Quesadilla veisla

Það þarf ekki mörg orð hér. Mexikanskt er bara geggjað og skemmtilegt að útbúa. Hér er hugmynd af quesadilla og meðlæti sem hægt er að nota með flestum suður amerískum réttum. Njótið….það væri gaman að tagga okkur ef þið prófið eitthvað af þessu.

Það sem þarf (fyrir ca 6-8)

  • Einn bakki úrbeinuð kjúklingalæri (lærkjöt)
  • 2 tsk chili flögur
  • 2 tsk reykt papriku duft
  • Salt og pipar
  • 3 ferskir maískólfar
  • 1 stór laukur, skorinn gróft
  • 1 ferskur chilli
  • 4 hvítlauksgeirar
  • Ólífuolía
  • 1 bolli salsa verde, t.d. Þessi hér
  • 1/2 maxíkóostur, rifinn
  • 1 bolli rifinn cheddar ostur
  • 1 lúka af ferskum kóríander
  • 10 -12 tortilla kökur
  • Myntulauf og límónur til skrauts

Aðferð

Veltið kjúklingnum uppúr chili flögum, reyktu papríku kryddi, salti og pipar. Magnið fer eftir smekk bara. Setjið bökunarpappír á ofnskúffu, setjið svo kjúllann í miðjuna. Raðið svo grænmetinu í kringum kjúllann. 3 ferskir maískólfar, 1 stór laukur skorinn í grófa bita, einn ferskur chilli eða eitthvað sterkara ef þið viljið, 4 hvítlauksgeirar. Dreifið ólifuolíu yfir, salt og pipar og setjið svo inn í ofn. Bakið við 200 gráður í ca 15 mín eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Takið þá kjúklinginn af plötunni. Hækkið hitann eða setjið á yfirgrill. Grillið grænmetið áfram þar til komið er smá bruni á það. Ekki brenna þetta samt.

Rífið kjúklinginn og setjið á pönnu, skafið kornin af maískólfunum og setjið á pönnuna. Skerið hvítlaukinn, laukinn og chilli í litla bita og bæti því við og hrærið öllu saman. Bætið ca bolla af salsa verde saman við. Fínt að vera bara búinn að gera salsa daginn áður. Hér er svakalega einfalt salsa verde og óskaplega ljúffengt. Rífið svo hálfan mexico ost og einn bolla rifinn cheddarost yfir og blandið saman við og bræðið ostinn saman við. Rífið loks ca lúku af ferskum kóríander yfir þetta allt.

Finnið til tortilla kökur (ekki verra ef er heimabakað), dreifið kjúklingablöndunni yfir og setjið svo kökur yfir. Sem sagt svona samlokur. Olía á pönnu og steikið svo tortilla samlokurnar á báðum hliðum. Skerið svo í fernt og raðið á disk, eða bretti. Skreytið með límónubátum, rifnum parmesan, pækluðum rauðlauk og kóríander eða myntulaufum t.d.

Þetta er gott eitt og sér svo sem en við viljum hafa gott meðlæti með. Hér er dæmi um meðlæti sem gengur mjög vel með. Pæklaður rauðlaukur er líka algert möst.

Pörunin

Ég má til með að benda á þessa pörun en ég held að sjaldan sé hægt að tala um eins flott match. Beiskur og brakandi IPA er öflugur en samt nógu hógvær til að lofa matnum að njóta sín en heldur samt vel velli gagnvart sterkum bragðflækjunum í þessu. West coast IPA og kóríander hefur alltaf einhvern veginn parast mjög vel saman í mínum bókum, þetta tvennt tvinnast saman og myndar alveg nýtt bragð. Það er vonlaust að lýsa þessum dansi með orðum. Prófið bara sjálf. Við mælum með Úlf IPA frá Borg.

Heimagerðar taco hveitikökur (tortilla) – svona á að gera þetta!

Það hafa líklega flestir gert taco veislu einhvern tíman á lífsleiðinni, sumir oftar en einu sinni jafnvel.  Á þessum bæ elskum við taco, það er bara svo dásamlegt og skemmtilegt að prófa alls konar álegg á tortillu kökurnar og sjá hvernig það kemur út.   Möguleikarnir eru endalausir.  Það hefur hins vegar alltaf truflað mig hve hveitikökurnar sem við fáum hér úr búð eru stórar og þykkar ég vil nefnilega hafa þær þunnar og ekki stærri en undirskál.

Ég hef lengi ætlað mér að prófa að gera tortillurnar sjálfur en hef bara ekki laggt í það.  Um daginn ákvað ég hins vegar að slá til, ég fékk mér totillapressu sem er alls ekki nauðsynlegt tæki en auðveldar hins vegar vinnuna töluvert.   Svo hef ég verið að prófa mig áfram undanfarna daga með alls konar aðferðir og hlutföll.  Fjölskyldumeðlimir eru sumir farnir að kvarta, „það er bara alltaf taco í matinn“ heyrðist t.d. frá unglingnum um daginn t.d.  Ég hélt í alvöru að það væri ekki hægt að fá nóg af taco?

wp-1579452430748.jpg

Gott og vel, ég vil meina að nú hafi mér tekist að fullkomna þetta og ætla ég að henda hér fram minni niðurstöðu, þ.e.a.s. hvernig maður gerir fullkomnar, þunnar litlar heimagerðar hveitikökur.

Það sem þarf í ca 20 til 30 taco kökur (fer eftir stærð)

  • hveiti, 370 g
  • salt, 1 tsk
  • lyftiduft, 1 tsk
  • grænmetisolía, 80ml
  • heitt vatn, 240 ml

Aðferðin

Þetta er mun einfaldara en maður heldur, maður þarf samt að prófa sig dálítið áfram.  Setjið allt í skál og blandið saman í hrærivél.  Notið svo hnoðarann á hrærivélinni og náið deiginu saman.  Deigið á að vera aðeins klístrað þannig að það festist aðeins við fingurnar.   Færið deigið á borð, það má vera smá hveiti á borðinu en passa að verði alls ekki of þurrt.  Hnoðið vel saman, alveg góðar 10 mín, bætið smá hveiti eftir þörfum en þetta á að vera alveg á mörkunum á að vera of klístrað.  Þetta er eitthvað sem þið finnið út úr, það verður auðvitað að vera hægt að meðhöndla og vinna með deigið.

Leggið svo í skál og rakt viskustykki yfir og látið standa í amk klst.

Hitið svo pönnu, helst pottajárnpönnu þannig að hún verði alveg blússandi heit.  Deilið deiginu niður í litlar kúlur, við erum að tala um minni en borðtenniskúlur.  Setjið svo tvær litlar bökunarpappírs arkir í taco pressu og deigkúluna á milli.  Pressið svo þannig að þið fáið litla flata köku.   Þetta er of þykkt svona, þannig að þið þurfið að fletja hverja köku enn meira út með kefli, þetta á að vera næfurþunnt, nánast á að sjást í gegn.

Setjið svo kökuna varlega á pönnuna, ef pannan er stór er hægt að gera tvær jafnvel fleiri í einu, enga olíu, ekki pennsla kökurnar með olíu eða setja olíu á pönnuna.  Kökurnar fara bara beint á og þetta á ekki að taka nema nokkrar sekúndur.  Það byrja að myndast litlar bólur í deigið en þá er tímabært að snúa kökunum.  Það ætti þá að vera komnir fallegir brúnir blettir hér og þar á kökurnar.  Svo bara nokkrar sekúndur á hinni hliðinni.

Takið svo kökuna/r af og setjið í álpappír og viskastykki utanum og lokið kökuna inni.  Þetta er mikilvægt, hér fulleldast kakan og heldur mýkt sinni. Svo er bara að endurtaka þetta og bæta kökum í álpappírinn jafn óðum og loka til að halda gufu og hita inni.

wp-1579453902290.jpg

Svo er bara að láta sér detta eitthvað geggjað í hug ofan á þetta, hér er dæmi,rifinn grís og risarækjur t.d. Svo vorum við læknirinn í eldhúsinu, Ragnar Freyr að elda saman í gær, nánar um þá veislu á næstu dögum hér.  En við vorum með djúpsteiktan skötusel ásamt öðru.  Svo pæklaðan rauðlauk, mango chili salsa og kóríander krem og reyndar helling af öðru góðgæti.  Skötuselurinn á mangosalsa paraðist fullkomlega við Sæmund sem er mangobjór frá Borg Bruggús.

 

Maís tortilla með mango-chilli salsa og djúpsteiktum þorskhnakka parað við pilsener

Ég fékk mér nettan djúpsteikingarpott um daginn og hef verið að dunda mér við eitt og annað síðustu daga.  Við erum mjög hrifin af taco og tortilla en gott fiski tortilla er dásamlegt ef vel er gert.  Við ákváðum því að prófa að gera djúpsteikta þorskhnakka með mango-chili salsa á mais tortilla toppað með sriracha majo og kóríander.   Þetta kom ofsalega vel út þó ég segi sjálfur frá.  Svona fiski tortilla þarf bjór sem passar upp á allt og pakkar inn á réttan máta en tekur ekkert frá matnum, bjórinn þarf að lyfta undir öllum bragðflækjunum en rétturinn má samt ekki skemma bjórinn.  Hér er tími fyrir lager og þá helst þýskan eða tékkneskan pilsner en hann er hæfilega beittur og brakandi án þess að búa yfir humalbeiskjunni sem IPA eða pale ale hefur.  Amerískur lager eða premium lager hefur ekki alveg þetta sama bit og brak og þeim hættir til að vera jafnvel nokkuð sætari.   Hér gripum við Brio frá Borg sem er virkilega flottur þýskur pilsner og alveg sniðinn fyrir þennan rétt.  Við notuðum Brio í bæði bjórdeigið utan um fiskinn og svo í salsainu.

Það sem þarf (f 6)

fyrir bjórdeigið

  • 200 g hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 tsk sykur
  • ögn salt
  • 330 ml pilsner

fyrir þorskhnakkana

  • 800g – 1 kg þorskhnakkar
  • 3 egg
  • hveiti til að velta bitunum uppúr
  • 2 L steikingarolía, líklega aðeins meira jafnvel
  • salt og pipar eftir smekk
  • 2 lime til að bera fram
  • maís tortillur, eins litlar og þið finnið

fyrir salsa

  • 1 mango skorinn í mjög litla kubba
  • 1/2 rauðlaukur skorið mjög smátt
  • 2 avocado skornir í smáa kubba
  • 400 g litlir tómatar, skornir smátt
  • 1 rauður ferskur chilli, skorinn í smátt
  • 1 lime, safinn
  • heilt búnt af kóríander
  • 1 dl pilsener
  • salt eftir smekk

Aðferðin

  1. Byrjið á bjórdeiginu, það þarf að standa sem lengst.  Blandið 200 g  hveiti, 1 tsk lyftiduft og 1 tsk sykur saman í skál.  Gerið svo dæld í miðjunni og hellið bjórnum saman við og hrærið vel.  Bætið í bjór þar til þetta er orðið eins og lummudeig eða súrmjólk.  Þynnið með meiri bjór eða þykkið með hveiti ef þarf.  Saltið aðeins í lokin og látið standa
    .
  2. Gerið salsa, skerið allt í smátt og blandið saman varlega í fallega skál.  Ekki of harkalega þá maukast þetta.  Blandið smá bjór saman við og safa úr  heilu lime.  Ekki nota nema bara hluta af kóríander hér því hann verður svo blautur og asnalegur.  Bætið mestu af kóriander saman við rétt áður en borið fram.  Saltið þetta til eins og þið viljið hafa þetta.   Látið svo standa í kæli meðan annað er klárað
    .
    20190413_1706082037740127.jpg
    .
  3.  Skerið þorskhnakkana í ræmur sem líta vel út, t.d. eins og þykkar franskar. Saltið á öllum hliðum og látið bíða, þetta þerrar bitana aðeins. Brjótið 3 egg í skál og pískið til.  Setjið hveiti í aðra skál eða disk, saltið og piprið og hrærið saman og lokst sækið þið bjórdeigið.   Þerrið svo fiskinn með viskastykki.  Veltið svo hverjum bita uppúr hveiti, dustið af og svo velt uppúr eggjahrærunni og loks bjórdeiginu.  Deigið á að leka dálítið af en þarf samt að hanga á bitunum og dekka þá.
    .
  4. Líklega er best að gera bara 4-5 bita í einu, djúpsteikja og láta svo standa á grind og fara svo í næstu 4-5 bita.  Hitið olíuna í 170 gráður og djúpsteikið varlega í ca 5-6 mín eða þar til þetta er orðið gyllt og fallegt.  Best er að bera þetta fram raunar strax eftir djúpsteikingu til að halda þessu heitu og stökku.
    .
  5. Hitið tortillurnar aðeins, setjið salsa ofan á og dreifið úr og svo fiskinn þar ofan á.  Kóríander efst og kreistið smá lime safa yfir.  Loks skreytið þið með srikracha majo og njótið með góðum krispí pilsner.

Pörunin

IMG_8651-001.JPG

Þetta er alveg geggjaður puttamatur, fiskurinn þéttur en mjúkur inní stökku bjórdeiginu og svo kemur ferska salsaið fram á móti með djúsí mango í bland við ögn chilli bruna sem tónast reyndar niður með sýrunni frá lime ávextinum og tómötunum.  Sriracha majoið er svo alveg ómissandi og skapar meira bragð og jafnvægi.  Bjórinn algjörlega kórónar upplifunina, sætan og karamellan frá korninu einhvern veginn pakkar öllu inn en beiskjan frá humlunum oponar svo upp allt saman og einhvern veginn smýgur inn á milli braðganna og dregur þau fram í dagsljósið.  Ef við hugsum út í það þá er beiskjan frá bjórnum (þó látlaus sé) einmitt það sem vantaði, við erum með súrt, sætt,salt og chilli bruna og svo vantaði bara beiskt.   Brio er mjög flottutr í þetta en dettur í hug að Kaldi ljós kæmi líka vel út ef menn eiga hann til. Mikið var þetta gott.