Náttúruvín, villibjór vínheimsins?

Náttúruvín er orð sem maður er farinn að heyra meira og meira hér heima um þessar mundir.  Barir keppast við að auglýsa „nýjustu náttúruvínin“ sín og sumir staðir gefa sig út fyrir að vera sérhæfir í náttúruvínum.  Fólk er líka farið að tala um hve náttúruvínin eru miklu betri en „ónáttúruvínin“ eða hvað á maður að kalla þau?

Hvað er þá náttúruvín? Það er ágætt að rugla þeim ekki saman við lífrænt ræktuðu vínin því lífrænt ræktuð vín eru ekkert endilega náttúruvín, hins vegar eru náttúruvín alltaf lífrænt ræktuð.  Það er svo sem ekki til nein lögskráð skilgreining en ef maður á að útskýra á sem einfaldasta máta eru náttúruvín vín sem eru gerð án þess að bæta nokkru við í framleiðsluferlinu eða taka eitthvað út.  Sem sagt, engin aukaefni, engin eiturefni við ræktun, ekki er notast við einangraða gerstofna við gerjun heldur það ger sem er að finna á vínberjunum (villiger) sjálfum, vínin eru ekki síuð og ef þau freyða þá er það kolsýra frá gerinu sem kolsýrir vínið í flöskunni, ekki viðbætt kolsýra.  Náttúruvín í sinni hreinustu mynd eru ekki heldur með viðbættu súlfati.  Loks má benda á að allt ferlið er meira svona gamaldags ef svo má segja, ekki er um að ræða fleiri hektara af vínvið og þrúgurnar eru handplokkaðar.  Vínin eru oft bara framleidd í litlu upplagi og því getur verið erfitt að nálgast þau.

Menn segja að bragðupplifunin sé allt önnur ef borið er saman hefðbundið vín og náttúruvín, dálítið eins og súrdeigsbrauð vs venjulegt heimilisbrauð, eða kreistur ávaxtasafi vs ávaxtaþykkni.  Fyrir mér má líkja þessu við handverksbjór (craft beer) vs fjöldaframleiddan lager bjór.    Talandi um bjór þá vakti þessi náttúruvíns umræða áhuga minn einmitt vegna þess hve mikið náttúruvín minna mig á hinn villigerjaða belgíska lambic bjór eða gueuze.  Villigerjaður bjór er látinn gerjast af örverum þeim sem finnast í andrúmsloftinu og lenda í bjórnum, engum sykri er bætt við í ferlinu, bjórinn er ósíaður og það er gerið sem sér um að kolsýra bjórinn í seinni gerjun á flöskum eða tunnum.

Bragð og áferð minna einnig um margt á bjórinn, náttúruvín eru jafnan dálítið meira „funky“ og á súrari nótum og meira gerbragð er af þeim en hefðbundnu vínum. Reyndar geta þau svo sannarlega verið sæt og mild ef út í það er farið og erfitt er að finna muninn á náttúru og hefðbundu.  Þar sem náttúruvín eru ekki síuð geta þau oft verið ansi skýjuð en það gerir þetta allt bara meira „rustic“ og spennandi.  Þetta gæti verið lýsing á súrum funky lambic svei mér þá.   Það er ljóst að náttúruvín geta verið allt frá mild og þægileg og minna í raun ekkert á annað en hefðbundin vín og svo upp í funky og flókin með skemmtilegum karakter.  Það er um að gera að biðja um eitthvað funky eða spes því þá færðu það sem við erum að tala um hér og heillumst svo mikið af.

Fyrir okkur hér á B&M er þessi mikli áhugi landans á náttúruvínum bara rökrétt þróun í landi þar sem mikil vakning hefur verið fyrir handverksbjór síðustu ár. Kröfur um gæði eru bara meiri og svo ég tali nú ekki um hreinlæti og náttúru. Nú er smekkur manna samt misjafn en ég hvet fólk til að prófa sig áfram og smakka og fara í þetta með það hugarfar að bragðlaukarnir eru að fara upplifa eitthvað alveg nýtt.

4 athugasemdir við “Náttúruvín, villibjór vínheimsins?

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s