Heimagert maís tacho á tvo vegu með hárrétta bjórnum

Það er ósjaldan sem hugur okkar Sigrúnar leitar til suðrænna slóða á þessum tíma árs.  Jólin búin og við tekur kaldur leiðinlegur og dimmur janúar, febrúar tekur svo við ekkert skárri eða hvað, vissulega eru Surtsdagar í lok janúar og bjórfest í febrúar ákv ljós í myrkrinu en stundum er það bara ekki nóg.  Þegar þetta er skrifað er veður vont og allt flug til og frá landinu fallið niður, við komumst bara ekkert þó við vildum.  Þá er um að gera að finna aðrar leiðir, þess vegna datt okkur í hug að skapa bara suðræna stemningu hér heima, mexíkósk veisla!!! Já okkur hefur lengi langað að prófa að gera heimagert maís tortilla / tacho og nú létum við bara vaða.   Ég fór út í morgun og fékk mér  langþráða tortilla pressu (í Kokka) og fann  svo fyrir rest maís hveiti (masa harina) í asísku búðinni í Skeifunni og því hafði ég enga afsökun fyrir að hella mér ekki út í þetta.

Þ: 19 CM  -  Black #1

Mér hefur alltaf þótt þessar tortilla kökur sem maður fær tilbúnar í búð frekar óspennandi, allt of stórar og allt of þykkar.  Ég vil hafa tortillu kökurnar litar og nettar, ca eins og desert diskur að stærð.  Það er svo ekkert hlaupið að því að finna maís tortillur hér í búð.   Ég veit ekki afhverju maður er ekki löngu búinn að prófa að gera þetta sjálfur, þetta er ótrúlega einfalt.  Ég held að mesta vinnan hafi farið í það að finna maís hveitið og svo uppskrift.  En ef maður fer bara beint í asísku búðina þá er eftirleikurinn auðveldur.

En ok, nóg af rausi.  Svona gerði ég þetta.  Ég byrjaði á að leita að uppskriftum á netinu og fann nokkrar, þær eru allar svipaðar.  Innihaldið er í raun bara masa harina (hveitið), smá salt og svo vatn.  Hlutföllin eru ekki alveg klár því það er dálítið misjafnt hve mikið vatn maður þarf, maður þarf dálítið að prófa sig áfram með það.  Það er samt ekkert mál því ef deigið endar allt of þurrt þá bætir maður við ögn vatni, ef það er hins vegar allt of klístrað þá bætir maður við hveiti.   Maður á að enda með klump sem er í raun eins og leir, hangir vel saman en er ekki klístraður.

Það sem þarf (10-12 tortilla kökur – fer eftir stærð):

  • Maís Hveiti (t.d. úr Asísku búðinni Skeifunni) 250g
  • Heitt vatn, ég endaði með ca 340ml
  • smá salt til að bragðbæta
  • ólifuolíu til að pennsla kökurnar með fyrir steikingu

Svo er það áleggið / fyllingin eða meðlætið…? Hvað kallar maður þetta annars?  Topping!  Alla vega það sem þú vilt setja ofan á tortillurnar.   Það er auðvitað frjálst og möguleikarnir endalausir.

wp-1578439710565.jpg

Að þessu sinni langaði mig í naut en líka eitthvað sjávarfang.  Ég gerði því tvenns konar tacho rétti.  Ég hef skrifað hér um ungnauta tacho áður en endurtek það hér aftur og svo var ég með steikta risarækju með avocadosalsa og kóríandersósu, uppskrift sem ég fann á Gulur Rauður Grænn & Salt.

Það sem þarf í þetta:

Ungnauta tacho

  • ungnautalaund ( ca 300-350 g)
  • kikkoman soyasósa, 1 dl
  • safi úr 1,5 límónum
  • ferskur kóríander, 1 lúka, gróft skorið
  • ólífuolía, 1 dl
  • púðursykur 2-3 mtsk
  • grænn ferskur chili, skorinn í litlar sneiðar
  • rauðlaukur, hálfur, skorinn í fínar ræmur
  • sykur, 1/2 – 1 tsk
  • salt, 1/2 tsk

Mangosalsa

  • mango, hálfur ávöxtur skorinn í litla kubba
  • kirsuberjatómatar, lúkufylli skorið í litla kubba
  • graslaukur, eftir hentugleika, smátt skorið
  • kóríander, skorið gróft.  Ca lúkufylli
  • grænn ferskur chili, skorinn smátt

Risarækju tacho

  • frosnar risarækjur, 400g
  • ólífuolía, 3 msk
  • hvítlauksrif, 2 stk pressuð
  • cumin, 1 tsk
  • chilipipar, 1 tsk
  • hvítlauksduft, 1/2 tsk
  • sjávarsalt, 1/2 tsk

Avocadosalsa

  • avocado, 3 stk, skorið í kubba
  • gular baunir, 3 msk eða svo eftir smekk bara
  • kirsuberjatómatar, ca lúkufylli, skornir í kubba
  • Grænn chili ávöxtur, skorinn smátt, með fræjum
  • safi úr hálfri límónu
  • kóríander, ferskur, lúkufylli skorið gróft.
  • salt og pipar

Kóríandersósa (aðeins breitt útgáfa)

  • Sýrður rjómi, 10%, ein dós
  • safi úr límónu, ca 1-2 msk
  • hvítlauksgeiri, 1 stk pressaður
  • kóríander, ferskur.  Hér myndi ég nota rúmlega tvær lúkufyllir eða meira,
  • kóríanderkrydd, eftir smekk, smakkið þetta bara til

wp-1578439929791.jpg

Aðferð

Rækjurnar

Líklega er bara best að undirbúa allt meðlæti fyrst.  T.d. marinera rækjurnar og kjötið.  Látið rækjurnar þiðna, afhýðið ef þær eru í skelinni.  Setjið svo ólífuolíu (3 msk) í skál, bætið rest útí, cumin (1 tsk), chilipipar (1 tsk), hvítlauksduft (1/2 tsk), tveir pressaðir hvítlauksgeirar og hálf tsk sjávarsalt.  Hrærið vel, smakkið til og bætið við eftir smekk salti, chili eða hvítlauk.   Hellið þessu yfir rækjurnar og látið standa eins lengi og hægt er.  Fínt að velta rækjunum annað slagið upp, sem sagt moka þeim neðstu efst þannig að allar fái að liggja í þessum legi sem safnast saman á botninn.

Ungnautalund

Kjötið er hægt að gera á tvenna vegu, ég held að betra sé að steikja kjötið fyrst og svo skera það þunnt og marinera.  Sem sagt, steikja létt á heitri pönnu, ca 3-4 mín á hvorri hlið og látið standa aðeins.  Við erum að miða við medium rare.  Skerið svo í eins þunnar sneiðar og þið getið og látið liggja í marineringunni.  Hún er einföld, setjið kikkoman soyasósu  (1 dl), safa úr 1,5 límónum, ólífuolíu (1dl), 2-3 mtsk púðursykur, niðurskorinn grænn eða rauður (fallegri) chili pipar og helling af gróft skornum kóríander í skál og hrærið vel, hellið svo yfir nautakjötið og látið standa. 

Hin leiðin er að skera hrátt kjötið í þunnar sneiðar og láta liggja í marineringunni og svo bara steikja örstutt áður en borið er fram.

wp-1578429808328.jpg

Tvenns konar salsa

Þetta er bara einfallt, skerið allt niður sem fer í mangosalasa og avocadosalsa og setjið í tvær skálar.  Mangosalsa er með nautinu, avocadosalsa með rækjunum.   Takið svo rauðlauk og skerið í tvent.  Skerið svo einn helminginn í þunnar sneiðar. Leggið sneiðarnar í litla skál og kreistið límónusafa yfir.  Svo smá salt (1/2 tsk) og 1/2 til 1 tsk sykur.  Látið liggja þar til allt er klárt.

Kóríandersósa

Við breyttum uppskriftinni aðeins, okkur fannst í raun lítið kóríander bragð af þessu, þannig að við notuðum mun meira kóríander og líka kóríanderkrydd.  Líklega enduðum við með 2-3 lúkufyllir af ferskum kóríander og ca 1 tsk kóríanderkrydd.  Við bættum líka 1 pressuðum hvítlauksgeira við og svo er safi úr límónu, ca 2 mtsk og ein dós af sýrðum rjóma.  Allt sett í nutri bullet eða svipað og maukað í drasl.

Framreiðslan

Þið gætuð græjað tortilla deigið einhvers staðar þarna inn á milli, það þarf að standa í 15 mín.  Sem sagt setjið 250g maís hveiti í skál, smá salt, um 1-2 tsk og svo hellið þið heitu vatni saman við þar til þið náið þessu saman í kúlu sem líkist helst dótaleir.  Ef of þurrt þá bætið þið vatni við, ef of klístrað þá þarf meira hveiti.  Ég endaði með um 340ml af vatni.  Myndið kúlu og setjið matarfilmu yfir og látið standa í um 15 mín.  Ég veit ekkert afhverju.   Loks myndið þið litlar kúlur, mér fannst hæfilegt að miða við eins og lítil egg.
Setjið bökunarpappír milli deigs og pressu og pressið eins og vindurinn.  Kökurnar ættu að enda á stærð við kökudisk eða aðeins minna.

Pennslið aðeins með ólífuolíu og steikið í um 3 mín á hvorri hlið eða þar til þetta er farið að líta almennilega út, brúnir blettir hér og þar.

wp-1578440340567.jpg

Fyrir rækjutacho setjið þið avocadosalsa á kökurnar, leggið tvær rækjur ofan á það og loks kóríandersósuna yfir.

Fyrir nautatacho er það mangosalsa, leggið 3-4 ræmur af kjöti ofaná, smá rauðlauk og njótið.

Pörunin

Þetta tacho er heldur bragðmikið, bæði nautið og rækjan eru dálítið spicy og það sama má segja um mangosalsaið.  Kóríandersósan er heins vegar létt og „köld“ með léttri sýru sem kemur vel á móti brunanum og svo er safaríkt mangoið og mjúkt feita avocadoið að gera skemmtilega hluti og jafna þetta allt út.  Bjórinn með þessu má vera bragiðmikill því hann þarf að þola þetta allt og ekki verra ef hann tengir við það hráefni og bragð sem við erum með.  Bjórinn gæti líka verið eitthvað sem myndar andstæður við hráefnin.
Það væri reynar frekar klassískt en dálítið leiðinlegt að velja einhvern mexíkanskan létt lager á borð við Corona með límónu í.  Ég er ekki að segja að það kæmi illa út, mig langaði bara að gera eitthvað meira spennandi.

Í kvöld valdi ég Úlfey frá Borg Brugghús en þetta er afskaplega ljúffengur 7,5% New England IPA og er um þessar mundir í sérlegu uppáhaldi hjá mér þegar kemur að íslenskum bjór.  Bjórinn er í senn beittur en líka safaríkur og mjúkur eins og öflugur ávaxtasafi með keim af suðrænum ávöxtum.  Ávaxtabragðið í bjórnum kemur ofsalega vel út með þessu tachoi, mangoið og jafnvel avocado tengja mjög vel við bjórinn hvað þetta varðar.  Þó svo að um New England bjór sé að ræða býr hann yfir smá beiskju en beiskjan togar dálítið í chili keiminn í matnum og magnar dálítið upp.  Bæði þessi tacho eru mikið kóríander baseraðir en mér hefur alltaf þótt IPA eiga sérlega vel við kóríander, ég veit ekki hvað það er en það smellpassar.   Loks er það karamellumaltið í bjórnum en sætan þar tengir vel við bæði maís tortillurnar og maísinn í avocadosalsainu.

Þessi pörun kom betur út en ég hafði reiknað með og hvet ég ykkur til að prófa.  Vá!

wp-1578440698892.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s