Sturlaður morgunverðar stout frá RVK Brewing Company með „poached“ eggi í morgunmat!

RVK Brewing Company er eitt af okkar nýju brugghúsum hér á Íslandi og þeir virðast komnir til að vera.  Það er allt á fullu hjá þeim í alls konar og spennandi tímar framundan.  B&M leit við hjá þeim um helgina í spjall og smakk.  Þeir Siggi og Valli voru hressir þegar ég bankaði á gluggann og ekki vantaði gestrisnina.  Þeir voru að stússast eitthvað í jólabjórnum þegar ég kom og ég fékk að smakka jafnvel þó hann sé ekki tilbúinn eins og sakir standa.   Um er að ræða jóla IPA með alls konar kræsingum og mætti kannski flokka sem pastry IPA miðað við innihald en hann er þó alls ekki sætur á tungu eins og bakkelsis bjór jafnan er.  Það er kannski af því að Valli tróð heilu jólatré með seríum og öllu í suðuna, reyndar tók hann seríuna af rétt áður en það hljómar ekki eins skemmtilega.  Svo er hellingur af humlum í þessu auðvitað sem gefur beiskjuna á móti sætunni.  Auk jólatrés settu þeir mandarínur með negulnöglum í, gömlu góðu loftkökurnar sem sumum finnst ómissandi á jólunum og svo heila dós af Mackintosh’s með góðu molunum og þeim vondu,  sem sagt innihaldið án umbúða.  Útkoman er þessi skemmtilegi og mildi IPA þar sem finna má ögn sætu í bakgrunni og eitthvað lúmst krydd sem hlýtur að vera negulinn en svo eru furunálar líklega bæði frá trénu en líka humlunum.  Hlakka til að smakka þegar hann verður tilbúinn, lofar mjög góðu og mun jafnvel, en ég veit það þó ekki, koma í flöskur í vínbúðina?

Valli lofaði mér svo að smakka alveg svakalega flotta humlabombu, double IPA með alveg hreint haug af Idaho 7 humlum, þessi var eiginlega alveg tilbúinn, kolsýrður og kaldur og í raun bara að detta í sölu hjá þeim.  Svakalega ljúfur.   Það eru fleiri flottir á krana hjá þeim sem vert er að nefna, Le Bon Grisette er frábær létt frískandi saison með Kalamansi & Guava sem kom verulega á óvart og svo er ketilsýrður súrbjór, Verum bara vinir með ástaraldin sem er alveg svakalega ljúffengur, mæli með þeim báðum.

20181102_152023-01.jpeg
Að lokum vil ég nefna Morning Glory af því að ég var að fjalla um bakkelsis bjór (Pastry beer) hér um daginn en þessi er ansi flippaður.  Við erum að tala um kjarngóðan amerískan morgunverð í glasi, hann hefur allt sem Mikkeller Beer Geek Breakfast hafði ekki enda er það bara venjulegur stout að mínu mati, alveg fínn samt.  Bjórinn er um 8% imperial stout bruggaður með höfrum og lactósa sem er þá staðgengill mjólkur og svo kassavís af Cocopuffs, amerískar pönnukökur og ristað bacon og svo er líka hellingur af hlynsýrópi til að toppa þetta allt saman.  Þetta er heldur betur rugluð innihaldslýsing en það góða er að hann gengur alveg upp, alla vega fyrir þá sem á annað borð hafa gaman af bakkelsis stout.   Það er rist og ögn reykur frá baconinu og ristaða maltinu, lactosinn og hafrar gefa fyllingu og mýkt, nánast mjólkurkennd áferð og svo finnur maður sýrópið skemmtilega í gegn.  Þetta er þannig ögn sætur stout en þó með þessa léttu rist og reyk.   Ég sagði við Valla að það eina sem vantaði í þennan bjór væri Lýsi og egg!  Það kom einhver prakkarasvipur yfir hann þegar ég sagði þetta, hver veit hvað gerist næst?  Þetta er alla vega skemmtilegt og menn geta prófað þetta bara núna í þessari viku en nánari yfirlýsing mun koma á síðu þeirra hjá RVK Brewing á næstunni.

Þennan bjór væri ég til í að fá í umbúðir til að taka með heim því ég hef verið að leika mér með poached egg undanfarið, ég veit ekki hvað það kallast á íslensku, en þessi morgunverðarbjór myndi parast vel með eggjunum…eða alla vega að nafninu til.

Ég er kominn hálfa leið með að ná tækninni og ákvað því að lauma smá uppskrift með hér.

IMG_7688Poached egg með ferskum létt ristuðum aspas, hráskinku og parmesan

Það sem þarf:

  • Ferskur aspas, eitt búnt ca
  • Parmesan ostur eða álíka
  • Egg miðað við hve svangur þú ert
  • Sítróna 1 stk
  • Hráskinka 1 pakki
  • Epla edik eða annað ljóst edik 2 mtsk
  • Olífuolía 3 mtsk
  • Hvítlaukur, 3 geirar

Aðferðin:

Það er smá kúnst að gera eggin fullkomin, þau þurfa svo sem ekki að líta þannig út, aðallega að þau bragðist vel en það er bara svo flott þegar maður nær þeim hnöttóttum og laus við tægjur.

Fyllið meðalstóran pott með vatni þannig að dýpi sé um ca 6 cm eða svo.  Náðið upp suðunni og lækkið svo hitann þannig að búblurnar hverfa og það nánast bærist ekki vatnið.

Egginn brjótið þið í litlar þröngar skálar eða bolla, eitt í hvert ílát.  Setjið svo 2 mtsk edik í pottinn og hrærið. Þetta hjálpar til við að halda eggjunum saman á hnattlaga formi.  Það virðist einnig mikilvægt að nota fersk egg en þau virðast halda betur þessari fallegu lögun sem við erum að leita eftir.  Notið skeið til að skapa sterka iðu (vortex) og látið svo eitt egg renna niður í miðjan vortexinn.   Látið svo liggja í þessu í 3 mín eða svo.  Fer dálítið eftir hversu linsoðin eggin eiga að vera.

Lyftið svo varlega egginu upp með götóttri skeið og látið renna vel af, það má þerra með pappír.   Svona gerið þið við hvert egg, fer auðvitað eftir fyrir hve marga er eldað.   Ef þið eruð með mörg egg  eða þið þurfið að græja eitt og annað má geyma eggin í ísbaði þar til klárt til að bera fram.  Annars halda eggjarauðurnar áfram að eldast.

Næst er það matarolía á pönnu, ca 3-4 mtsk.  Pressið svo 3 hvítlauksgeira og setjið á pönnuna, kreistið sítrónusafa úr heilli sítrónu yfir og rífið svo börkinn ofan í pönnuna.  Náið upp hita og bætið svo aspasinum útí og látið malla í 7-8 mín á meðan þið veltið stöngunum um með töng.  Aspasinn á að verða mjúkur en ekki detta í sundur.

Raðið svo aspas á diska, setjið sneið af hráskinku yfir og svo eitt egg ofan á þetta.  Nú eru eggin líklega köld ef þið hafið verið með þau í ísbaðinu.  Gott er að hita eggin upp aftur  fyrir framreiðslu með því að lauma þeim í skál með soðnu vatni í 30 sek.   Rífið svo parmesan ost yfir og njótið.  Þetta er bara geggjað og sætur , létt reyktur imperial stout með kórónar allt.  Ég reyndar bauð uppá þetta sem kvöldverð þannig að það er ekkert mál.  Þarf ekkert að vera morgunmatur.

BrewDog Reykjavík opnar á Föstudaginn

BrewDog opnar loksins dyr sínar í Reykjavík núna á föstudaginn 21.9.18.  Þetta hefur verið löng en falleg fæðing en ég hef verið svo lánsamur að fá að vera fluga á vegg síðustu misserin og fylgst með gangi mála.   Það hefur verið virkilega gaman að sjá þennan bar taka á sig mynd smátt og smátt í þessari nýbyggingu sem nú er risin við Frakkastíg.  Útkoman er þessi stórglæsilegi bar eða gastro pub, sem fólk getur skoðað og bragðað á frá og með föstudeginum kemur.  Hér má lesa nánar umfjöllun okkar um BrewDog fyrr á árinu fyrir þá sem ekki þekkja til.

20180919_200651-01.jpeg

Barinn er settur upp og innréttaður í anda BrewDog víðs vegar um heim en þó er alltaf eitthvað „local“ handbragð á hverjum bar sem gerir hvern bar sérstakan. Við erum hér með 20 bjórdælur sem færa manni bjór af dælukerfi sem líklega er með styttstu bjórlínum á landinu.  Kútarnir standa nefnilega í kæliherbergi beint aftan við dælurnar og línurnar eru aðeins um 1 meter að lengd en þannig má takmarka afföll og auka gæðin.  Kæliherbergi þýðir að ekki þarf sér kælikerfi til að kæla bjórinn og bjórinn er því geymdur við bestu aðstæður. Það er líka helvíti flott að geta séð inn í kælinn í gegnum glerhurðina við endann.
Stefnan er að hafa 12  krana með BrewDog bjór og þar af 5 „headliners“ eða fastan bjór sem maður gengur að vísum og svo er rest roterandi.  Afgangurinn er svo gestabjór af ýmsum toga, eina reglan er að gestabjór þarf að vera handverks bjór (craft) og auðvitað góður.  Í kvöld voru gestabjórarnir fjölbreyttir frá Malbygg, RVK Brewing, Borg Brugghús, Jóni Ríka ofl.

Headliners þessa stundina eru skemmtilegir karlar á borð við Jet Black Heart, Dead Pony Club, Indie Pale Ale og 5AM Saint sem er rauðöl af bestu sort sem mjög góður bjór til matarpörunnar hvers konar og ekki má svo gleyma flaggskipinu Punk IPA sem alltaf í boði, bjórinn sem kom BrewDog á kortið!

Það er ekki hægt að skilja við þessa yfirferð án þess að nefna nitro kranann en það er fyrirbæri sem vert er að skoða nánar og er orðið ansi vinsælt úti í hinum stóra heimi í dag.  Nitrogen bjór er kolsýrður með blöndu af köfnunarefni (70%) og kolsýru (um 30%) en venjulega er þessi blanda í öfugum hlutföllum, 30% köfnunarefni og 70% kolsýra.  Köfnunarefni leysist illa eða ekki upp í bjórnum þannig að bjórinn verður ögn flatari en mun mýkri fyrir vikið.  Nitro kraninn er einnig hannaður á þann máta að þegar bjórnum er þrýst í gegnum örfínar holur þá tapast mest öll kolsýran úr bjórnum og það myndast dúnamjúkur og þéttur froðuhaus með áferð líkt og þeyttur rjómi. Bjórinn allur tekur á sig aðra mynd og verður ekki svona kitlandi og hvass eins og venjulega kolsýrður bjór. Virkilega gaman að prófa sama bjór sem annars vegar er nitro útgáfa og hins vegar hefbundinn, það er svo sem ekki í boði þessa stundina samt.  Ég er ekki hrifinn af stout bjór yfir höfuð en þegar maður smakkar þannig bjór af nitro krananum þá er útkoman stórkostleg.  Við mælum því með því að fólk prófi Jet Black Heart nitro, t.d. með sturlaða djúpsteikta mars eftirréttinum sem er í raun full máltíð útaf fyrir sig.

20180919_190937-01.jpeg
BrewDog er bjórbar en það er alltaf einhver matur í boði en gæðin eru afar mismunandi eftir stöðunum.  BrewDog Reykjavík er hins vegar með mikla áherslu á mat af ýmsum toga.  Þegar ég ræddi við Þossa (karlinn í brúnni) á dögunum þá er áherslan ca 50% matur og 50% bjór enda eru miklir framamenn í veitingageiranum á bak við BrewDog í Reykjavík, menn sem kunna svo sannarlega að framreiða mat.  Matseðillinn er stórkostlegur, vægast sagt, þarna er bara eitthvað fyrir alla.  Í kvöld prófuðum við þrjá rétti en munum taka þetta allt betur út þegar þetta er komið í gang allt saman.

Það er óhætt að mæla með rifna andalærinu sem parast einkar vel með Elvis Juice sem er ljúfur vínberja IPA sem skapar skemmtilegt léttvægi á móti jarðbundu andalærinu, virkilega flott.  Svo prófuðum við kjúklinga vöfluréttinn með eggi og spicy majo.  Ofsalega skemmtilegur réttur á sætu nótunum en þó með nettum hita.  Hér kemur 5am Saint mjög vel út en áberandi maltkarakterinn í bjórnum tengir vel við sætuna í þessum rétti en humlabeiskjan tónar þetta þó niður og skapar gott jafnvægi.  Við enduðum svo kvöldið með konungi imperial stout bjóra, Tokyo sem er rétt rúmlega 16% imperial stout af allra allra bestu sort.  Þetta er þrusu bjór með mikinn hita og karakter en heilmikla sætu líka.  Við hefðum getað klárað þetta með bjórnum einum saman enda stendur hann fyllilega fyrir sínu sem flottur eftirréttur út af fyrir sig en við ákváðum að láta vaða í Mars  Bar Wellington sem er mars súkkulaði stykki sem er bakað í smjördeigi með Jet Black Heart karamellu, haframulningi og Madagascar vanillu rjómaís.  Þetta er sturlað combo og alls ekki fyrir viðkvæmar sálir með mikla líkamsvitund.  Maður þarf ekki að broða í viku eftir þetta monster.  Fínt til að deila 🙂

Já þessi general prufa fór vel af stað, smá byrjunar hnökrar en þó ekkert til að tala um.  Þetta verður virkilega flott í framtíðinni.  Bjór & Matur mun klárlega koma hér við reglulega á næstu misserum og leika sér með paranir ofl.  Til lukku Reykjavík með þennan nýja sælureit.

Reykjavík Brewing Co komið vel af stað.

Nú er RVK Brewing Co komið vel af stað en þeir opnuðu brugghús og bruggstofuna sína bara núna í Júlí 2018.   Í bruggstofunni er 8 kranar eins og sakir standa og þar flæðir mjög skemmtilegt en umfram allt neytendavænt öl af ýmsum stærðum og gerðum.  Hvort sem það er saison, IPA, súröl eða stout þá erum við ekki að  tala um neina öfgar.  Hér geta í raun allir komið og smakkað án þess að verða fyrir skakkaföllum.  Presónulega þá mættu RVK Brewing samt koma með eitthvað líka sem hristir vel upp í manni en hér er það jú bara bjórnördinn í mér sem talar!

Ég er að koma hér í fyrsta sinn eftir formlega opnun en ég er svo sem búinn að reka inn nefið hér annað slagið á meðan þeir Siggi og co voru að koma þessu á laggir en það er gaman að sjá hvernig þetta kemur út svona tilbúið allt saman.  Notaleg stemning, ljúf tónlist, bjart og hreint andrúmsloft og bara þægilegt að vera.  Siggi sem er einn af eigendum og mikill bjórperri virðist alltaf vera á staðnum og það er um að gera að hnippa í hann og fá hann á flug.  Hann elskar að tala um bjórinn og allt ferlið.  Það er svo líka hægt að kaupa „the beer tour“ og fá hann til að kafa enn dýpra í þetta allt saman með smakki og tilheyrandi.   Ef þú ert hins vegar ekki til í að hugsa allt of mikið þá er bara að tilla sér í góðu horni, hlusta á góða tónlist og njóta ölsins. Ég mæli með NO 7 sem er þeirra nýjasti, session IPA þurrhumlaður með Idaho 7.  Mjög næst IPA, léttur fruity og með hæfilegri móðu sem er einmitt dálítið inn þessa stundina.  Þessi ku líka vera einn af fyrstu bjórum Valla bruggmeistara sem er bara ný dottinn inn um dyrnar hjá RVK bewing, en við þekkjum þennan strák frá Borg Bruggús auðvitað.  Nánar um þetta síðar.

Vinsælasti bjórinn þeirra um þessar myndir er líklega bakkelsisbjórinn Co & Co sem er 10.1% imperial stout sem er bruggaður ma með snúðum frá Brauð & Co.  Þessi er mjög ljúffengur.  Bakkelsis bjór eða pastry beer er fyrirbæri sem er að verað dálítið vinsælt í henni Veröld í dag, það verður að prófa þennan.  Ég myndi svo ekki fara héðan nema að smakka Sperrilegg sem er bara einfeldlega frábær reyktur gose sem er skemmtilegur þýskur bjórstíll sem næstum náði því að deyja út hér fyrir fáeinum árum.  Þessi er með þægilega þægilegum reyk í bakgrunni sem maður finnur varla fyrir en veit samt af, aðeins selta og svo léttur súr keimur.  Hljómar undalega en bragðast frábærlega.

20180909_181008.jpg

Svo er vert að fylgjast með á fésbókarsíðunni þeirra því þeir eru farnir að hóa í matarvagna þegar vel liggur á eins og kollegar þeirra í Bandaríkjunum.  Hvað er betra en góður skyndibiti og bjór?  Kannski skyndibiti og tveir bjórar?

Já þetta virðist allt fara vel af stað hjá þeim en við munum fylgjast vel með hvað þeir færa okkur á næstu misserum og höldum dálítið í vonina að þeir komi líka með eitthvað ögrandi og magnað fyrir okkur hin sem þurfum miklar bombur svo sem triple IPA, funky brett eða rótsterka tunnukarla til að koma okkur til.  Reyndar fékk ég smá sneak peak í það sem er að gerjast hjá þeim og það lofar sannarlega góðu.  Þetta verður eitthvað!

Bjór í Barcelona, staðan í dag!

Ég lenti óvænt í sólarhrings stoppi í Barcelona á dögunum á leið minni frá Róm vegna flugvandamála og svo kom ég aftur nokkrum vikum síðar (þegar þetta er skrifa).  Ég notaði tækifærið og skoðaði bjórsenuna í borginni sem er á góðu flugi og hefur verið síðustu ár.  Nú er ég hér í 5. sinn og það er bara alltaf eitthvað nýtt að bætast við.  Ég hef áður einhvers staðar skrifað um bjór í Barcelona og um Edge Brewing sem var valið besta nýja brugghús heims á Ratbeer árið 2014 en það hefur ýmislegt breyst síðan þá.  Ég ætla ekki að fara í einhverjar langlokur hér að þessu sinni…eða það er amk planið.

20160725_172701.jpgSíðast var ég í borginni 2016 og heimsótti ma. Edge Brewing sælla minninga en á þeim tíma var Mikkeller Barcelona bara að opna og BrewDog nýlega komnir.  Þetta eru svo sem góðkunningjar bjórunnenda og þarf ekki að fara frekar í þá sálma hér.  Þess má þó geta að maturinn á Mikkeller var virkilega flottur klassískur barmatur, ég borðaði þarna nokkrum sinnum.  Það góða við þetta er að BrewDog og Mikkeller eru bara rétt hjá hvor öðrum og það sem meira er, BierCab er þarna líka rétt hjá bara.  BierCab hefur lengi vel verið titlaður besti craft bar borgarinnar en þar eru að finna 30 krana með alls konar góðgæti frá öllum heiminum.  Þeir eru líka með stóran og áhugaverðan matseðil.  Samfast við BierCab er svo mjög flott bjórbúð með góðu úrvali af flöskubjór frá flottustu brugghúsum veraldar, líklega með betri bjórbúðum í Barcelona. Í þessari ferð fann ég þarna t.d. Yellow Belly frá Omnipollo sem ég hef leitað að í nokkur ár.

Ofan á þetta allt bætist svo við Garage Beer Company sem opnaði dyr sínar skammt frá BrewDog og Mikkeller fyrir einum þrem árum síðan.  Já ég bara vissi ekki af þeim þegar ég var þarna að þvælast 2016 fjandinn hafi það 🙂  Í dag eru þessir gaurar á hraðri uppleið í bjórveröldinni og gera með betri bjórum Spánar.  Sumir kannast kannski við þá af Bjórfestinni á Kex á síðasta ári?  Þeir gera bara magnaðan bjór og ekkert múður.  Við Sigrún fengum okkur aðeins í gogg þarna, flottan burger og svo geggjaðan bjór, hazy NEIPA auðvitað og nokkra mismunandi.   Ég mæli með Soup sem er þeirra best seller um þessar mundir.  Barinn er flottur en allt mjög hrátt og einfalt.  Ekkert glis og glimmer.  Þjónustan var frekar hæg reyndar, það tók ansi mörg andartök að panta bjór, reyndar var verið að þjálfa starfsmann þarna og svo má ekki gera lítið úr því að ég var ansi tæpur á tíma, átti vél heim til Íslands 5 tímum síðar.  En þrátt fyrir allt þá setjum við þennan stað efst á lista yfir staði til að heimsækja ef bjór er það sem menn vilja í Barcelona.

20180601_185946-02.jpeg

Við römbuðum reyndar einnig inn á tvo aðra ansi magnaða staði, þetta eru systurstaðir reknir af dönskum bjóráhugamönnum.   Danir og bjór virðast vera allstaðar svei mér þá.  Annars vegar er það Kælderkold og hins vegar Ölgod.  Kælderkold hefur verið hér í borg síðustu 4 árin, ég vissi bara ekki af honum fyrr en ég rambaði óvart inn á hann í gotneska hverfinu skammt frá Römblunni.  10 kranar með bjór frá öllum heimsins hornum þmt local svo sem The Garage Brewing, Soma ofl.  Virkilega ljúft að rekast á þetta, staðurinn er samt pínu lítill en maður getur tekið með sér dósir to go.  Ölgod er hins vegar töluvert stærri og ekki svo langt frá.  Staðurinn opnaði 2016 og er með 30 dælur og myndarlegan matseðil.  Þetta er fullkominn staður til að tilla sér á, eftir dag á ströndinni eða í „mollinu“, og fá sér í gogg.

En svona til að taka þetta saman í stuttu máli þá eru meðmæli Bjór & Matur þessi:

Best er að koma sér á Placa de Catalunya sem er mjög miðsvæðis miðað við þetta allt.  Það er auðvelt að komast þangað.  T.d. fer flugrútan beint þangað.  Svo er tiltölulega stutt að rölta í bjórinn (sjá kort).

Ölgod. Algjört möst ef þú ert að þvælast í miðbænum, á La Rambla (sem mér finnst persónulega hræðilegur staður), Gotneska hverfinu eða á ströndinni t.d. þá er stutt að fara á Ölgod.  Kælderkold ef þú ert aðframkominn og nærð ekki á Ölgod.

 

Sumir kjúklingar eru betri en aðrir, Massaður Kjúklingur er bestur!!!

Veður hefur verið vægast sagt ógeðslegt hér á Fróni í allt sumar, allt sumar sko en þá er gott að hafa góða menn sem gera handa manni góðan bjór.  Að undanförnu hafa sérstaklega tvö brugghús hér heima séð um að hjálpa okkur að gleyma viðbjóðnum fyrir utan gluggana okkar með frábærum bjór sem er algjörlega í takt við tíðarandann, sem sagt skýjaður en ofsalega ferskur og safaríkur bjór.  Við erum að auðvitað að tala um Borg Brugghús og Malbygg sem hafa verið skýjum ofar undanfarið og raðað út New England IPA eins og enginn sé morgundagurinn.  Úff þvílíkur orðaleikur.

Síðustu NEIPA bjórar frá Borg hafa verið framúrskarandi og allt frá upphafi hefur Malbygg verið að gera betri og betri bjór.  Sá nýjasti frá Malbygg, sem var bara að fara á dósir ÁÐAN, heitir Massaður Kjúklingur og er 8% double New England IPA með haug og helling af humlum, Citra, Mosaic og svo Columbus held ég, þurrhumlaður fjórum sinnum takk fyrir.  Bjórinn kemur í dósir í vínbúðir vonandi strax eftir helgi en eitthvað fyrr á  dælur á næsta bar.  Vá hvað þetta er gott, það besta frá Malbygg til þessa að mínu mati.IMG_7567-01.jpeg

Open Baladin, bjór að hætti Rómverja!

Þegar þú ert í Róm þá ertu líklega ekki að hugsa um hvar besta bjór er að finna, hér snýst jú allt um dásamlegt rauðvín ss Brunello di Montalcino, þurrt Franciacorta eða ekta gelato.  Vissuð þið annars að Procecco er ekki kampavín þeirra Ítala, ef það eru búbblur sem þið viljið og ítalskar í þokkabót þá skuluð þið tékka á Franciacorta sem er gert með svipuðum hætti og Champagne þeirra Frakka.  Nóg um það, bjór er líka til í Róm, reyndar flest allt frekar látlaust sull en léttur frískandi lager á þó alltaf rétt á sér í grillandi sólinni.  Moretti og Peroni þekkja margir og er hægt að nálgast þá á flestum stöðum borgarinnar sem bjóða eitthvað svalandi, en ég myndi persónulega alltaf fara í búbblur frekar en þetta.  Það er hins vegar dulítil craftbjórmenning að ryðja sér til rúms hér í borginni og það má sum staðar finna eitthvað annað en ofantalda bjóra.   Það eru líka nokkur brugghús í Róm (sjá hér) en ég var í raun ekki í mikilli bjórleit í þessari ferð og hef ekki hugmynd um hvernig þau eru, mig langaði hins vegar að tékka á Baladin aðallega vegna þess að barley wine-in þeirra eru að fá mjög góða dóma á veraldarvefnum.  Það er víst BrewDog í bænum líka ef menn eru algjörlega á þörfinni en vill maður ekki prófa localinn?

20180529_183946.jpg

Open Baladin er rómverskur bruggbar sem serverar helling af bjór, bæði eigin framleiðslu, Birra Baladin, á dælum og flöskum sem og valinn ítalskan og erlendan craft-bjór.  Það er einnig flottur matseðill með helling af alls konar hamborgurum, kjúkling, salötum og heimalöguðum kartöfluflögum með flottum heimagerðum sósum af ýmsum toga.  Við prófuðum kartöfluflögurnar sem voru fáránlega góðar, frúin fór í Giradin lambic sem er var virkilega flott val í hitanum, flatur og súr með funky punch en ég prófaði ítalskan NEIPA sem ég man ekki frá hverjum var enda ekkert spes.  Minnti sára lítið á NEIPA, annars fínn sem svalandi pale ale.  Baladin Rock’n’Roll  var ágætur 7% pale ale en ekkert sem ég myndi mæla sérstaklega með hins vegar var Baladin Xyauyù 2014 (14%) tunnuþroskaða barley wine-ið algjörlega magnað, sætt, mikið og mjúkt eins og fullkomið eftirrétta vín á borð við gott púrtvín.  Ég var svo heillaður að ég tók með mér heim tvær flöskur af eikarlegnu Xyauyú ,annars vegar þroskað á rauðvínstunnum, sem þeir kalla Terre 2010 árgerð og hins vegar hvítvísntunnum, Lune árgerð 2012.  Ég er auðvitað ekki búinn að smakka þetta en lauma inn pósti þegar ég hef fundið gott tilefni til að opna þessi herlegheit.

20180529_195425-02.jpeg

En svona til að rúna þetta af, þá er Open Baladin ágætur kostur ef menn verða að komast í góðan bjór Róm, hins vegar hefur borgin bara svo margt annað að bjóða, stundum má bjórinn bíða!

Bastard Brew & Food, nýr „brewpöbb“ á Íslandi

Nú eru bruggbarir (brewpub) borgarinnar ekki lengur bara einn heldur tveir því gamli góði Vegamót við Vegamótarstíg hefur fengið heldur betur upplyftingu en nú í síðustu viku opnaði staðurinn aftur eftir langan dvala í allt annari mynd og undir nýju nafni Bastard Brew & Food.  Jább, þeir eru með bruggtæki af flottustu sort á staðnum sem hægt er að dáðst að á efri hæð staðarins á leið á salernið en það er reyndar skemmtileg pæling, þarna fær maður að sjá hvaðan ölið er komið sem maður er að fara skila af sér, nánast á sama stað.  En þetta er pínu útúrsnúningur.  Ég taldi svo 12 glansandi fínar bjórdælur sem gefa af sér öl af ýmsum toga, þar með talið tvo húsbjóra og tvo gestabjóra sem um þessar mundir er bjór frá Malbygg og The Brothers Brewing.   Eldhúsið er áfram á sínum stað nema nú hafa menn tekið matseðilinn í gegn og minnkað talsvert og fínpússað.  Eftir stendur frábær og hnitmiðaður matseðill sem hentar afar vel með bjór af bestu gerð og því góðir möguleikar á flottum pörunum (sem Bjór & Matur mun án efa rannsaka nánar).  Hér eru menn klárlega með fókusinn á réttum stað, hingað getur fólk komið til að njóta matar og veiga í notalegu umhverfi og ekkert rugl.

IMG_7461Bjór  & matur tók út staðinn aðeins nokkrum klukkustundum eftir enduropnun.  Auðvitað voru aðeins hnökrar í þjónustu en það er pottþétt eitthvað sem menn eiga eftir að slípa til og laga og truflaði mig ekkert sérstaklega.  Staðurinn er allur hinn glæsilegasti og ekki fer á milli mála að bjór er hér í hávegum hafður og mikill metnaður í öllu.  Öll efri hæð staðarins er lögð undir glæsilegar gljáfæðgar brugggræjurnar ásamt salernum staðarins sem fyrr segir, dansgólfið er svo farið en sjálfur barinn er nú þar sem það var áður.
Matseðillinn er afar girnilegur,og það gladdi mig mjög að sjá Luisiana kjúklingastrimlana þarna enn enda eitt það besta sem maður hefur smakkað síðustu ár í matargerð.  Við frúin höfum átt margar ljúfar stundir á Vegamótum yfir þessum dásamlegu kjúklingastrimlum hér á árum áður.  Ég smakkaði þá reyndar ekki að þessu sinni en Óli, einn eiganda staðarins sannfærði mig um að þeir væru þeir sömu nema að nú er BBQ sósan enn betri en áður.  Ég fór hins vegar í mjúkt taco með uxabrjósti ofl enda sérlegur áhugamaður um mjúkt taco.  Þetta var stórgott og er vel hægt að mæla með þessu.  Það er svo hægt að fá fleiri fyllingar í þetta, kjúkling, grís ofl.  Ég prófaði líka stökka flatbrauðið hjá þeim, með geitaosti, rauðbeðum og öðru góðgæti sem var magnað. Á þessum tímapunkti var maður orðinn mettur en okkur langaði að smakka mun meira, svo sem alla þessa girnilegu hamborgara, fleiri flatbrauð og svo eru þeir með spennandi osta- og kjötskurðarplatta ofl.  Allt góðar ástæður fyrir endurkomu á staðinn.   Það er svo einnig hægt að fá „brunch“ og fisk dagsins fyrri hluta dags og vert að skoða nánar.

IMG_7464Bjórinn er af öllum toga en það er klárt að þarna fá allir eitthvað fyrir sinn smekk.  Við erum að tala um allt frá óspennandi lagerbjór upp í flottasta öl af bestu sort.  Bæði á dælum og flöskum/dósum.   Mér skilst að gestakranar eigi að vera tveir og þar fari að mestu leiti bjór undir frá íslenskum handverks (craft) brugghúsum sem er frábært akkúrat núna þegar þessi geiri er að springa svona ört út hér heima.  Sem fyrr segir er hægt að fá núna bjór frá Malbygg ,sem að mínu mati er eitt heitasta brugghús landsins, og  The Brothers Brewing í Vestmannaeyjum. Húsbjórar eru tveir, Hazy Bastard og Amber Bastard.  Í augnablikinu er framleiðsla ekki hafin á staðnum en það breytist á næstu vikum skilst mér, bara verið að bíða eftir formsatriðum.  Á meðan brugga þeir bjórinn sinn hjá öðrum brugghúsum líkt og tíðkast oft.  Nú er ég mikill aðdáandi new england IPA bjórstíslsins og hef undanfarin ár verið mikið að stúdera stílinn.  Ég er því orðinn heldur kröfuharður á þennan bjór en þrátt fyrir það var ég nokkuð sáttur við Hazy Bastard sem er rétt rúmlega 4% session bjór, en ég vil helst hafa þennan stíl í kringum 7% og uppúr, þannig er hann bara bestur.  Þetta er hinn ágætasti svaladrykkur og skýjin eru á sínum stað ásamt nettum ávaxtatónum frá humlunum.  New England IPA er skemmtilegt „move“og algjörlega í takt við tíðarandann en stíllinn er meðal þeirra allra vinsælustu í henni Veröld í dag!
Hér hafa menn þó verið að fara öruggu leiðina og gert bjór sem flestir ættu að geta drukkið, eitthvað sem mörgum finnst rökrétt þar sem um húsbjór er að ræða.  Reyndar er það umdeilt, sumir hugsa húsbjór einmitt sem meira stolt staðarins, besta bjór brugghússins sem oft getur verið ansi öflugur og sjokkerandi en það fer jú eftir brugghúsi og bruggmeisturum hverju sinni.
Hins vegar eru húsbjórarnir hér tveir og því kannski svigrúm fyrir að annar þeirra væri meira ögrandi?  En þetta er svo sem önnur saga.  Amber Bastard er hinn húsbjórinn og snilldar hugmynd fyrir stað sem selur mat, hér eru menn með amber/rauðöl sem er þægilegur bjórstíll og hentar afar vel með mat, sérstaklega brösuðum strætismat  (street food) þar sem við erum með sætar sósur og „karmelliseraða“ áferð eftir grillun ofl.  Bjórinn er nokkuð maltaður og sætur og humlar eru í lágmarki og fylling í meðallagi.   Óli sagði mér svo að planið er að þessir húsbjórar geti tekið breytingum, t.d. í tengslum við árstíðir og hátíðar ss jólabjór ofl.  Mjög flott pæling.
Hvernig sem það fer þá getum við verið nokkuð örugg um vandaðan Bastard bjór í framtíðinni því bruggvitringurinn Halldór Ægir Halldórsson er leiðarljós þeirra Bastarða í brugghúsinu en ég þekki vel til hans handverka á sviði bjórgerðar.  Eins og held ég flestir sem eru í atvinnu-bruggun þá er Halldór með bakgrunn í heimabrugginu en það er þar sem ég hef smakkað mörg meistaraverk hans.  Gaurinn kann amk að smíða bjór svo mikið er víst.

Já það verður að segjast að Bastard Brew & Food er í heildina flott pæling, eitthvað fyrir alla í rauninni, fólk með mikinn áhuga á bjór sem og lítinn því maturinn stendur jú alltaf fyrir sínu og svo eru þeir að sjálfsögðu með alls konar annað gott í munn, t.d.  ýmsa „craft“ kokdilla og má þá sérstaklega nefna þeirra túlkun á Aperol Spritz og Moscow Mule sem eru dálítið „inn“ í dag ekki satt?  Bjór & Matur óskar Bastard Brew & Food til hamingju með glæsilegan stað.

Lamplighter Brewing, rísandi stjarna í samstarfi við Borg Brugghús í Boston!

Lamplighter í Boston er ein af þessum rísandi stjörnum í bjórheiminum í dag eða amk í Bandaríkjunum.  Ef ég á að miða við eitthvað þá er tilfinning mín dálítið eins og með Omnipollo fyrir nokkrum árum.  Ég spáði þeim velgengi og nú eru þeir á lista yfir 10 bestu brugghúsum veraldar, það er alltaf gaman að vera sannspár.  Ég er með þessa tilfinningu fyrir Lamplighter.  Þeir eru staðsettir á frábærum stað í rólegu hverfi í Cambridge Boston, við erum að tala um brugghús með glæsilegu tap-room eða bruggstofu eins og við viljum kalla það á íslenskunni.  Hér færðu allt sem þeir hafa að bjóða á meðan þú nýtur útsýnisins yfir í brugghúsið sjálft því allur veggurinn á bak við barinn er úr gleri og þar fyrir innan gerast röfrarnir.  Staðurinn er hrár en samt ofsalega hlýlegur og stemningin er góð, enda úir hér og grúir af metnaðarfullum bjórþyrstum ofvitum frá Harvard, MIT og öðrum minni skólum hér í kring, það er eitthvað svona „Brain Power“ í lofti.

Já hér eru allir með einhverja þekkingu á einhverju og skoðanir láta ekki á sér kræla svo mikið er víst.  Hér situr fólk og vinnur að fyrirlestrum eða öðrum verkefnum yfir ljúfum bjór og ræðir málin. Af þessum sökum eru menn ofsalega harðir hérna, þú getur ekki pantað bjór nema framvísa skilríkjum en þá færðu líka stimpil á handarbakið og ert góður það sem eftir lifir kvölds.  Ég fékk reyndar engan stimpil!  Bruggstofan er svo ekki bara fyrir bjór því á daginn og til held ég kl 16 eða 17 er  bruggstofan eins konar kaffíhús þar sem þú færð frábært kaffi og bakkelsi með af bestu sort.  Þú getur auðvitað líka laumað þér í bjórinn ef stemningin er þannig.

20180420_140205.jpg

Lamplighter er heima á Íslandi og reyndar víðar þekkt fyrir að brugga gríðarlega vandaðan NEIPA (New England IPA) og margir nefna Trillium í sömu andrá og Lamplighter en þeir eru jú þekktir sem eitt besta brugghús Bandaríkjanna og þótt víðar væri leitað. Þeir eru guðir í NEIPA gerð svo mikið er víst.  Við ræddum þetta aðeins ég og Tyler sem er bruggmeistari staðarins og einn af eigendum.  Rétt eins og pöpullinn þá taldi ég Lamplighter nefnilega sérhæfa sig í „Trillium style“ IPA en það er bara alls ekki rétt.  Þeir gera vissulega framúrskarandi imperial NEIPA á borð við Rapid Rapid, Birds of A Feather og svo ekki sé minnst á So Much For Subtlety sem var bara að detta á krana hjá þeim, algjörlega sjúkur NEIPA.

Tyler vill samt ekki að Lamplighter verði þekkt fyrir að vera eins og Trillium, hann neitar  því reyndar ekki að það er gaman að fá svona viðurkenningu sem það vissulega er að líkja NEIPA bjórnum þeirra við Trillium en Tyler sér Lamplighter fyrir sér í mun fjölbreyttari bjór.  Hann er mjög hrifinn af allst konar bjórstílum og hefur mikinn metnað fyrir því að halda í hefðirnar og vanda til verks, uppáhalds bjórstíllinn hans er virkilega vandaður lager segir hann, hvort sem það var grín eða ekki.  Tyler vill t.d. brugga kölsch sem hann getur stoltur boðið hörðustu bjórnördum Þýskalands eða belgian tripel sem jafnast á við það besta frá Belgíu, sem sagt alls ekki humlaðar „amerískar“ útgáfur af þessum stílum.

20180420_144100NEIPA er sem sagt aðeins brot af því sem þeir brugga hjá Lamplighter.  Kranalistinn ber þess merki, í kvöld eru t.d. bara þrír double IPA af New England gerð á lista, allt hitt er alls konar.  Tyler gaf mér að smakka flest á listanum og meira til.  Rapid Rapid er góður í dós en af krana er hann algjörlega guðdómlegur!  Ég smakkaði líka Kieran sem er sá bjór sem selst hvað minnst hjá þeim.  Barley wine er bara ekki bjórstíll sem menn þekkja eða þora í hér í Nýja Englandi sagði Tyler mér.  Ég verð hins vegar að segja að þessi bjór var það besta sem ég hef smakkað í þessari ferð og þá er ég líka að tala um allan Trillium bjórinn.   Já ég elska NEIPA en þessi barley wine var algjörlega frábær.  Það að hann seljist ekki hratt er svo sem bara í góðu lagi því hann má alveg eldast á kút í rólegheitunum.

Ég smakkaði einnig hjá þeim fyrstu afurð úr tunnuprógramminu þeirra, sem sagt bjór sem fær að þroskast á eikartunnum.  Rhapsody 8.2% er svakalega flottur súrbjór sem legið hefur á french oak tunnum í 13 mánuði.  Tyler var mjög ánægður með útkomuna enda sá fyrsti sem kemur úr þessu verkefni þeirra sem lofar góðu fyrir það sem er á leiðinni.

Við ræddum m.a Ísland og Bjórhátíðina á Kex, Tyler sagðist hafa verið afar ánægður með hátíðina en hann og félagar voru á staðnum ásamt öðrum frábærum brugghúsum eins og menn vita líkast til.  Lamplighter var eitt af þessum stóru nöfnum í ár.  Þeir mættu sannir hugsjóninni með alls konar bjór, ekki bara skýjaðan NEIPA.  Ef hann fær boð aftur að ári mun hann svo sannarlega mæta og tók ég af honum loforð að við myndum brugga saman bjór í skúrnum mínum heima (nano).  Ég lofaði honum bjór, heitum potti og norðurljósum sem þýðir að ég hef ár til að koma mér upp heitum potti.

20180420_144753-01-01Talandi um samstarfsbjór þá var ég mjög spenntur að heimsækja Lamplighter einmitt um þetta leiti því þeir Tyler og félagar brugguðu bjór heima á Íslandi með KEX Brewing og Borg Brugghús, sem kunnugt er orðið en útkoman var Borealis Baby sem ég verð að segja að sló persónulega í gegn hjá mér, ég er ekki viss hvort eitthvað sé enn til af honum heima en viljum við ekki fá hann aftur og á dósir?  Borg Brugghús mætti svo hingað út í síðasta mánuði og bruggaði annan bjór í Lamplighter, Sneaker Wave 7% heitir sá og fór hann bæði á dósir og krana hér fyrir rúmum tveim vikum síðan.  Nafnið spratt upp úr samræðum þeirra heima á klakanum þegar þeir voru að ræða hættulegar öldur sem geta hrifið grunlausa túrista á haf út, sneaker wave, ég veit svo sem ekki af hverju tal þeirra barst að þessu en svona er það.   Borg flutti með sér haug að íslensku blóðbergi til Boston og var það notað í þennan skemmtilega kryddaða new england IPA.   Bjórinn var að sjálfsögðu drukkinn á staðnum í Borg glasi sem Tyler féll alveg fyrir, það vakti furðu mína hve mikla gleði meðal Lamplighter teymisins það vakti.  Gaman að því.  En bjórinn er mjög skemmtilegur, safaríkur og nettur með áberandi blóðbergi í bakgrunni.  Tyler sagði  að blóðbergið hafi verið mjög magnað í upphafi en á þessum tveim vikum hefur dregið töluvert úr því.  Fyrir mína parta hefði það ekki mátt vera meira þannig að ég er sáttur.

 Já þetta var skemmtileg heimsókn en erfið daginn eftir samt því Tyler er rausnarlegur heim að sækja.

 

BrewDog opnar í Reykjavík og bjór og matur í brennidepli!

BrewDog mun hefja göngu sína í Reykjavík núna snemmsumars 2018.  Það er loksins staðfest en fréttir um áhuga BrewDog á Íslandi bárust mér fyrst til eyrna fyrir nokkrum árum síðan.  Það að menn tóku sér þennan tíma í að meta og melta staðsetningar og rekstraraðila er klassískt fyrir BrewDog og til marks um þann mikla metnað sem ríkir þar á bæ.  Menn vilja gera allt 100%, ekkert hálfkák.

Staðsetningin er sem sagt klár og ekki af verri endanum, á horninu á Frakkastíg og Hverfisgötu í fullkomnu húsnæði fyrir þennan stað.  Bjórfólk þekkir BrewDog en þeir sem ekki þekkja til þá ætla ég að útskýra í nokkrum orðum.

BrewDog var stofnað af þeim félögum Martin Dickie og James Watt í Fraserburgh í Skotlandi árið 2007.  Kveikjan var langleiði þeirra á bragðlausum fjöldaframmleiddum lagerbjórum og slöppu óvönduðu öli sem á þeim tíma var að tröllríða breskum bjórmarkaði, þeim langaði að breyta þessari þróun og skapa spennandi og ljúffengan bjór og kynna almenningi fyrir öllu því góða sem bjórheimurinn hefur að bjóða, alvöru handverk (craft).   BrewDog fór rólega af stað fyrstu mánuðina en þegar leið á árið 2008 varð allt vitlaust og BrewDog varð stærsta óháða brugghús Skotlands.  Eftirspurnin eftir  þessum „nýja“ og bragðmikla bjór varð gríðarleg og árið 2009 var BrewDog orðið það brugghús í Bretlandi sem óx hvað hraðast.  Húsnæðið í Fraserburgh var löngu sprungið og þurfti að flytja aðsetur þeirra í stærra húsnæði og bæta við sig gertönkum, starfsfólki ofl til að mæta þessari eftirspurn.  BrewDog héldu áfram að ögra og komu m.a. með sterkasta bjór í heimi, Tactical Nuclear Penguin 32% sem vakti mikið umtal.   Til að gera langa sögu stutta, þá hélt veldi þeirra áfram að stækka án þess að það kæmi niður á „conceptinu“ að brugga alltaf frábæran handverksbjór í hæsta gæðaflokki.  Í dag eru þeir með um 50 bari víðs vegar um heiminn og eru enn að bæta við sig, BrewDog Reykjavík er aðeins einn af mörgum nýjum BrewDog börum sem munu opna á þessu ári.

Ég ræddi á dögunum við félaga minn Þossa en við unnum saman í tengslum við Skúla Craftbar hér á árum áður.  Þossi er ljúflingur hinn mesti og alls enginn nýgræðingur þegar kemur að því að sýsla með bjór, en Þossi er einmitt framkvæmdastjóri BrewDog Reykjavík þó svo að tiltar séu bara aukaatriði í hans huga, við verðum samt að kalla hann eitthvað ekki satt?  Þossi er ekki einn á bak við BrewDog Reykjavík því auk hans eru nokkrir þaulreyndir aðilar í veitingageiranum sem eiga og reka vinsæl veitingahús í borginni á borð við Public House, Forréttabarinn ofl.  Þetta er sko fólk sem kann að gæla við bragðlauka og önnur skilningarvit en Publick og Forréttabarinn er í sérlegu uppáhaldi undirritaðs.

Þossi segir mikinn metnað vera við opnun barsins í Reykjavík, það verða 20 línur, 12 undir frábæran BrewDog bjór en 8 sem tileinkaðar eru gestabjór, t.d. innflutt eða bara íslenskt örbrugg sem er í svo miklum vexti hér heima.  Kröfurnar frá höfuðstöðvum eru bara að gestabjór þarf að vera „CRAFT“, allt annað er stranglega bannað.  Það er magnað.  Kútarnir verða í stórum kæli, ekkert sérstakt kælikerfið á leið frá kút að dælu og aðeins um eins meter lína sem er frábært mtt gæða bjórsins og affalla!  Það er einnig mælst til þess að allir starfsmenn staðarins, allir, ljúki amk 1. stigi Cicerone gráðunnar en það er hliðstæða Sommelier í vínheiminum.  Þossi sjálfur þarf hins vegar að fara lengra og ljúka amk gráðu 2.   Það er bara frábært.   Það sem er hins vegar enn betra er að BrewDog um heim allan býður ákveðið úrval af barmat ef svo má segja, ég hef t.d. enn ekki fengið betri hamborgara en burgerinn á BrewDog Camden í London.  Hér heima verður sko fullskipað eldhús tengt staðnum og áhersla lögð á ca 50% bjór og 50% mat sem þýðir einfaldlega að þú getur farið á BrewDog Reykjavík og fengið himneskan mat með miklu úrvali af stórglæsilegum bjór til að para við.

Já þetta voru líklega stærstu fréttirnar fyrir okkur á Bjór & Matur, hér er kominn staður sem er bara eins og sniðinn fyrir okkur, bjór og matur eða matur og bjór er „thema“ staðarins.  Við munum svo sannarlega taka matseðil og bjórlista út þegar staðurinn opnar nú í sumar.  Þetta verður geggjað!

Vel á minnst, ef þið hafið áhuga þá eru þeir að ráða, sendið línu á reykjavikbar@brewdog.com ef þið hafðið áhuga á að vinna með bjór og mat!

Malbygg mættir til leiks!

Malbygg er eitt af þessum nýju íslensku brugghúsum sem eru að hefja göngu sína um þessar mundir.  Þeir áttu góðan leik á nýafstaðinni Bjórhátíð á Kex þar sem þeir frumsýndu bjór sinn sem kom bara helvíti vel út, eitthvað er enn hægt að fá af þessum bjór á bestu bjórbörum borgarinnar.  En nú eru þessir þremenningar, Andri, Ingi og Bergur sem sagt komnir á fullt til að gleðja okkur hin og það besta við þetta er að þessir menn bæði kunna að brugga bjór og þeir eru með svipaðan smekk og ég á bjór.  Þetta er borðleggjandi.

Ég tók púlsinn á þeim í dag og leit við í brugghúsið þeirra í Skútuvoginum.  Þeir félagar voru í óða önn að ljúka við að brugga einhverjar nýjar kræsingar þegar ég bankaði uppá.  Ég fékk svo að smakka aðeins það sem væntanlegt er frá þeim, sumt bara alveg á næstu dögum.  Til að byrja með eru þeir langt komnir með ljúfan session IPA (4.7%), SOPI,  sem þurrhumlaður er með Citra og svo Mosaic humlum og ögn Colombus.   Ég smakkaði þennan ljúfling ókolsýrðan og það átti eftir að þurrhumla með Mosaic en hann var ansi nettur og lofar virkilega góðu.  Þessi á eftir að slá í gegn held ég en hans er að vænta Á DÓS í Vínbúðirnar bara líklega í næstu viku eða svo.  Mikið hlakka ég til.  Tókuð þið eftir, Á DÓS? Já og var ég búinn að minnast á að allt IPA stöffið frá Malbygg er í raun New England style IPA (NE IPA) þó þeir séu ekkert sérstaklega að upphrópa það á vörum sínum.  Ég fékk að sjá merkimiðana sem eru að koma og þeir koma sko þrusu vel út.  Hlakka til að fá að sýna ykkur hér á næstu dögum.

IMG_7247Ég fékk líka að smakka frábæran DIPA (ca 8%), sem mun heitra GUTLARI, hann er í raun tilbúinn en þeir eru bara að bíða eftir hárrétta augnablikinu til að henda honum á kúta og svo beint á barina, líklega bara um helgina.  Svakalega flottur NEIPA með Citra og Mosaic.  Svo kúrir þarna hjá þeim Galaxy IPA sem er dálítið óþroskaður enn sem komið er.  Hann lofaði góðu en þó lítið að marka svona flatur og óþroskaður.  Þessi mun líka fara á dósir veiiii!

Loks er virkilega spennandi imperial stout í gerjun hjá þeim sem er afrakstur samstarfsbruggunar með Cycle Brewing og KEX Brewing, en þeir félagar skelltu í þessa lögun nú á dögunum þegar Bjórfest stóð sem hæst.  Cycle er 5. besta brugghús veraldar skv Ratebeer um þessar mundir.  Virkilega spennandi amerískt brugghús sem gerir „killer“ imperial stout og porter bjóra. KEX Brewing er svo með betri brugghúsum landsins um þessar mundir sem hefur bruggað með ótal stórlöxum í bruggheiminum.  Þessi samstarfs stout, BREWHAHA, er virkilega flottur, líklega ein 13% en hann mun svo fara á einhverjar spennandi tunnur skilst mér á næstu vikum.  Spennandi!