Í fyrsta sinn á Íslandi, Cask bjór á RVK Brewing Co og meira til!

B&M leit við hjá RVK Brewing Co í gær smakk og stuð. Við sendum þetta út í beinni á fésbókinni í gær og er enn hægt að sjá þetta hér.  Það var bara kominn tími á að smakka nitrogen bjór af nitro krananum þeirra, reyndar eru þeir með tvo slíka.  Já nitro krana, hvað er nú það?  Júbb það er fyrirbæri sem vert er að skoða nánar og er orðið ansi vinsælt úti í hinum stóra heimi í dag.  Nitrogen bjór er kolsýrður með blöndu af köfnunarefni (70%) og kolsýru (um 30%) en venjulega er þessi blanda í öfugum hlutföllum, 30% köfnunarefni og 70% kolsýra.  Köfnunarefni leysist illa eða ekki upp í bjórnum þannig að bjórinn verður ögn flatari en mun mýkri fyrir vikið.  Nitro kraninn er einnig hannaður á þann máta að þegar bjórnum er þrýst í gegnum örfínar holur þá tapast mest öll kolsýran úr bjórnum og það myndast dúnamjúkur og þéttur froðuhaus með áferð líkt og þeyttur rjómi. Bjórinn allur tekur á sig aðra mynd og verður ekki svona kitlandi og hvass eins og venjulega kolsýrður bjór. Virkilega gaman að prófa sama bjór sem annars vegar er nitro útgáfa og hins vegar hefbundinn.

20190315_172137-01.jpegÍ gær smakkaði ég Co & Co sem er imperial bakkelsis stout sem ég áður fjallað um, stórkostlegur bjór en algjörlega geggjaður af nitro krananum, þetta þarf ég að komast í aftur sem fyrst.  Ég smakkaði líka annan og kannski þekktari bjór af nitro krananum þeirra en það er enginn annar en sir Guinnes sem kom bara til landsins í fyrradag beint frá heimahögum í Írlandi.   Ég er venjulega ekki sérlega hrifinn af Guinnes en þegar hann er serveraður svona er hann dásamlegur, come and getit, ekki viss um að sé til meira en kútur af þessu.

„fyrsti cask bjórinn á Íslandi?“

En svo er það handpumpaði tunnubjórinn eða cask bjórinn, já þetta er eitthvað sem fólk hefur kannski lítið verið að spá í hér heima enda hefur þetta form á bjór ekki verið til á Íslandi þar til nú!   Já í gær voru menn nefnilega á vígja fyrsta (svo vitað sé) cask pumpuna á klakanum.  Þeir voru með heldur óhefðbundinn bjór undir eða svo kallaðan classic pretzel saison að nafni Is This It? sem er bjórinn sem RVK Brewing bruggaði með New York brugghúsunum sem komu hingað til lands í febrúar fyrir bjórhátíðina árlegu.  Venja er að cask bjór sé stout, pale ale, brown ale eða álíka en ekki kannski saison þó svo að allt sé leyfilegt í þessu.   Mér heyrist á Valla að menn muni leika sér áfram með þetta og setja alltaf eitthvað skemmtilegt á caskið.  En hvað er þá cask bjór?  Ég lét Valla útskýra þetta í gær, Valli og Cask ale!  Í stuttu máli, handpumpaður bjór sem er ekki undir þrýstingi í tunnunni og dálítið flatur en dásamelga mjúkur og notalegur.  Ég hef aldrei verið spenntur fyrir þessum stíl til þessa en þetta er skemmtileg tilbreyting og ég held að ég sé loksins orðinn nægilega þroskaður fyrir þetta, mörg ár síðan ég smakkaði þetta síðast.  Þetta er alla vega möguleiki og ég hvet ykkur til að koma á RVK Brewing og smakka!

20190315_175818.jpg

En það var heilmikil stemning í gær, staðurinn fullur af fólki og góðum bjór og svo stóð Siggi í brúnni og þeytti skífur þar til DJ Katla mætti til leiks með enn meira stuð.  En ég smakkaði fleiri bjóra í gær, ekki bara nitro og caskið, t.d. var Killer Bunny helvíti magnaður, samstarf við Bonn, titlaður imperial ESB en fyrir mér er þetta DIPA.  Svo hef ég verið að tala dálítið um lagerinn undanfarið en Valli lét mig fá helvíti skemmtilegan 4.6% Yuzu hrísgrjóna lager sem hann kallar Arigato.  Fólk hefur kannski smakkað hann á nýafstaðinni bjórhátíð en hann var þar á dælu alla dagana.  Þetta er léttur og ofsanelga þægilegur lager með ögn sítrónublæ.  Frábær viðbót í lagerflóruna.  Takk fyrir mig Siggi og Valli!

20190315_174727.jpg

Reykjavík Brewing Co komið vel af stað.

Nú er RVK Brewing Co komið vel af stað en þeir opnuðu brugghús og bruggstofuna sína bara núna í Júlí 2018.   Í bruggstofunni er 8 kranar eins og sakir standa og þar flæðir mjög skemmtilegt en umfram allt neytendavænt öl af ýmsum stærðum og gerðum.  Hvort sem það er saison, IPA, súröl eða stout þá erum við ekki að  tala um neina öfgar.  Hér geta í raun allir komið og smakkað án þess að verða fyrir skakkaföllum.  Presónulega þá mættu RVK Brewing samt koma með eitthvað líka sem hristir vel upp í manni en hér er það jú bara bjórnördinn í mér sem talar!

Ég er að koma hér í fyrsta sinn eftir formlega opnun en ég er svo sem búinn að reka inn nefið hér annað slagið á meðan þeir Siggi og co voru að koma þessu á laggir en það er gaman að sjá hvernig þetta kemur út svona tilbúið allt saman.  Notaleg stemning, ljúf tónlist, bjart og hreint andrúmsloft og bara þægilegt að vera.  Siggi sem er einn af eigendum og mikill bjórperri virðist alltaf vera á staðnum og það er um að gera að hnippa í hann og fá hann á flug.  Hann elskar að tala um bjórinn og allt ferlið.  Það er svo líka hægt að kaupa „the beer tour“ og fá hann til að kafa enn dýpra í þetta allt saman með smakki og tilheyrandi.   Ef þú ert hins vegar ekki til í að hugsa allt of mikið þá er bara að tilla sér í góðu horni, hlusta á góða tónlist og njóta ölsins. Ég mæli með NO 7 sem er þeirra nýjasti, session IPA þurrhumlaður með Idaho 7.  Mjög næst IPA, léttur fruity og með hæfilegri móðu sem er einmitt dálítið inn þessa stundina.  Þessi ku líka vera einn af fyrstu bjórum Valla bruggmeistara sem er bara ný dottinn inn um dyrnar hjá RVK bewing, en við þekkjum þennan strák frá Borg Bruggús auðvitað.  Nánar um þetta síðar.

Vinsælasti bjórinn þeirra um þessar myndir er líklega bakkelsisbjórinn Co & Co sem er 10.1% imperial stout sem er bruggaður ma með snúðum frá Brauð & Co.  Þessi er mjög ljúffengur.  Bakkelsis bjór eða pastry beer er fyrirbæri sem er að verað dálítið vinsælt í henni Veröld í dag, það verður að prófa þennan.  Ég myndi svo ekki fara héðan nema að smakka Sperrilegg sem er bara einfeldlega frábær reyktur gose sem er skemmtilegur þýskur bjórstíll sem næstum náði því að deyja út hér fyrir fáeinum árum.  Þessi er með þægilega þægilegum reyk í bakgrunni sem maður finnur varla fyrir en veit samt af, aðeins selta og svo léttur súr keimur.  Hljómar undalega en bragðast frábærlega.

20180909_181008.jpg

Svo er vert að fylgjast með á fésbókarsíðunni þeirra því þeir eru farnir að hóa í matarvagna þegar vel liggur á eins og kollegar þeirra í Bandaríkjunum.  Hvað er betra en góður skyndibiti og bjór?  Kannski skyndibiti og tveir bjórar?

Já þetta virðist allt fara vel af stað hjá þeim en við munum fylgjast vel með hvað þeir færa okkur á næstu misserum og höldum dálítið í vonina að þeir komi líka með eitthvað ögrandi og magnað fyrir okkur hin sem þurfum miklar bombur svo sem triple IPA, funky brett eða rótsterka tunnukarla til að koma okkur til.  Reyndar fékk ég smá sneak peak í það sem er að gerjast hjá þeim og það lofar sannarlega góðu.  Þetta verður eitthvað!

RVK Brewing Company, nýtt brugghús handan við hornið!

Það hefur mikið verið að gerast í hinum íslenska bjórheimi undanfarin 3-4 ár og margt mjög spennandi framundan skal ég segja ykkur.  Brugghús eru byrjuð að poppa upp eins og gorkúlur og önnur á teikniborðum.  Eitt af þeim brugghúsum sem eru í pípunum er RVK Brewing Company í Skipholtinu en ég verð að segja að ég er virkilega spenntur fyrir þessu.  Fyrir því eru tvær ástæður, í fyrsta lagi þá er karlinn í brúnni á þeim bæ Sigurður Snorrason hagfræðingur og heimabruggari og alls enginn nýgræðingur þegar kemur að bjór.  Siggi er mikill bjórkarl og hefur lengi verið að grúska í heimabruggi með góðum árangri leyfi ég mér að segja.  Auk þess bjó kauði hér á árum áður í Bandaríkjunum þar sem bjórmenningin er á virkilega háu plani og því má leiða líkum að því að bjórinn hans muni bera keim af amerískri bjórhefð sem er nákvæmlega það sem við viljum hér.

Hin ástæðan er svo sú að ég heimsótti Sigga í verðandi RVK Brewing nú á dögunum og fékk að sjá og heyra hvað framundan er. Allt virkilega lofandi.  Ég smakkaði auk þess  nokkra tilraunabjóra frá þeim, t.d. pilsnerinn sem þeir eru að þróa sem var ofsalega flottur og imperial stoutinn þeirra féll líka algjörlega í kramið hjá mér. Báðir þessir bjórar báru merki þess að skapari þeirra gerir þetta að alúð og vandvirkni.

20171020_162711
Pilsnerinn var flottur, bragðmikill, mjúkur með góða fyllingu.

Brugghúsið er sem sagt að taka á sig mynd í þessum skrifuðu orðum, 500L bruggtækin standa gljáfægð og fín og bíða þess að verða tengd og skipulag á brugghúsinu ásamt bruggstofunni (tap room) komið á hreint.  Við Siggi ræddum saman um framhaldið og þá möguleika sem eru í stöðunni og ég get sagt ykkur að þarna á þessum bænum eru menn bara að hugsa nákvæmlega það sama og ég myndi hugsa sem einfaldlega verður að teljast spennandi…..sérstaklega fyrir mig!  Það er ekki klárt hvenær brugghúsið verður komið á fullt sving en líklega mun það bara gerast á næstu mánuðum eða fljótlega eftir áramótin.  Húsnæðið býður svo upp á ýmislegt og hver veit nema við fáum að sjá fyrsta alvöru „tap roomið“ á Íslandi innan tíðar?

20171020_163301
Þessar flottur græjur fara bráðum að töfra fram ölið

Já árið 2018 verður skemmtilegt ár svei mér þá og svo eru fleiri brugghús í deiglunni en nánar um það síðar!

Forsíðumyndin er tekin af fésbókarsíðu RVK Brewing Company!