Djúpsteiktar Eldfjallarisarækjur Með Sætri Chilly Majósósu

Ok, þessar eru algerlega geggjaðar! Tekur nokkrar mínutúr að gera. Djúpsteikt vissulega en það er bara allt í lagi, smá spari bara. Allt sem er djúpsteikt er bara gott held ég svei mér þá. Ég væri jafnvel til í að prófa djúpsteiktan þorramat. Maður borðar bara salat á móti ekki satt?

En ok vindum okkur í þetta.

Það sem þarf

  • Risarækjur, ekki foreldaðar. Magn fer eftir græðgi
  • Maíshveiti til að velta rækjunum uppúr
  • AB mjólk eða súrmjólk til að velta rækjunum uppúr
  • Ca 1 dl gott majones
  • Ca 0,5 – 1 dl sriracha sósa
  • Ca 1 dl sæt chillisósa
  • Salt og pipar
  • Hvítlauksduft
  • Olía til að djúpsteikja uppúr
  • Smá ferskur kóríander

Aðferðin

Hitið olíu í djúpsteikingarpotti, eða djúpri pönnu. Saltið rækjurnar, smá hvítlauksduft líka og piprið. Setjið svo rækjurnar í skál og veltið uppúr AB mjólk eða súrmjólk. Þegar olían er orðin heit þá veltið þið rækjunum uppúr maíshveitinu, hér viljum við hjúpa rækjurnar vel af hveitinu. Ég hef fengið maíshveiti í Fiska en Sigrún mín segir að það sé nú til víða. ATH, þetta er ekki maizenamjöl sósujafnari.

Djúpsteikið í 3-4 mínútúr, saltið svo strax á eftir og látið aðeins kólna. Blandið saman ca 1 dl majonesi, 1 dl sætri chillisósu og 0,5-1 dl sriracha sósu. Smakkið þetta bara til. Veltið svo rækjunum uppúr sósunni og berið fram með ferskum kóríander.

Dóttir mín var alveg í skýjunum þegar hún smakkaði þetta og sagði þetta minna mikið á eldfjalla sushirúllurnar ef þið þekkið þær frá Tokyosushi. Við ákváðum því að skýra þessar rækjur eldfjallarækjur.

Pörunin

Hér kemur margt til greina, það er t.d. Geggjað að para þetta við West coast IPA en brakandi ferskur lager eða pilsener er líka geggjaður með þessu. Jafnvel spicy saison.

Færðu inn athugasemd