Eðal chilli nautahakk á kálbeði með góðum lager

Ok þetta er eitt af því fyrsta sem ég prófaði frá Gordon Ramsay fyrir mörgum árum síðan.  Það er til nautahakk og svo er til nautahakk sem búið er að lyfta upp á annað plan.  Þetta er geggjað gott og fáránlega einfalt að gera og svo er þetta lág kolvetna! Hollur og ljúfur götumatur ef svo má segja.  Sósan sem er í þessu er eitthvað sem ég nota reyndar oft á ýmislegt, t.d. til að marinera naut ofl.   Ég hef undanfarið verið að skoða lager stílinn og reynt að endurvekja áhuga minn á þessum bjórstíl.  Mig vantaði því einhvern rétt sem væri hægt að para vel við.

Það sem þarf í þetta (ca fyrir 4):

 • 800g nautahakk
 • 500-800g svínahakk
 • 2-3 msk ólífuolía til steikingar
 • salt og pipar eftir smekk
 • 1 tsk sesam olía
 • 1-2 ferskur chilli, rauður og smátt skorinn
 • 3 hvítlauksgeirar, skornir í smátt
 • ca 3 msk smátt skorin fersk engiferrót
 • 5 msk smátt skorinn vorlaukur
 • 1,5 msk púðursykur
 • sletta af fiskisósu
 • 1 límóna, rifinn börkur og safi
 • Stökkt sallat sem myndar bolla eða litlar skálar.  Finnið bara eitthvað sem hentar

Fyrir sósuna (þetta er svona ca, maður smakkar bara til):

 • 2 msk púðursykur
 • 5-6 msk soya sósa (kikkoman)
 • 1 msk sesam ólía
 • 2-3 msk ólifuolía
 • 1 tsk fiskisósa
 • 2 límónur, safinn
 • 1 ferskur rauður chilli, skorinn í sneiðar
 • góð lúka af kóríander, gróft skorinn

Bjórinn:

 • Einhver flottur lager, hér kemur margt til greina, ljós premium eða pilsnerSchwarzbier eða bock er jafnvel enn betra!


Aðferðin

Það er gaman að gera þennan rétt því útkoman er svo flott og fólk sem smakkar þetta heldur að maður hafi staðið sveittur í eldhúsinu.  Byrjum á að salta og pipra kjötuð áður en það er steikt.  Svo kemur mikilvægi hlutinn, að steikja kjötið þannig að það verði stökkt en ekki sjóða það á pönnunni.

Setjið ólífuolíu á pönnu og hitið vel, myljið svo nautahakk og svínahakkið á pönnuna og notið tréskeið til að mylja þetta á pönnunni.   Veltið þessu reglulega til og frá svo brenni ekki.  Stundum er eins og það myndist slatti af vökva við steikinguna og þá byrjar kjötið að sjóða, við viljum það ekki, við viljum heyra snarkið á pönnunni.  Ég hef stundum bara hellt þessum vökva af og haldið áfram að steikja.   Þegar kjötið er orðið fallega brúnt og brennt á stöku stað er það sett í sigti og látið standa þannig.  Hér lekur vökvi og fita af kjötinu.

Svo er það að þerra pönnuna, ekki þvo hana.  ca 1 tsk sesam olía á pönnuna og hitið pönnuna á meðal hita eða svo.   Skerið niður 1 – 2 chilli, 2-3 hvítlauksgeira og svo ferska engiferrót þannig að þið endið með um 3-4 msk.  Þetta er reyndar allt eftir smekk bara.  Skellið þessu á pönnuna, ca 1,5 msk púðursykur yfir og steikið aðeins.  Sykurinn skapar smá karmelliseringu.  Lyktin á þessu stigi er geggjuð.

Bætið svo kjötinu á pönnuna og steikið áfram og blandið öllu saman.  Rífið svo límónubörk yfir, þetta lyftir upp kjötinu og gerir þetta ofsalega djúsí.   Svo kreistið þið safa úr 1-2 límónum yfir til að skapa smá sýrujafnvægi.  Smakkið á þessu núna, þetta er geggjað.   Skerið svo vorlauk í smátt og bætið saman við síðustu 30 sek.   Færið allt saman yfir á disk eða skál sem þið berið þetta fram í.

Svo er það sósan.  Hér hef ég bara slumpað í þetta og smakkað til.    Náið í skál, setjið 2 msk púðursykur, hellið 5-6 msk soya yfir og hrærið aðeins saman.  Svo er það ólifuolían og sesam olían, 1 tsk fiskisósa og safi úr amk 2 límónum.  Hrærið öllu saman og bætið svo chilli skífunum og kóríander út í.  Ef ykkur finnst vanta meira lime eða soya þá bara bætið þið við.  Sósan á samt að vera bragðmikil og rífa ögn í.  Best er að setja þetta svo í gallega skál með skeið og bera þannig fram. 

Rétturinn er þannig að maður fyllir sjálfur kjötið í kálblaðið og setur svo sósuna yfir.  Þetta er puttamatur og svolítið messí þannig að hafið endilega þurrkur við höndina.  Við höfum stundum með þessu líka sriracha majo (majones blandað með sriracha sósu eftir smekk).

IMG_8314-01.jpeg

Pörunin

Þessi réttur er með dálitlum hita frá chilliinu og svo mikið salt einnig en fersk límónan léttir aðeins á þessu öllu og opnar upp. Svínakjötið gefur einnig nokkuð feita djúsí áferð en kjötið er þó þægilega stökkt og skemmtilegt og svo er sallatblaðið líka stökkt.  Hér þarf bjór sem ræður við þetta allt án þess að það skemmi bjórinn eða áferðina á réttinum.  IPA magnar upp salt og chilli hitann og gæti verið allt of mikið hér.  Lagerinn er hins vegar fullkominn, hann er léttur og nettur með sætum undirtón frá maltinu en er þó þægilega beiskur og krispí til að tækla hitann og seltuna.  Lager er líka nokkuð kolsýrður en búblurnar vinna frábært verk við að hreinsa gómboga milli bita og létta á öllu saman.   Við vorum hér með nýja lagerinn frá Borg og Fræbbblunum, Bjór NR. C18 sem passaði fullkomlega með þessu.  Þessi bjór er meira humlaður en klassískur pilsner en það gefur bjórnum meiri beiskju og ávaxtablæ frá humlunum en humlarnir virka hér eins og enn eitt kryddið á kjötið og eins og ég segi alltaf, humlar og kóríander eru töfrandi blanda, það gerist bara eitthvað svo magnað þegar þetta kemur saman!

Bjórpæklaður kjúklingur með lárperu- lager salsa í mjúku taco brauði.

Við fengum Gestgjafan til okkar síðasta sumar og þá elduðum við m.a. þennan frábæra rétt, lager- og límónu kjúklinga taco með lárperu og lager salsa. Já svo pöruðum við þetta að sjálfsögðu með bjór, Stella Artois en það má auðvitað vera hvaða lager sem er. Ég held að ég geti svarað fyrir alla sem voru í þessu boði, þetta var stórkostlegt!

Uppskriftina er að sjálfsögðu að finna í blaðinu en ef þið hafið það ekki þá kemur hún hér.

Innkaupalistinn (fyrir 6):

Pækill

1,5 flaska lager bjór
450 ml vatn
5 stk. límónur
5 msk. sykur
5 msk. salt
18 kóríander fræ, mulin
18 piparkorn, mulin
6 hvítlauksgeirar, gróft saxaðir
6 fersk chili-aldin, gróft söxuð
700 g kjúklingabringur
salt og pipar eftir smekk

Mjúkt taco

1 tsk ger
2 msk. olía
3 bollar (ca 7dl) hveiti
4 msk. grískt jógúrt
1 tsk. hunang
1 tsk. salt
3/4 bollar (1 og 3/4 dl) volgt vatn

Lager-salsa

3 þroskaðar lárperur
1 dós maískorn
4 msk. lager bjór
2-3 tsk. salt
2-3 stk græn chili-aldin, fínt söxuð
safi úr 1 límónu
1 búnt ferskur kóríander

Aðferð:
Það þarf aðeins að vera forsjáll hér því kjúklingabringurnar þurfa að liggja yfir nótt í pæklinum. Blandið lagerbjór, vatni og límónusafa í stórt plastílát sem hægt er að loka. Bætið sykri og salti saman við og hrærið þar til allt er uppleyst. Bætið svo restinni af hráefninu saman við. Stingið nokkur göt á bringurnar hér og þar og leggið í pækilinn. Lokið og geymið í allt að 24 tíma í kæli. Daginn eftir takið þið bringurnar úr pæklinum, þerrið þær og grillið á heitu grilli í nokkrar mín. á hvorri hlið eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk. Rífið bringurnar í hæfilega bita og setjið í skál.

Daginn sem veislan fer fram er gott að byrja á mjúka tacoinu. Blandið saman þurrefnunum í skál. Hrærið því næst olíu, hunang, jógúrt og vatni saman og setjið út í þurrefnin. Hnoðið vel og látið hefast í 30 – 60 mín. Því lengur því betra, hér er gott að byrja á að gera lager salsa meðan beðið er. Skiptið deiginu svo niður og fletjið út í hæfilega stórar flatkökur. Hitið olíu á pönnu, stingið svo nokkur göt með gaffli í hverja köku og steikið á pönnunni. Snúið við og steikið á hinni hliðinni þegar loftbólur byrja að myndast. Flott er að fá aðeins brunabletti hér og þar. Gott er svo að leggja brauðið saman svo það myndi hálfmána.

Lager salsa er virkilega gott og hentar í raun með alls konar hráefni, t.d. fisk ofl. Flysjið lárperur og takið steininn úr. Skerið í litla kubba og blandið saman við maískornin í skál. Bætið lagerbjór, salti, chili-aldin og límónusafa út í og hrærið létt. Geymið í kæli þar til allt er klárt.

20180521_105023-02.jpeg

Berið svo fram með því að setja kjúklinginn í taco-brauðið, setjið salsa yfir, svo tvær til þrjár teskeiðar af geitaosti og lokst haug ef ferskum kóríander efst. Þetta er algjörlega geggjað. Kjúklingurinn fær í sig ögn bjórbragð sem smell passar við bjórinn sem við drekkum með.

Pörunin:
Við erum hér með alls konar skemmtilegt bragð, límónu, sýru, chili, salt, kóríander ofl. Geitaosturinn gefur svo alveg einstakt rjómakennt „funky“ bragð með smávegis sýru og jörð. Bæði osturinn og lárpera gæða svo réttinn feitri rjómakenndri áferð. Bjórinn með þessu þarf að geta tekist á við þetta allt saman án þess að skemma bragðið. IPA væri fínn á móti fitunni og tengir vel við saltið en beiskjan er líklega of mikil hér. Lagerinn er hins vegar kjörinn í þetta, hann skapar notalegan bakgrunn sem heldur við en er þó ekki allt of áberandi. Bjórinn dregur fram bjórkeiminn í kjúklingnum og kolsýran léttir á pallettunni og hreinsar geitaostinn af milli bita.

Bao Bun fyllt með hægelduðum grís með sellerí rót, kóríander og sriracha

Ég hef í mörg ár verið mjög hrifinn af gufusðonu brauði eða það sem kallað er Bao Bun. Þetta er alveg geggjað brauð, dúna mjúkt og djúsí og með réttri fyllingu erum við að tala um algjört sælgæti. Í mörg ár vissi ég reyndar ekki hvað þetta var kallað en ég kallaði þetta bara soðbrauð.  Ég hef alltaf talið að það þurfi einhverja galdra til að töfra svona brauð fram og hef því ekkert sérstaklega verið að reyna að gera þetta sjálfur.  Reglulega hef ég þó verið minntur á þetta í gegnum tíðina og þá fer ég alltaf aðeins á flug.

Ég fékk t.d þetta dásamlega soðbrauð á Haven Bar í Kaupmannahöfn fyrr á árinu, fyllt með kóríander og dásamlegu nautakjöti og svo var sterk heimagerð chilisósa með.  Ég varð eiginlega alveg sjúkur eftir þessa upplifun og bara pirraður, alltaf verið að minna mig á þetta góða brauð. Ég var á þessum tíma byrjaður að fikta við soft taco en mér fannst það bara ekki alveg það sama (enda er það allt annað fyrirbæri).  Það komu fínir taco réttir út úr þessu hjá okkur Sigrúnu en ekki það sem ég var að leita eftir í rauninni. Svo tókst mér að leiða hugan að örðu eins og áður og var eiginlega hættur að hugsa út í þetta þegar ég sá gamla barinn minn, Skúla Craft bar auglýsa opnun á matarbílnum sínum Skúla Bao Bun.  Þarna small þetta allt saman „Bao Bun“ og ég fór á flug að googla uppskriftir.  Ég smakkaði auðvitað Skúla Bao Bun, 3 mismunandi fyllingar sem allar eru mjög góðar, ég var hins vegar ekki alveg nógu hrifinn af soðbrauðinu, það var aðeins of blautt og klístrað.  Ég er þó viss um að það hafi bara verið einhverjir byrjunarhnökrar og mæli ég með að fólk skoði þetta hjá Skúla og fái sér einn vel valinn öl með. Ég mun pottþétt prófa þetta aftur (uppfærsla). Ekta street food og sætu kartöflunar þeirra eru geggjaðar!

Nú er ég svo kominn með nokkrar uppskriftir af netinu og síðustu vikuna hef ég verið að gera prufukeyrslur á þessu og þetta er bara dásamlegt.  Ég get ekki lýst því hve mikill léttir það er að geta bara gert þetta sjálfur heima í eldhúsinu og það er bara ekki nokkur vandi, bara smá dútl.   Vandinn er kannski helst að finna góða fyllingu sem virkar en þar er það í raun bara hugmyndaflugið sem ræður.  Ég var að ræða þessi mál um daginn við félaga minn og snilling Gunnar Karl sem er reyndar einn af okkar fremstu kokkum en Gunni nældi sér í Michelin stjörnu á Agern í New York ekki alls fyrir löngu sem kom reyndar engum á óvart.   Gunni kom með hugmynd af fyllingu fyrir mig sem ég ákvað að láta reyna á í kvöld og Guð minn góður hvað þetta var gott.  Ég bara verð að deila þessari hamingu með ykkur.

IMG_6519
Bau brauðdeigið látið standa og lyfta sér í klst eða svo fyrir gufusuðuna.

ÞAÐ SEM ÞIÐ þURFIÐ Í BAO BRAUÐIÐ:

1 og ½ tsk þurrger
¾ bollar hitað vatn, ca 25 gráður eða sv
3 msk matarolía
2 tsk lyftiduft
2 msk sykur
2 og ½ bolli hvítt hveiti (364g)

FYLLINGIN

Hægeldað rifið svínakjöt, dæmi um uppskrift hér
1-2 laukar skornir fínt
Sítrónubörkur af einni sítrónu, rifinn fínt
100-120 g smjör
Rifin sellerírót, ég notaði hér ca 1/6 af rótinni sem var á stærð við kálhaus
ca 3 mtsk jómfrúarolía
ca 3 mtsk sítrónusafi
Ferksur kóríander, 3 lúkur í það minnsta
Rifinn Aplewood ostur, má alveg sleppa

BJÓRINN
LEIFUR Nordic Saison er ofsalega skemmtilegur með þessari fyllingu eins má prófa SÓLVEIGU hveitibjór frá Borg en góður lager er líka ágæt pæling.

 

AÐFERÐ – Bao brauð

1) Hitið vatn örlítið, ca 20-25 gráður.  Bætið gerinu útí og látið blotna aðeins í svona mínútu.  Því næst bætið þið 2 mtsk matarolíu og hrærið aðeins í.  Látið standa.

2) Setjið hveiti, lyftiduft og sykur í hrærivél með hnoðara haus.  Blandið aðeins saman og stillið svo á hægan gang.  Hellið gervatninu hægt saman við.  Aukið aðeins hraðan á hrærivélinni.  Látið ganga þar til myndast hefur klumpur eða kúla.   Takið þá deigið út og hnoðið restum saman við.  Deigið á að vera aðeins klístrað en ekki þannig að þurfi hveiti á borðið, ef hins vegar er of klístrað bætið smá hveiti við, ef of þurrt þá vætið hendur aðeins og hnoðið rakanum inn deigið.

3) Pennslið skál með olíu og setjið deigið í hana og plastfilmu yfir.  Látið standa í amk klst eða þar til orðið tvöfalt stærra.  Nú er góður tími til að undirbúa fyllinguna

4) Hnoðið svo deigið bara létt saman og myndið lengju og skiptið svo upp í 8 jafn stóra búta.

5) Takið hvern bút og formið disk í lóanum, setjið svo á borð og fletjið út með rúllu í sporöskuljaga köku, stærðin er dálítið smekksatriði, gott að hafa ca 3-4 mm þykkt.  Pennslið svo helminginn með olíu og leggjið saman í hálfmána.

6) Setjið hálfmánana á bökunarpappírsbút, einn á hvern bút og látið svo standa á volgum stað með þurru viskastykki yfir í ca klst.  Fylgist með þessum elskum bólgna út og þroskast…svo fallegt.

7) Best er að gufusjóða brauðin í bambusgrind en ef maður á það ekki þá er vel hægt að nota grænmetissuðugrind í pott með vatni.   Það virkaði hjá mér alla vega.  Setjið bara brauðin á smjörpappírnum í gufugræjuna, t.d. tvö í einu, fer eftir stærð en það þarf að vera pláss á milli þeirra.  Gufusjóðið svo í ca 7 mín eða þar til brauðin eru orðin bólgin og þurr.

8) Setjið svo fyllinguna í og berið fram heitt.

IMG_6534

AÐFERÐ – fyllingin, rifinn grís í brúnu smjöri ofl

Þessa fyllingu hefði mér bara aldrei dottið í hug sjálfum, jú jú rifinn grís er mjög klassískt í svona en allt hitt er eitthvað sem kemur bara frá kokkaheila.  Takk aftur Gunni.

1) Gerið rifinn grís eftir þeirri aðferð sem þið viljið, stundum hægt að kaupa tilbúið í kjötbúð.  Hér er samt virkilega góð uppskrift með imperial stout.  Sleppið svo bara að nota soðið fyrir þessa fyllingu.

2) Búið til brúnt smjör, látið smjör í pott og látið svo malla í 15 – 20 mín eða þar til að er orðið brúnt.  Froðan sem myndast er fleytt ofan af með skeið og hent.

3) Skerið laukinn smátt og látið malla á pönnu þar til orðinn dálítið glær, bætið rifna grísnum út í og veltið upp úr brúna smjörinu.  Rífið svo sítrónubörk yfir og blandið saman.

4) Skerið sellerírótina í hæfilega stórt stykki.  Rífið svo með grófu rifjárni í ræmur.  Setjið í skál.  Bleytið í þessu með jómfrúarolíu og safa úr sítrónu og svo ögn salt.

5) Annað meðlæti er hellingur af ferskum kóríander og svo sriracha chili sósa yfir.

Þetta er svo magnað, brauðið svo mjúkt eins og dúnkoddi sem umlykur svo þessa frábæru fyllingu, brúna smjörið gefur dálítinn karamellukeim í svínið og svo finnur maður aðeins súra ferska sítrónukeiminn frá rifna berkinum.  Sellerírótin kemur inn með ferskleikann sem þarf með svíninu og léttir á brunanum frá sriracha sósunni.  Kóríanderinn bindur þetta svo allt saman og er algjörlega ómissandi.   Þetta er með betra street food sem hægt er að hugsa sér held ég.  Svo þarf auðvitað að skola þessu öllu niður með einhverju ljúfu.


BJÓRINN

Hér kemur ýmislegt til greina, maður þarf samt að skoða aðeins hvað er í fyllingunni og reyna að átta sig á hvað passar best og þá spá í hvort maður vill para saman sameiginlegum eiginleikum eða tefla saman andstæðum og muna vega bjórinn á móti réttinum, ekki of þungt með léttu, mjúkan bjór með mjúku og svo framvegis.  Við viljum heldur ekki drepa niður góðan bjór, td. taldi ég að Hoegaarden hveitibjór væri alveg fullkominn með þessu, hann er bruggaður með kóríander og appelsínuberki, hins vegar dó bjórinn nánast alveg þegar ég prófaði hann með þessu.  

IMG_6540

Svínakjötið er dálítið þungt og bragðmikið, smjörið gefur feita áferð en einnig sæta karamellu, sellerírótin frískar og léttir þetta reyndar töluvert og gefur dálítið súran keim en svo kemur auðvitað sterka sriracha sósan öflug inn, við notum nefnilega nóg af henni.  Bjórinn má vel vera einhver bragðmikill lager t.d. en þá erum við svo sem ekki að gera neitt fyrir bjórinn en hann styður vel við allt saman og sætan frá maltinu tónar vel á móti brunanum í sósunni.  Hveitibjór ætti líka að ganga vel ef við spáum t.d. í brauðinu sem er gert úr hveiti líkt og bjórinn.  Ég prófaði nokkra og kom SÓLVEIG frá Borg skemmtilega út.  Hér erum við með virkilega flottan þýskan hveitibjór sem þurrhumlaður er með amerískum humlum.  Þetta er því dálítið beiskari hveitibjór en maður á að venjast af hefðbundnum þýskum hveitibjórum.  Fyrir vikið verður bjórinn bragðmeiri og meira lifandi og hann heldur vel velli hér gangvart fyllingunni.  Humlar gefa af sér sítrustóna sem tengja vel við sýruna frá sítrónunni, beiskjan klippir fituna niður og opnar þetta upp og svo magna humlarnir dálítið upp brunann frá sósunni sem er skemmtilegt.  Mér finnst líka humlar og kóríander alltaf ofsalega flott blanda.  

Ég prófaði einnig annan bjór frá Borg með þessu og var það í raun bjórinn sem ég lagði upp með í upphafi.  Hann kom gríðarlega vel út og mælum við Sigrún með að fólk prófi þetta.  Ég er að tala um LEIF nr.32 sem er kallaður Nordic Saison og líkist helst saison en þó ekki.  Bjórinn er nokkuð sætur og blómlegur og áberandi er blóðbergið sem gefur aðeins beiskju í bjórinn líka.  Bjórinn tekur á móti sterku sósunni með sætunni og tónar aðeins niður, kryddið frá gerinu og ögn sítrus blær magnar upp sítrónuna í sellerírótinni og svo er skemmtilegt hvað bjórinn gefur nýtt bragð í réttinn, eins og auka krydd, þá er það líklega blóðbergið og beitilyngið sem kemur þar við sögu.  Þetta er virkilega ljúft saman.

Indversk Pizza með Pilsner

Pilsner eða léttur lager er ekki bjórinn sem ég fer í þegar ég vil virkilega hafa það huggulegt, stíllinn á hins vegar alveg sinn sess hjá mér og það er oft tími fyrir einmitt einfaldan og lítt krefjandi bjór eins og t.d. með pizzunni, hamborgaranum eða sumu sjávarfangi sem þolir ekki stóra/mikla bjóra.   Á sunnudögum nennir maður oft ekki að elda eitthvað svakalegt, oft tínir maður til afganga og gerir eitthvað sniðugt úr þeim, Sigrún mín er snillingur í að töfra fram ljúfmeti úr afgöngum.  Pizza er tilvalið í þetta verkefni því hún er einföld í smíðum og það má í raun setja allt milli himins og jarðar á hana.

Þegar þetta er skrifað er einmitt sunnudagur og við ákváðum að elda „Eldum Rétt“ sem við grípum í annað slagið en Eldum rétt er oft bara virkilega gott og vandað og sparar mikinn tíma á annasömu heimili.  Það er dálítið skemmtilegt því að í kvöld var Eldum Rétt rétturinn INDVERSK PIZZA en við vorum einmitt með indverskt soft taco kvöldið áður. Það sem meira var, það var næstum sama hráefnið í gangi.


RÉTTUR: Indversk pizza með kjúkling, rauðlauk og kasjúhnetum og svo dásamlegum ferskum kóríander ofaná. Sjá uppskrift hér.

BJÓRINN: Pizza og lager eða pilsner er mjög flott pörun, bjórinn þolir margs konar hráefni sem oft ratar á pizzurnar.  BRÍÓ frá Borg er einn af mínum uppáhalds pilsner bjórum og því nota ég hann oft í svona verkefni, ég segi stundum að Bríó sé pilsner með karakter.   Það má samt vel nota annan lager ss KALDA LJÓSA, GÆÐING LAGER ofl.


.
img_5819

Ljósi lagerinn eða pilsnerinn er mildur og léttur með þægilega grösuga humla sem passa vel við álegg á borð við kóriander, klettasallat, spínat, papriku og annað grænmeti.  Gosið í bjórnum dempar einnig sterkt álegg á borð við pepperoní og jalapeno t.d. Svo passar bragðmikið nautahakk, skinkan og annað kjöt ofsalega vel við brakandi lagerinn.  Fyrir mér er þetta fullkomin pörun sem klikkar seint.   BRIO frá Borg er í miklu uppáhaldi hjá mér enda er þetta stórkostlegur þýskur pilsner og ekki skrítið að hann hafi unnið til fjölda verðlauna á erlendum bjórkeppnum, m.a valinn besti þýski pilsnerinn á World Beer cup 2012 en þar keppti hann á móti þýskum pilsner bjórum frá virtustu bjórframleiðendum Þýskalands.  Mér finnst alltaf dálítið gaman að því að íslenskur „þýskur“ pilsner hafi unnið original þýsku pilsner bjórana sem hafa verið bruggaðir í landinu í áravís.

Þessi „Eldum Rétt“ pizza var stórkostleg og passaði vel með BRIO en ég sé reyndar líka fyrir mér góða pörun með pale ale eða IPA eins og við höfðum með mjúka tacoinu um daginn.