Bjórárið framundan!

Litið um öxl

Nýtt ár, nýr bjór og ný tækifæri, veiii. 2018 er búið en það var heldur betur viðburðarríkt bjórár, við sáum t.d. nokkur ný íslensk brugghús hefja göngu sína ss Malbygg og RVK Brewing Company sem bæði hafa verið að gera stórskemmtilega hluti á árinu og erum við bjórnördar afar þakklátir fyrir komu þeirra. Landsbyggðin sá líka nokkur ný brugghús sem Bjór & Matur náði því miður ekki að skoða mikið á árinu en við bætum úr því 2019.
Við sáum líka börum fjölga í borginni og ber þá helst að nefna Session Craft Bar, BrewDog Bar Reykjavík og Bastard Brew & Food, allt flottir bjórstaðir og sumir með frábæran mat í boði að auki. Ekki má svo gleyma Micro Roast Vínbar sem opnaði í Granda Mathöll síðasta sumar en þar er svo sannarlega ljúft að vera, flottur bjór, geggjað kaffi og stórbrotin Burgundy vín ásamt sturluð náttúruvín sem við höfum verið að skoða dálítið á síðasta ári og munum klárlega gera meira af á þessu ári.
Hin árlega bjórfest á KEX hostel var líka á sínum stað í febrúar en að þessu sinni verð ég að segja að hún var með því besta sem gerist í heiminum á þessu sviði, þvílíkur listi brugghúsa hefur aldrei sést á Íslandi áður. Talandi um bjórhátíð þá héldu hin nýstofnuðu Samtök íslenskra handverksbrugghúsa sína fyrstu bjórhátíð fyrir utan Bryggjan Brugghús á Menningarnótt. Já það hefur svo sannarlega verið gaman að vera bjórnörd 2018 en ég ætlaði svo sem ekki að taka hér saman einhvern annál heldur skoða það sem er framundan á nýju ári. Já það er heilt ár framundan troðfullt af spennandi hlutum frá brugghúsum og börum landsins. Hver veit svo hvað gerist, bætast fleiri brugghús eða barir við á árinu, spurning?

img_6840
Horft fram á veginn

Árið byrjar að vanda með látum þegar Borg Brugghús sleppir dýrinu lausu á því sem ég hef kallað SURTSDAGA síðan við héldum þá hátíðlega á Skúla Craftbar á sínum tíma. Þá fáum við nefnilega að sjá og smakka ýmsar útgáfur af hinum snarbilaða Surti sem alltaf er svakalegur og spennandi, ég held að þeir verði 3 mismunandi í ár, ég veit að Skúli Craftbar mun taka forskot á sæluna næstkomandi fimmtudag 17.1 en þar verður hægt að komast í alla dýrðina dálítið á undan öllum öðrum en Surtur kemur svo formlega í búðir í vikunni á eftir. Það er fleira spennandi sem Skúli Craftbar ætlar að gera á komandi misserum en við verðum að bíða og sjá hvað það er nákvæmlega.
Borg lumar svo á helling af spennandi hlutum, t.d. er von á fleira gotteríi úr wilda ale línunni eins og t.d. Rauðhetta og Úlfurinn (Wild IPA) sem fjallað verður um síðar en Esja sem kom núna rétt fyrir hátíðarnar er svakalegt dæmi um það sem koma skal. Já og bara núna í lok vikunnar kemur nýr DIPA í T-línu þeirra sem mun án efa slá í gegn.
Ég heyrði líka í Malbygg mönnum, þar fer að draga til tíðinda því þeir hafa verið með smá tunnuproject í gangi sem kominn er tími á að uppskera. Þeir brugguðu nefnilega bjór með 5. Besta brugghúsi veraldar Cycle Brewing og KEX Brewing í kringum Bjórhátíðina á síðasta ári. Sá mun heita Brewhaha og er imperial stout sem hefur verið að þroskast á bourbon tunnu og svo maple tunnu í ár núna. Þessi kemur á flöskur og kúta í mjög, mjög litlu upplagi, virkilega spennandi verkefni. Malbygg er svo líka með annan spennandi karl á tunnum, Bjössi Bolla imperial stout sem fer að sjá dagsins ljós, sá hefur reyndar farið á alls konar tunnur, maple bourbon, vanilla bourbon og cinnamon/vanilla bourbon uss hvað þetta verður gott.
RVK Brewing Co eru líka að dunda sér með tunnur en þeirra rómaði og ofurljúffengi bakkelsis stout Co & Co hefur t.d. verið á einhverri tunnunni, man ekki hvernig tunnu en það kemur í ljós en áætlað er að þessi verði í boði á næstu mánuðum. Fleiri tunnur eru svo í þroskun sem við komum að síðar.
Af brugghúsum má loks nefna KEX Brewing sem eru stöðugt að bardúsa eitthvað, þeir gerðu jú ofannefndan Brewhaha með Malbygg og Cycle, en þeir brugguðu líka með Other Half og Black Project á síðustu Bjórfest og skelltu afrakstrinum í tunnur sem við fáum vonandi að smakka í kringum komandi Bjórhátíð. Svo er hinn árlegi Advania bjór að koma í þessari viku held ég, Ölgjörvi heitir sá en hann hefur verið bruggaður af mismunandi brugghúsum síðustu 4 ár. Nú er það KEX Brewing, ég hef reyndar ekki hugmynd um hvernig bjór þetta er. Kemur bara í ljós.
Við þurfum svo að fylgjast vel með pöbbunum á árinu, Skúli Craftbar er sem fyrr segir með Surtana núna á morgun en svo eitthvað meira spennandi á næstunni. Session Craft Bar er svo með alls konar en þeir virðast vera að plata hin og þessi brugghúsin í tap takeover í kringum Bjórhátíðina á KEX, þar má nefna t.d. Dugges og Bonn Place Brewing og svo annað sem hljómar mjög spennandi en má ekki alveg staðfesta strax. BrewDog Reykjavík verður svo á sínum stað með geggjaðan mat og alltaf eitthvað spennandi á krönum bæði íslenskt og breskt. Mikkeller & Friends eru með eittvað á prjónum en ekkert staðfest á þessari stundu en það er alltaf eitthvað geggjað. Ég verð svo að nefna Skál á Hlemmi og Micro Roast Vínbar á Granda en þessir staðir eru einfaldlega sælureitir fyrir okkur sem elskum náttúruvín, alltaf eitthvað nýtt og spennandi. Skál er svo auðvitað með frábæran matseðil einnig og bestu bjórar líðandi stundar detta alltaf reglulega á krana hjá þeim, t.d. T-línan frá Borg en við sjáum líklega fyrsta T-bjór ársins núna á föstudag ef allt gengur upp.

20180224_171553

Við endum þetta á að minna á Hina Árlegu Bjórhátíð á KEX í lok febrúar en það verður að teljast stóru tíðindin í upphafi árs. Listi bjórsmiða var stórbrotinn í fyrra og ég veit að hann er ekkert minna stórbrotinn núna, t.d. munum við fá Tired Hands að þessu sinni, bara svona til að nefna eitt af mörgum, þetta verður sturlað. Ég hvet fólk til að kaupa miðana sem fyrst því þeir klárast alltaf fljótt.

Eitthvað meira?

Svo hefur maður heyrt eitthvað útundan sér en ekki náð að staðfesta. T.d. nýr og flottur bjór og veitingastaður í höfuðborginni þar sem menn eru að fara spá í bjór og matarpörun m.a. mér skilst svo að The coocoo‘s nest hafi í hyggju að opna sérstakan náttúruvínbar fljótlega, það er með betri fréttum sem maður hefur fengið lengi. Microbar & Brew sem opnaði seinni part árs mun vonandi byrja að brugga á árinu á staðnum en B&M hefur enn ekki náð að kíkja í heimsókn. Sama má Segja um Smiðjuna Brugghús á Vík sem opnaði á árinu en þau eru núna loksins farin að brugga sinn eiginn bjór en ekkert komið á krana samt ennþá en það verður spennandi að sjá þegar það fer að gerast.

En já þetta er bara það sem er að gerast á næstu mánuðum, svo er allt árið eftir. Það verður svakalega gaman að fylgjast með þessu!

Reykjavík Brewing Co komið vel af stað.

Nú er RVK Brewing Co komið vel af stað en þeir opnuðu brugghús og bruggstofuna sína bara núna í Júlí 2018.   Í bruggstofunni er 8 kranar eins og sakir standa og þar flæðir mjög skemmtilegt en umfram allt neytendavænt öl af ýmsum stærðum og gerðum.  Hvort sem það er saison, IPA, súröl eða stout þá erum við ekki að  tala um neina öfgar.  Hér geta í raun allir komið og smakkað án þess að verða fyrir skakkaföllum.  Presónulega þá mættu RVK Brewing samt koma með eitthvað líka sem hristir vel upp í manni en hér er það jú bara bjórnördinn í mér sem talar!

Ég er að koma hér í fyrsta sinn eftir formlega opnun en ég er svo sem búinn að reka inn nefið hér annað slagið á meðan þeir Siggi og co voru að koma þessu á laggir en það er gaman að sjá hvernig þetta kemur út svona tilbúið allt saman.  Notaleg stemning, ljúf tónlist, bjart og hreint andrúmsloft og bara þægilegt að vera.  Siggi sem er einn af eigendum og mikill bjórperri virðist alltaf vera á staðnum og það er um að gera að hnippa í hann og fá hann á flug.  Hann elskar að tala um bjórinn og allt ferlið.  Það er svo líka hægt að kaupa „the beer tour“ og fá hann til að kafa enn dýpra í þetta allt saman með smakki og tilheyrandi.   Ef þú ert hins vegar ekki til í að hugsa allt of mikið þá er bara að tilla sér í góðu horni, hlusta á góða tónlist og njóta ölsins. Ég mæli með NO 7 sem er þeirra nýjasti, session IPA þurrhumlaður með Idaho 7.  Mjög næst IPA, léttur fruity og með hæfilegri móðu sem er einmitt dálítið inn þessa stundina.  Þessi ku líka vera einn af fyrstu bjórum Valla bruggmeistara sem er bara ný dottinn inn um dyrnar hjá RVK bewing, en við þekkjum þennan strák frá Borg Bruggús auðvitað.  Nánar um þetta síðar.

Vinsælasti bjórinn þeirra um þessar myndir er líklega bakkelsisbjórinn Co & Co sem er 10.1% imperial stout sem er bruggaður ma með snúðum frá Brauð & Co.  Þessi er mjög ljúffengur.  Bakkelsis bjór eða pastry beer er fyrirbæri sem er að verað dálítið vinsælt í henni Veröld í dag, það verður að prófa þennan.  Ég myndi svo ekki fara héðan nema að smakka Sperrilegg sem er bara einfeldlega frábær reyktur gose sem er skemmtilegur þýskur bjórstíll sem næstum náði því að deyja út hér fyrir fáeinum árum.  Þessi er með þægilega þægilegum reyk í bakgrunni sem maður finnur varla fyrir en veit samt af, aðeins selta og svo léttur súr keimur.  Hljómar undalega en bragðast frábærlega.

20180909_181008.jpg

Svo er vert að fylgjast með á fésbókarsíðunni þeirra því þeir eru farnir að hóa í matarvagna þegar vel liggur á eins og kollegar þeirra í Bandaríkjunum.  Hvað er betra en góður skyndibiti og bjór?  Kannski skyndibiti og tveir bjórar?

Já þetta virðist allt fara vel af stað hjá þeim en við munum fylgjast vel með hvað þeir færa okkur á næstu misserum og höldum dálítið í vonina að þeir komi líka með eitthvað ögrandi og magnað fyrir okkur hin sem þurfum miklar bombur svo sem triple IPA, funky brett eða rótsterka tunnukarla til að koma okkur til.  Reyndar fékk ég smá sneak peak í það sem er að gerjast hjá þeim og það lofar sannarlega góðu.  Þetta verður eitthvað!

RVK Brewing Company, nýtt brugghús handan við hornið!

Það hefur mikið verið að gerast í hinum íslenska bjórheimi undanfarin 3-4 ár og margt mjög spennandi framundan skal ég segja ykkur.  Brugghús eru byrjuð að poppa upp eins og gorkúlur og önnur á teikniborðum.  Eitt af þeim brugghúsum sem eru í pípunum er RVK Brewing Company í Skipholtinu en ég verð að segja að ég er virkilega spenntur fyrir þessu.  Fyrir því eru tvær ástæður, í fyrsta lagi þá er karlinn í brúnni á þeim bæ Sigurður Snorrason hagfræðingur og heimabruggari og alls enginn nýgræðingur þegar kemur að bjór.  Siggi er mikill bjórkarl og hefur lengi verið að grúska í heimabruggi með góðum árangri leyfi ég mér að segja.  Auk þess bjó kauði hér á árum áður í Bandaríkjunum þar sem bjórmenningin er á virkilega háu plani og því má leiða líkum að því að bjórinn hans muni bera keim af amerískri bjórhefð sem er nákvæmlega það sem við viljum hér.

Hin ástæðan er svo sú að ég heimsótti Sigga í verðandi RVK Brewing nú á dögunum og fékk að sjá og heyra hvað framundan er. Allt virkilega lofandi.  Ég smakkaði auk þess  nokkra tilraunabjóra frá þeim, t.d. pilsnerinn sem þeir eru að þróa sem var ofsalega flottur og imperial stoutinn þeirra féll líka algjörlega í kramið hjá mér. Báðir þessir bjórar báru merki þess að skapari þeirra gerir þetta að alúð og vandvirkni.

20171020_162711
Pilsnerinn var flottur, bragðmikill, mjúkur með góða fyllingu.

Brugghúsið er sem sagt að taka á sig mynd í þessum skrifuðu orðum, 500L bruggtækin standa gljáfægð og fín og bíða þess að verða tengd og skipulag á brugghúsinu ásamt bruggstofunni (tap room) komið á hreint.  Við Siggi ræddum saman um framhaldið og þá möguleika sem eru í stöðunni og ég get sagt ykkur að þarna á þessum bænum eru menn bara að hugsa nákvæmlega það sama og ég myndi hugsa sem einfaldlega verður að teljast spennandi…..sérstaklega fyrir mig!  Það er ekki klárt hvenær brugghúsið verður komið á fullt sving en líklega mun það bara gerast á næstu mánuðum eða fljótlega eftir áramótin.  Húsnæðið býður svo upp á ýmislegt og hver veit nema við fáum að sjá fyrsta alvöru „tap roomið“ á Íslandi innan tíðar?

20171020_163301
Þessar flottur græjur fara bráðum að töfra fram ölið

Já árið 2018 verður skemmtilegt ár svei mér þá og svo eru fleiri brugghús í deiglunni en nánar um það síðar!

Forsíðumyndin er tekin af fésbókarsíðu RVK Brewing Company!