Suður amerísk corndip ostapizza

Pizza er mest borðaði matur á heimsvísu enda góður matur og möguleikarnir nánast endalausir þegar kemur að áleggi. Ég hef skrifað um pizzagerð áður og ætla ekki að kafa of mikið í það hér en það er þó mikilvægt að taka það fram að hráefnið sem þú notar er það allra mikilvægasta. Ef hráefnið er bara svona la la þá verður pizzan aldrei meira en það. Mér finnst deigið vera það mikilvægasta, það er svo stór hluti af pizzunni og þvi mikilvægt að gera gott deig eða kaupa gott tilbúið deig.

En svo er gaman að gera tilraunir, prófa eitthvað nýtt. Hér er ein sem ég gerði í vikunni, hún var geggjuð og mun ég klárlega gera hana aftur.

Það er gaman að gera pizzur sérstaklega þegar maður er búinn að koma sér upp góðum pizzaofni. Það eru nánast allir glaðir, alltaf þegar pizza er borin á borð. Ég nota pizzuna oft til að grisja úr ísskápnum, finn til það sem gæti gengið saman og hendi á pizzuna. Það er gott að eiga samt alltaf til Mutti tómata í dós en úr þeim má gera geggjaða pizzasósu, ekki nota tilbúna sósu það munar bara svo ofsalega miklu. Smá salt og pipar, kannski oregano og fersk basilica, hrærið þetta saman og ef þið eigið tómat púrré má nota það til að þykkja.

Ég kalla þessa suður amerísk corndip ostapizza því fyrirmyndin er Mexíkósk maís ostadýfa sem er algerlega mögnuð. Mig langaði að prófa að gera pizza útgáfu af þessari snilld og viti menn, “home run”.

Það sem þarf fyrir rúmlega 1 pizzu

  • 1 mtsk chili duft
  • 1 tsk reykt papríka
  • 1 tsk cayenne pipar
  • Hálfur laukur skorinn smátt
  • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 2 ferskir maískólfar
  • Salt og pipar
  • 80 g smjör
  • Rjómaostur eftir smekk
  • 1/2 bolli majones
  • 1 mtsk safi úr límónu
  • Ferskur kóríander
  • Rifinn parmesan, ca bolli
  • 1 dós Mutti tómatar (þetta dugar reyndar í rúmlega tvær pizzur)
  • Fersk basillika, ef þið eigið
  • Pizzadeig
  • Rifinn cheddar ostur
  • 1 kúla af Mozzarella
  • Nachos ostaflögur

Aðferðin

Blandið saman kryddunum, 1 mtsk chili duft, 1 tsk reykt paprika, 1 tsk cayenne pipar, salt, og má nota smá chili korn til að fá smá power í þetta. Græjið svo brúnt smjör, setjið 80 – 100g smjör í pott og látið malla þar til orðið brúnt og farið að freyða. Þið eigið líka að finna þessa notalegu hnetu karamellu lykt af smjörinu. Bætið þá alveg tsk af kryddblöndunni samanvið og smá salt og leggið til hliðar.

Skerið hálfan lauk smátt og mýkið á pönnu í smjöri og olíu. Pressið svo 3 hvítlauksgeira og bætið á pönnuna. Takið utan af maískólfunum, skerið kornin af, þið eigið að vera með alveg bolla af kornum, ef þið eruð á hraðferð þá má nota maís í dós, en það er samt ekki eins magnað. Bætið þessu við laukinn og látið malla þar til maís er orðinn mjúkur. Bleytið í þessu með brúna smjörinu. Smakkið þetta svo til og kryddið eftir smekk.

Gerið svo pizzasósuna eins og þið eruð vön. Blandið saman 1/2 bolla af majonesi við 1 mtsk límónusafa og setjið í sprautuflösku. Fletjið út deigið. Dreifið pizzasósu yfir, ekkert of mikið samt. Slítið í sundur mozzarella og dreifið yfir, dreifið svo maísblöndunni yfir deigið líka. Magn fer eftir hvað deigið þolir, of blautt getur skapað vandræði, ég var með vel blautt álegg en gott deig svo það slapp vel. Rífið slatta af parmesan yfir þetta og loks rjómaostaklípur eftir smekk.

Eldið pizzuna eins og þið gerið venjulega, þar til álegg er bráðnað og botninn kominn með fallegt hlébarðamynstur. Takið pizzuna út, helling af ferskum kóríander yfir og loks sprautið þið límónumajonesinu yfir. Myljið loks Nachos flögur yfir og njótið. Flögurnar gera þetta stökkt og nett því þessi pizza er dálítið blaut og safarík annars.

Quesadilla veisla

Það þarf ekki mörg orð hér. Mexikanskt er bara geggjað og skemmtilegt að útbúa. Hér er hugmynd af quesadilla og meðlæti sem hægt er að nota með flestum suður amerískum réttum. Njótið….það væri gaman að tagga okkur ef þið prófið eitthvað af þessu.

Það sem þarf (fyrir ca 6-8)

  • Einn bakki úrbeinuð kjúklingalæri (lærkjöt)
  • 2 tsk chili flögur
  • 2 tsk reykt papriku duft
  • Salt og pipar
  • 3 ferskir maískólfar
  • 1 stór laukur, skorinn gróft
  • 1 ferskur chilli
  • 4 hvítlauksgeirar
  • Ólífuolía
  • 1 bolli salsa verde, t.d. Þessi hér
  • 1/2 maxíkóostur, rifinn
  • 1 bolli rifinn cheddar ostur
  • 1 lúka af ferskum kóríander
  • 10 -12 tortilla kökur
  • Myntulauf og límónur til skrauts

Aðferð

Veltið kjúklingnum uppúr chili flögum, reyktu papríku kryddi, salti og pipar. Magnið fer eftir smekk bara. Setjið bökunarpappír á ofnskúffu, setjið svo kjúllann í miðjuna. Raðið svo grænmetinu í kringum kjúllann. 3 ferskir maískólfar, 1 stór laukur skorinn í grófa bita, einn ferskur chilli eða eitthvað sterkara ef þið viljið, 4 hvítlauksgeirar. Dreifið ólifuolíu yfir, salt og pipar og setjið svo inn í ofn. Bakið við 200 gráður í ca 15 mín eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Takið þá kjúklinginn af plötunni. Hækkið hitann eða setjið á yfirgrill. Grillið grænmetið áfram þar til komið er smá bruni á það. Ekki brenna þetta samt.

Rífið kjúklinginn og setjið á pönnu, skafið kornin af maískólfunum og setjið á pönnuna. Skerið hvítlaukinn, laukinn og chilli í litla bita og bæti því við og hrærið öllu saman. Bætið ca bolla af salsa verde saman við. Fínt að vera bara búinn að gera salsa daginn áður. Hér er svakalega einfalt salsa verde og óskaplega ljúffengt. Rífið svo hálfan mexico ost og einn bolla rifinn cheddarost yfir og blandið saman við og bræðið ostinn saman við. Rífið loks ca lúku af ferskum kóríander yfir þetta allt.

Finnið til tortilla kökur (ekki verra ef er heimabakað), dreifið kjúklingablöndunni yfir og setjið svo kökur yfir. Sem sagt svona samlokur. Olía á pönnu og steikið svo tortilla samlokurnar á báðum hliðum. Skerið svo í fernt og raðið á disk, eða bretti. Skreytið með límónubátum, rifnum parmesan, pækluðum rauðlauk og kóríander eða myntulaufum t.d.

Þetta er gott eitt og sér svo sem en við viljum hafa gott meðlæti með. Hér er dæmi um meðlæti sem gengur mjög vel með. Pæklaður rauðlaukur er líka algert möst.

Pörunin

Ég má til með að benda á þessa pörun en ég held að sjaldan sé hægt að tala um eins flott match. Beiskur og brakandi IPA er öflugur en samt nógu hógvær til að lofa matnum að njóta sín en heldur samt vel velli gagnvart sterkum bragðflækjunum í þessu. West coast IPA og kóríander hefur alltaf einhvern veginn parast mjög vel saman í mínum bókum, þetta tvennt tvinnast saman og myndar alveg nýtt bragð. Það er vonlaust að lýsa þessum dansi með orðum. Prófið bara sjálf. Við mælum með Úlf IPA frá Borg.

Guacamole á öðru plani

Guacamole er ómissandi með suður amerískum mat. Til eru ótal uppskriftir og útgáfur en ég ákvað að skrá þessa niður til að hafa hana hér til taks þegar ég þarf að grípa í hana síðar. Sigrún mín henti í þetta um daginn og það var bara svo gott.

Það sem þarf

  • 3 þroskuð avocado, kramin með gaffli
  • 2 mtsk ferskur kóríander skorinn smátt
  • 2 mtsk smátt skorin fersk basillika
  • 1-2 hvítlauksrif, pressuð
  • Safi ur 1/2 límónu
  • 2-3 mtsk pico di gallo, uppskrift hér.
  • Salt og pipar eftir smoke

Aðferð

Allt hrært saman í fallega skál og saltað og pipar eftir smekk. Ein mtsk pico di gallo ofaná og skvetta af góðri ólifuolíu. Ekki flókið.

Ómótstæðilegt Salsa Verde

Salsa verde er ómissandi í mexikanskri matargerð, bæði notað sem hráefni í rétti eða sem meðlæti.  Þetta heimagerða salsa verde er geggjað, hingað til hef ég ætlað að kaupa svona en aldrei fundið tilbúið en nú þarf ég ekki að hafa áhyggjur af því framar.  Þetta er fljótlegt og einfalt.  Ég man ekkert hvar ég sá þetta, þetta var einhvers staðar á youtube.

Það sem

  • 250 g kirsuberjatómatar, skornir í tvent
  • 2 fersk chili, eða jalapeno eða habanero, fer eftir hversu mikinn bruna þú vilt í þetta
  • 4 hvítlauksgeirar
  • 1 laukur skorinn í nokkra bita
  • 1 sæt paprika (löng rauð)
  • 1 búnt ferskur kóríander
  • 3-4 mtsk límónusafi
  • Salt og pipar

Aðferðin

Takið fram elfast mót, stillið bakarofn á 210.  Skerið tómata í tvent (250 g) og raðið í mótið, afhýðið hvítlauksgeirana (4 stk), skerið eina sæta langa papriku í tvent eftir endilöngu og setjið með sárið niður í mótið.  Sama með 2 fersk chilli nema að fjarlægið fræin.  Laukur er skorinn gróft í nokkra bita og líka settur á mótið.   Svo er bara að baka þetta í ca 10 mín eða þar til kominn bruni á grænmetið.  Þið ráðið auðvitað hversu mikið “char” þið viljið hafa.

Mér finnst ágætt að klára þetta með gasbrennara.   Setjið þetta svo allt í blender sem þolir heitt innihald.  Takið ferskt kóríander og rífið það aðeins niður, setjið með laufum og stilkum í blandarann.  Bætið um 3 mtsk límónusafa við, salt og pipar eftir smekk og maukið.

Smakkið þetta til, meira límónusafi eða meira salt, pipar eða hvað það nú er.   Takið fram pönnu, setjið olíu á pönnuna og hitið vel, eins og ef þið væruð að fara steikja naut.  Passið ykkur það gæti skettst olía á ykkur.  Hellið svo úr blandaranum í einum hvelli á pönnuna, það kæfir í raun olíusletturnar.  Það á að vera læti.  Hér erum við að karmellisera blönduna dálítið og draga fram bragðið.

Loks setjið þið þetta í krukku og notið þegar þarf.

Mexíkósk maís ostadýfa

Við kíkjum oft inn á Halfebaked Harvest þegar okkur vantar hugmyndir en þessi kona dælir út nýjum uppskriftum mörgum á dag. Það hefur allt veri geggjað sem við höfum prófað frá henni til þessa. Hér er ein sem heillaði mig mjög þegar ég sá hana og ákvað að láta á reyna. Úkoman var vægast sagt svakaleg! Ég fór ekki alveg eftir uppskriftinni en samt nánast! Svona gerði ég þetta og svona mun ég gera þetta aftur.

Það sem þarf

  • 2 mtsk chili krydd
  • 2 tsk reykt papríka
  • 1 tsk cayenne pipar eða meira eftir smekk
  • 1 laukur skorinn smátt
  • 3 ferskir maís kólfar (2 bollar af kornum)
  • 2 hvítlauksgeirar skornir smátt
  • Salt og pipar
  • Slatti af smjöri
  • 130g rjómaostur
  • 1/3 bolli sýrður rjómi
  • 80g smjör
  • 1 bolli majones
  • 2 mtsk af ferskum límónusafa
  • Ferskur kóríander
  • Parmesan, rifinn

Aðferðin

Blandið saman kryddunum, 2 mtsk chili duft, 2 tsk reykt papríka og 1 tsk cayenne pipar eða meira eftir smekk. Smá salt líka. Blandið saman. Ég endaði með töluverðan afgang, krydd eru dýr og því myndi ég alla vega helminga uppskriftina næst en svo er bara að geyma þetta fyrir næstu ídýfu.

Svo er það brúna smjörið. Ég tók um 80 g smjör og lét það malla í potti þar til orðið brúnt og komin froða yfir og notalegur karamellu hnetukeimur. Bragðbætti svo með smá salti og ca tsk af kryddblöndunni.

Saxið einn lauk smátt og mýkið á pönnu í olíu og smjöri á meðalháum hita. Ca 5 mínútur, skafið svo maískornin af maískólfunum (2 bollar) og bætið á pönnuna ásamt 1-2 tsk hvítlauksmauk og svo teskeið af kryddblöndunni. Hrærið þetta saman og látið malla þar til maís er orðinn mjúkur. Ég bætti reyndar slatta af smjöri saman við, það er bara svo ljúft að steikja úr smjöri. Það tók mun lengri tíma en 5 mín að mýkja maísinn hjá mér. Saltið og piprið eftir smekk.


Þegar þetta er farið að mýkjast undir tönn þá bætið þið 130g rjómaosti saman við, lækkið hitann og látið ostinn bráðna saman við. Svo er það 1/3 bolli sýrður rjómi. Ég notaði reyndar 2 teskeiðar af brúna smjörinu sem ég gerði í byrjun. Hræri þetta saman allt.

Hrærið saman ca 1 bolla af majonesi og 2 mtsk lime safa og klípu af salti, setjið ídýfuna í fallega skál, rífið slatta af parmesan ost yfir, slettið majoblöndunni yfir, svo ferskur kóríander yfir allt og loks dreifið þið smekklega brúna smjörinu yfir þetta allt saman.

Pörunin

Það er alltaf gaman að huga að því hvað er best að drekka með matnum, hér erum við með bragðmikla og dálítið spicy ostaídýfu, hér gengur ískaldur brakandi pilsner eða amerískur lager fullkomlega með þessu. Auðvitað allir þessir mexíkönsku lagerbjórar líka en þeir eru heldur óspennandi. Amerískur west coast IPA væri mitt val samt en þetta er auðvitað smekks atriði.

Njótið

Heimagerðar taco hveitikökur (tortilla) – svona á að gera þetta!

Það hafa líklega flestir gert taco veislu einhvern tíman á lífsleiðinni, sumir oftar en einu sinni jafnvel.  Á þessum bæ elskum við taco, það er bara svo dásamlegt og skemmtilegt að prófa alls konar álegg á tortillu kökurnar og sjá hvernig það kemur út.   Möguleikarnir eru endalausir.  Það hefur hins vegar alltaf truflað mig hve hveitikökurnar sem við fáum hér úr búð eru stórar og þykkar ég vil nefnilega hafa þær þunnar og ekki stærri en undirskál.

Ég hef lengi ætlað mér að prófa að gera tortillurnar sjálfur en hef bara ekki laggt í það.  Um daginn ákvað ég hins vegar að slá til, ég fékk mér totillapressu sem er alls ekki nauðsynlegt tæki en auðveldar hins vegar vinnuna töluvert.   Svo hef ég verið að prófa mig áfram undanfarna daga með alls konar aðferðir og hlutföll.  Fjölskyldumeðlimir eru sumir farnir að kvarta, „það er bara alltaf taco í matinn“ heyrðist t.d. frá unglingnum um daginn t.d.  Ég hélt í alvöru að það væri ekki hægt að fá nóg af taco?

wp-1579452430748.jpg

Gott og vel, ég vil meina að nú hafi mér tekist að fullkomna þetta og ætla ég að henda hér fram minni niðurstöðu, þ.e.a.s. hvernig maður gerir fullkomnar, þunnar litlar heimagerðar hveitikökur.

Það sem þarf í ca 20 til 30 taco kökur (fer eftir stærð)

  • hveiti, 370 g
  • salt, 1 tsk
  • lyftiduft, 1 tsk
  • grænmetisolía, 80ml
  • heitt vatn, 240 ml

Aðferðin

Þetta er mun einfaldara en maður heldur, maður þarf samt að prófa sig dálítið áfram.  Setjið allt í skál og blandið saman í hrærivél.  Notið svo hnoðarann á hrærivélinni og náið deiginu saman.  Deigið á að vera aðeins klístrað þannig að það festist aðeins við fingurnar.   Færið deigið á borð, það má vera smá hveiti á borðinu en passa að verði alls ekki of þurrt.  Hnoðið vel saman, alveg góðar 10 mín, bætið smá hveiti eftir þörfum en þetta á að vera alveg á mörkunum á að vera of klístrað.  Þetta er eitthvað sem þið finnið út úr, það verður auðvitað að vera hægt að meðhöndla og vinna með deigið.

Leggið svo í skál og rakt viskustykki yfir og látið standa í amk klst.

Hitið svo pönnu, helst pottajárnpönnu þannig að hún verði alveg blússandi heit.  Deilið deiginu niður í litlar kúlur, við erum að tala um minni en borðtenniskúlur.  Setjið svo tvær litlar bökunarpappírs arkir í taco pressu og deigkúluna á milli.  Pressið svo þannig að þið fáið litla flata köku.   Þetta er of þykkt svona, þannig að þið þurfið að fletja hverja köku enn meira út með kefli, þetta á að vera næfurþunnt, nánast á að sjást í gegn.

Setjið svo kökuna varlega á pönnuna, ef pannan er stór er hægt að gera tvær jafnvel fleiri í einu, enga olíu, ekki pennsla kökurnar með olíu eða setja olíu á pönnuna.  Kökurnar fara bara beint á og þetta á ekki að taka nema nokkrar sekúndur.  Það byrja að myndast litlar bólur í deigið en þá er tímabært að snúa kökunum.  Það ætti þá að vera komnir fallegir brúnir blettir hér og þar á kökurnar.  Svo bara nokkrar sekúndur á hinni hliðinni.

Takið svo kökuna/r af og setjið í álpappír og viskastykki utanum og lokið kökuna inni.  Þetta er mikilvægt, hér fulleldast kakan og heldur mýkt sinni. Svo er bara að endurtaka þetta og bæta kökum í álpappírinn jafn óðum og loka til að halda gufu og hita inni.

wp-1579453902290.jpg

Svo er bara að láta sér detta eitthvað geggjað í hug ofan á þetta, hér er dæmi,rifinn grís og risarækjur t.d. Svo vorum við læknirinn í eldhúsinu, Ragnar Freyr að elda saman í gær, nánar um þá veislu á næstu dögum hér.  En við vorum með djúpsteiktan skötusel ásamt öðru.  Svo pæklaðan rauðlauk, mango chili salsa og kóríander krem og reyndar helling af öðru góðgæti.  Skötuselurinn á mangosalsa paraðist fullkomlega við Sæmund sem er mangobjór frá Borg Bruggús.

 

Heimagert maís tacho á tvo vegu með hárrétta bjórnum

Það er ósjaldan sem hugur okkar Sigrúnar leitar til suðrænna slóða á þessum tíma árs.  Jólin búin og við tekur kaldur leiðinlegur og dimmur janúar, febrúar tekur svo við ekkert skárri eða hvað, vissulega eru Surtsdagar í lok janúar og bjórfest í febrúar ákv ljós í myrkrinu en stundum er það bara ekki nóg.  Þegar þetta er skrifað er veður vont og allt flug til og frá landinu fallið niður, við komumst bara ekkert þó við vildum.  Þá er um að gera að finna aðrar leiðir, þess vegna datt okkur í hug að skapa bara suðræna stemningu hér heima, mexíkósk veisla!!! Já okkur hefur lengi langað að prófa að gera heimagert maís tortilla / tacho og nú létum við bara vaða.   Ég fór út í morgun og fékk mér  langþráða tortilla pressu (í Kokka) og fann  svo fyrir rest maís hveiti (masa harina) í asísku búðinni í Skeifunni og því hafði ég enga afsökun fyrir að hella mér ekki út í þetta.

Þ: 19 CM  -  Black #1

Mér hefur alltaf þótt þessar tortilla kökur sem maður fær tilbúnar í búð frekar óspennandi, allt of stórar og allt of þykkar.  Ég vil hafa tortillu kökurnar litar og nettar, ca eins og desert diskur að stærð.  Það er svo ekkert hlaupið að því að finna maís tortillur hér í búð.   Ég veit ekki afhverju maður er ekki löngu búinn að prófa að gera þetta sjálfur, þetta er ótrúlega einfalt.  Ég held að mesta vinnan hafi farið í það að finna maís hveitið og svo uppskrift.  En ef maður fer bara beint í asísku búðina þá er eftirleikurinn auðveldur.

En ok, nóg af rausi.  Svona gerði ég þetta.  Ég byrjaði á að leita að uppskriftum á netinu og fann nokkrar, þær eru allar svipaðar.  Innihaldið er í raun bara masa harina (hveitið), smá salt og svo vatn.  Hlutföllin eru ekki alveg klár því það er dálítið misjafnt hve mikið vatn maður þarf, maður þarf dálítið að prófa sig áfram með það.  Það er samt ekkert mál því ef deigið endar allt of þurrt þá bætir maður við ögn vatni, ef það er hins vegar allt of klístrað þá bætir maður við hveiti.   Maður á að enda með klump sem er í raun eins og leir, hangir vel saman en er ekki klístraður.

Það sem þarf (10-12 tortilla kökur – fer eftir stærð):

  • Maís Hveiti (t.d. úr Asísku búðinni Skeifunni) 250g
  • Heitt vatn, ég endaði með ca 340ml
  • smá salt til að bragðbæta
  • ólifuolíu til að pennsla kökurnar með fyrir steikingu

Svo er það áleggið / fyllingin eða meðlætið…? Hvað kallar maður þetta annars?  Topping!  Alla vega það sem þú vilt setja ofan á tortillurnar.   Það er auðvitað frjálst og möguleikarnir endalausir.

wp-1578439710565.jpg

Að þessu sinni langaði mig í naut en líka eitthvað sjávarfang.  Ég gerði því tvenns konar tacho rétti.  Ég hef skrifað hér um ungnauta tacho áður en endurtek það hér aftur og svo var ég með steikta risarækju með avocadosalsa og kóríandersósu, uppskrift sem ég fann á Gulur Rauður Grænn & Salt.

Það sem þarf í þetta:

Ungnauta tacho

  • ungnautalaund ( ca 300-350 g)
  • kikkoman soyasósa, 1 dl
  • safi úr 1,5 límónum
  • ferskur kóríander, 1 lúka, gróft skorið
  • ólífuolía, 1 dl
  • púðursykur 2-3 mtsk
  • grænn ferskur chili, skorinn í litlar sneiðar
  • rauðlaukur, hálfur, skorinn í fínar ræmur
  • sykur, 1/2 – 1 tsk
  • salt, 1/2 tsk

Mangosalsa

  • mango, hálfur ávöxtur skorinn í litla kubba
  • kirsuberjatómatar, lúkufylli skorið í litla kubba
  • graslaukur, eftir hentugleika, smátt skorið
  • kóríander, skorið gróft.  Ca lúkufylli
  • grænn ferskur chili, skorinn smátt

Risarækju tacho

  • frosnar risarækjur, 400g
  • ólífuolía, 3 msk
  • hvítlauksrif, 2 stk pressuð
  • cumin, 1 tsk
  • chilipipar, 1 tsk
  • hvítlauksduft, 1/2 tsk
  • sjávarsalt, 1/2 tsk

Avocadosalsa

  • avocado, 3 stk, skorið í kubba
  • gular baunir, 3 msk eða svo eftir smekk bara
  • kirsuberjatómatar, ca lúkufylli, skornir í kubba
  • Grænn chili ávöxtur, skorinn smátt, með fræjum
  • safi úr hálfri límónu
  • kóríander, ferskur, lúkufylli skorið gróft.
  • salt og pipar

Kóríandersósa (aðeins breitt útgáfa)

  • Sýrður rjómi, 10%, ein dós
  • safi úr límónu, ca 1-2 msk
  • hvítlauksgeiri, 1 stk pressaður
  • kóríander, ferskur.  Hér myndi ég nota rúmlega tvær lúkufyllir eða meira,
  • kóríanderkrydd, eftir smekk, smakkið þetta bara til

wp-1578439929791.jpg

Aðferð

Rækjurnar

Líklega er bara best að undirbúa allt meðlæti fyrst.  T.d. marinera rækjurnar og kjötið.  Látið rækjurnar þiðna, afhýðið ef þær eru í skelinni.  Setjið svo ólífuolíu (3 msk) í skál, bætið rest útí, cumin (1 tsk), chilipipar (1 tsk), hvítlauksduft (1/2 tsk), tveir pressaðir hvítlauksgeirar og hálf tsk sjávarsalt.  Hrærið vel, smakkið til og bætið við eftir smekk salti, chili eða hvítlauk.   Hellið þessu yfir rækjurnar og látið standa eins lengi og hægt er.  Fínt að velta rækjunum annað slagið upp, sem sagt moka þeim neðstu efst þannig að allar fái að liggja í þessum legi sem safnast saman á botninn.

Ungnautalund

Kjötið er hægt að gera á tvenna vegu, ég held að betra sé að steikja kjötið fyrst og svo skera það þunnt og marinera.  Sem sagt, steikja létt á heitri pönnu, ca 3-4 mín á hvorri hlið og látið standa aðeins.  Við erum að miða við medium rare.  Skerið svo í eins þunnar sneiðar og þið getið og látið liggja í marineringunni.  Hún er einföld, setjið kikkoman soyasósu  (1 dl), safa úr 1,5 límónum, ólífuolíu (1dl), 2-3 mtsk púðursykur, niðurskorinn grænn eða rauður (fallegri) chili pipar og helling af gróft skornum kóríander í skál og hrærið vel, hellið svo yfir nautakjötið og látið standa. 

Hin leiðin er að skera hrátt kjötið í þunnar sneiðar og láta liggja í marineringunni og svo bara steikja örstutt áður en borið er fram.

wp-1578429808328.jpg

Tvenns konar salsa

Þetta er bara einfallt, skerið allt niður sem fer í mangosalasa og avocadosalsa og setjið í tvær skálar.  Mangosalsa er með nautinu, avocadosalsa með rækjunum.   Takið svo rauðlauk og skerið í tvent.  Skerið svo einn helminginn í þunnar sneiðar. Leggið sneiðarnar í litla skál og kreistið límónusafa yfir.  Svo smá salt (1/2 tsk) og 1/2 til 1 tsk sykur.  Látið liggja þar til allt er klárt.

Kóríandersósa

Við breyttum uppskriftinni aðeins, okkur fannst í raun lítið kóríander bragð af þessu, þannig að við notuðum mun meira kóríander og líka kóríanderkrydd.  Líklega enduðum við með 2-3 lúkufyllir af ferskum kóríander og ca 1 tsk kóríanderkrydd.  Við bættum líka 1 pressuðum hvítlauksgeira við og svo er safi úr límónu, ca 2 mtsk og ein dós af sýrðum rjóma.  Allt sett í nutri bullet eða svipað og maukað í drasl.

Framreiðslan

Þið gætuð græjað tortilla deigið einhvers staðar þarna inn á milli, það þarf að standa í 15 mín.  Sem sagt setjið 250g maís hveiti í skál, smá salt, um 1-2 tsk og svo hellið þið heitu vatni saman við þar til þið náið þessu saman í kúlu sem líkist helst dótaleir.  Ef of þurrt þá bætið þið vatni við, ef of klístrað þá þarf meira hveiti.  Ég endaði með um 340ml af vatni.  Myndið kúlu og setjið matarfilmu yfir og látið standa í um 15 mín.  Ég veit ekkert afhverju.   Loks myndið þið litlar kúlur, mér fannst hæfilegt að miða við eins og lítil egg.
Setjið bökunarpappír milli deigs og pressu og pressið eins og vindurinn.  Kökurnar ættu að enda á stærð við kökudisk eða aðeins minna.

Pennslið aðeins með ólífuolíu og steikið í um 3 mín á hvorri hlið eða þar til þetta er farið að líta almennilega út, brúnir blettir hér og þar.

wp-1578440340567.jpg

Fyrir rækjutacho setjið þið avocadosalsa á kökurnar, leggið tvær rækjur ofan á það og loks kóríandersósuna yfir.

Fyrir nautatacho er það mangosalsa, leggið 3-4 ræmur af kjöti ofaná, smá rauðlauk og njótið.

Pörunin

Þetta tacho er heldur bragðmikið, bæði nautið og rækjan eru dálítið spicy og það sama má segja um mangosalsaið.  Kóríandersósan er heins vegar létt og „köld“ með léttri sýru sem kemur vel á móti brunanum og svo er safaríkt mangoið og mjúkt feita avocadoið að gera skemmtilega hluti og jafna þetta allt út.  Bjórinn með þessu má vera bragiðmikill því hann þarf að þola þetta allt og ekki verra ef hann tengir við það hráefni og bragð sem við erum með.  Bjórinn gæti líka verið eitthvað sem myndar andstæður við hráefnin.
Það væri reynar frekar klassískt en dálítið leiðinlegt að velja einhvern mexíkanskan létt lager á borð við Corona með límónu í.  Ég er ekki að segja að það kæmi illa út, mig langaði bara að gera eitthvað meira spennandi.

Í kvöld valdi ég Úlfey frá Borg Brugghús en þetta er afskaplega ljúffengur 7,5% New England IPA og er um þessar mundir í sérlegu uppáhaldi hjá mér þegar kemur að íslenskum bjór.  Bjórinn er í senn beittur en líka safaríkur og mjúkur eins og öflugur ávaxtasafi með keim af suðrænum ávöxtum.  Ávaxtabragðið í bjórnum kemur ofsalega vel út með þessu tachoi, mangoið og jafnvel avocado tengja mjög vel við bjórinn hvað þetta varðar.  Þó svo að um New England bjór sé að ræða býr hann yfir smá beiskju en beiskjan togar dálítið í chili keiminn í matnum og magnar dálítið upp.  Bæði þessi tacho eru mikið kóríander baseraðir en mér hefur alltaf þótt IPA eiga sérlega vel við kóríander, ég veit ekki hvað það er en það smellpassar.   Loks er það karamellumaltið í bjórnum en sætan þar tengir vel við bæði maís tortillurnar og maísinn í avocadosalsainu.

Þessi pörun kom betur út en ég hafði reiknað með og hvet ég ykkur til að prófa.  Vá!

wp-1578440698892.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Maís tortilla með mango-chilli salsa og djúpsteiktum þorskhnakka parað við pilsener

Ég fékk mér nettan djúpsteikingarpott um daginn og hef verið að dunda mér við eitt og annað síðustu daga.  Við erum mjög hrifin af taco og tortilla en gott fiski tortilla er dásamlegt ef vel er gert.  Við ákváðum því að prófa að gera djúpsteikta þorskhnakka með mango-chili salsa á mais tortilla toppað með sriracha majo og kóríander.   Þetta kom ofsalega vel út þó ég segi sjálfur frá.  Svona fiski tortilla þarf bjór sem passar upp á allt og pakkar inn á réttan máta en tekur ekkert frá matnum, bjórinn þarf að lyfta undir öllum bragðflækjunum en rétturinn má samt ekki skemma bjórinn.  Hér er tími fyrir lager og þá helst þýskan eða tékkneskan pilsner en hann er hæfilega beittur og brakandi án þess að búa yfir humalbeiskjunni sem IPA eða pale ale hefur.  Amerískur lager eða premium lager hefur ekki alveg þetta sama bit og brak og þeim hættir til að vera jafnvel nokkuð sætari.   Hér gripum við Brio frá Borg sem er virkilega flottur þýskur pilsner og alveg sniðinn fyrir þennan rétt.  Við notuðum Brio í bæði bjórdeigið utan um fiskinn og svo í salsainu.

Það sem þarf (f 6)

fyrir bjórdeigið

  • 200 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk sykur
  • ögn salt
  • 330 ml pilsner

fyrir þorskhnakkana

  • 800g – 1 kg þorskhnakkar
  • 3 egg
  • hveiti til að velta bitunum uppúr
  • 2 L steikingarolía, líklega aðeins meira jafnvel
  • salt og pipar eftir smekk
  • 2 lime til að bera fram
  • maís tortillur, eins litlar og þið finnið

fyrir salsa

  • 1 mango skorinn í mjög litla kubba
  • 1/2 rauðlaukur skorið mjög smátt
  • 2 avocado skornir í smáa kubba
  • 400 g litlir tómatar, skornir smátt
  • 1 rauður ferskur chilli, skorinn í smátt
  • 1 lime, safinn
  • heilt búnt af kóríander
  • 1 dl pilsener
  • salt eftir smekk

Aðferðin

  1. Byrjið á bjórdeiginu, það þarf að standa sem lengst.  Blandið 200 g  hveiti, 1 tsk lyftiduft og 1 tsk sykur saman í skál.  Gerið svo dæld í miðjunni og hellið bjórnum saman við og hrærið vel.  Bætið í bjór þar til þetta er orðið eins og lummudeig eða súrmjólk.  Þynnið með meiri bjór eða þykkið með hveiti ef þarf.  Saltið aðeins í lokin og látið standa
    .
  2. Gerið salsa, skerið allt í smátt og blandið saman varlega í fallega skál.  Ekki of harkalega þá maukast þetta.  Blandið smá bjór saman við og safa úr  heilu lime.  Ekki nota nema bara hluta af kóríander hér því hann verður svo blautur og asnalegur.  Bætið mestu af kóriander saman við rétt áður en borið fram.  Saltið þetta til eins og þið viljið hafa þetta.   Látið svo standa í kæli meðan annað er klárað
    .
    20190413_1706082037740127.jpg
    .
  3.  Skerið þorskhnakkana í ræmur sem líta vel út, t.d. eins og þykkar franskar. Saltið á öllum hliðum og látið bíða, þetta þerrar bitana aðeins. Brjótið 3 egg í skál og pískið til.  Setjið hveiti í aðra skál eða disk, saltið og piprið og hrærið saman og lokst sækið þið bjórdeigið.   Þerrið svo fiskinn með viskastykki.  Veltið svo hverjum bita uppúr hveiti, dustið af og svo velt uppúr eggjahrærunni og loks bjórdeiginu.  Deigið á að leka dálítið af en þarf samt að hanga á bitunum og dekka þá.
    .
  4. Líklega er best að gera bara 4-5 bita í einu, djúpsteikja og láta svo standa á grind og fara svo í næstu 4-5 bita.  Hitið olíuna í 170 gráður og djúpsteikið varlega í ca 5-6 mín eða þar til þetta er orðið gyllt og fallegt.  Best er að bera þetta fram raunar strax eftir djúpsteikingu til að halda þessu heitu og stökku.
    .
  5. Hitið tortillurnar aðeins, setjið salsa ofan á og dreifið úr og svo fiskinn þar ofan á.  Kóríander efst og kreistið smá lime safa yfir.  Loks skreytið þið með srikracha majo og njótið með góðum krispí pilsner.

Pörunin

IMG_8651-001.JPG

Þetta er alveg geggjaður puttamatur, fiskurinn þéttur en mjúkur inní stökku bjórdeiginu og svo kemur ferska salsaið fram á móti með djúsí mango í bland við ögn chilli bruna sem tónast reyndar niður með sýrunni frá lime ávextinum og tómötunum.  Sriracha majoið er svo alveg ómissandi og skapar meira bragð og jafnvægi.  Bjórinn algjörlega kórónar upplifunina, sætan og karamellan frá korninu einhvern veginn pakkar öllu inn en beiskjan frá humlunum oponar svo upp allt saman og einhvern veginn smýgur inn á milli braðganna og dregur þau fram í dagsljósið.  Ef við hugsum út í það þá er beiskjan frá bjórnum (þó látlaus sé) einmitt það sem vantaði, við erum með súrt, sætt,salt og chilli bruna og svo vantaði bara beiskt.   Brio er mjög flottutr í þetta en dettur í hug að Kaldi ljós kæmi líka vel út ef menn eiga hann til. Mikið var þetta gott.

Bjórpæklaður kjúklingur með lárperu- lager salsa í mjúku taco brauði.

Við fengum Gestgjafan til okkar síðasta sumar og þá elduðum við m.a. þennan frábæra rétt, lager- og límónu kjúklinga taco með lárperu og lager salsa. Já svo pöruðum við þetta að sjálfsögðu með bjór, Stella Artois en það má auðvitað vera hvaða lager sem er. Ég held að ég geti svarað fyrir alla sem voru í þessu boði, þetta var stórkostlegt!

Uppskriftina er að sjálfsögðu að finna í blaðinu en ef þið hafið það ekki þá kemur hún hér.

Innkaupalistinn (fyrir 6):

Pækill

1,5 flaska lager bjór
450 ml vatn
5 stk. límónur
5 msk. sykur
5 msk. salt
18 kóríander fræ, mulin
18 piparkorn, mulin
6 hvítlauksgeirar, gróft saxaðir
6 fersk chili-aldin, gróft söxuð
700 g kjúklingabringur
salt og pipar eftir smekk

Mjúkt taco

1 tsk ger
2 msk. olía
3 bollar (ca 7dl) hveiti
4 msk. grískt jógúrt
1 tsk. hunang
1 tsk. salt
3/4 bollar (1 og 3/4 dl) volgt vatn

Lager-salsa

3 þroskaðar lárperur
1 dós maískorn
4 msk. lager bjór
2-3 tsk. salt
2-3 stk græn chili-aldin, fínt söxuð
safi úr 1 límónu
1 búnt ferskur kóríander

Aðferð:
Það þarf aðeins að vera forsjáll hér því kjúklingabringurnar þurfa að liggja yfir nótt í pæklinum. Blandið lagerbjór, vatni og límónusafa í stórt plastílát sem hægt er að loka. Bætið sykri og salti saman við og hrærið þar til allt er uppleyst. Bætið svo restinni af hráefninu saman við. Stingið nokkur göt á bringurnar hér og þar og leggið í pækilinn. Lokið og geymið í allt að 24 tíma í kæli. Daginn eftir takið þið bringurnar úr pæklinum, þerrið þær og grillið á heitu grilli í nokkrar mín. á hvorri hlið eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk. Rífið bringurnar í hæfilega bita og setjið í skál.

Daginn sem veislan fer fram er gott að byrja á mjúka tacoinu. Blandið saman þurrefnunum í skál. Hrærið því næst olíu, hunang, jógúrt og vatni saman og setjið út í þurrefnin. Hnoðið vel og látið hefast í 30 – 60 mín. Því lengur því betra, hér er gott að byrja á að gera lager salsa meðan beðið er. Skiptið deiginu svo niður og fletjið út í hæfilega stórar flatkökur. Hitið olíu á pönnu, stingið svo nokkur göt með gaffli í hverja köku og steikið á pönnunni. Snúið við og steikið á hinni hliðinni þegar loftbólur byrja að myndast. Flott er að fá aðeins brunabletti hér og þar. Gott er svo að leggja brauðið saman svo það myndi hálfmána.

Lager salsa er virkilega gott og hentar í raun með alls konar hráefni, t.d. fisk ofl. Flysjið lárperur og takið steininn úr. Skerið í litla kubba og blandið saman við maískornin í skál. Bætið lagerbjór, salti, chili-aldin og límónusafa út í og hrærið létt. Geymið í kæli þar til allt er klárt.

20180521_105023-02.jpeg

Berið svo fram með því að setja kjúklinginn í taco-brauðið, setjið salsa yfir, svo tvær til þrjár teskeiðar af geitaosti og lokst haug ef ferskum kóríander efst. Þetta er algjörlega geggjað. Kjúklingurinn fær í sig ögn bjórbragð sem smell passar við bjórinn sem við drekkum með.

Pörunin:
Við erum hér með alls konar skemmtilegt bragð, límónu, sýru, chili, salt, kóríander ofl. Geitaosturinn gefur svo alveg einstakt rjómakennt „funky“ bragð með smávegis sýru og jörð. Bæði osturinn og lárpera gæða svo réttinn feitri rjómakenndri áferð. Bjórinn með þessu þarf að geta tekist á við þetta allt saman án þess að skemma bragðið. IPA væri fínn á móti fitunni og tengir vel við saltið en beiskjan er líklega of mikil hér. Lagerinn er hins vegar kjörinn í þetta, hann skapar notalegan bakgrunn sem heldur við en er þó ekki allt of áberandi. Bjórinn dregur fram bjórkeiminn í kjúklingnum og kolsýran léttir á pallettunni og hreinsar geitaostinn af milli bita.

Ungnauta taco með geggjaðri chili-lime sósu, kóríander og rauðlauk og notalegum Pale Ale

Sorry, þið eruð líklega komin með nóg af taco uppskriftum frá mér en ekki ég samt.  Ég bara verð að lauma þessari með….svo er ég hættur, þetta er bara svo geggjað.  Já og einfalt líka…rosalega einfalt.   Ég ætla í raun að koma hér með tvær útgáfur, fljótlegu og þægilegu útgáfuna sem ég var með í gær og svo lúxus útgáfuna sem tekur aðeins meiri tíma.


wp-1488576578778.jpgFLJÓTLEGA LEIÐIN
: Heimabakað naan tekur tíma og stundum hefur maður ekki þann lúxus.  Þá er bara helvíti gott að grípa tilbúið naanbrauð úr Bónus. Reyndar fékk ég allt í Bónus nema bjórinn.  Það er ekki alveg sama hvaða brauð maður notar það eru til nokkrar útgáfur en þetta hér svínvirkar (sjá mynd) ef maður hendir því í brauðristina en þá verður það dúnamjúkt og fluffy.  Þið finnið það í kælinum.
En að réttnum, mjög einfalt en ó svo gott.  Upprunanlega er sósan eða fleytið eða hvað maður á að kalla það komið úr uppskrift frá Gordon Ramsay en svo hef ég aðeins þróað hana og notað í allt öðru samhengi en Gordoninn.  T.d. eins og hér.  Það sem þarf er:

-Kikkoman Soyasósa – 1 hluti (t.d. 1 dl)
-Ólifu Olía – 1 hluti eða jafnvel ögn minna
-Safi úr 1 lime- má vera úr tveim
-Púðursykur – 1 hluti
-Ferskur Chili, skorinn niður, fræin fara með
-Hellingur af gróft söxuðum ferskum kóríander

Þessu er bara hrært vel saman, fínt að setja í glært fallegt ílát því þetta lookar vel með rauðu chilli og grænum kóríander.
Svo er bara rifinn ostur, veljið eitthvað gott, cheddar t.d.  Hér vorum við með Cathedral extra mature cheddar ost úr Bónus líka, svo er það bara rauðlaukur í þunnum ræmum og loks eitthvað stökkt grænt ss kínakál.

Kjötið,  gott nautakjöt, ég notaði ungnautasnitsel úr Bónus, það leit rosalega vel út og mjög gott en það má nota hvaða nautakjöt sem er.  Gott er að nota hluta af sósunni til að marinera aðeins kjötið og svo er það steikt á heitri pönnu, medium rare eða rare er best.  Loks skorið í eins þunnar ræmur og þið getið.

Brauðið er sett í ristina í smá stund, þá verður það fluffy og mjúkt, brjótið það svo saman til helminga, raðið svo öllu ofantöldu í á fallegan hátt.  Sósan er þunn og lekur út hér á endunum en það er allt í lagi, þetta er götumatur og má vera smá messy!

img_6100

LÚXUS LEIÐIN: Aðeins flóknari en samt ekki mikið, gæðin eru meiri en þó ekki himinn og haf.  Þessa leið ferðu ef þú er með nóg af góðu öli í kælinum og hefur tíma til að dúllast í eldhúsinu.  Byrjaðu á sósunni/marineringunni hér að ofan.  Notaðu gott kjöt t.d. úr einhverri af kjötbúðum landsins.  Byrjaðu á að steikja það og legðu það svo í marineringu í hluta af sósunni.   Farðu svo í að gera naan deigið (sjá hér).  Þegar það er klárt er fínt að vinda sér í að gera bjórlauk (sjá hér).

Loks er bara að undirbúa meðlætið, rífa niður kóríander, kál og rífa niður ostinn.  Farðu í ostabúðina og finndu bragðmikin cheddar ost, osturinn er dálítið lykilatriði þannig að hafðu hann góðan.  Loks er bara að steikja brauðið á pönnu og svo raða í og njóta.

BJÓRINN: Þetta er bragðmikið og ríkt með seltu og ögn chilli og þolir því bjór með karakter og bragð.  Salt og pale ale fer vel saman og ég elska að para kóriander með þessum bjórstíl líka.  Saltið tónar aðeins niður beiskjuna í humlunum en beiskjan eykur hins vegar aðeins á brunann frá chilliinu sem er bara snilld.  Við Íslendingar bjóðum ekki uppá mikið úrval af pale ale einhverra hluta vegna, þetta er gríðarlega vinsæll bjórstíll og á sér mjög breiðan aðdáandahóp og ætti því að vera í mun meira magni hér heima.  Hægt er að fá tvo íslenska pale ale bjóra sem eitthvað vit er í (Einstök Pale Ale er ekki skilgreindur sem íslenskur), GÆÐING PALE ALE og svo SLEIPNIR frá Ölvisholti.  Þess má geta að nú hefur Ölvisholt fengið til sín nýjan bruggmeistara sem jafnframt er fyrsta kona Íslands til að gegna þessu hlutverki.  Ásta Ósk Hlöðversdóttir er reyndur heimabruggari og mikill bjórnautnaseggur en ég þekki hana frá árum mínum á Skúla Craft Bar þar sem við Stebbi Magg réðum hana til starfa áður en einhver annar bar myndi næla í hana.  Við sjáum sko ekki eftir þeirri ákvörðun.  Ölvisholt er í góðum höndum og spennandi að sjá hvað Ásta mun töfra fram fyrir okkur á næstu misserum.

SLEIPNIR er sem fyrr segir amerískur pale ale, 5.4% í ágætis jafnvægi.  Hann er frekar mildur og látlaus en hefur þó karakter og bragð.  Beiskju er stillt í hóf og maltkarakter látlaus.  Þetta er bjór sem allir ráða vel við  og mjög skemmtilegur með t.d. pizzu, hamborgara eða djúsí nauta taco með chilli og lime sósu.  Ef menn vilja svo poppa upplifunina enn meira upp og rífa fram chilli brunann og seltuna væri hægt að nota beiskan IPA, mér dettur t.d. í hug humlasprengjuna JACK HAMMER frá BrewDog en hann tekur vel í án þess þó að stela senunni.