Pizza er mest borðaði matur á heimsvísu enda góður matur og möguleikarnir nánast endalausir þegar kemur að áleggi. Ég hef skrifað um pizzagerð áður og ætla ekki að kafa of mikið í það hér en það er þó mikilvægt að taka það fram að hráefnið sem þú notar er það allra mikilvægasta. Ef hráefnið er bara svona la la þá verður pizzan aldrei meira en það. Mér finnst deigið vera það mikilvægasta, það er svo stór hluti af pizzunni og þvi mikilvægt að gera gott deig eða kaupa gott tilbúið deig.
En svo er gaman að gera tilraunir, prófa eitthvað nýtt. Hér er ein sem ég gerði í vikunni, hún var geggjuð og mun ég klárlega gera hana aftur.
Það er gaman að gera pizzur sérstaklega þegar maður er búinn að koma sér upp góðum pizzaofni. Það eru nánast allir glaðir, alltaf þegar pizza er borin á borð. Ég nota pizzuna oft til að grisja úr ísskápnum, finn til það sem gæti gengið saman og hendi á pizzuna. Það er gott að eiga samt alltaf til Mutti tómata í dós en úr þeim má gera geggjaða pizzasósu, ekki nota tilbúna sósu það munar bara svo ofsalega miklu. Smá salt og pipar, kannski oregano og fersk basilica, hrærið þetta saman og ef þið eigið tómat púrré má nota það til að þykkja.
Ég kalla þessa suður amerísk corndip ostapizza því fyrirmyndin er Mexíkósk maís ostadýfa sem er algerlega mögnuð. Mig langaði að prófa að gera pizza útgáfu af þessari snilld og viti menn, “home run”.
Það sem þarf fyrir rúmlega 1 pizzu
- 1 mtsk chili duft
- 1 tsk reykt papríka
- 1 tsk cayenne pipar
- Hálfur laukur skorinn smátt
- 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
- 2 ferskir maískólfar
- Salt og pipar
- 80 g smjör
- Rjómaostur eftir smekk
- 1/2 bolli majones
- 1 mtsk safi úr límónu
- Ferskur kóríander
- Rifinn parmesan, ca bolli
- 1 dós Mutti tómatar (þetta dugar reyndar í rúmlega tvær pizzur)
- Fersk basillika, ef þið eigið
- Pizzadeig
- Rifinn cheddar ostur
- 1 kúla af Mozzarella
- Nachos ostaflögur
Aðferðin
Blandið saman kryddunum, 1 mtsk chili duft, 1 tsk reykt paprika, 1 tsk cayenne pipar, salt, og má nota smá chili korn til að fá smá power í þetta. Græjið svo brúnt smjör, setjið 80 – 100g smjör í pott og látið malla þar til orðið brúnt og farið að freyða. Þið eigið líka að finna þessa notalegu hnetu karamellu lykt af smjörinu. Bætið þá alveg tsk af kryddblöndunni samanvið og smá salt og leggið til hliðar.
Skerið hálfan lauk smátt og mýkið á pönnu í smjöri og olíu. Pressið svo 3 hvítlauksgeira og bætið á pönnuna. Takið utan af maískólfunum, skerið kornin af, þið eigið að vera með alveg bolla af kornum, ef þið eruð á hraðferð þá má nota maís í dós, en það er samt ekki eins magnað. Bætið þessu við laukinn og látið malla þar til maís er orðinn mjúkur. Bleytið í þessu með brúna smjörinu. Smakkið þetta svo til og kryddið eftir smekk.

Gerið svo pizzasósuna eins og þið eruð vön. Blandið saman 1/2 bolla af majonesi við 1 mtsk límónusafa og setjið í sprautuflösku. Fletjið út deigið. Dreifið pizzasósu yfir, ekkert of mikið samt. Slítið í sundur mozzarella og dreifið yfir, dreifið svo maísblöndunni yfir deigið líka. Magn fer eftir hvað deigið þolir, of blautt getur skapað vandræði, ég var með vel blautt álegg en gott deig svo það slapp vel. Rífið slatta af parmesan yfir þetta og loks rjómaostaklípur eftir smekk.
Eldið pizzuna eins og þið gerið venjulega, þar til álegg er bráðnað og botninn kominn með fallegt hlébarðamynstur. Takið pizzuna út, helling af ferskum kóríander yfir og loks sprautið þið límónumajonesinu yfir. Myljið loks Nachos flögur yfir og njótið. Flögurnar gera þetta stökkt og nett því þessi pizza er dálítið blaut og safarík annars.
You must be logged in to post a comment.