var allt gott sem við fengum okkur og þjónustan vinaleg og spot on. Verðlag er líka mjög gott þarna og kokdillarnir veglegir og hrikalega góðir, t.d. er besti Espresso Martini í bænum þarna og Pornstar Martini er líklega það besta sem við höfum fengið í kokdillum í langan tíma. Það sem dró okkur á Meat þetta kvöld var allt þetta og svo frábært verð á kampavínsglasinu en þarna fær maður glasið af Moet á 1800 kr sem er afar sanngjarnt verð fyrir góðar búblur. Við fengum okkur svo nauta carpaccio með þessu en það er alveg fáránlega gott á Meat. Annað sem ég verð að taka fram er klósettið á Reykjavík Meat en við höfum bara aldrei komið inn á eins huggulegt klósett á neinum veitingastað, ofsalega nett, já ég veit, áhugavert, það er svo hreint og snyrtileg að maður gæti vel borðað forréttinn þarna svei mér þá! Þó svo að við hefðum vel getað borðað þarna allt kvöldið þá fengum við jú bara borð af því að við lofuðum að vera bara í forrétt, auk þess langaði okkur að prufa hugmyndina okkar!

Public
Aðalréttur eða réttir á Public House

Eftir forrétt og drykk röltum við því á Public House í frábæru veðri. Við komumst að því hversu gott það er að rölta svona um bæinn milli rétta, þannig skapast meira pláss og maður verður allur einhvern veginn léttari á því. Það var líka ofsalega góð stemning í miðborginni þetta kvöld. Það er allt gott á Public en „so not pizza“ er þess virði að nefna sérstaklega en hún er líklega frá öðrum hnetti, við pöntum okkur alltaf þennan rétt þegar við kíkjum á Public og grísa soðbrauðið er í miklu uppáhaldi hjá mér líka. Við fengum okkur 3 litla rétti saman og drykk með. Á þessum stað er sniðugt að prófa marga rétti og deila en það er eiginlega hugmyndafræði staðarins en auðvitað má maður panta sér margar so not pizza t.d. ef maður vill, ég geri það mögulega næst. Svo var kominn tími á meira rölt og millidrykk svona til að láta aðeins sjatna enda of snemmt að henda sér í eftirréttinn.

Við litum við á Mikkeller & Friends Reykjavík en þar er alltaf eitthvað gott að fá á krana. Ég fékk mér hrikalega flottan súrbjór frá De Garde en frúin bætti á sig kampavíni af bestu sort. Við tilltum okkur niður á Systir Restaurant sem er glænýr staður en matseðillinn þarna er virkilega spennandi og munum við klárlega taka tékk á honum á næstunni. Notaleg stemning, gott spjall og ljúfir drykkir.

20190427_210619-0159554541.jpeg
Sjúkur eftirréttur á KOL Restaurant

Við vorum löngu búin að ákveða eftirréttinn, við höfum meira að segja stundum velt því fyrir okkur að fara bara beint í eftirréttinn þarna og svo heim. Jább, ég er að tala um hvítu súkkulaði ostakökuna með ástaraldin kókos sorbet og ítölsku marens (meringue) á Kol Restaurant. Þessi réttur er svo ótrúlegur, bragðlaukarnir eiga ekki séns, þeir steinliggja í sjokki, hér gengur allt upp, áferðin, bæði mjúkt, stökkt, kalt og djúsí og svo er bragðið magnað, hvítt súkkulaði með fersku ástaraldin mauki og svo kókos flögum með léttri rist, og þetta marens, Guð minn góður! Það er eiginlega óvirðing við réttinn að reyna að lýsa honum, maður verður að smakka. Við fengum strax pláss við barinn sem var bara það sem okkur langaði, gaman að sitja þarna í miðjum hamagangnum og fylgjast með barþjónunum hrista og blanda alls konar drykki. Maturinn kom svo þarna fram beint úr eldhúsinu þannig að við sátum þarna umlukin alls konar angan af hinum og þessum réttinum. Reyndar buðu þeir okkur líka borð ef við vildum en þetta var bara fullkomið svona.

Já þetta var alveg magnað kvöld, það besta frá 4 stöðum borgarinnar, notaleg stemning, gott rölt og frábær félagsskapur. Maður kom einhvern veginn svo léttur og notalegur út úr þessu kvöldi, ekki pakksaddur eins og svo oft. Við vorum þó ekki alveg tilbúin í heimferð þarna eftir Kol og röltum því aftur á Reykjavík Meat í loka drykk. Þar var okkur boðið í huggulegt horn og fengum stórbrotið rauðvín Hess Collection 19 Block Mountain Cuvée sem því miður verður ekki fáanlegt lengi því vínviðurinn brann víst allur í brununum miklu í Kaliforníu hérna um árið. Þetta var alveg stórkostlegt vín, venjulega selt í flöskuvís en þar sem þeir voru að lofa þjónunum að smakka máttum við kaupa glös fyrir okkur.

Já við mælum svo sannarlega með þessu, við breyttum í raun miðbænum í eina stóra mathöll og völdum það besta frá þeim bestu.