Lamplighter í Boston er ein af þessum rísandi stjörnum í bjórheiminum í dag eða amk í Bandaríkjunum. Ef ég á að miða við eitthvað þá er tilfinning mín dálítið eins og með Omnipollo fyrir nokkrum árum. Ég spáði þeim velgengi og nú eru þeir á lista yfir 10 bestu brugghúsum veraldar, það er alltaf gaman að vera sannspár. Ég er með þessa tilfinningu fyrir Lamplighter. Þeir eru staðsettir á frábærum stað í rólegu hverfi í Cambridge Boston, við erum að tala um brugghús með glæsilegu tap-room eða bruggstofu eins og við viljum kalla það á íslenskunni. Hér færðu allt sem þeir hafa að bjóða á meðan þú nýtur útsýnisins yfir í brugghúsið sjálft því allur veggurinn á bak við barinn er úr gleri og þar fyrir innan gerast röfrarnir. Staðurinn er hrár en samt ofsalega hlýlegur og stemningin er góð, enda úir hér og grúir af metnaðarfullum bjórþyrstum ofvitum frá Harvard, MIT og öðrum minni skólum hér í kring, það er eitthvað svona „Brain Power“ í lofti.
Já hér eru allir með einhverja þekkingu á einhverju og skoðanir láta ekki á sér kræla svo mikið er víst. Hér situr fólk og vinnur að fyrirlestrum eða öðrum verkefnum yfir ljúfum bjór og ræðir málin. Af þessum sökum eru menn ofsalega harðir hérna, þú getur ekki pantað bjór nema framvísa skilríkjum en þá færðu líka stimpil á handarbakið og ert góður það sem eftir lifir kvölds. Ég fékk reyndar engan stimpil! Bruggstofan er svo ekki bara fyrir bjór því á daginn og til held ég kl 16 eða 17 er bruggstofan eins konar kaffíhús þar sem þú færð frábært kaffi og bakkelsi með af bestu sort. Þú getur auðvitað líka laumað þér í bjórinn ef stemningin er þannig.

Lamplighter er heima á Íslandi og reyndar víðar þekkt fyrir að brugga gríðarlega vandaðan NEIPA (New England IPA) og margir nefna Trillium í sömu andrá og Lamplighter en þeir eru jú þekktir sem eitt besta brugghús Bandaríkjanna og þótt víðar væri leitað. Þeir eru guðir í NEIPA gerð svo mikið er víst. Við ræddum þetta aðeins ég og Tyler sem er bruggmeistari staðarins og einn af eigendum. Rétt eins og pöpullinn þá taldi ég Lamplighter nefnilega sérhæfa sig í „Trillium style“ IPA en það er bara alls ekki rétt. Þeir gera vissulega framúrskarandi imperial NEIPA á borð við Rapid Rapid, Birds of A Feather og svo ekki sé minnst á So Much For Subtlety sem var bara að detta á krana hjá þeim, algjörlega sjúkur NEIPA.
Tyler vill samt ekki að Lamplighter verði þekkt fyrir að vera eins og Trillium, hann neitar því reyndar ekki að það er gaman að fá svona viðurkenningu sem það vissulega er að líkja NEIPA bjórnum þeirra við Trillium en Tyler sér Lamplighter fyrir sér í mun fjölbreyttari bjór. Hann er mjög hrifinn af allst konar bjórstílum og hefur mikinn metnað fyrir því að halda í hefðirnar og vanda til verks, uppáhalds bjórstíllinn hans er virkilega vandaður lager segir hann, hvort sem það var grín eða ekki. Tyler vill t.d. brugga kölsch sem hann getur stoltur boðið hörðustu bjórnördum Þýskalands eða belgian tripel sem jafnast á við það besta frá Belgíu, sem sagt alls ekki humlaðar „amerískar“ útgáfur af þessum stílum.
NEIPA er sem sagt aðeins brot af því sem þeir brugga hjá Lamplighter. Kranalistinn ber þess merki, í kvöld eru t.d. bara þrír double IPA af New England gerð á lista, allt hitt er alls konar. Tyler gaf mér að smakka flest á listanum og meira til. Rapid Rapid er góður í dós en af krana er hann algjörlega guðdómlegur! Ég smakkaði líka Kieran sem er sá bjór sem selst hvað minnst hjá þeim. Barley wine er bara ekki bjórstíll sem menn þekkja eða þora í hér í Nýja Englandi sagði Tyler mér. Ég verð hins vegar að segja að þessi bjór var það besta sem ég hef smakkað í þessari ferð og þá er ég líka að tala um allan Trillium bjórinn. Já ég elska NEIPA en þessi barley wine var algjörlega frábær. Það að hann seljist ekki hratt er svo sem bara í góðu lagi því hann má alveg eldast á kút í rólegheitunum.
Ég smakkaði einnig hjá þeim fyrstu afurð úr tunnuprógramminu þeirra, sem sagt bjór sem fær að þroskast á eikartunnum. Rhapsody 8.2% er svakalega flottur súrbjór sem legið hefur á french oak tunnum í 13 mánuði. Tyler var mjög ánægður með útkomuna enda sá fyrsti sem kemur úr þessu verkefni þeirra sem lofar góðu fyrir það sem er á leiðinni.
Við ræddum m.a Ísland og Bjórhátíðina á Kex, Tyler sagðist hafa verið afar ánægður með hátíðina en hann og félagar voru á staðnum ásamt öðrum frábærum brugghúsum eins og menn vita líkast til. Lamplighter var eitt af þessum stóru nöfnum í ár. Þeir mættu sannir hugsjóninni með alls konar bjór, ekki bara skýjaðan NEIPA. Ef hann fær boð aftur að ári mun hann svo sannarlega mæta og tók ég af honum loforð að við myndum brugga saman bjór í skúrnum mínum heima (nano). Ég lofaði honum bjór, heitum potti og norðurljósum sem þýðir að ég hef ár til að koma mér upp heitum potti.
Talandi um samstarfsbjór þá var ég mjög spenntur að heimsækja Lamplighter einmitt um þetta leiti því þeir Tyler og félagar brugguðu bjór heima á Íslandi með KEX Brewing og Borg Brugghús, sem kunnugt er orðið en útkoman var Borealis Baby sem ég verð að segja að sló persónulega í gegn hjá mér, ég er ekki viss hvort eitthvað sé enn til af honum heima en viljum við ekki fá hann aftur og á dósir? Borg Brugghús mætti svo hingað út í síðasta mánuði og bruggaði annan bjór í Lamplighter, Sneaker Wave 7% heitir sá og fór hann bæði á dósir og krana hér fyrir rúmum tveim vikum síðan. Nafnið spratt upp úr samræðum þeirra heima á klakanum þegar þeir voru að ræða hættulegar öldur sem geta hrifið grunlausa túrista á haf út, sneaker wave, ég veit svo sem ekki af hverju tal þeirra barst að þessu en svona er það. Borg flutti með sér haug að íslensku blóðbergi til Boston og var það notað í þennan skemmtilega kryddaða new england IPA. Bjórinn var að sjálfsögðu drukkinn á staðnum í Borg glasi sem Tyler féll alveg fyrir, það vakti furðu mína hve mikla gleði meðal Lamplighter teymisins það vakti. Gaman að því. En bjórinn er mjög skemmtilegur, safaríkur og nettur með áberandi blóðbergi í bakgrunni. Tyler sagði að blóðbergið hafi verið mjög magnað í upphafi en á þessum tveim vikum hefur dregið töluvert úr því. Fyrir mína parta hefði það ekki mátt vera meira þannig að ég er sáttur.
Já þetta var skemmtileg heimsókn en erfið daginn eftir samt því Tyler er rausnarlegur heim að sækja.
You must be logged in to post a comment.