Við fengum Gestgjafan til okkar síðasta sumar og þá elduðum við m.a. þennan frábæra rétt, lager- og límónu kjúklinga taco með lárperu og lager salsa. Já svo pöruðum við þetta að sjálfsögðu með bjór, Stella Artois en það má auðvitað vera hvaða lager sem er. Ég held að ég geti svarað fyrir alla sem voru í þessu boði, þetta var stórkostlegt!
Uppskriftina er að sjálfsögðu að finna í blaðinu en ef þið hafið það ekki þá kemur hún hér.
Innkaupalistinn (fyrir 6):
Pækill
1,5 flaska lager bjór
450 ml vatn
5 stk. límónur
5 msk. sykur
5 msk. salt
18 kóríander fræ, mulin
18 piparkorn, mulin
6 hvítlauksgeirar, gróft saxaðir
6 fersk chili-aldin, gróft söxuð
700 g kjúklingabringur
salt og pipar eftir smekk
Mjúkt taco
1 tsk ger
2 msk. olía
3 bollar (ca 7dl) hveiti
4 msk. grískt jógúrt
1 tsk. hunang
1 tsk. salt
3/4 bollar (1 og 3/4 dl) volgt vatn
Lager-salsa
3 þroskaðar lárperur
1 dós maískorn
4 msk. lager bjór
2-3 tsk. salt
2-3 stk græn chili-aldin, fínt söxuð
safi úr 1 límónu
1 búnt ferskur kóríander
Aðferð:
Það þarf aðeins að vera forsjáll hér því kjúklingabringurnar þurfa að liggja yfir nótt í pæklinum. Blandið lagerbjór, vatni og límónusafa í stórt plastílát sem hægt er að loka. Bætið sykri og salti saman við og hrærið þar til allt er uppleyst. Bætið svo restinni af hráefninu saman við. Stingið nokkur göt á bringurnar hér og þar og leggið í pækilinn. Lokið og geymið í allt að 24 tíma í kæli. Daginn eftir takið þið bringurnar úr pæklinum, þerrið þær og grillið á heitu grilli í nokkrar mín. á hvorri hlið eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk. Rífið bringurnar í hæfilega bita og setjið í skál.
Daginn sem veislan fer fram er gott að byrja á mjúka tacoinu. Blandið saman þurrefnunum í skál. Hrærið því næst olíu, hunang, jógúrt og vatni saman og setjið út í þurrefnin. Hnoðið vel og látið hefast í 30 – 60 mín. Því lengur því betra, hér er gott að byrja á að gera lager salsa meðan beðið er. Skiptið deiginu svo niður og fletjið út í hæfilega stórar flatkökur. Hitið olíu á pönnu, stingið svo nokkur göt með gaffli í hverja köku og steikið á pönnunni. Snúið við og steikið á hinni hliðinni þegar loftbólur byrja að myndast. Flott er að fá aðeins brunabletti hér og þar. Gott er svo að leggja brauðið saman svo það myndi hálfmána.
Lager salsa er virkilega gott og hentar í raun með alls konar hráefni, t.d. fisk ofl. Flysjið lárperur og takið steininn úr. Skerið í litla kubba og blandið saman við maískornin í skál. Bætið lagerbjór, salti, chili-aldin og límónusafa út í og hrærið létt. Geymið í kæli þar til allt er klárt.
Berið svo fram með því að setja kjúklinginn í taco-brauðið, setjið salsa yfir, svo tvær til þrjár teskeiðar af geitaosti og lokst haug ef ferskum kóríander efst. Þetta er algjörlega geggjað. Kjúklingurinn fær í sig ögn bjórbragð sem smell passar við bjórinn sem við drekkum með.
Pörunin:
Við erum hér með alls konar skemmtilegt bragð, límónu, sýru, chili, salt, kóríander ofl. Geitaosturinn gefur svo alveg einstakt rjómakennt „funky“ bragð með smávegis sýru og jörð. Bæði osturinn og lárpera gæða svo réttinn feitri rjómakenndri áferð. Bjórinn með þessu þarf að geta tekist á við þetta allt saman án þess að skemma bragðið. IPA væri fínn á móti fitunni og tengir vel við saltið en beiskjan er líklega of mikil hér. Lagerinn er hins vegar kjörinn í þetta, hann skapar notalegan bakgrunn sem heldur við en er þó ekki allt of áberandi. Bjórinn dregur fram bjórkeiminn í kjúklingnum og kolsýran léttir á pallettunni og hreinsar geitaostinn af milli bita.