BrewDog opnar loksins dyr sínar í Reykjavík núna á föstudaginn 21.9.18. Þetta hefur verið löng en falleg fæðing en ég hef verið svo lánsamur að fá að vera fluga á vegg síðustu misserin og fylgst með gangi mála. Það hefur verið virkilega gaman að sjá þennan bar taka á sig mynd smátt og smátt í þessari nýbyggingu sem nú er risin við Frakkastíg. Útkoman er þessi stórglæsilegi bar eða gastro pub, sem fólk getur skoðað og bragðað á frá og með föstudeginum kemur. Hér má lesa nánar umfjöllun okkar um BrewDog fyrr á árinu fyrir þá sem ekki þekkja til.
Barinn er settur upp og innréttaður í anda BrewDog víðs vegar um heim en þó er alltaf eitthvað „local“ handbragð á hverjum bar sem gerir hvern bar sérstakan. Við erum hér með 20 bjórdælur sem færa manni bjór af dælukerfi sem líklega er með styttstu bjórlínum á landinu. Kútarnir standa nefnilega í kæliherbergi beint aftan við dælurnar og línurnar eru aðeins um 1 meter að lengd en þannig má takmarka afföll og auka gæðin. Kæliherbergi þýðir að ekki þarf sér kælikerfi til að kæla bjórinn og bjórinn er því geymdur við bestu aðstæður. Það er líka helvíti flott að geta séð inn í kælinn í gegnum glerhurðina við endann.
Stefnan er að hafa 12 krana með BrewDog bjór og þar af 5 „headliners“ eða fastan bjór sem maður gengur að vísum og svo er rest roterandi. Afgangurinn er svo gestabjór af ýmsum toga, eina reglan er að gestabjór þarf að vera handverks bjór (craft) og auðvitað góður. Í kvöld voru gestabjórarnir fjölbreyttir frá Malbygg, RVK Brewing, Borg Brugghús, Jóni Ríka ofl.
Headliners þessa stundina eru skemmtilegir karlar á borð við Jet Black Heart, Dead Pony Club, Indie Pale Ale og 5AM Saint sem er rauðöl af bestu sort sem mjög góður bjór til matarpörunnar hvers konar og ekki má svo gleyma flaggskipinu Punk IPA sem alltaf í boði, bjórinn sem kom BrewDog á kortið!
Það er ekki hægt að skilja við þessa yfirferð án þess að nefna nitro kranann en það er fyrirbæri sem vert er að skoða nánar og er orðið ansi vinsælt úti í hinum stóra heimi í dag. Nitrogen bjór er kolsýrður með blöndu af köfnunarefni (70%) og kolsýru (um 30%) en venjulega er þessi blanda í öfugum hlutföllum, 30% köfnunarefni og 70% kolsýra. Köfnunarefni leysist illa eða ekki upp í bjórnum þannig að bjórinn verður ögn flatari en mun mýkri fyrir vikið. Nitro kraninn er einnig hannaður á þann máta að þegar bjórnum er þrýst í gegnum örfínar holur þá tapast mest öll kolsýran úr bjórnum og það myndast dúnamjúkur og þéttur froðuhaus með áferð líkt og þeyttur rjómi. Bjórinn allur tekur á sig aðra mynd og verður ekki svona kitlandi og hvass eins og venjulega kolsýrður bjór. Virkilega gaman að prófa sama bjór sem annars vegar er nitro útgáfa og hins vegar hefbundinn, það er svo sem ekki í boði þessa stundina samt. Ég er ekki hrifinn af stout bjór yfir höfuð en þegar maður smakkar þannig bjór af nitro krananum þá er útkoman stórkostleg. Við mælum því með því að fólk prófi Jet Black Heart nitro, t.d. með sturlaða djúpsteikta mars eftirréttinum sem er í raun full máltíð útaf fyrir sig.
BrewDog er bjórbar en það er alltaf einhver matur í boði en gæðin eru afar mismunandi eftir stöðunum. BrewDog Reykjavík er hins vegar með mikla áherslu á mat af ýmsum toga. Þegar ég ræddi við Þossa (karlinn í brúnni) á dögunum þá er áherslan ca 50% matur og 50% bjór enda eru miklir framamenn í veitingageiranum á bak við BrewDog í Reykjavík, menn sem kunna svo sannarlega að framreiða mat. Matseðillinn er stórkostlegur, vægast sagt, þarna er bara eitthvað fyrir alla. Í kvöld prófuðum við þrjá rétti en munum taka þetta allt betur út þegar þetta er komið í gang allt saman.
Það er óhætt að mæla með rifna andalærinu sem parast einkar vel með Elvis Juice sem er ljúfur vínberja IPA sem skapar skemmtilegt léttvægi á móti jarðbundu andalærinu, virkilega flott. Svo prófuðum við kjúklinga vöfluréttinn með eggi og spicy majo. Ofsalega skemmtilegur réttur á sætu nótunum en þó með nettum hita. Hér kemur 5am Saint mjög vel út en áberandi maltkarakterinn í bjórnum tengir vel við sætuna í þessum rétti en humlabeiskjan tónar þetta þó niður og skapar gott jafnvægi. Við enduðum svo kvöldið með konungi imperial stout bjóra, Tokyo sem er rétt rúmlega 16% imperial stout af allra allra bestu sort. Þetta er þrusu bjór með mikinn hita og karakter en heilmikla sætu líka. Við hefðum getað klárað þetta með bjórnum einum saman enda stendur hann fyllilega fyrir sínu sem flottur eftirréttur út af fyrir sig en við ákváðum að láta vaða í Mars Bar Wellington sem er mars súkkulaði stykki sem er bakað í smjördeigi með Jet Black Heart karamellu, haframulningi og Madagascar vanillu rjómaís. Þetta er sturlað combo og alls ekki fyrir viðkvæmar sálir með mikla líkamsvitund. Maður þarf ekki að broða í viku eftir þetta monster. Fínt til að deila 🙂
Já þessi general prufa fór vel af stað, smá byrjunar hnökrar en þó ekkert til að tala um. Þetta verður virkilega flott í framtíðinni. Bjór & Matur mun klárlega koma hér við reglulega á næstu misserum og leika sér með paranir ofl. Til lukku Reykjavík með þennan nýja sælureit.