Það eru komnir tveir nýjir bjórar frá Borg í hillur Vínbúðarinnar, tveir af nokkrum reyndar þetta sumarið, annar er ný útgáfa af Ástríki sem sem bara dúkkaði upp í dag en Ástríkur er eins og margir muna hinn árlegi óopinberi Gay Pride bjór okkar Íslendinga. Hinn er endurútgáfa af Aycayia IPA sem er samstarfsbjór Borg Brugghúss og Cigar City í Tampa. Þetta er bjór sem ég er mjög stoltur af enda átti ég nokkurn þátt í tilurð hans á sínum tíma. Bjórinn kom út í flöskum á síðasta ári sælla minninga en er nú kominn í nýjan og betri búning, dósir sem eru bæði umhverfisvænar og varðveita gæði bjórsins betur en flöskurnar!
Kriek legið lambakjöt.

Ég hef haft augastað á þessum rétti í nokkurn tíma. Uppskriftin er úr bókinni Cooking with beer eftir Mark Dredge. Ég greip nokkrar lambasteikur um daginn þegar ég var að skoða Costco eins og stór hluti þjóðarinnar. Ég fann svo aldrei tíma til að elda þær vegna anna. Í gær ákvað ég að henda kjötinu í pækil þar sem ég átti allt til sem þurfti, ekki vildi ég að kjötið færi til spillis. Daginn eftir var svo kjötið eldað. Hugmyndin var upphaflega að para þetta með stout eða porter, reyndar veit ég að súrbjór á borð við gueuze myndi líka ganga vel. Ég komst hins vegar ekki í vínbúðina fyrir kvöldið. Ég átti til smakkprufur af Ástríki og Aycayia og ákv að prófa þá með lambinu. Hugmyndin er svo sem ekki galin, belgískur blond með tropical humlum sem smellpassa við ávaxtaþemað i salatinu og svo þessi geggjaði Aycayia sem er hlaðinn af djúsí framandi suðrænum humlum sem gefa okkur keim af mango, ferskjum, ástaraldin ofl. Ég verð að viðurkenna að ég varð bara nokkuð spenntur fyrir þessu. Mynta, granatepli, sítróna og kirsuber með öllum þessum suðrænu ávaxtatónum frá ölinu hljómar næstum jafn vel á blaði og í munni.
Það sem þarf (fyrir 4):
Pækill
250ml Oud Beersel Kriek eða annar kriek
3 mtsk sykur
3 mtsk salt
12 kóríander fræ, mulin
1/2 tsk mulinn kanill
2 lárviðarlauf
3 hvítlauksgeirar
Lambakjöt að eigin vali, kótilettur eða lambasteikur t.d.
Salatið
Kinoa mv 4 (ca 60g á mann)
Fræ úr einu granatepli (varðveitið safann ef hægt)
100g ristaðar pistashnetur (án skeljar)
Rjómageitaostur eftir smekk
Lúka af ferskri myntu, skorin fínt
Dressing
4 mtsk Oud Beersel Kriek eða annar kriek
2 mtsk sítrónusafi
2 mtsk safi úr granatepli ef einhver er
4 mtsk olífuolía
1 mtsk hunang
1/2 tsk salt
Bjórinn
Ástríkur belgískur pale ale eða Aycayia IPA eru mjög skemmtilegir með þessu en aðrir góðir möguleikar eru stout eða gueuze (t.d. Oud Beersel Gueuze).
Aðferð
Daginn fyrir eldun er pækill undirbúinn. Setjið allt í skál og hrærið. Geymið rest af bjórnum til morguns. Hellið yfir í ílát með loki og látið kjötið ofan í þannig að það fljóti yfir kjötið. Bætið vatni ef þarf.
Þegar elda á kjötið, takið lambið úr pæklinum og þerrið með viskastykki eða bréfi. Saltið og piprið aðeins og grillið á heitu grilli í nokkrar mín á hvorri hlið. Látið hvíla í 5 mín áður en borið fram.
Sjóðið kinoa eins og stendur á pakkningu og látið kólna. Blandið svo í skál eða á fat. Dreifið svo granateplafræjum, hnetunum, geitaosti og myntu yfir á smekklegan hátt. Búið til dressing með að blanda öllu saman í skál og hræra vel. Dreifið svo yfir bæði lambið og salatið. Það munar öllu að hafa svoldið vel blautt salatið.
BJÓRINN
ÁSTRÍKUR frá Borg brugghús er sem fyrr segir hinn óopinberi Gay Pride bjór okkar Íslendinga. Hann kemur út í regnbogalitum ár hvert í kringum Gay Pride og áletrunin á merkimiðanum er öfug miðað við það sem við eigum að venjast. Hingað til hefur Ástríkur verið öflugur belgískur tripel eða strong ale í krinum 10% áfengis en að þessu sinni er hann aðeins 4.6%. Bjórinn er bruggaður með úrvals amerískum humlum sem þekktir eru fyrir suðrænan bragðprófíl. Útkoman er notalegur belgískur blond með þægilega beiskju og milda suðræna ávaxtastemningu. Mjög notalegur og auðveldur bjór.
Hinn bjórinn er svo hinn dásamlegi AYCAYIA, sem einnig er frá Borg, vægast sagt stórkostlegur bjór með aðdáunarverðan humalprófíl, Equinox, El Dorado, Eureka, Calypso, Mandarina Bavaria ásamt þekktum félögum Citra, Mosaic og Magnum. Þessi samsetning gefur af sér suðræna hamingjubombu á formi 6.4% IPA. Í glasi er hann gylltur og mattur með dúnamjúkan froðuhaus. Um leið og maður hellir honum finnur maður tælandi angan af suðrænum ávöxtum á borð við ananas, perur og mango til að nefna eitthvað. Í munni er hann hreint út sagt dásamlegur, spriklandi gosið lífgar strax upp á bragðlaukana og gerir þá klára fyrir humlaseríuna sem mynda flókið samspil ávaxta, beiskju og blóma. Hér má finna heila ávaxtakörfu af suðrænum ávöxtum af öllum stærðum og gerðum. Ég fer ekki nánar út í það því hér verða menn að lofa sínum eigin bragðlaukum að ákveða nákvæmlega hvaða ávexti þeir pikka upp en það er einmitt svo einstaklingsbundið. Sætan er langt í frá að vera of mikil því bjórinn er nokkuð þurr á móti. Eftirbragð er langt og seyðandi og manni einhvern veginn er alveg sama þó maður eigi eftir að tapa áttum. Hver sopi kallar á þann næsta en þannig á það líka að vera.
PÖRUNIN
Þessi réttur er mildari en mann grunar. Bragðið af lambakjötinu fær að njóta sín til fulls þar sem engar þungar sósur eru að trufla, ég mæli samt með að menn noti ríkulega af dressingu til að fá þennan flotta súra berjakeim sem kemur mjög flott út með myntunni. Seltan frá pistashnetunum, sýran frá granateplafræjunum og svo þessi funky jörð og rúnaða áferð frá geitaostinum vinna vel saman með myntunni og kirsuberjakeimnum frá ölinu og lífga hressilega upp á lambakeiminn og skapa dálítið „öðruvísi“ stemningu.
Hér verðum við að spá í regluna um að para létt með léttu því við viljum ekki gera lítið úr kjötinu. Bjórinn þarf að lyfta undir réttinn og draga fram skemmtilega bragðtóna sem maður jafnvel myndi missa af annars. Belgískur blond er flottur í þetta og ég tala nú ekki um ÁSTRÍK sem er með amerískum humalprófil sem gefa bragð af þekktum suðrænum ávöxtum. Hér passar nefnilega að hafa ávaxtasætuna með til að draga fram ber og ávexti í dressingunni. Belgíski gerkeimurinn á einnig alltaf vel við lambið sem er dálítið jarðbnundið ef svo má segja. Myntan og krydd frá gerinu vinna mjög skemmilega saman.

Klassískur IPA er kannski ekki fyrsta val með svona mildum lambarétti en beiskjan frá humlunum koma reyndar alltaf vel út með grilluðu kjöti og eins er beiskjan þægileg móti fitunni í kjötinu. AYCAYIA er vissulega IPA en með tropical humlum sem gefa bragð af framandi suðrænum ávöxtum á borð við það sem maður fær í Ástríki nema bara mun meira áberandi. Humlarnir vinna einnig vel með myntunni og draga hana meira fram. Bjórinn gerir þennan milda rétt nokkuð bragðmeiri og skapar meiri dýpt og ávextirnir eiga vel við eins og fyrr segir.
Ég var með lambasteikur hér en ég held að grillað þurrkryddað lambalæri kæmi ofsalega vel út líka, mig langar amk að prófa það næst. Skál, svo hlakka ég til að skrifa næstu snilld frá Borg sem er bara rétt handan við hornið. Lifið heil!
You must be logged in to post a comment.