Djúpsteiktir brie-ostabitar með ferskju mauki og krydduðum saison.

Okkur Sigrúnu var boðið í mat fyrir nokkru síðan til vina okkar Hafdísi og Magga sem töfruðu fram dásamlega veislu bæði fyrir bragðlauka og augað. Í forrétt voru þau með djúpsteiktan brie ost með heimagerðu ferskju chutney og svo auðvitað borið fram með mjög vel völdum saison. Maggi og Hafdís voru með Leif frá Borg þetta kvöld, hann alveg small við þetta.

Við vorum að fá okkur djúpsteikingarpott í dag og ég ákvað því að vígja hann með því að taka Magga og Hafdísi á þetta og henda í þessa uppskrift. Ég veit í raun ekkert hvaðan hún er komin ég ég fékk hana beint frá Magga. Mig langaði svo að prófa annan mjög flottan saison með að þessu sinni, Skaða frá Ölvisholt brugghús en þessi saison er virkilega fínn, hann er nokkuð beiskari og þróttmeiri en Leifur og þolir þannig öflugari rétti.

Það sem þið þurfið í þetta (sem forréttur fyrir 4):

  • 2 brie ostahringir, skorið í 1/8 bita
  • 3 egg, pískuð
  • 2 bolllar hveiti
  • 2 bollar panko brauðrasp
  • 2 msk ferskt rósmarín fínt saxað
  • um 2,5 L djúpsteikingarolía (fer eftir potti)
  • Saison bjór, t.d. Leifur frá Borg eða Skaði frá Ölvisholti

fyrir ferskju maukið

  • 1 dós niðursoðnar ferskjur, 470 g (þetta er vel ríflegt)
  • 2 msk epla edik eða hvítvíns edik
  • 2 msk sykur
  • 1 tsk kúmen fræ
  • 1 msk sinnep

20190406_182955-01579846776.jpeg

Aðferð

  1. Skerið brie ostinn í 8 bita, setjið hveti í skál, 3 egg í aðra skál og pískið til og í 3. skálina setjið þið 2 bolla panko brauðrasp. Skerið rósmarín smátt og hrærið saman við brauðraspið. Allt í lagi að pipra dálítið líka.
    .
  2. veltið svo ostabitunum upp úr hveiti, dustið létt, svo veltið þið uppúr eggjunum og loks hyljið þið hvern bita vel með brauðraspinu og látið svo standa á grind. Gerið þetta við alla bitana. Svo kemur hér smá trikk, skv uppskrift er þetta svona en þegar ég gerði þetta fyrst fyrir nokkrum vikum síðan þá láku margir bitarnir í steikingunni og voru bara tómir þegar kom að því að borða þá. Ég prófaði núna að heylja þá með tvöföldu lagi núna og þá lak ekki einn einasti. Sem sagt hver biti fer seinni umferð í gegnum hveiti, egg og loks aftur brauðrasp.
    .
  3. Látið standa í kæli í 10 mín.
    .
  4. Hellið olíu í pott, best að hafa djúpsteikingarpott sem heldur hitastiginu jöfnu en venjulegur pottur gengur alveg en þá þarf hitamæli. Hitinn á að vera svona 170 gráður.
    .
  5. Þegar olían er orðin heit steikið þið 3-4 bita í senn í um 4-5 mín eða þar til orðið fallega gullbrúnt að lit. Leggið svo til hliðar á grind.
    .
  6. Það er gott að byrja á ferskju maukinu á meðan osturinn kólnar í kælinum og olian er að hitna. Sem sagt eftir skref 3 hér að ofan. Allt sett í lítinn pott, 1 dós af ferskjum (safinn með), 2 msk epla edik, 2 msk sykur, 1 tsk kúmen og 1 msk sinnep. Látið suðu koma upp og maukið ferskjurnar, lækkið svo hitann og hrærið vel saman reglulega. Látið malla þar til þetta er orðið maukað og þykkt eins og marmelaði.

Pörunin

IMG_8641

Berið þetta fram sem forrétt eða sem snarl á síðkvöldi með góðum bjór. Fínt að bera þetta fljótlega fram eftir að steikingu er lokið, þ.e.a.s þannig að osturinn sé enn bráðinn að innan. Þá er þetta dásamlega stökkt að utan og svo vellur mjúkur osturinn út þegar maður opnar þetta. Ferskju maukið gefur þessu skemmtilegan blæ, það er sæta frá ferskjunum en sýran jafnar þetta út og svo er kúmen keimurinn áberandi og spennandi. Þetta breytir alveg ostabitunum og tvinnar allt saman í flotta heild. Saison er mildur oftast en þó nægilega þróttmikill til að ráða við þetta. Það er nokkuð sæta í bjórnum sem vinnur vel með ferskju maukinu en svo gefur gerið af sér ögn jörð og sveit sem á svo vel við brie osta. Þetta gerir mjög áhugaverða blöndu, sérstaklega þegar kúmenið frá maukinu kemur saman við þetta. Frábær tenging. Loks er Skaði þægilega beittur með brakandi humlum sem eru svo mikilvægir í svona mat þar sem mikið er um fitu. Beiskjan klippir á fituna og gerir allt aðgengilegra, humlabitið tengir líka vel við stökku áferðina utna um ostabitana.

Þetta var virkilega flott pörun, og steikingarpotturinn svínvirkaði. Ég hef hingað til verið að gera þetta í venjulegum potti en þá hefur verið vesin að ná matnum uppúr og hitinn sveiflast mikið og ég hef lent í að steikja of mikið og mikil bræla. Í kvöld var þetta bara ekkert vandamál, nánast engin bræla og hver biti gullfallegur og fullkomlega djúpsteiktur. Mæli með þessu.

Hvað er saison?

Saison er orðinn mjög vinsæll á Íslandi enda stórskemmtilegur bjór sem er „örðuvísi“ ef maður miðar við lagerinn en ekki sérlega krefjandi stíll. Saison kemur upphaflega frá hinum frönsku mælandi hluta Belgíu, eða Vallóníu og var áður bruggaður í litlum sveitabrugghúsum eða sveitabæjum yfir kaldari haustmánuði ársins. Bjórinn var ætlaður sem svalandi drykkur yfir sumarmánuðina og gjarnan notaður til að fagna uppskerunni á bæjunum og er það líklega þaðan sem viðurnefnið „sveitabjór“ er komið. Bjórinn átti að vera svalandi og þægilegur en varð þó að vera nægilega sterkur til að lifa sumarmánuðina af. Saison stíllinn er gjarnan með áfengisprósentu í hærri kantinum 5-6.5% án þess þó að vera of sterkur, hann er gulur eða orange að lit með flottan froðuhaus og vel kolsýrður og spriklandi. Humlar koma við sögu og gefa notalega beiskju og stundum er hann þurrhumlaður til að gæða hann meiri angann. Bjórinn er oftast dálítið sýrður og þurr á tungu og kryddaðir tónar áberandi.

Ein athugasemd við “Djúpsteiktir brie-ostabitar með ferskju mauki og krydduðum saison.

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s