BrewDog opnar í Reykjavík og bjór og matur í brennidepli!

BrewDog mun hefja göngu sína í Reykjavík núna snemmsumars 2018.  Það er loksins staðfest en fréttir um áhuga BrewDog á Íslandi bárust mér fyrst til eyrna fyrir nokkrum árum síðan.  Það að menn tóku sér þennan tíma í að meta og melta staðsetningar og rekstraraðila er klassískt fyrir BrewDog og til marks um þann mikla metnað sem ríkir þar á bæ.  Menn vilja gera allt 100%, ekkert hálfkák.

Staðsetningin er sem sagt klár og ekki af verri endanum, á horninu á Frakkastíg og Hverfisgötu í fullkomnu húsnæði fyrir þennan stað.  Bjórfólk þekkir BrewDog en þeir sem ekki þekkja til þá ætla ég að útskýra í nokkrum orðum.

BrewDog var stofnað af þeim félögum Martin Dickie og James Watt í Fraserburgh í Skotlandi árið 2007.  Kveikjan var langleiði þeirra á bragðlausum fjöldaframmleiddum lagerbjórum og slöppu óvönduðu öli sem á þeim tíma var að tröllríða breskum bjórmarkaði, þeim langaði að breyta þessari þróun og skapa spennandi og ljúffengan bjór og kynna almenningi fyrir öllu því góða sem bjórheimurinn hefur að bjóða, alvöru handverk (craft).   BrewDog fór rólega af stað fyrstu mánuðina en þegar leið á árið 2008 varð allt vitlaust og BrewDog varð stærsta óháða brugghús Skotlands.  Eftirspurnin eftir  þessum „nýja“ og bragðmikla bjór varð gríðarleg og árið 2009 var BrewDog orðið það brugghús í Bretlandi sem óx hvað hraðast.  Húsnæðið í Fraserburgh var löngu sprungið og þurfti að flytja aðsetur þeirra í stærra húsnæði og bæta við sig gertönkum, starfsfólki ofl til að mæta þessari eftirspurn.  BrewDog héldu áfram að ögra og komu m.a. með sterkasta bjór í heimi, Tactical Nuclear Penguin 32% sem vakti mikið umtal.   Til að gera langa sögu stutta, þá hélt veldi þeirra áfram að stækka án þess að það kæmi niður á „conceptinu“ að brugga alltaf frábæran handverksbjór í hæsta gæðaflokki.  Í dag eru þeir með um 50 bari víðs vegar um heiminn og eru enn að bæta við sig, BrewDog Reykjavík er aðeins einn af mörgum nýjum BrewDog börum sem munu opna á þessu ári.

Ég ræddi á dögunum við félaga minn Þossa en við unnum saman í tengslum við Skúla Craftbar hér á árum áður.  Þossi er ljúflingur hinn mesti og alls enginn nýgræðingur þegar kemur að því að sýsla með bjór, en Þossi er einmitt framkvæmdastjóri BrewDog Reykjavík þó svo að tiltar séu bara aukaatriði í hans huga, við verðum samt að kalla hann eitthvað ekki satt?  Þossi er ekki einn á bak við BrewDog Reykjavík því auk hans eru nokkrir þaulreyndir aðilar í veitingageiranum sem eiga og reka vinsæl veitingahús í borginni á borð við Public House, Forréttabarinn ofl.  Þetta er sko fólk sem kann að gæla við bragðlauka og önnur skilningarvit en Publick og Forréttabarinn er í sérlegu uppáhaldi undirritaðs.

Þossi segir mikinn metnað vera við opnun barsins í Reykjavík, það verða 20 línur, 12 undir frábæran BrewDog bjór en 8 sem tileinkaðar eru gestabjór, t.d. innflutt eða bara íslenskt örbrugg sem er í svo miklum vexti hér heima.  Kröfurnar frá höfuðstöðvum eru bara að gestabjór þarf að vera „CRAFT“, allt annað er stranglega bannað.  Það er magnað.  Kútarnir verða í stórum kæli, ekkert sérstakt kælikerfið á leið frá kút að dælu og aðeins um eins meter lína sem er frábært mtt gæða bjórsins og affalla!  Það er einnig mælst til þess að allir starfsmenn staðarins, allir, ljúki amk 1. stigi Cicerone gráðunnar en það er hliðstæða Sommelier í vínheiminum.  Þossi sjálfur þarf hins vegar að fara lengra og ljúka amk gráðu 2.   Það er bara frábært.   Það sem er hins vegar enn betra er að BrewDog um heim allan býður ákveðið úrval af barmat ef svo má segja, ég hef t.d. enn ekki fengið betri hamborgara en burgerinn á BrewDog Camden í London.  Hér heima verður sko fullskipað eldhús tengt staðnum og áhersla lögð á ca 50% bjór og 50% mat sem þýðir einfaldlega að þú getur farið á BrewDog Reykjavík og fengið himneskan mat með miklu úrvali af stórglæsilegum bjór til að para við.

Já þetta voru líklega stærstu fréttirnar fyrir okkur á Bjór & Matur, hér er kominn staður sem er bara eins og sniðinn fyrir okkur, bjór og matur eða matur og bjór er „thema“ staðarins.  Við munum svo sannarlega taka matseðil og bjórlista út þegar staðurinn opnar nú í sumar.  Þetta verður geggjað!

Vel á minnst, ef þið hafið áhuga þá eru þeir að ráða, sendið línu á reykjavikbar@brewdog.com ef þið hafðið áhuga á að vinna með bjór og mat!