Nú eru bruggbarir (brewpub) borgarinnar ekki lengur bara einn heldur tveir því gamli góði Vegamót við Vegamótarstíg hefur fengið heldur betur upplyftingu en nú í síðustu viku opnaði staðurinn aftur eftir langan dvala í allt annari mynd og undir nýju nafni Bastard Brew & Food. Jább, þeir eru með bruggtæki af flottustu sort á staðnum sem hægt er að dáðst að á efri hæð staðarins á leið á salernið en það er reyndar skemmtileg pæling, þarna fær maður að sjá hvaðan ölið er komið sem maður er að fara skila af sér, nánast á sama stað. En þetta er pínu útúrsnúningur. Ég taldi svo 12 glansandi fínar bjórdælur sem gefa af sér öl af ýmsum toga, þar með talið tvo húsbjóra og tvo gestabjóra sem um þessar mundir er bjór frá Malbygg og The Brothers Brewing. Eldhúsið er áfram á sínum stað nema nú hafa menn tekið matseðilinn í gegn og minnkað talsvert og fínpússað. Eftir stendur frábær og hnitmiðaður matseðill sem hentar afar vel með bjór af bestu gerð og því góðir möguleikar á flottum pörunum (sem Bjór & Matur mun án efa rannsaka nánar). Hér eru menn klárlega með fókusinn á réttum stað, hingað getur fólk komið til að njóta matar og veiga í notalegu umhverfi og ekkert rugl.
Bjór & matur tók út staðinn aðeins nokkrum klukkustundum eftir enduropnun. Auðvitað voru aðeins hnökrar í þjónustu en það er pottþétt eitthvað sem menn eiga eftir að slípa til og laga og truflaði mig ekkert sérstaklega. Staðurinn er allur hinn glæsilegasti og ekki fer á milli mála að bjór er hér í hávegum hafður og mikill metnaður í öllu. Öll efri hæð staðarins er lögð undir glæsilegar gljáfæðgar brugggræjurnar ásamt salernum staðarins sem fyrr segir, dansgólfið er svo farið en sjálfur barinn er nú þar sem það var áður.
Matseðillinn er afar girnilegur,og það gladdi mig mjög að sjá Luisiana kjúklingastrimlana þarna enn enda eitt það besta sem maður hefur smakkað síðustu ár í matargerð. Við frúin höfum átt margar ljúfar stundir á Vegamótum yfir þessum dásamlegu kjúklingastrimlum hér á árum áður. Ég smakkaði þá reyndar ekki að þessu sinni en Óli, einn eiganda staðarins sannfærði mig um að þeir væru þeir sömu nema að nú er BBQ sósan enn betri en áður. Ég fór hins vegar í mjúkt taco með uxabrjósti ofl enda sérlegur áhugamaður um mjúkt taco. Þetta var stórgott og er vel hægt að mæla með þessu. Það er svo hægt að fá fleiri fyllingar í þetta, kjúkling, grís ofl. Ég prófaði líka stökka flatbrauðið hjá þeim, með geitaosti, rauðbeðum og öðru góðgæti sem var magnað. Á þessum tímapunkti var maður orðinn mettur en okkur langaði að smakka mun meira, svo sem alla þessa girnilegu hamborgara, fleiri flatbrauð og svo eru þeir með spennandi osta- og kjötskurðarplatta ofl. Allt góðar ástæður fyrir endurkomu á staðinn. Það er svo einnig hægt að fá „brunch“ og fisk dagsins fyrri hluta dags og vert að skoða nánar.
Bjórinn er af öllum toga en það er klárt að þarna fá allir eitthvað fyrir sinn smekk. Við erum að tala um allt frá óspennandi lagerbjór upp í flottasta öl af bestu sort. Bæði á dælum og flöskum/dósum. Mér skilst að gestakranar eigi að vera tveir og þar fari að mestu leiti bjór undir frá íslenskum handverks (craft) brugghúsum sem er frábært akkúrat núna þegar þessi geiri er að springa svona ört út hér heima. Sem fyrr segir er hægt að fá núna bjór frá Malbygg ,sem að mínu mati er eitt heitasta brugghús landsins, og The Brothers Brewing í Vestmannaeyjum. Húsbjórar eru tveir, Hazy Bastard og Amber Bastard. Í augnablikinu er framleiðsla ekki hafin á staðnum en það breytist á næstu vikum skilst mér, bara verið að bíða eftir formsatriðum. Á meðan brugga þeir bjórinn sinn hjá öðrum brugghúsum líkt og tíðkast oft. Nú er ég mikill aðdáandi new england IPA bjórstíslsins og hef undanfarin ár verið mikið að stúdera stílinn. Ég er því orðinn heldur kröfuharður á þennan bjór en þrátt fyrir það var ég nokkuð sáttur við Hazy Bastard sem er rétt rúmlega 4% session bjór, en ég vil helst hafa þennan stíl í kringum 7% og uppúr, þannig er hann bara bestur. Þetta er hinn ágætasti svaladrykkur og skýjin eru á sínum stað ásamt nettum ávaxtatónum frá humlunum. New England IPA er skemmtilegt „move“og algjörlega í takt við tíðarandann en stíllinn er meðal þeirra allra vinsælustu í henni Veröld í dag!
Hér hafa menn þó verið að fara öruggu leiðina og gert bjór sem flestir ættu að geta drukkið, eitthvað sem mörgum finnst rökrétt þar sem um húsbjór er að ræða. Reyndar er það umdeilt, sumir hugsa húsbjór einmitt sem meira stolt staðarins, besta bjór brugghússins sem oft getur verið ansi öflugur og sjokkerandi en það fer jú eftir brugghúsi og bruggmeisturum hverju sinni.
Hins vegar eru húsbjórarnir hér tveir og því kannski svigrúm fyrir að annar þeirra væri meira ögrandi? En þetta er svo sem önnur saga. Amber Bastard er hinn húsbjórinn og snilldar hugmynd fyrir stað sem selur mat, hér eru menn með amber/rauðöl sem er þægilegur bjórstíll og hentar afar vel með mat, sérstaklega brösuðum strætismat (street food) þar sem við erum með sætar sósur og „karmelliseraða“ áferð eftir grillun ofl. Bjórinn er nokkuð maltaður og sætur og humlar eru í lágmarki og fylling í meðallagi. Óli sagði mér svo að planið er að þessir húsbjórar geti tekið breytingum, t.d. í tengslum við árstíðir og hátíðar ss jólabjór ofl. Mjög flott pæling.
Hvernig sem það fer þá getum við verið nokkuð örugg um vandaðan Bastard bjór í framtíðinni því bruggvitringurinn Halldór Ægir Halldórsson er leiðarljós þeirra Bastarða í brugghúsinu en ég þekki vel til hans handverka á sviði bjórgerðar. Eins og held ég flestir sem eru í atvinnu-bruggun þá er Halldór með bakgrunn í heimabrugginu en það er þar sem ég hef smakkað mörg meistaraverk hans. Gaurinn kann amk að smíða bjór svo mikið er víst.
Já það verður að segjast að Bastard Brew & Food er í heildina flott pæling, eitthvað fyrir alla í rauninni, fólk með mikinn áhuga á bjór sem og lítinn því maturinn stendur jú alltaf fyrir sínu og svo eru þeir að sjálfsögðu með alls konar annað gott í munn, t.d. ýmsa „craft“ kokdilla og má þá sérstaklega nefna þeirra túlkun á Aperol Spritz og Moscow Mule sem eru dálítið „inn“ í dag ekki satt? Bjór & Matur óskar Bastard Brew & Food til hamingju með glæsilegan stað.
You must be logged in to post a comment.