Magnað geitaostasalat með ristuðum pecanhnetum og fleira

Ég hélt ég væri löngu búinn að skrifa þessa uppskrift hér inn en rak bara augun í það í gær þegar ég var að skrifa um pizzatilraunir mínar að svo var ekk. Ég laga það hér með. Þetta salat er geggjað, jafnvel fyrir þá sem eru ekki mikið fyrir geitaost því osturinn hér er frekar látlaus.

Það sem þarf fyrir ca 4-5

  • Klettasalat, um það bil tveir pokar
  • Rauðrófur, forsoðnar. 2-3 stk, fer eftir stærð
  • Pecanhnetur, heill poki, bakaðar í ofni
  • Rjómageitaostur, Chavroux ein dós
  • Ólífuolía
  • Hunang
  • Salt og pipar
  • Timian og rósmarín
  • Chiliflögur
  • Jarðaber – ef maður vill
  • Pæklaður rauðlaukur – ef maður vill
  • Balsamic edic – ef maður vill

Aðferðin

Skerið rófurnar í grófa bita eftir smekk. Ekki sneiðar samt. Setjið í eldfast mót, veltið uppúr ólífuolíu og kryddið með salt og pipar, timian og rósmarín. Það er eiginlega möst að nota líka chiliflögur, fer eftir styrk þeirra hvað mikið en það má rífa aðeins í. Bakið þetta svo í ofni þar til komið er smá “crust”. Ef þið eruð ekki með forsoðnar þá þarf auðvitað lengri tíma.

Veltið pecanhnetunium, uppúr ólífuolíu og sömu kryddum. Sleppa hér chiliflögunum. Bakið í ofni, alveg í lokin takið þið hneturnar út og veltið uppúr hunangi og aftur inn í smá stund þannig að komi smá karamellu myndun á þetta.

Svo er bara að raða saman salatinu á fallegum disk eða stórri skál. Klettasalat, rauðrófubitar, geitaostaklessur og svo dreifa pecanhnetunum yfir. Loks ólífuolía yfir allt! Við höfum líka prófað að nota balsamic edik í staðinn fyrir ólífuolíu og koma það mjög vel út. Það er nefnilega eiginlega nauðsynlegt að fá smá sýru á móti allri þessari jörð.

Þetta var upphaflega útgáfan, svo má alveg leika sér áfram með þetta. Síðast þegar við gerðum þetta höfuðm við pæklaðan rauðlauk og jarðaber með. Þetta kom alveg svakalega vel út þannig og mun ég líklega halda mig við þá útgáfu í framtíðinni

Heimagert geggjað brokkolísalat

Eins og svo margir þá féllum við algerlega fyrir brokkolísalatinu sem við smökkuðum fyrst frá Sælkerabúðinni fyrir einhverju síðan. Eins og með svo margt sem okkur finnst gott þá var ákveðið að prófa heimagert og viti menn, þetta salat er geggjað og ég skal bara segja það, þetta er betra en fyrirmyndin. Við smökkuðum meira að segja head on okkar vs þeirra og með gestum. Þetta er bara æðislegt með alls konar kjötréttum.

Það sem þarf:

  • Brokkolí, helst íslenskt, það er bara mun betra
  • Hálfur rauðlaukur fínt saxaður
  • Trönuber söxuð, 1 dl
  • Ristaðar furuhnetur, hálfur til einn poki
  • Majones, 1 bolli
  • Sýrður rjómi, 3/4 bolli (næstum því heil dós)
  • Sykur, 2 mtsk
  • Hvítvínsedik, 2 mtsk

Aðferð:

Brokkolí er skolað og skorið fínt, sama með rauðlaukinn (hálfur) og trönuberin (1 dl). Blandið þessu í skál, bætið svo furuhnetum, majonesi (1 bolli), sýrðum rjóma (3/4 bolli), sykri (2 mtsk) og hvítvínsediki (2 mtsk) saman við og blandið þessu öllu saman.

Látið þetta svo standa í kæli í amk klst. Salatið er nefnilega dálítið sætt fyrst en þegar það tekur sig kemur á þetta fullkomið jafnvægi. Ef ykkur vantar samt meiri sýru eða sætu þá bara stillið þið af með ediki eða sykri.

Verði ykkur að góðu!

Lesa áfram Heimagert geggjað brokkolísalat

Kínóa salat með mango, chili, avocado og grilluðum risarækjum og sósur á þrjá vegu

Vá þetta var langt nafn á færslu, mér fannst bara einhvern veginn ekki „rækjusalat“ koma nægilega vel út.  Ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta salat sem við Sigrún settum fyrst saman einn daginn í miðjum covid 19  faraldri en þetta er svakalega gott og sumarlegt salat.  Þetta salat hefur slegið rækilega í gegn í hvert sinn sem við bjóðum gestum uppá þetta.  Lykillinn eru sósurnar sem eru með, sterka flotta sriracha sósan, mín eigin uppfinning kóríander mayoið og svo afsprengi þess, karrí mayoið hennar Yesmine sem varð til þegar við Yesmine elduðum saman og pöruðum íslenskan bjór við indverskan mat.

Þetta er einfalt og fáránlega gott.  Er þetta ekki bara dálítið rauði þráðurinn í mínum færslum?  Mér finnst ég alltaf segja einfalt og gott en þannig er það bara, oft er flókið bara of flókið og útkoman ekkert endilega þess virði.

wp-1591045087329.jpg

Alla vega, hér kemur loks uppskriftin, þökk sé vini mínum Ragnari Frey Ingvarssyni, Lækninum í eldhúsinu en hann óskaði eftir uppskrift eftir að hafa borðað hjá okkur í gær.  Þegar Læknirinn í Eldhúsinu vill uppskrift, þá fær hann uppskrift!

Það sem þarf (fyrir 6-8)

  • 2 bollar kínóa
  • 2 mango ávextir, skornir í bita
  • 3 avocado, skorið í bita
  • 1 og 1/2 ferskur chili, rauður, sneitt í fína hringi
  • 2 öskjur kirsuberjatómatar, skornir í tvent
  • 3-4 maískólfar, grillaðir og maískornin skafin af
  • heil askja ferskur kóríander, amk 3 dl.
  • 1 kg af risarækjum

fyrir marineringuna

  • 400 g grísk jógúrt
  • 4 tsk sriracha
  • 1 mtsk steytt kóríanderfræ
  • 4 tsk chilikrydd
  • 1 tsk salt
  • 1/2 tsk reykt papríka

ATH hér er önnur marinering sem er jafnvel betri.  Já maður er að þróa þetta stöðugt.

fyrir kóríander mayo

  • 2 dl majones
  • 2 hvítlauksgeirar
  • ein askja ferskur kóríander
  • 1 tsk steytt kóríanderfræ
  • ca 2 mtsk mjólk, til að þynna ef þarf

fyrir karrí mayo

  • 2 dl majones
  • 2 hvítlauskgeirar
  • 2 mtsk engiferrót
  • 1/2 mtsk kapers
  • 2-3 litlar súrar gúrkur (pikles)
  • hálfur ferskur rauður chili án fræja
  • 1 tsk salt
  • 1 og 1/2 mtsk gott karrí krydd
  • 1-2 mtsk mango chutney

Aðferð

Marineringin hér er ekkert það eina sem gengur, þetta er bara eitthvað sem ég henti saman eftir að hafa smakkað geggjaða spicy jógúrtssósu sem kom með Eldum Rétt.  Ég hafði ekki notað sósuna og ákv að leggja risarækjur í marineringu í henni í staðinn.  Þær komu svakalega vel út.  Þessi marinering er því bara tilraun mín til að líkja eftir þessari sósu.

Rækjur marineraðar

Hrærið bara saman grískri jógúrt, sriracha (4 tsk), chili kryddi (3-4 tsk) og mörðum kóríanderfræum (1 mtsk).  Smakkið til, þetta má rífa vel í.  Smá salt og svo setti ég ca 1/2 tsk reykta papríku í þetta.

Veltið svo afþýddum rækjunum uppúr þessu og látið standa í skál meðan annað er græjað.

Sósurnar útbúnar, karrí mayo og kóríander mayo

wp-1591047944598.jpg

Setjið allt í skál og maukið með töfrasprota.  Ég notaði nutribullet til að mauka þetta.  Það er samt hætt við að maukið sé of þykkt fyrir nutribullet og erfitt að ná að mauka allt saman en þá er í lagi að nota smá mjólk til að þynna aðeins svo þetta náist saman.  Þið gerið eins fyrir báðar sósurnar.   Setjið þetta svo í sprautuflöskur, t.d. frá Pro Gastro!

Ath hér valdi ég að mauka karrí mayoið vel svo ég gæti sett í sprautuflösku því mér finnst svo fallegt að gera fínar sósulínur yfir rækjurnar.  Upphaflega útgáfan er hins vegar grófari með litlum engifer, kapers og gúrkubitum.  Þetta er útgáfan sem Yesmine kom með upphaflega þegar við elduðum saman indverskt.   Þetta karrí mayo er hriiiikalega gott og ég get lofað ykkur að þið eigið eftir að elska þetta.  Vá hvað ég er stoltur yfir að hafa orðið kveikjan að þessari sósu en Yesmine sá færsluna mína um kóríander mayoið mitt og fékk þennig hugmyndina af karrí útgáfunni.   Þetta á eftir að verða álíka merkileg uppgötvun og penicillinið held ég.

Setjið sósurnar svo bara í ískáp og græjið rest.

Kínóa salatið

Nú er fínt að henda í salatið, byrjið á kínóa.

2 bolli kínóa á móti 4 bollum af vatni.  Smá salt.  Sett í pott, látið suðuna koma upp og lækkið svo hitann í lágan hita og látið krauma með lok yfir í 20 mín.  Gott að hafa viskastykki yfir pottinum undir lokinu.

Látið maískólfana liggja í vatni í um 15 mín.  Þerrið svo og kryddið með salti og pipar. Pennslið maískólfana með miklu af bræddu smjöri.  Meira salt yfir og grillið svo.

Skerið niður avocado, mango, rauðan ferskan chili og tómatana.  Rífið niður kóríander.  Blandið þessu saman við kínóa þegar það hefur kólnað.  Skerfið maískornin af grilluðum maískólfunum og blandið við salatið.  Nú er allt klárt fyrir rækjurnar.

wp-1591045220393.jpg

Hitið grillið og grillið rækjurnar á hvorri hlið, ca 2-3 mín.  Smakkið til bara, passið að ofelda ekki.   Raðið svo rækjunum yfir salatið og sprautið línum yfir með sriracha, kóríander mayo og karrí mayo.  Þetta er gullfallegt, ég gæti kannski kallað þetta grillað risarækju regnbogasalat.

Pörunin

Hér nota ég gott hvítvín eða freyðivín með ögn sætuvotti því þurr freyðivín geta farið illa á móti chilibrunanum í þessu.  Þetta er svakalega gott.  Bjór gengur líka, ég sé fyrir mér saison eða jafnvel belgískan blond.  Öflugur wild ale kæmi líka vel til greina.  Svo er ein pörun sem ég veit að kemur svakalega vel út er Sæmundur frá Borg en um er að ræða pale ale sem pakkaður er með mango.  Hér er tengingin við salatið augljós!  Þetta hlakka ég til að prófa næst.

Borg Brugghús, Grjótháls 7-11, Reykjavík (2020)

Eðal chilli nautahakk á kálbeði með góðum lager

Ok þetta er eitt af því fyrsta sem ég prófaði frá Gordon Ramsay fyrir mörgum árum síðan.  Það er til nautahakk og svo er til nautahakk sem búið er að lyfta upp á annað plan.  Þetta er geggjað gott og fáránlega einfalt að gera og svo er þetta lág kolvetna! Hollur og ljúfur götumatur ef svo má segja.  Sósan sem er í þessu er eitthvað sem ég nota reyndar oft á ýmislegt, t.d. til að marinera naut ofl.   Ég hef undanfarið verið að skoða lager stílinn og reynt að endurvekja áhuga minn á þessum bjórstíl.  Mig vantaði því einhvern rétt sem væri hægt að para vel við.

Það sem þarf í þetta (ca fyrir 4):

  • 800g nautahakk
  • 500-800g svínahakk
  • 2-3 msk ólífuolía til steikingar
  • salt og pipar eftir smekk
  • 1 tsk sesam olía
  • 1-2 ferskur chilli, rauður og smátt skorinn
  • 3 hvítlauksgeirar, skornir í smátt
  • ca 3 msk smátt skorin fersk engiferrót
  • 5 msk smátt skorinn vorlaukur
  • 1,5 msk púðursykur
  • sletta af fiskisósu
  • 1 límóna, rifinn börkur og safi
  • Stökkt sallat sem myndar bolla eða litlar skálar.  Finnið bara eitthvað sem hentar

Fyrir sósuna (þetta er svona ca, maður smakkar bara til):

  • 2 msk púðursykur
  • 5-6 msk soya sósa (kikkoman)
  • 1 msk sesam ólía
  • 2-3 msk ólifuolía
  • 1 tsk fiskisósa
  • 2 límónur, safinn
  • 1 ferskur rauður chilli, skorinn í sneiðar
  • góð lúka af kóríander, gróft skorinn

Bjórinn:

  • Einhver flottur lager, hér kemur margt til greina, ljós premium eða pilsnerSchwarzbier eða bock er jafnvel enn betra!


Aðferðin

Það er gaman að gera þennan rétt því útkoman er svo flott og fólk sem smakkar þetta heldur að maður hafi staðið sveittur í eldhúsinu.  Byrjum á að salta og pipra kjötuð áður en það er steikt.  Svo kemur mikilvægi hlutinn, að steikja kjötið þannig að það verði stökkt en ekki sjóða það á pönnunni.

Setjið ólífuolíu á pönnu og hitið vel, myljið svo nautahakk og svínahakkið á pönnuna og notið tréskeið til að mylja þetta á pönnunni.   Veltið þessu reglulega til og frá svo brenni ekki.  Stundum er eins og það myndist slatti af vökva við steikinguna og þá byrjar kjötið að sjóða, við viljum það ekki, við viljum heyra snarkið á pönnunni.  Ég hef stundum bara hellt þessum vökva af og haldið áfram að steikja.   Þegar kjötið er orðið fallega brúnt og brennt á stöku stað er það sett í sigti og látið standa þannig.  Hér lekur vökvi og fita af kjötinu.

Svo er það að þerra pönnuna, ekki þvo hana.  ca 1 tsk sesam olía á pönnuna og hitið pönnuna á meðal hita eða svo.   Skerið niður 1 – 2 chilli, 2-3 hvítlauksgeira og svo ferska engiferrót þannig að þið endið með um 3-4 msk.  Þetta er reyndar allt eftir smekk bara.  Skellið þessu á pönnuna, ca 1,5 msk púðursykur yfir og steikið aðeins.  Sykurinn skapar smá karmelliseringu.  Lyktin á þessu stigi er geggjuð.

Bætið svo kjötinu á pönnuna og steikið áfram og blandið öllu saman.  Rífið svo límónubörk yfir, þetta lyftir upp kjötinu og gerir þetta ofsalega djúsí.   Svo kreistið þið safa úr 1-2 límónum yfir til að skapa smá sýrujafnvægi.  Smakkið á þessu núna, þetta er geggjað.   Skerið svo vorlauk í smátt og bætið saman við síðustu 30 sek.   Færið allt saman yfir á disk eða skál sem þið berið þetta fram í.

Svo er það sósan.  Hér hef ég bara slumpað í þetta og smakkað til.    Náið í skál, setjið 2 msk púðursykur, hellið 5-6 msk soya yfir og hrærið aðeins saman.  Svo er það ólifuolían og sesam olían, 1 tsk fiskisósa og safi úr amk 2 límónum.  Hrærið öllu saman og bætið svo chilli skífunum og kóríander út í.  Ef ykkur finnst vanta meira lime eða soya þá bara bætið þið við.  Sósan á samt að vera bragðmikil og rífa ögn í.  Best er að setja þetta svo í gallega skál með skeið og bera þannig fram. 

Rétturinn er þannig að maður fyllir sjálfur kjötið í kálblaðið og setur svo sósuna yfir.  Þetta er puttamatur og svolítið messí þannig að hafið endilega þurrkur við höndina.  Við höfum stundum með þessu líka sriracha majo (majones blandað með sriracha sósu eftir smekk).

IMG_8314-01.jpeg

Pörunin

Þessi réttur er með dálitlum hita frá chilliinu og svo mikið salt einnig en fersk límónan léttir aðeins á þessu öllu og opnar upp. Svínakjötið gefur einnig nokkuð feita djúsí áferð en kjötið er þó þægilega stökkt og skemmtilegt og svo er sallatblaðið líka stökkt.  Hér þarf bjór sem ræður við þetta allt án þess að það skemmi bjórinn eða áferðina á réttinum.  IPA magnar upp salt og chilli hitann og gæti verið allt of mikið hér.  Lagerinn er hins vegar fullkominn, hann er léttur og nettur með sætum undirtón frá maltinu en er þó þægilega beiskur og krispí til að tækla hitann og seltuna.  Lager er líka nokkuð kolsýrður en búblurnar vinna frábært verk við að hreinsa gómboga milli bita og létta á öllu saman.   Við vorum hér með nýja lagerinn frá Borg og Fræbbblunum, Bjór NR. C18 sem passaði fullkomlega með þessu.  Þessi bjór er meira humlaður en klassískur pilsner en það gefur bjórnum meiri beiskju og ávaxtablæ frá humlunum en humlarnir virka hér eins og enn eitt kryddið á kjötið og eins og ég segi alltaf, humlar og kóríander eru töfrandi blanda, það gerist bara eitthvað svo magnað þegar þetta kemur saman!

Bjórpæklaður kjúklingur með lárperu- lager salsa í mjúku taco brauði.

Við fengum Gestgjafan til okkar síðasta sumar og þá elduðum við m.a. þennan frábæra rétt, lager- og límónu kjúklinga taco með lárperu og lager salsa. Já svo pöruðum við þetta að sjálfsögðu með bjór, Stella Artois en það má auðvitað vera hvaða lager sem er. Ég held að ég geti svarað fyrir alla sem voru í þessu boði, þetta var stórkostlegt!

Uppskriftina er að sjálfsögðu að finna í blaðinu en ef þið hafið það ekki þá kemur hún hér.

Innkaupalistinn (fyrir 6):

Pækill

1,5 flaska lager bjór
450 ml vatn
5 stk. límónur
5 msk. sykur
5 msk. salt
18 kóríander fræ, mulin
18 piparkorn, mulin
6 hvítlauksgeirar, gróft saxaðir
6 fersk chili-aldin, gróft söxuð
700 g kjúklingabringur
salt og pipar eftir smekk

Mjúkt taco

1 tsk ger
2 msk. olía
3 bollar (ca 7dl) hveiti
4 msk. grískt jógúrt
1 tsk. hunang
1 tsk. salt
3/4 bollar (1 og 3/4 dl) volgt vatn

Lager-salsa

3 þroskaðar lárperur
1 dós maískorn
4 msk. lager bjór
2-3 tsk. salt
2-3 stk græn chili-aldin, fínt söxuð
safi úr 1 límónu
1 búnt ferskur kóríander

Aðferð:
Það þarf aðeins að vera forsjáll hér því kjúklingabringurnar þurfa að liggja yfir nótt í pæklinum. Blandið lagerbjór, vatni og límónusafa í stórt plastílát sem hægt er að loka. Bætið sykri og salti saman við og hrærið þar til allt er uppleyst. Bætið svo restinni af hráefninu saman við. Stingið nokkur göt á bringurnar hér og þar og leggið í pækilinn. Lokið og geymið í allt að 24 tíma í kæli. Daginn eftir takið þið bringurnar úr pæklinum, þerrið þær og grillið á heitu grilli í nokkrar mín. á hvorri hlið eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Bragðbætið með salti og pipar eftir smekk. Rífið bringurnar í hæfilega bita og setjið í skál.

Daginn sem veislan fer fram er gott að byrja á mjúka tacoinu. Blandið saman þurrefnunum í skál. Hrærið því næst olíu, hunang, jógúrt og vatni saman og setjið út í þurrefnin. Hnoðið vel og látið hefast í 30 – 60 mín. Því lengur því betra, hér er gott að byrja á að gera lager salsa meðan beðið er. Skiptið deiginu svo niður og fletjið út í hæfilega stórar flatkökur. Hitið olíu á pönnu, stingið svo nokkur göt með gaffli í hverja köku og steikið á pönnunni. Snúið við og steikið á hinni hliðinni þegar loftbólur byrja að myndast. Flott er að fá aðeins brunabletti hér og þar. Gott er svo að leggja brauðið saman svo það myndi hálfmána.

Lager salsa er virkilega gott og hentar í raun með alls konar hráefni, t.d. fisk ofl. Flysjið lárperur og takið steininn úr. Skerið í litla kubba og blandið saman við maískornin í skál. Bætið lagerbjór, salti, chili-aldin og límónusafa út í og hrærið létt. Geymið í kæli þar til allt er klárt.

20180521_105023-02.jpeg

Berið svo fram með því að setja kjúklinginn í taco-brauðið, setjið salsa yfir, svo tvær til þrjár teskeiðar af geitaosti og lokst haug ef ferskum kóríander efst. Þetta er algjörlega geggjað. Kjúklingurinn fær í sig ögn bjórbragð sem smell passar við bjórinn sem við drekkum með.

Pörunin:
Við erum hér með alls konar skemmtilegt bragð, límónu, sýru, chili, salt, kóríander ofl. Geitaosturinn gefur svo alveg einstakt rjómakennt „funky“ bragð með smávegis sýru og jörð. Bæði osturinn og lárpera gæða svo réttinn feitri rjómakenndri áferð. Bjórinn með þessu þarf að geta tekist á við þetta allt saman án þess að skemma bragðið. IPA væri fínn á móti fitunni og tengir vel við saltið en beiskjan er líklega of mikil hér. Lagerinn er hins vegar kjörinn í þetta, hann skapar notalegan bakgrunn sem heldur við en er þó ekki allt of áberandi. Bjórinn dregur fram bjórkeiminn í kjúklingnum og kolsýran léttir á pallettunni og hreinsar geitaostinn af milli bita.

Bragðmikið nautasalat með myntu og geitaosti og djúsí New England IPA

Fyrir mörgum árum gerði ég nautasalat að hætti Godron Ramsay.  Reyndar með dálítið öðruvísi dressingu og kryddum en meistarinn.  Útkoman var geggjuð.   Um helgina ákvað ég að reyna að muna hvernig ég gerði þetta.  Útkoman er blanda af Gordon og Freysa sem óhætt er að mæla með.  Svakalega var þetta gott og svo er þetta „low carb“ réttur fyrir þá sem eru að eltast við slíkt.  Ég ákvað að skrifa þetta hér svo ég myndi ekki gleyma þessu aftur og auðvitað svo þið hin gætuð notið þess.  Dressingin er reyndar sú sama og ég hef gert oft með mjúku taco nema með smá hvítlauk aukalega núna.

Það sem þarf í salatið (fyrir ca 4):

  • 6 radísur, fínt skornar í sneiðar
  • 3 vorlaukar saxaðir
  • 3 skalotlaukar skornir í sneiðar
  • 15 – 20 kokteiltómatar skornir í tvent
  • Hálf gúrka, flysjuð og skorin með ostaskera í þunnar ræmur
  • 3 stórar gulrætur, skornar með ostaskera í ræmur
  • eitthvað kál, t.d. blandað salat eða álíka eftir smekk
  • lúka af ferskri myntu smátt skorið
  • Rjómageitaostur, nokkrar matskeiðar
  • 250-300 g ungnautafilet, skorið í þunnar sneiðar
  • parmesan ostur rifinn mjög smátt
  • salt og pipar

Það sem þarf fyrir dressinguna:

  • 2.5-3 dL Ólífuolía
  • 2.5-3 dL Soya sósa
  • safi úr 2 límónum
  • 3 mtsk púðursykur
  • 1 stór rauður ferskur chilli ávöxtur skorinn í sneiðar
  • stór lúka af ferskum kóríander skorinn gróft
  • 1 hvítlauksgeiri fínt skorinn

Bjórinn með:
Hér er gaman að prófa og leika sér.  Ég gæti séð fyrir mér einhvern nettan súrbjór hér, t.d. Oud Beersel Oude Gueuze já eða bara flottan saison. Ég ákvað hins vegar að prófa New England IPA með þessum rétt af því að ég var bara að drekka slíkan þegar ég var að spá í að gera réttinn.  Trillium Vicinity bara til að hafa það með!  Vandinn er að hér heima er enn sem komið er erfitt að fá þennan stíl, mjög erfitt reyndar en lítil fluga laumaði að mér um helgina að það stæði mögulega til bóta.  Kryddað, mjúkt og mikið rauðvín gengur líka ofsalega vel með þessu en við ræðum það ekki frekar hér.

Aðferðin.

Byrjið á að gera dressinguna klára, skerið svo kjötið í þunnar sneiðar og saltið og piprið eftir smekk og leggið svo í ílát með loki.  Hellið dressingu yfir en passið að halda eftir eins og 1 dL.  Látið svo standa í ískáp í ca 2 tíma, má alveg vera lengur.

Blandið öllu grænmetinu í skál, hellið dressingu yfir eftir smekk og blandið saman.  Færið svo yfir á flott fat eða disk.   Steikið kjötið örsnöggt og raðið fallega ofan á salatið.  Dreifið geitaostklípum yfir allt og rífið svo parmesan yfir salatið og berið fram.  Það er fínt að eiga aðeins eftir af dressingu ef fólk vill bæta enn á salatið.

Pörunin.

Þetta salat er geggjað, hér er maður með mikið af allskonar bragðflækjum sem takast á, chilli-ið rífur dálítið í en mynta, límónusafi og kóríander koma á móti og tóna aðeins niður og mynda nýtt bragð.  Rjómakenndi geitaosturinn vinnur einnig skemmtilega með chilli brunanum og myntan blandast svakalega vel við ostinn.  Kjötið er ofsalega bragðmikið og mjúkt eitt og sér en með þessu öllu nær það alveg nýjum hæðum og nýtur sín til fulls.  Safaríkur New England IPA er mjög flottur hér, beiskjan frá humlunum er frekar látlaus en dregur þó fram chilli bragðið og hitann frá dressingunni,  flottir ávaxtatónarnir frá humlunum koma svo með mjög skemmtilega viðbót í þetta allt saman og vinna dálítið á móti beiskjunni en við erum líka með smá beiskju frá radísum og vorlauk sem taka vel á móti  bjórnum og í raun draga beiskjuna  aðeins meira fram aftur.  Kolsýran í bjórnum vinnur svo stórkostlegt verk en hún léttir á þessu öllu saman og hreinsar alla palettuna eftir hvern sopa.  Þannig eru bragðlaukar nokkurn veginn núllstilltir fyrir næsta bita.  Mjög flókið samspil bragðtóna sem gengur skemmtilega vel upp.

Ég held að amerískur pale ale eða léttur IPA myndi ganga vel líka í stað New England IPA, sérstaklega ef hann er dálítið sætur og ávaxtalegur.  T.d Aycayia frá Borg/Cigar City.  Double IPA bjórar eru stundum nokkuð sætir og ávaxtalegir, hér gæti Stone Ruination IPA eða To Öl Dangerously Close To Stubit verið skemmtileg pæling lika. Það er bara um að gera að prófa!!!

Grillað lamb í kirsuberjabjórlegi með kinoa-myntu salati með granateplum, pistashnetum og geitaosti.

Það eru komnir tveir nýjir bjórar frá Borg í hillur Vínbúðarinnar, tveir af nokkrum reyndar þetta sumarið, annar er ný útgáfa af Ástríki sem sem bara dúkkaði upp í dag en Ástríkur er eins og margir muna hinn árlegi óopinberi Gay Pride bjór okkar Íslendinga. Hinn er endurútgáfa af Aycayia IPA sem er samstarfsbjór Borg Brugghúss og Cigar City í Tampa.  Þetta er bjór sem ég er mjög stoltur af enda átti ég nokkurn þátt í tilurð hans á sínum tíma.  Bjórinn kom út í flöskum á síðasta ári sælla minninga en er nú kominn í nýjan og betri búning, dósir sem eru bæði umhverfisvænar og varðveita gæði bjórsins betur en flöskurnar!

Kriek legið lambakjöt.

20170614_225919

Ég hef haft augastað á þessum rétti í nokkurn tíma.  Uppskriftin er úr bókinni Cooking with beer eftir Mark Dredge.  Ég greip nokkrar lambasteikur um daginn þegar ég var að skoða Costco eins og stór hluti þjóðarinnar.  Ég fann svo aldrei tíma til að elda þær vegna anna.  Í gær ákvað ég að henda kjötinu í pækil þar sem ég átti allt til sem þurfti, ekki vildi ég að kjötið færi til spillis.  Daginn eftir var svo kjötið eldað.  Hugmyndin var upphaflega að para þetta með stout eða porter, reyndar veit ég að súrbjór á borð við gueuze myndi líka ganga vel.  Ég komst hins vegar ekki í vínbúðina fyrir kvöldið.  Ég átti til smakkprufur af Ástríki og Aycayia og ákv að prófa þá með lambinu.  Hugmyndin er svo sem ekki galin, belgískur blond með tropical humlum sem smellpassa við ávaxtaþemað i salatinu og svo þessi geggjaði Aycayia sem er hlaðinn af djúsí framandi suðrænum humlum sem gefa okkur keim af  mango, ferskjum, ástaraldin ofl.  Ég verð að viðurkenna að ég varð bara nokkuð spenntur fyrir þessu.  Mynta, granatepli, sítróna og kirsuber með öllum þessum suðrænu ávaxtatónum frá ölinu hljómar næstum jafn vel á blaði og í munni.


Það sem þarf (fyrir 4):

Pækill
250ml Oud Beersel Kriek eða annar kriek
3 mtsk sykur
3 mtsk salt
12 kóríander fræ, mulin
1/2 tsk mulinn kanill
2 lárviðarlauf
3 hvítlauksgeirar
Lambakjöt að eigin vali, kótilettur eða lambasteikur t.d.

Salatið
Kinoa mv 4 (ca 60g á mann)
Fræ úr einu granatepli (varðveitið safann ef hægt)
100g ristaðar pistashnetur (án skeljar)
Rjómageitaostur eftir smekk
Lúka af ferskri myntu, skorin fínt

Dressing

4 mtsk Oud Beersel Kriek eða annar kriek
2 mtsk sítrónusafi
2 mtsk safi úr granatepli ef einhver er
4 mtsk olífuolía
1 mtsk hunang
1/2 tsk salt

Bjórinn
Ástríkur belgískur pale ale eða Aycayia IPA eru mjög skemmtilegir með þessu en aðrir góðir möguleikar eru stout eða gueuze (t.d. Oud Beersel Gueuze).

Aðferð

Daginn fyrir eldun er pækill undirbúinn.  Setjið allt í skál og hrærið.  Geymið rest af bjórnum til morguns.  Hellið yfir í ílát með loki og látið kjötið ofan í þannig að það fljóti yfir kjötið.  Bætið vatni ef þarf.

Þegar elda á kjötið, takið lambið úr pæklinum og þerrið með viskastykki eða bréfi.  Saltið og piprið aðeins og grillið á heitu grilli í nokkrar mín á hvorri hlið.  Látið hvíla í 5 mín áður en borið fram.

Sjóðið kinoa eins og stendur á pakkningu og látið kólna.  Blandið svo í skál eða á fat. Dreifið svo granateplafræjum, hnetunum, geitaosti og myntu yfir á smekklegan hátt. Búið til dressing með að blanda öllu saman í skál og hræra vel.  Dreifið svo yfir bæði lambið og salatið.  Það munar öllu að hafa svoldið vel blautt salatið.


 

BJÓRINN

20170615_180513ÁSTRÍKUR frá Borg brugghús er sem fyrr segir hinn óopinberi Gay Pride bjór okkar Íslendinga.  Hann kemur út í regnbogalitum ár hvert í kringum Gay Pride og áletrunin á merkimiðanum er öfug miðað við það sem við eigum að venjast.  Hingað til hefur Ástríkur verið öflugur belgískur tripel eða strong ale í krinum 10% áfengis en að þessu sinni er hann aðeins 4.6%.  Bjórinn er bruggaður með úrvals amerískum humlum sem þekktir eru fyrir suðrænan bragðprófíl.  Útkoman er notalegur belgískur blond með þægilega beiskju og milda suðræna ávaxtastemningu.  Mjög notalegur og auðveldur bjór.

Hinn bjórinn er svo hinn dásamlegi AYCAYIA, sem einnig er frá Borg, vægast sagt stórkostlegur bjór með aðdáunarverðan humalprófíl, Equinox, El Dorado, Eureka, Calypso, Mandarina Bavaria ásamt þekktum félögum Citra, Mosaic og Magnum. Þessi samsetning gefur af sér suðræna hamingjubombu á formi 6.4% IPA.  Í glasi er hann gylltur og mattur með dúnamjúkan froðuhaus.   Um leið og maður hellir honum finnur maður tælandi angan af suðrænum ávöxtum á borð við ananas, perur og mango til að nefna eitthvað.  Í munni er hann hreint út sagt dásamlegur, spriklandi gosið lífgar strax upp á bragðlaukana og gerir þá klára fyrir humlaseríuna sem mynda flókið samspil ávaxta, beiskju og blóma.  Hér má finna heila ávaxtakörfu af suðrænum ávöxtum af öllum stærðum og gerðum.  Ég fer ekki nánar út í það því hér verða menn að lofa sínum eigin bragðlaukum að ákveða nákvæmlega hvaða ávexti þeir pikka upp en það er einmitt svo einstaklingsbundið.  Sætan er langt í frá að vera of mikil því bjórinn er nokkuð þurr á móti.  Eftirbragð er langt og seyðandi og manni einhvern veginn er alveg sama þó maður eigi eftir að tapa áttum.  Hver sopi kallar á þann næsta en þannig á það líka að vera.

PÖRUNIN

Þessi réttur er mildari en mann grunar.  Bragðið af lambakjötinu fær að njóta sín til fulls þar sem engar þungar sósur eru að trufla, ég mæli samt með að menn noti ríkulega af dressingu til að fá þennan flotta súra berjakeim sem kemur mjög flott út með myntunni.  Seltan frá pistashnetunum, sýran frá granateplafræjunum og svo þessi funky jörð og rúnaða áferð frá geitaostinum vinna vel saman með myntunni og kirsuberjakeimnum frá ölinu og lífga hressilega upp á lambakeiminn og skapa dálítið „öðruvísi“ stemningu.

Hér verðum við að spá í regluna um að para létt með léttu því við viljum ekki gera lítið úr kjötinu.  Bjórinn þarf að lyfta undir réttinn og draga fram skemmtilega bragðtóna sem maður jafnvel myndi missa af annars.  Belgískur blond er flottur í þetta og ég tala nú ekki um ÁSTRÍK sem er með amerískum humalprófil sem gefa bragð af þekktum suðrænum ávöxtum.  Hér passar nefnilega að hafa ávaxtasætuna með til að draga fram ber og ávexti í dressingunni.  Belgíski gerkeimurinn á einnig alltaf vel við lambið sem er dálítið jarðbnundið ef svo má segja.  Myntan og krydd frá gerinu vinna mjög skemmilega saman.

20170617_192709 (1)

Klassískur IPA er kannski ekki fyrsta val með svona mildum lambarétti en beiskjan frá humlunum koma reyndar alltaf vel út með grilluðu kjöti og eins er beiskjan þægileg móti fitunni í kjötinu.  AYCAYIA er vissulega IPA en með tropical humlum sem gefa bragð af framandi suðrænum ávöxtum á borð við það sem maður fær í Ástríki nema bara mun meira áberandi. Humlarnir vinna einnig vel með myntunni og draga hana meira fram. Bjórinn gerir þennan milda rétt nokkuð bragðmeiri og skapar meiri dýpt og ávextirnir eiga vel við eins og fyrr segir.

Ég var með lambasteikur hér en ég held að grillað þurrkryddað lambalæri kæmi ofsalega vel út líka, mig langar amk að prófa það næst.  Skál, svo hlakka ég til að skrifa næstu snilld frá Borg sem er bara rétt handan við hornið.  Lifið heil!

Kjúklinga mango grillsalat með mango bjór

Stundum er það allra einfaldasta bara svo gott.  Nú er komið sumar og því við hæfi að borða eitthvað létt og ferskt og ekki skemmir ef maður getur notað grillið aðeins líka!  Þetta ljúffenga salat er komið frá Nigella Lawson en hún er mikið fyrir allt sem er djúsí og gómsætt en jafnframt einfalt í framleiðslu.  Ég hef lengi verið að spá í að prófa þetta salat með einum af mínum uppáhalds bjórum, FOUNDERS MANGO MAGNIFICO en núna þegar Borg er að koma með nýjan bjór á markað, SÆMUND MANGO PALE ALE þá bara hafði ég enga afsökun lengur fyrir að drífa ekki í að prófa þetta.


Það sem þarf (fyrir 3-4):

1 til 2 þroskaðir mango skornir í kubba
2 fínt saxaðir vorlaukar
2 ferskir chili ávextir fínt skornir og fræhreinsaðir
2-3 súraldin (lime), safinn úr þeim.
3-4 kjúklingabringur, grillaðar og skornar í bita
kál eftir smekk, t.d. einhver blanda bara
2 lúkur af ferskum kóríander, skorinn gróft
sletta af ristaðri sesam olíu, ca 2 – 3 tsk

Bjórinn

Mango Magnifico (10%)
frá Founders og/eða Sæmundur Mango Pale ale (4.7%) frá Borg.  ATH það þarf að sérpanta Mango Magnifico via ÁTVR.

Aðferð

Flysjið mango og skerið í litla kubba, saxið vorlaukinn fínt sem.  Hreisnsið fræin úr chili ávöxtunum og skerið fínt.  Setjið allt þetta í skál og blandið varlega með höndunum.   Munuið að chili er ekki gott í augu.  Um að gera að skafa safann af mangoinu með í skálina.   Kreistið safa úr súraldin eftir smekk yfir.  Ég vil hafa dálítið mikið til að vinna á móti chili brunanum.  

Grillið kjúklinginn, fínt að salta aðeins og skerið svo í bita og látið kólna.  Bætið svo kjúklingabitum og káli í skálina og blandið varlega.  Setjið svo sesam olíu yfir og ólífu olíu eftir smekk.  Loks dreifið þið þessu á disk og sáldrið ögn af ferskum kóríander yfir.


IMG_6301

BJÓRINN

Mango Magnifico (10%) er svakalegur bjór, einn sá skemmtilegasti þarna úti frá Founders í Michigan og tilheyrir svo kallaðri Backstage series sem eru bjórar sem Founders gerir aðeins einu sinni.  Þetta er eins konar leiksvið bruggaranna, þeir sjóða saman eitthvað magnað og gott og svo kemur það bara ekki aftur þrátt fyrir miklar vinsældir (blessuð sé minning Bolt Cutters).  Oft alveg geggjað stöff.  Einstaka sinnum hafa þeir reyndar látið undan þrýstingi og gert sama bjórinn tvisvar.   Mango Magnifico er frábær hugmynd, við erum að tala um bjór sem er hlaðinn mango og svo nota menn habanero chili til að skapa alveg djöfullegt en frábært mótspil við djúsí mangóið.  Maður finnur engan veginn fyrir þessum 10% áfengis fyrr en þegar líður á kvöldið og maður er farinn á trúnó við nágrannana upp úr þurru.  Mangoið er áberandi og svo einhver ofsafenginn ávaxtasæta. Bjórinn er samt sem áður þungur og magnaður og svo kemur léttur chili bruninn í gegn í restina.  Svakalegur bjór sem ruglar saman sumri og vetri einhvern veginn á ljúfan máta?   Bjórinn þarf að sérpanta via ÁTVR sem er í raun ekkert mál.

PÖRUNIN

Þessi pörun er nokkuð augljós ekki satt, mango og cili með mango og chili? Borðleggjandi!!! Stundum er nefnilega virkilega farsælt og bara allt í lagi að para saman eins bragði við eins bragð, þ.e.a.s bragð sem passar saman og magnar hvort annað upp.   Rétturinn er ferskur í grunninn og mildur en ferskur chili ávöxturinn rífur hann dálítið upp og gerir hann öflugan og staðfastan.  Kjúklingurinn er látlaus með þessu öllu saman en virkar sem nauðsynleg fylling og tengir saman lime, mango, kóríander og chiliið auðvitað.  Maður gæti ætlað að Mango Magnifico væri of öflugur, við erum jú með 10% monster en nei, mangoið tengir skemmtilega við mangoið í salatinu og magnar hvort tveggja upp og sætan í bjórnum dempar dálítið brunann í salatinu.  Rétturinn fær að njóta sín í munni en svo tekur bjórinn við og pakkar öllu inn í þétta mango umgjörð.   Habanero bruninn frá bjórnum kemur svo alveg í restina og rífur ögn í.   Það er ofsalega gaman að upplifa hér hvernig þessi magnaði bjór breytist til hins betra með þessu frábæra salati.   Vandamálið hér er hins vegar að Mango Magnifico tileyrir Backstage series og verður ekki bruggaður aftur.  Það er þó einhver slatti til ennþá held ég.

 

IMG_6308

Önnur alveg geggjuð pörun er hinn glænýji Sæmundur frá Borg.  Þessi bjór sem er mango pale ale er reyndar ekki kominn í búðir þegar þetta er ritað en hann er bara að detta í hús.  Hér erum við með pale ale sem bruggaður er með mango puré sem gefur óneitanlega áberandi mango keim í gegnum hæfilega beiskju/humal bakgrunninn.   Hér erum við með allt annan bjór, 4.7% vs 10% og enginn habanero bruni í restina.  Við Sigrún ákváðum að prófa þennan karl með mango salatinu og viti menn, bjórinn er að brillera hérna.  Eins og ég segi, ef manni finnst bjórinn góður einn og sér, þá er hann stórbrotinn í þessari pörun.   Hér gerist eitthvað allt annað en hér að ofan, í stað þess að taka yfir og dempa réttinn þá kemur Sæmundur inn og rífur upp réttinn, humlar og beiskja í bjórnum rífa upp brunann í chiliinu og einnig mangokeiminn.  Mangoið í bjórnum styður einnig vel við ferska mangoið í salatinu.  Svo er aldrei of oft sögð tuggan um hve humlar og kóríander virðast eiga vel saman, dásamlegt.   Hér erum við með tvo valmöguleika, annars vegar þróttmikill bjór sem tekur yfir á þægilegan og elegant máta og hins vegar léttur bjór sem tekur salatið upp á annað level og magnar allt upp á sama tíma og hann léttir á palettunni.  Við Sigrún gátum ekki sameinast um hvor bjórinn væri betra match og því mælum við með báðum.

 

Halloumi- og aspasgrillsalat með belgískum hveitibjór.

Við fengum Gestgjafann í heimsókn um daginn (2017) til okkar.  Tilefnið var í raun bara sumarið, nýtt Weber gasgrill á pallinum og kannski það mikilvægasta að hitta góða vini og leika okkur með bjór og mat.   Við vorum með fjóra rétti og belgískt bjórþema með.  Gestir okkar voru nefnilega hluti af bjórklúbbnum okkar frá Danmörku en við byrjuðum einmitt að skoða belgíska bjórinn á þeim tíma og því fannst okkur Sigrúnu tilvalið að bjóða uppá gamla góða félaga með matnum.  Bjór eins og t.d. Hoegaarden var alveg ómissandi við grillið í dönsku sumarsólinni. 

Þetta var virkilega skemmtileg grillveisla með góðu fólki.   Lesa má nánar um réttina og uppskriftir í Júníblaði Gestgjafans 2017 og þar eru líka haugur af skemmtilegum myndum. Mig langar samt að henda á ykkur einni uppskrift frá þessu kvöldi sem kom mér eiginlega á óvart. Pörunin með Hoegaarden var algjörlega geggjuð.  Myndirnar hér í þessari færslu eru teknar bara beint úr blaðinu og eru eftir ljósmyndarann Hákon Davíð Björnsson.

SALATIÐ – grillaður Halloumiostur og aspars með fennel og rauðlauk.

Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt, sérstaklega þegar útkoman er góð.  Okkur langaði að grilla eitthvað létt í forrétt, við vorum líka með grillaða bjórlegna humarhala í forrétt reyndar.   Grillaður aspars er snilld, ég hef í raun aldrei grillað hann sjálfur áður og langaði því að prófa, svo vantaði eitthvað spennandi með.  Halloumi ostur er kjörinn fyrir grillið því hann er bæði skemmtilegur á bragðið og svo er hann svo þéttur í sér að hann bráðnar ekki ofan í grillið við eldun.   Við fórum því á stúfana og fundum uppskrift í gamalli bók frá Jamie Oliver og ákváðum að láta reyna.  Eftirfarandi er því byggt að mestu leiti á þeirri uppskrift.

 

20170601_140805
Mynd tekin beint úr Gestgjafanum, mynd eftir Hákon Davíð Björnsson

 

Það sem þið þurfið (fyrir 5-6):

  • 1-2 fennel hausar, fer dálítið eftir stærð
  • 2 stk rauðlaukur
  • 3 mtsk Extra Virgin ólifuolía
  • Safi úr einni appelsínu
  • 600 g ferskur grænn aspars
  • 400 g Halloumi ostur
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Svo er það bjórinn, belgískur hveitibjór eins og t.d. HOEGAARDEN BLANCHE

Aðferðin:

Hitið grillið.  Trimmið  svo fennel hausana og skerið fínt í ræmur, flysjið rauðlaukinn og skerið fínt.  Leggið til hliðar.  Skerið appelsínuna í tvent og kreistið allan safan úr og setjið í skál.  Það er í fínu lagi að fá aldinkjötið með.  Bætið ólifuolíu saman við og hrærið.  Leggið til hliðar.

Næst er það grillunin.  Skolið aspasinn vel og brjótið ljótu endana af, þeir bara brotna á rétta staðnum.  Pennslið með ólifuolíu og kryddið með salti og pipar.   Grillið svo á meðalheitu grilli þar til mjúkt og komnar fallegar rendur í asparsinn.  Snúið asparsnum nokkrum sinnum svo hann brenni ekki. Takið af grillinu.

Halloumi osturinn er síðastur og borinn fram strax eftir grinnun.  Stykkið er skorið eftir smekk í u.þ.b. 5 mm þykkar sneiðar og pennslaður báðum megin með ólifuolíu og ögn saltaður. Grillið á heitu grilli þar til fallegar rendur eru komnar á ostinn eða hann er orðinn dálítið mjúkur.  

Blandið fenníku, rauðlauk og aspas í skál, raðið  halloumi ostinum ofan á, hellið appelsínublöndunni yfir og berið strax fram.  Það er gott að geyma aðeins af appelsínulegi til að bæta á salatið eftir hentugleika.

20190510_102345-011038481886.jpeg

BJÓRINN – Belgískur hveiti, t.d. Hoegaarden Blanche.

Belgar eru snillingar í bjórgerð, það verðir ekki af þeim tekið.  Belgískur hveitibjór er dásamlegur sér í lagi á heitum sumardegi.  Það er einhver lenska í okkur Íslendingum að telja að hveitibjórar séu þungir bjórar, líklega tengja menn hveiti við brauð?  Ég skal ekki segja, það er hins vegar þannig að hveitibjórar eru hinir mestu svaladrykkir.   Fyrir mér er hveitibjór sumarbjór, eitthvað sem maður drekkur í steikjandi sumarsólinni til að svala þorstanum.   Hoegaarden er líklega elsti belgíski hveitibjórinn og jafnvel þótt víðar væri leitað?  Menn krydda bjórinn með appelsínuberki og kóríander sem gerir bjórinn dálítið skemmtilegan, maður finnur örla fyrir þessu ef bjórinn er ekki of kaldur.  Þetta er bjór sem kallar á létta rétti því hann er jú mildur og viðkvæmur.  Salöt, sushi og annað sjávarfang er t.d. kjörin pörun.  

20170601_141020
Mynd tekin beint úr Gestgjafanum, mynd eftir Hákon Davíð Björnsson

Pörunin

Hér erum við með létt og ferskt salat með mildum en skemmtilegum bragðflækjum þar sem við finnum látlausan lakkrískeim og ögn sýru. Það er einnig áberandi selta frá ostinum og svo kemur appelsínukeimurinn í gegn.  Þessi réttur kallar á mildan bjór sem ekki stelur senunni. Hoegaarden smellpassar hér, appelsínubörkurinn í bjórnum tengir vel við dressinguna og magnar upp appelsínuna í bæði bjór og mat.  Eins verður kóríander meira áberandi og virkar eins og auka krydd á salatið.  Bjórinn tvinnast við salatið og framlengir einhvern veginn bragðupplifunina í munni á þann hátt að bjór og réttur taka ekki neinn endi.  Þetta er alveg magnað að upplifa….fullkomin pörun verð ég að segja!