Mexíkósk maís ostadýfa

Við kíkjum oft inn á Halfebaked Harvest þegar okkur vantar hugmyndir en þessi kona dælir út nýjum uppskriftum mörgum á dag. Það hefur allt veri geggjað sem við höfum prófað frá henni til þessa. Hér er ein sem heillaði mig mjög þegar ég sá hana og ákvað að láta á reyna. Úkoman var vægast sagt svakaleg! Ég fór ekki alveg eftir uppskriftinni en samt nánast! Svona gerði ég þetta og svona mun ég gera þetta aftur.

Það sem þarf

  • 2 mtsk chili krydd
  • 2 tsk reykt papríka
  • 1 tsk cayenne pipar eða meira eftir smekk
  • 1 laukur skorinn smátt
  • 3 ferskir maís kólfar (2 bollar af kornum)
  • 2 hvítlauksgeirar skornir smátt
  • Salt og pipar
  • Slatti af smjöri
  • 130g rjómaostur
  • 1/3 bolli sýrður rjómi
  • 80g smjör
  • 1 bolli majones
  • 2 mtsk af ferskum límónusafa
  • Ferskur kóríander
  • Parmesan, rifinn

Aðferðin

Blandið saman kryddunum, 2 mtsk chili duft, 2 tsk reykt papríka og 1 tsk cayenne pipar eða meira eftir smekk. Smá salt líka. Blandið saman. Ég endaði með töluverðan afgang, krydd eru dýr og því myndi ég alla vega helminga uppskriftina næst en svo er bara að geyma þetta fyrir næstu ídýfu.

Svo er það brúna smjörið. Ég tók um 80 g smjör og lét það malla í potti þar til orðið brúnt og komin froða yfir og notalegur karamellu hnetukeimur. Bragðbætti svo með smá salti og ca tsk af kryddblöndunni.

Saxið einn lauk smátt og mýkið á pönnu í olíu og smjöri á meðalháum hita. Ca 5 mínútur, skafið svo maískornin af maískólfunum (2 bollar) og bætið á pönnuna ásamt 1-2 tsk hvítlauksmauk og svo teskeið af kryddblöndunni. Hrærið þetta saman og látið malla þar til maís er orðinn mjúkur. Ég bætti reyndar slatta af smjöri saman við, það er bara svo ljúft að steikja úr smjöri. Það tók mun lengri tíma en 5 mín að mýkja maísinn hjá mér. Saltið og piprið eftir smekk.


Þegar þetta er farið að mýkjast undir tönn þá bætið þið 130g rjómaosti saman við, lækkið hitann og látið ostinn bráðna saman við. Svo er það 1/3 bolli sýrður rjómi. Ég notaði reyndar 2 teskeiðar af brúna smjörinu sem ég gerði í byrjun. Hræri þetta saman allt.

Hrærið saman ca 1 bolla af majonesi og 2 mtsk lime safa og klípu af salti, setjið ídýfuna í fallega skál, rífið slatta af parmesan ost yfir, slettið majoblöndunni yfir, svo ferskur kóríander yfir allt og loks dreifið þið smekklega brúna smjörinu yfir þetta allt saman.

Pörunin

Það er alltaf gaman að huga að því hvað er best að drekka með matnum, hér erum við með bragðmikla og dálítið spicy ostaídýfu, hér gengur ískaldur brakandi pilsner eða amerískur lager fullkomlega með þessu. Auðvitað allir þessir mexíkönsku lagerbjórar líka en þeir eru heldur óspennandi. Amerískur west coast IPA væri mitt val samt en þetta er auðvitað smekks atriði.

Njótið