Við fengum Gestgjafann í heimsókn um daginn (2017) til okkar. Tilefnið var í raun bara sumarið, nýtt Weber gasgrill á pallinum og kannski það mikilvægasta að hitta góða vini og leika okkur með bjór og mat. Við vorum með fjóra rétti og belgískt bjórþema með. Gestir okkar voru nefnilega hluti af bjórklúbbnum okkar frá Danmörku en við byrjuðum einmitt að skoða belgíska bjórinn á þeim tíma og því fannst okkur Sigrúnu tilvalið að bjóða uppá gamla góða félaga með matnum. Bjór eins og t.d. Hoegaarden var alveg ómissandi við grillið í dönsku sumarsólinni.
Þetta var virkilega skemmtileg grillveisla með góðu fólki. Lesa má nánar um réttina og uppskriftir í Júníblaði Gestgjafans 2017 og þar eru líka haugur af skemmtilegum myndum. Mig langar samt að henda á ykkur einni uppskrift frá þessu kvöldi sem kom mér eiginlega á óvart. Pörunin með Hoegaarden var algjörlega geggjuð. Myndirnar hér í þessari færslu eru teknar bara beint úr blaðinu og eru eftir ljósmyndarann Hákon Davíð Björnsson.
SALATIÐ – grillaður Halloumiostur og aspars með fennel og rauðlauk.
Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt, sérstaklega þegar útkoman er góð. Okkur langaði að grilla eitthvað létt í forrétt, við vorum líka með grillaða bjórlegna humarhala í forrétt reyndar. Grillaður aspars er snilld, ég hef í raun aldrei grillað hann sjálfur áður og langaði því að prófa, svo vantaði eitthvað spennandi með. Halloumi ostur er kjörinn fyrir grillið því hann er bæði skemmtilegur á bragðið og svo er hann svo þéttur í sér að hann bráðnar ekki ofan í grillið við eldun. Við fórum því á stúfana og fundum uppskrift í gamalli bók frá Jamie Oliver og ákváðum að láta reyna. Eftirfarandi er því byggt að mestu leiti á þeirri uppskrift.

Það sem þið þurfið (fyrir 5-6):
- 1-2 fennel hausar, fer dálítið eftir stærð
- 2 stk rauðlaukur
- 3 mtsk Extra Virgin ólifuolía
- Safi úr einni appelsínu
- 600 g ferskur grænn aspars
- 400 g Halloumi ostur
- Salt og pipar eftir smekk
- Svo er það bjórinn, belgískur hveitibjór eins og t.d. HOEGAARDEN BLANCHE
Aðferðin:
Hitið grillið. Trimmið svo fennel hausana og skerið fínt í ræmur, flysjið rauðlaukinn og skerið fínt. Leggið til hliðar. Skerið appelsínuna í tvent og kreistið allan safan úr og setjið í skál. Það er í fínu lagi að fá aldinkjötið með. Bætið ólifuolíu saman við og hrærið. Leggið til hliðar.
Næst er það grillunin. Skolið aspasinn vel og brjótið ljótu endana af, þeir bara brotna á rétta staðnum. Pennslið með ólifuolíu og kryddið með salti og pipar. Grillið svo á meðalheitu grilli þar til mjúkt og komnar fallegar rendur í asparsinn. Snúið asparsnum nokkrum sinnum svo hann brenni ekki. Takið af grillinu.
Halloumi osturinn er síðastur og borinn fram strax eftir grinnun. Stykkið er skorið eftir smekk í u.þ.b. 5 mm þykkar sneiðar og pennslaður báðum megin með ólifuolíu og ögn saltaður. Grillið á heitu grilli þar til fallegar rendur eru komnar á ostinn eða hann er orðinn dálítið mjúkur.
Blandið fenníku, rauðlauk og aspas í skál, raðið halloumi ostinum ofan á, hellið appelsínublöndunni yfir og berið strax fram. Það er gott að geyma aðeins af appelsínulegi til að bæta á salatið eftir hentugleika.
BJÓRINN – Belgískur hveiti, t.d. Hoegaarden Blanche.
Belgar eru snillingar í bjórgerð, það verðir ekki af þeim tekið. Belgískur hveitibjór er dásamlegur sér í lagi á heitum sumardegi. Það er einhver lenska í okkur Íslendingum að telja að hveitibjórar séu þungir bjórar, líklega tengja menn hveiti við brauð? Ég skal ekki segja, það er hins vegar þannig að hveitibjórar eru hinir mestu svaladrykkir. Fyrir mér er hveitibjór sumarbjór, eitthvað sem maður drekkur í steikjandi sumarsólinni til að svala þorstanum. Hoegaarden er líklega elsti belgíski hveitibjórinn og jafnvel þótt víðar væri leitað? Menn krydda bjórinn með appelsínuberki og kóríander sem gerir bjórinn dálítið skemmtilegan, maður finnur örla fyrir þessu ef bjórinn er ekki of kaldur. Þetta er bjór sem kallar á létta rétti því hann er jú mildur og viðkvæmur. Salöt, sushi og annað sjávarfang er t.d. kjörin pörun.

Pörunin
Hér erum við með létt og ferskt salat með mildum en skemmtilegum bragðflækjum þar sem við finnum látlausan lakkrískeim og ögn sýru. Það er einnig áberandi selta frá ostinum og svo kemur appelsínukeimurinn í gegn. Þessi réttur kallar á mildan bjór sem ekki stelur senunni. Hoegaarden smellpassar hér, appelsínubörkurinn í bjórnum tengir vel við dressinguna og magnar upp appelsínuna í bæði bjór og mat. Eins verður kóríander meira áberandi og virkar eins og auka krydd á salatið. Bjórinn tvinnast við salatið og framlengir einhvern veginn bragðupplifunina í munni á þann hátt að bjór og réttur taka ekki neinn endi. Þetta er alveg magnað að upplifa….fullkomin pörun verð ég að segja!
Ein athugasemd við “Halloumi- og aspasgrillsalat með belgískum hveitibjór.”