Ég smakkaði nýjan fallegan bjór frá Kex brewing í gær sem þeir kalla Forbidden Fruit eða Forboðnir ávextir. Um er að ræða 4% bjór af gerðinni gose sem er „ketilsýrður með helling af íslensku skyri.
Gose stíllinn er í sinni hreinu mynd ævaforn þýskur bjórstíll sem jafnan er töluvert súr en með söltum undirtón. Bjórinn minnir þannig nokkuð á belgísku súrbjórana gueuze og lambic eða þýska Berliner weisse.
Forboðnir ávextir er hins vegar hlaðinn ávöxtum af bestu sort, ástaraldin, yuzu og mangó og erum við því að tala um algjöra ávaxatombu sem sumum gæti þótt líkari ávaxtasafa en bjór. Súri keimurinn sem einkennir gose stílinn er mjög látlaus líklega vegna ávaxtasætunnar sem tónar þetta niður. Bjórinn verður þannig auðdrekkanlegri fyrir fjöldann en á sama tíma ekki eins krassandi fyrir hörðustu bjórnördana þar sem mottoið er oft á tíðum „því súrara því betra“. Bjórinn er hins vegar ofsalega þægilegur, algjör svaladrykkur eða session bjór eins og stundum er sagt og maður finnur alveg fyrir látlausum skyr undirtón. Fyrir mína parta er þetta geggjaður sumarbjór en gengur einnig sem flottur fordrykkur t.d. í áramótaveislunni. Svo er spurning hvað myndi gerast ef hann væri notaður í kokdilli?
Forbidden Fruit er held ég ekki titlaður sérstakur áramótabjór en hann er að koma núna út rétt fyrir áramótin og hvað er það þá annað en áramótabjór? Mér skilst að þetta sé fyrsti bjórinn í „ávaxtalínu“ brugghússins og því er spennandi að sjá hvað kemur í framhaldinu frá þeim. Ætti að vera fáanlegur á krana á Kex Hostel og Mikkeller & Friends frá og með deginum í dag!!!