Paella með kjúkling og pylsu

Paella er skemmtilegur og frábær réttur sem gleður alla. Það er gaman að bera á borð risavaxna pönnu fulla af kræsingum. Það er líka gaman að elda paella, allt á einni pönnu. Paella er frá Spáni, nánar tiltekið frá Valencia og í raun má ekki kalla allt paella, það er víst ekki alveg sama hvað maður setur á pönnuna. En mér er alveg sama hvað maður kallar þennan rétt, bara að þetta sé gott.
Segja má að paella sé spænska útgafan af risotto, eða alla vega þannig hugsa ég það.

Það er smá kúnst að elda “grjónin to perfection” við viljum ekki enda með grjónagraut, grjónin þurfa að vera ögn stökk, al dente, en alls ekki of hörð. Svo þarf maður að ná smá bruna eða karamelluáferð í botninn, socarrat kalla Spánverjar það. Þetta er algjört lykilatriði því socorrat gefur ekki bara áferð heldur líka ákveðið bragð. Paella á þannig að vera lagskipt, fullkomin grjón efst og svo þessi karamelluáferð neðst, það má því ALDREI hræra í paella nema alveg í blá byrjun.

Aðferð

Ég er langt frá þvi að vera sérfróður í paella en ég hef gert þetta nokkrum sinnum og þetta er farið að verða ansi gott hjá mér. Hér koma basic leiðbeiningar eins og ég verið að gera þetta. Neðar er svo uppskriftin af þeirri sem við vorum með síðast. Gott að allt sé klárt, grænmeti skorið niður, protein skorið í hæfilega bita og krydd sé tilbúið blandað saman áður en byrjar er að elda því stundum þarf hraðar hendur þegar pannan er farin að hitna.

  1. Fyrst er að útbúa soðið, það er frábært að gera það frá grunni með grænmetisafgöngum en það má alveg nota kjúklingakraft og blanda í vatn. Við höfum gert bæði og höfum svo sem ekki orðið vör við mikinn mun. Soðið þarf að vera heitt og því gott að láta standa við pönnuna en þannig helst það heitt frá hitanum unand pönnunni.
  2. Kveikjið undir pönnunni, ekki kannski alveg á mesta hita, oft er hægt að hafa lægri hita í jöðrunum á pönnunni en það er betra. Setjið olíu yfir alla pönnuna.
  3. Skerið niður grænmetið, t.d. Papríku, lauk, hvítlauk, sveppi ofl sem þið viljið og mýkið á miðri pönnu. Passa að brenna ekki hvítlaukinn. Færið svo grænmetið út í kantana
  4. Næst er það próteinið, brúnið það á miðri pönnu. Það má alveg stelast til að krydda smá hér líka. Ekki fullelda próteinið samt. Færið svo út í kant með grænmetinu
  5. Setjið svo kryddblöndu á miðja pönnuna og steikið aðeins, ca 1 mínúta eða svo.
  6. Bætið svo tómatpúrru saman við kryddin (ef þið eruð með slíkt) og blandið svo öllu saman á pönnunni. Færið svo aftur út í kant.
  7. Grjónin koma næst, steikið þau stutt á miðri pönnu, 1-2 mín og blandið svo saman við allt sem er á pönnunni. Hellið vel af soðinu yfir og blandið vel saman og dreifið svo jafnt úr öllu yfir alla pönnuna. Hér er mikilvægt að pannan halli ekki þannig að soðið myndi polla.
  8. Svo er bara að láta malla, þegar suðan kemur upp þá lækkið þið hitann niður í lægsta hita og látið malla. ALLS EKKI hræra neitt í grjónunum eftir þetta. Fylgist með, bætið soði við þegar vökvi er nánast horfinn inn í grjónin.
  9. Nú er það socarrat skrefið. Þegar grjónin eru tilbúin, sem sagt orðin mjúk með smá biti í samt þá hækkið þið undir og látið krauma í amk 2-3 mínútu á hæsta hita. Mögulega lengur en þið lærið inn á ykkar pönnu. Takið svo af hitanum og látið standa í 3-5 mínútúr áður en borið er fram. Hér viljum við aðeins brenna grjónin neðst þannig að þau verði karamelluð og stökk.
Socarrat

Svo er bara að prófa sig áfram með hráefni. Þessi hér er afar vinsæl á okkar heimili. Paella með kjúkling og chorizo pylsu

  • 1 kg kjúklingalærkjöt, úrbeinað
  • 3-4 hvítlauskrif pressaðir
  • Ólífuolía, ca 2 dl
  • 1 papríka smátt skorin
  • 2 mtsk paprikukrydd
  • 1 mtsk reykt papríka
  • 2 mtsk rósmarínkrydd
  • 1 askja sveppir skornir gróft
  • 1 sterk pylsa, skorin í bita, ekki sneiðar.
  • 1 dl tómatpúrra, eða aðeins meira
  • 500 g paellugrjón
  • Kjúklingasoð, ég nota alltaf alla 2 lítrana og jafnvel meira
  • 1-2 Lime, skorið í báta, til að kreista yfir hver fyrir sig

Hér er gott að steikja fyrst pylsuna, þá nær maður úr henni olíunni og bragðinu sem svo kryddar kjúklinginn þegar þið steikið hann.

Klístraðir kóreskir kjúklingavængir

Ég ætla nú ekki að taka neinn sérstakan heiður af þessari uppskrift, ég fór bara á netið og fann eitthvað. Þær eru nú samt allar frekar svipaðar. Ég fylgdi samt ekki uppskriftinni alveg og ég breytti aðeins hlutföllum. Útkoman var alveg mögnuð.

Það sem þarf fyrir 4-5

  • Kjúklingavængir, 3 bakkar
  • Stórt stykki af ferskum engifer, rifinn fínt
  • Maíshveiti, 100 g
  • Jurtaolía til steikingar
  • Sesam fræ og niðurskorinn vorlaukur

fyrir sósuna

  • Púðursykur, 12 mtsk
  • Soyasósa 5 mtsk
  • 5 mtsk gochujan eða kóresk chili pasta
  • 3-4 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • Lítill ferskur engifer biti, rifinn (stærð eftir smekk bara)
  • Sesamolía 4 tsk

Aðferð

Takið vængina og skerið krípí skrítna endann af sem líkist litla fingri af hverjum væng fyrir sig. Fargið þessum afskurði. Skerið svo vængina aftur í sundur við næstu liðamót þannig að þið endið með tvo bita úr hverjum væng.

Setjið vængina í stóra skál, saltið og piprið og blandið rifna engiferinu saman við. Veltið svo vængjunum uppúr maíshveitinu (um 100 g) þannig að það hjúpi vel vængina.

Komdu svo olíunni af stað í djúpsteikingapotti, ef þú átt það ekki er hægt að nota pönnu. En þá þarf olían að ná um 2 cm upp á hliðarnar.

Nú er ágætt að byrja á sósunni. Takið fram pönnu, stillið á meðalhita. Setjið 12 mtsk púðursykur, 5 mtsk soyasósu, 5 mtsk chili pasta, 4 tsk semsamolíu, rifna engiferið og 3 pressaða hvítlauksgeira á pönnuna. Blandið vel saman og látið malla.

Svo er það steikingin. Djúpsteikið kjúklinginn á 190 gráður í ca 11 mínotur. Takið stöðuna á einum bita, mögulega þarf 12-13 mín. Ef þið eruð með pönnu þá steikið þið kjúklinginn í olíunni í um 4-6 mín og snúið svo bitunum og steikið í aðrar 4-6 mín.

Látið bitana kólna á eldhúsbréfi í um tvær mín. Nú ætti sósan að vera orðin dálítið eins og síróp. Veltið bitunum uppúr sósunni og setjið í skál. Skreytið með vorlauknum og sesamfræum og rífið þetta svo í ykkur. Notið puttana, anna er erfitt.

Með þessu þarf að vera einhver nettur, létt beiskur bjór, eins og pale ale eða amerískur IPA. Úlfur frá Borg er t.d. Svakalega næs með þessu!

Hunangs, lime sriracha kjúklingaspjót með brakandi lager bjór

Það er komið sumar og þá vill maður dusta rykið af grillinu og græja eitthvað gott. Í dag er brakandi blíða, pallurinn klár og konan með óskir um eitthvað gott og sumarlegt. Ég var alveg lost en langaði að gera eitthvað einfalt en samt eitthvað sem virkaði eins og ég hafði lagt mikla vinnu í það. Ég datt niður á þessa uppskrift af netinu. Ég man ekkert hvaðan þetta kom. Útkoman var svakalega góð og ég held að hér sé kominn kjúklingaréttur sumarsins en ég mun pottþétt bjóða vinum og vanda í þetta í sumar.

Það sem þarf fyrir ca 5

  • tveir bakkar af kjúklingarlærum, úrbeinuðum
  • 6 mtsk soya sósa
  • 1/2 bolli hunang
  • 2 mtsk ólífuolía
  • 2 tsk rifinn límónubörkur
  • 6 mtsk safi úr límónum
  • 8 hvítlauskgeirar, gróft skornir
  • slatti af ferskri engiferrót. Skræld og skorin niður í kubba. ca 65g
  • 3 mtsk sriracha sósa
  • 1,5 tsk salt
  • ferskur kóríander, slatti, til að skreyta
  • límónu sneiðar til að skreyta með og kreysta yfir

Kóríander, límónu og basilicu sósa

Þessi er geggjuð með, sjá nánar hér!

Aðferð

Hreinsið kjúklinginn, klippið burt hvítu ljótu fituna. Skerið í minni bita sem ykkur finnst hæfilegt á spjótin. Leggið til hliðar.

Setjið soya sósu, hunang, ólífuolíu, rifinn límónubörk, límónusafa, hvítlauk, sriracha engiferrót og salt í „blender“ og maukið í drasl eða þar til þið eruð með alveg mjúka og fína blöndu. Takið frá ca dl í könnu. Þetta hitið þið upp alveg í lokin og notið sem sósu. Leggið kjúklinginn í þessa marineringu og inn í ísskáp helst í 5 tíma eða lengur.

Leggið grillspjót í bleyti. Hitið svo grillið, ekki hafa það of heitt samt. Þið finnið útúr þessu. Þræðið loks bitunum uppá grillspjótin, gott er að lauma rauðlauk með, sveppum og pariku inn á milli. Skellið þessu svo á grillið. Fylgist með, snúið spjótunum reglulega til að fá jafna áferð.

Gott er að hafa ferskt salat með, t.d. klettasalat og spínat með bláberjum, jarðaberjum, furuhnetum og fetaost, og auðvitað góðri ólífuolíu.

Þegar kjúklingurinn er tilbúinn, raðið þið spjótunum á fallegan bakka eða brauðbretti, skreytið með kóríander yfir og heilum kóríander greinum til hliðar. Kreistið límónusafa yfir kjúklingaspjótin. Skerið niður nokkra límónubáta og skreytið með þeim.

Hitið afganginn af marineringunni sem þið tókuð til hliðar og hellið yfir kjötið.

Pörunin

Hér gæti maður farið í flottan basic west coast IPA með notalegum sítruskeim frá humlunum og beiskju sem dálítið magna upp kryddin í réttinum en elegant og heiðarlegur ljós lager kemur líka svakalega vel út. Lagerinn er nógu látlaus til að taka ekki yfir en samt með karakter og þrótt til að halda velli. Ofsalega flott pörun.

Kjúklingur 65, besti kjúklingur sem þú smakkar á árinu

Kjúklingur er ágætt hráefni og það er sannarlega hægt nota hann í stórkostlega rétti. Þessi réttur er svo magnaður að ég er sannfærður um að þetta verði besti kjúklingaréttur sem þú munt smakka á þessu ári. Ég elska að djúpsteikja allan andskotan, þegar ég sá nafna minn Ragnar Frey (Læknirinn í Eldhúsinu) gera þetta einhvern tíman á instagram þá varð ég bara að prófa. Eða í raun var það Sigrún mín sem eldaði og þetta var alveg magnað. Krakkarnir okkar elska þetta en þau kalla þennan rétt rauða kjúllann.

Sigrún hefur eldað þetta nokkrum sinnum en nú langaði mig að prófa. Uppskriftin er á síðunni hans Ragnars en fyrir mig sem þarf að hafa allt mjög skipulagt og einfalt uppsett þá fannst mér dálítið erfitt að lesa mig í gegnum hana. Ég ákvað því að skrifa þetta upp til að auðvelda mér verkið næst þegar ég elda þetta því það verður svo sannarlega gert oft, krakkarnir einfaldlega krefjast þess.

Ég er svo aukalega með döðlu raita og saffran hrísgrjón sem passa svakalega vel með!

Það sem þarf fyrir 6

Fyrir marineringu

  • 1.4 kg Kjúklingalæri úrbeinuð (tveir bakkar)
  • 1 dós grísk jógúrt (350ml)
  • 2 sítrónur, safinn
  • 2 egg
  • 3 mtsk túrmerik
  • 3 mtsk garan masala
  • 3 mtsk paprikuduft
  • 2 mtsk chiliduft
  • 1/2 – 1 mtsk chiliflögur, fer eftir hversu sterkar þær eru
  • 2 mtsk svartur pipar
  • 1 bolli maísmjöl
  • 3 mtsk engifermauk
  • 3 mtsk hvítlauksmauk
  • 50 mll rauðrófusafi
  • salt
  • 2-2,5 L djúpsteikingarolía

Fyrir sósuna

  • 1 dós grísk jógúrt (350 ml)
  • 50 ml rauðrófusafi
  • 5 mtsk tómatsósa
  • 2 mtsk sæt chilisósa
  • 2 mtsk sriracha sósa
  • salt og pipar eftir smekk
  • 1 grænn chili, skorinn fínt
  • 10-15 karrílauf, má sleppa, nota þá ca tsk karrí í staðinn
  • 1 mtsk engifermauk
  • 1 mtsk hvítlauksmauk

Döðlu raita

  • 1 dós grísk jógúrt
  • 1/2 búnt kóríander, saxað
  • 1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 15-20 steinlausar döðlur, skorið smátt
  • salt

Allt hrært saman í skál

Saffran Hrísgrjón

  • 5 dl basmati hrísgrjón
  • 1 L vatn
  • 1 mtsk isio 4 olía eða 2 mtsk ghee
  • 1/2 – 1 tsk saffran þræðir
  • 1/2 sítróna, bæði hýði og safi
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk brún sinnepsfræ (fæst í Fiska)

Aðferð

Marinering

Byrjið á að skera kjúklingalærin í hæfilega bita. Ég fékk 4 bita úr hverju læri t.d. Finnið til stóra skál og setjið kjúklinginn í hana. Þvínæst er öllum kryddunum, jógúrti, sítrónusafa, rauðrófusafa, eggjum og öllu því sem ég er líklega að gleyma að telja upp, bætt í skálina. Svo er bara að hnoða þetta eða blanda vel saman með höndunum. Látið standa í 2-3 klst eða lengur.

Sósan

Takið til skál, hrærið saman 1 dós af grískri jógúrt, 50 ml rauðrófusafa, 5 mtsk tómatsósu, 2 mtsk sæta chilisósu, 2 mtsk sriracha, salt og pipar eftir smekk. Skerið chili smátt, hitið olíu á pönnu og steikið svo aðeins chili, engifermauk, hvítlauksmauk og karrí. Hellið svo sósunni út á pönnuna og hrærið saman. Smakkið til með salti og pipar. Sósan er þá í raun tilbúin en svo er þetta hitað upp með kjúklingnum á eftir.

Hrísgrjónin

Gott er að koma hrísgrjónunum af stað áður en byrjað er að djúpsteikja. Setjið vatn í pott (1 L) og látið suðuna koma upp.  Bætið við rifnum sítrónuberki og safa (1/2 sítróna) út í vatnið ásamt saffran þráðunum og látið renna saman í 5 mín.  Á meðan notið þið tíman og setjið olíuna eða ghee í pott og náið upp hita.  Setjið sinnepsfræin varlega útí en passið ykkur þau geta poppað og þá slettist á ykkur heit ólían.  Hrærið í fræunum stöðugt í 30-40 sek, bætið svo þurrum hrísgrjónumum útí pottinn og blandið við fræin í 1-2 mín.

Bætið þvínæst hrísgrjónunum ásamt salti (1 tsk) út í saffran vatnið og hrærið létt saman og setjið svo viskastykki yfir pottinn og lok yfir og látið malla í 10 mín.  Ekki bullsjóða.  Forðist að hræra mikið svo þið brjótið ekki grjónin.  Þvínæst slökkvið þið á hitanum og látið pottinn standa í aðrar 10 mínútur.

Djúpsteikingin

Notið djúpsteikingarpott ef þið eigið. Hitið um 2 L olíu upp í 170 – 180 gráður. Djúpsteikið svo kjúklinginn í ca 4 mínútur. Kannið hvort þetta sé eldað í gegn, ef ekki þá bætið þið við mínútu ef þarf. Látið svo standa á ofngrind og kólna. Hér er fínt að henda í raita en það er alveg ómissandi með. Þetta mun slá í gegn við matarborðið. Skerið dölurnar og kóríander smátt og hrærið svo bara öllu saman í skál. Smakkið til með salti.

Naan brauð

Það verður að vera naan með til að þurrka upp þessa geggjuðu sósu. Við höfum gert ýmsar útgáfur, en Sigrún mín hefur verið dugleg að prófa sig áfram. Ég held samt að hveitikökuuppskriftin mín (tortilla) komi best út með þessu. Mótið hvert naan að vild en hafið kannski deigið aðeins þykkara en þegar gert er tortilla. Staflið naan brauðunum upp og pakkið inn í álpappír.

Þegar allt er klárt þá setjið þið kjúklingabitana út í sósuna og veltið vel saman þannig að bitarnir hjúpist alveg. Hitið aðeins upp þessa blöndu en ekki sjóða eða steikja. Skreytið með ferskum kóríander og berið fram.

Þetta er dálítið sterkt en alls ekkert sem rífur of mikið í. Mér finnst best að para indverskt með flottum premium lager, amk þennan rétt hér. Sætan í lagernum dempar dálítið brunann frá chili-inu, kolsýran og létt beiskjan opna upp sósurnar og létta á öllu. IPA gengur líka en þá þarf maður að vera tilbúinn í að bruninn í matnum verði meira áberandi.

Parmesan kjúklingur, eða Chicken Parmesan, mögulega það besta í kjúkling?

Ég veit ekki afhverju ég hef ekki hent þessari uppskrift hér inn fyrr því ég gríp alltaf annað slagið í hana þegar ég er alveg lost með hvað á að vera í matinn, og ég er alltaf jafn upprifinn.  Þvílík veilsa sem þessi einfaldi kjúklingaréttur er.   Reyndar veit ég að hluti ástæðunnar er að mér hefur enn ekki tekist að taka mynd sem undirstrikar þann elegans sem bragðlaukarnir fá að njóta.  Þið verðið bara að afsaka það.  Gordon Ramsay kallar þetta chicken parmesan en rétturinn er líka kallaður chicken Milanese ég kalla hann bara parmesan kjúlla.

Alla vega, þessi réttur er sára einfaldur en ef þið bjóðið einhverjum í þetta munuð þið skora hátt.

Það sem þið þurfið (fyrir 4 svanga)

  • 4 kjúklingabringur
  • 2 poka af mozarella osti, skorinn í sneiðar
  • nokkur basil lauf
  • 3 egg
  • Panko rasp, ca 100-110g
  • hveiti, nokkra deselitra til að velta bringunum uppúr
  • 4 msk af rifnum parmesan osti
  • 2 hnefafyllir af spagetti, eða bara eins og þið viljið
  • 1/2 tsk reykt papríkuduft
  • salt og pipar

fyrir marinara sósu

  • 2 dósir hakkaðir tómatar
  • 1 lítil dós tómat purée
  • 1 msk þurrkuð basilika
  • 2 pressuð hvítlauksrif
  • 1 msk timian krydd
  • salt og pipar eftir smekk
  • 1/4 tsk chiliduft
  • 2-3 skalottlaukar smátt skornir
  • 1/2 dl rjómi

 

Aðferðin

Brjótið 3 egg í fat og pískið saman, hellið hveiti í annað fat og í það þriðja um 100g Panko rasp, 1/2 tsk reykt papríkuduft, salt og pipar og rífið svo um 4 msk af parmesan osti og blandið vel.

Gerið marinara sósu klára.  Hitið olíu á pönnu og skerið 2-3 skallotlauka í smátt og bætið útá pönnuna, pressið hvítlauksrifin 2 yfir og bætið basiliku og timian kryddunum samanvið. Mýkið þetta saman. Því næst bætið þið 2 dósum af hökkuðum tómötum og einni lítilli dós af tómat púrée útá pönnuna og hrærið saman og látið malla.  Chiliduft, salt og pipar eftir smekk.  Gott er að sletta smá rjóma útá til að gera þetta meira djúsí.  Látið svo malla bara á lagúm hita

Takið hverja bringuna og skerið eftir endilöngu til helminga þvert yfir nánast alla leið þannig að þið getið opnað hana eins og bók.  Leggið svo bringurnar á smjörpappír og leggið svo aðra örk af pappír yfir og lemjið með kökukefli þar til bringan er orðin um 5 mm þykk.  Nú hefur bringuopnan aukið flatarmál sitt verulega ekki satt?  Þá eruð þið að gera þetta rétt.  Mynd að ofan er ein bringa, opnuð eins og bók!

Takið svo hverja bringu og veltið uppúr hveitinu, dustið svo af og drekkið í eggjunum, látið renna af og veltið svo upp úr raspinu vel og vandlega.  Raspið á að hylja alla bringuna.  Bankið svo ofan á bringurnar þannig að raspið pressist inn og festist.

Olía á pönnu, ca 2 msk, vel heit en ekki blússandi.  Steikið svo hverja bringu á hvorri hlið þar til raspið er orðið gullin brúnt.  Gott er að handa smá smjöri á pönnuna til að gera áferðina fallega.

Raðið svo bringunum í eldfast mót eða fat.   Setjið ca 2-3 msk marinara sósu í rönd fyrir miðju og raðið sneiddum mozarella osti yfir.  Hendið þessu inn í ofn við 180gráður þar til ostur er bráðnaður og kljúklingurinn eldaður í gegn.  Þetta er ekki langur tími, ég man ekkert hvað ég gerði, líkl um 10 mín max.

Þegar bringurnar eru komnar í ofn er fínt að setja vatn í pott, salta aðeins og láta suðu koma upp.  Setjið svo spegetti í vatnið og sjóðið þar til það er orðið al dente!

Berið loks fram með nokkrum basil laufum og njótið.

Með þessu væri kröftugt hvítvín gott eða ískaldur saison bjór t.d.

 

Heimagerðir Luisiana Kjúklingastrimlar að hætti Vegamóta (Bastard Brew & Food)

Bastard Brew & Food opnaði um daginn og ég fór aðeins á flug aftur í tímann.  Luisiana kjúklingastrimlarnir á Vegamótum…ohh ef þið hafið smakkað þá þá vitið þið um  hvað ég er að tala.  Vanabindandi andskoti!!! Ég skil ekki afhverju ég hef ekki enn reynt að apa eftir þessu fyrr. Ég ákvað loksins á dögunum að reyna að gera þetta sjálfur því maður kemst jú ekki oft úr húsi með þrjú börn á öllum aldri og allt það.   Frábært að geta bara gert þetta heima í eldhúsinu.  Ég held að árangurinn hafi verið ansi góður.  Sonurinn eldri sem er kjúklinga fíkill og mjög dómharður á slíka rétti var amk í 7. himni.  Ég tek því sem góð meðmæli.  Ég verð að taka það fram að ég googlaði Luisiana Strimlar og lenti á Töddi Brasar.  Þannig að eftirfarandi er byggt á blogginu hans en hann tekur ekki fram nein hlutföll og svo breytti ég BBQ sósunni dálítið.  Ég þekki bloggið hans annars ekki neitt!

Innkaupalistinn (fyrir ca 4):

Fyrir gráðostasósuna.

1 dós sýrður rjómi
Heill blámygluostur
4-5 matskeiðar majones
2-3 hvítlauksgeirar
Salt og pipar eftir smekk

Fyrir BBQ sósuna.

Stubbs Smokey Mesquite BBQ sósa, heil krukka, þessi er svo mögnuð.
Ca 2-3 tsk Sriracha sósa
Maple sýróp eftir smekk, ég slumpaði ca 3 tsk í þetta.

4-5 Kjúklingabringur
2 egg
Brauðrasp
Mc Cormick kryddblanda fyrir Buffalo kjúkling

Humlaður hveitibjór með ss Sólveig frá Borg.  Margt annað gengur líka en þetta er bara svo fullkomin pörun.

Aðferð.
Þetta er með þeim einfaldari.  Hér er aðal atriðið að njóta og para rétt.  Snyrtið kjúklingabringurnar og skerið í grófa strimla, í raun bara eftir smekk.  Setjið eggin í skál og pískið þar til blandast.  Veltið kjúklingastrimlum uppúr kryddblöndunni og drekkið svo í eggjunum.  Látið renna af og veltið svo uppúr raspinu og setjið á ofngrind.  Raðið öllum strimlunum á grindina og svo skellið því þessu í ofn á 200 gráðum. Munið að snúa strimlunum miðja vegu svo þeir verði stökkir á öllum hliðum.  Ég man ekkert hvað ég hafði þetta lengi inni, ég tók bara prufur á strimlana þar til þeir voru tilbúnir.

Á meðan kjúklingurinn er í ofninum græjið þið sósurnar.  Hellið allri BBQ sósunni í skál og blandið svo Sriracha við og sýrópinu.  Dálítið eftir smekk. Þetta á samt að rífa aðeins í.
Setjið svo allt sem fer í gráðostasósuna í „blender“ og maukið vel.  Passið að salta ekki of mikið því osturinn er ansi saltur.

Ég mæli með ofnbökuðum kartöflum eða frönskum með. Ég prófaði tagliatelle pasta hins vegar sem kom ágætlega út.

Þegar kjúklingurinn er tilbúinn drekkið þið honum í BBQ sósunni og setjið á disk ásamt ostasósu og meðlæti.

Pörunin.
Sólveig er þægilegur humlaður hveitibjór frá Borg.  Þetta er ekki nýr bjór en kemur nú með aðeins breyttum áherslum.  Flottur og þægilegur sumarbjór en að mínu mati er sumar  eini tíminn fyrir hveitibjór.  Sólveig er hins vegar dálítið beiskari og líflegri en hveitibjórar eru hefðbundið.  Þessi bjór kemur frábærlega vel út með Luisiana kjúklingnum.  Ég mæli með því að menn prófi þetta heima eða rölti niður á Bastard Brew & Food og kaupi strimla og Sólveigu á krana (var til síðast þegar ég vissi) ef eldamennska vefst fyrir.

BBQ sósan er nokkuð sæt í grunninn og klístruð en svo kemur chili bruninn fram í bakgrunni frá sriracha sósunni og tvinnar allt saman.  Í heildina er hver biti nokkuð sterkur á tungu.   Gráðostasósan er sölt og feit með áberandi hvítlaukskeim.  Þegar BBQ sósan mætir svo gráðostasósunni þá gerist eitthvað í munninum sem ekki er hægt að lýsa, maður verður bara að smakka. Humlaður hveitibjór ss Sólveig er fullkominn með þessu öllu saman, hér erum við með milda áferð frá hveitinu sem pakkar inn brunanum dálítið á meðan beiskjan frá humlunum rífur aðeins upp hitann en einnig tengja humlar vel við saltið og magna það upp.  Kolsýran og beiskjan vinna svo vel saman við að kljúfa rjómakenndu þekjuna sem myndast í gómi frá BBQ sósunnig og gráðostasósunni og létta verulega á þessum rétti.   Bjórinn tengir einhvern veginn allt þetta saman, salt, beiskt og chili hita en karamellukeimurinn frá maltinu í bjórnum elskar líka klístraðar BBQ sósur.  Þetta er virkilega flott pörun.  Ég eiginlega heimta að heyra ykkar álit, þetta er með betri pörunum í langan tíma.

Bjórpæklaður kjúklingur með lárperu- lager salsa í mjúku taco brauði.

Við fengum Gestgjafan til okkar síðasta sumar og þá elduðum við m.a. þennan frábæra rétt, lager- og límónu kjúklinga taco með lárperu og lager salsa. Já svo pöruðum við þetta að sjálfsögðu með bjór, Stella Artois en það má auðvitað vera hvaða lager sem er. Ég held að ég geti svarað fyrir alla sem voru í þessu boði, þetta var stórkostlegt!

Uppskriftina er að sjálfsögðu að finna í blaðinu en ef þið hafið það ekki þá kemur hún hér.

Innkaupalistinn (fyrir 6):

Pækill

1,5 flaska lager bjór
450 ml vatn
5 stk. límónur
5 msk. sykur
5 msk. salt
18 kóríander fræ, mulin
18 piparkorn, mulin
6 hvítlauksgeirar, gróft saxaðir
6 fersk chili-aldin, gróft söxuð
700 g kjúklingabringur
salt og pipar eftir smekk

Mjúkt taco

1 tsk ger
2 msk. olía
3 bollar (ca 7dl) hveiti
4 msk. grískt jógúrt
1 tsk. hunang
1 tsk. salt
3/4 bollar (1 og 3/4 dl) volgt vatn

Lager-salsa

3 þroskaðar lárperur
1 dós maískorn
4 msk. lager bjór
2-3 tsk. salt
2-3 stk græn chili-aldin, fínt söxuð
safi úr 1 límónu
1 búnt ferskur kóríander

Aðferð:
Það þarf aðeins að vera forsjáll hér því kjúklingabringurnar þurfa að liggja yfir nótt í pæklinum. Blandið lagerbjór, vatni og límónusafa í stórt plastílát sem hægt er að loka. Bætið sykri og salti saman við og hrærið þar til allt er uppleyst. Bætið svo restinni af hráefninu saman við. Stingið nokkur göt á bringurnar hér og þar og leggið í pækilinn. Lokið og geymið í allt að 24 tíma í kæli. Daginn eftir takið þið bringurnar úr pæklinum, þerrið þær og grillið á heitu grilli í nokkrar mín. á hvorri hlið eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk. Rífið bringurnar í hæfilega bita og setjið í skál.

Daginn sem veislan fer fram er gott að byrja á mjúka tacoinu. Blandið saman þurrefnunum í skál. Hrærið því næst olíu, hunang, jógúrt og vatni saman og setjið út í þurrefnin. Hnoðið vel og látið hefast í 30 – 60 mín. Því lengur því betra, hér er gott að byrja á að gera lager salsa meðan beðið er. Skiptið deiginu svo niður og fletjið út í hæfilega stórar flatkökur. Hitið olíu á pönnu, stingið svo nokkur göt með gaffli í hverja köku og steikið á pönnunni. Snúið við og steikið á hinni hliðinni þegar loftbólur byrja að myndast. Flott er að fá aðeins brunabletti hér og þar. Gott er svo að leggja brauðið saman svo það myndi hálfmána.

Lager salsa er virkilega gott og hentar í raun með alls konar hráefni, t.d. fisk ofl. Flysjið lárperur og takið steininn úr. Skerið í litla kubba og blandið saman við maískornin í skál. Bætið lagerbjór, salti, chili-aldin og límónusafa út í og hrærið létt. Geymið í kæli þar til allt er klárt.

20180521_105023-02.jpeg

Berið svo fram með því að setja kjúklinginn í taco-brauðið, setjið salsa yfir, svo tvær til þrjár teskeiðar af geitaosti og lokst haug ef ferskum kóríander efst. Þetta er algjörlega geggjað. Kjúklingurinn fær í sig ögn bjórbragð sem smell passar við bjórinn sem við drekkum með.

Pörunin:
Við erum hér með alls konar skemmtilegt bragð, límónu, sýru, chili, salt, kóríander ofl. Geitaosturinn gefur svo alveg einstakt rjómakennt „funky“ bragð með smávegis sýru og jörð. Bæði osturinn og lárpera gæða svo réttinn feitri rjómakenndri áferð. Bjórinn með þessu þarf að geta tekist á við þetta allt saman án þess að skemma bragðið. IPA væri fínn á móti fitunni og tengir vel við saltið en beiskjan er líklega of mikil hér. Lagerinn er hins vegar kjörinn í þetta, hann skapar notalegan bakgrunn sem heldur við en er þó ekki allt of áberandi. Bjórinn dregur fram bjórkeiminn í kjúklingnum og kolsýran léttir á pallettunni og hreinsar geitaostinn af milli bita.