Ég fékk mér nettan djúpsteikingarpott um daginn og hef verið að dunda mér við eitt og annað síðustu daga. Við erum mjög hrifin af taco og tortilla en gott fiski tortilla er dásamlegt ef vel er gert. Við ákváðum því að prófa að gera djúpsteikta þorskhnakka með mango-chili salsa á mais tortilla toppað með sriracha majo og kóríander. Þetta kom ofsalega vel út þó ég segi sjálfur frá. Svona fiski tortilla þarf bjór sem passar upp á allt og pakkar inn á réttan máta en tekur ekkert frá matnum, bjórinn þarf að lyfta undir öllum bragðflækjunum en rétturinn má samt ekki skemma bjórinn. Hér er tími fyrir lager og þá helst þýskan eða tékkneskan pilsner en hann er hæfilega beittur og brakandi án þess að búa yfir humalbeiskjunni sem IPA eða pale ale hefur. Amerískur lager eða premium lager hefur ekki alveg þetta sama bit og brak og þeim hættir til að vera jafnvel nokkuð sætari. Hér gripum við Brio frá Borg sem er virkilega flottur þýskur pilsner og alveg sniðinn fyrir þennan rétt. Við notuðum Brio í bæði bjórdeigið utan um fiskinn og svo í salsainu.
Það sem þarf (f 6)
fyrir bjórdeigið
- 200 g hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 1 tsk sykur
- ögn salt
- 330 ml pilsner
fyrir þorskhnakkana
- 800g – 1 kg þorskhnakkar
- 3 egg
- hveiti til að velta bitunum uppúr
- 2 L steikingarolía, líklega aðeins meira jafnvel
- salt og pipar eftir smekk
- 2 lime til að bera fram
- maís tortillur, eins litlar og þið finnið
fyrir salsa
- 1 mango skorinn í mjög litla kubba
- 1/2 rauðlaukur skorið mjög smátt
- 2 avocado skornir í smáa kubba
- 400 g litlir tómatar, skornir smátt
- 1 rauður ferskur chilli, skorinn í smátt
- 1 lime, safinn
- heilt búnt af kóríander
- 1 dl pilsener
- salt eftir smekk
Aðferðin
- Byrjið á bjórdeiginu, það þarf að standa sem lengst. Blandið 200 g hveiti, 1 tsk lyftiduft og 1 tsk sykur saman í skál. Gerið svo dæld í miðjunni og hellið bjórnum saman við og hrærið vel. Bætið í bjór þar til þetta er orðið eins og lummudeig eða súrmjólk. Þynnið með meiri bjór eða þykkið með hveiti ef þarf. Saltið aðeins í lokin og látið standa
. - Gerið salsa, skerið allt í smátt og blandið saman varlega í fallega skál. Ekki of harkalega þá maukast þetta. Blandið smá bjór saman við og safa úr heilu lime. Ekki nota nema bara hluta af kóríander hér því hann verður svo blautur og asnalegur. Bætið mestu af kóriander saman við rétt áður en borið fram. Saltið þetta til eins og þið viljið hafa þetta. Látið svo standa í kæli meðan annað er klárað
.
. - Skerið þorskhnakkana í ræmur sem líta vel út, t.d. eins og þykkar franskar. Saltið á öllum hliðum og látið bíða, þetta þerrar bitana aðeins. Brjótið 3 egg í skál og pískið til. Setjið hveiti í aðra skál eða disk, saltið og piprið og hrærið saman og lokst sækið þið bjórdeigið. Þerrið svo fiskinn með viskastykki. Veltið svo hverjum bita uppúr hveiti, dustið af og svo velt uppúr eggjahrærunni og loks bjórdeiginu. Deigið á að leka dálítið af en þarf samt að hanga á bitunum og dekka þá.
. - Líklega er best að gera bara 4-5 bita í einu, djúpsteikja og láta svo standa á grind og fara svo í næstu 4-5 bita. Hitið olíuna í 170 gráður og djúpsteikið varlega í ca 5-6 mín eða þar til þetta er orðið gyllt og fallegt. Best er að bera þetta fram raunar strax eftir djúpsteikingu til að halda þessu heitu og stökku.
. - Hitið tortillurnar aðeins, setjið salsa ofan á og dreifið úr og svo fiskinn þar ofan á. Kóríander efst og kreistið smá lime safa yfir. Loks skreytið þið með srikracha majo og njótið með góðum krispí pilsner.
Pörunin
Þetta er alveg geggjaður puttamatur, fiskurinn þéttur en mjúkur inní stökku bjórdeiginu og svo kemur ferska salsaið fram á móti með djúsí mango í bland við ögn chilli bruna sem tónast reyndar niður með sýrunni frá lime ávextinum og tómötunum. Sriracha majoið er svo alveg ómissandi og skapar meira bragð og jafnvægi. Bjórinn algjörlega kórónar upplifunina, sætan og karamellan frá korninu einhvern veginn pakkar öllu inn en beiskjan frá humlunum oponar svo upp allt saman og einhvern veginn smýgur inn á milli braðganna og dregur þau fram í dagsljósið. Ef við hugsum út í það þá er beiskjan frá bjórnum (þó látlaus sé) einmitt það sem vantaði, við erum með súrt, sætt,salt og chilli bruna og svo vantaði bara beiskt. Brio er mjög flottutr í þetta en dettur í hug að Kaldi ljós kæmi líka vel út ef menn eiga hann til. Mikið var þetta gott.
You must be logged in to post a comment.