Dagur 2 á bjórhátíð 2019

Það verður að viðurkennast að dagur tvö er aldrei eins sjarmerandi og dagur 1 á bjórhátíð enda flestir dálítið rykugir og maginn í rugli eftir gærdaginn.  Bjórinn var samt á sínum stað í kvöld og flæddi út um allt vel og vandlega, Omnom og Ostarnir voru á sínum stað og tveir matarvagnar fyrir utan.  Svo var plötusnúður á staðnum með dúndrandi techno og house músík sem ég fílaði reyndar mjög en margir töluðu um að það hafi verið of hátt stillt og ekki rétt tónlist.  Það verður svo sem aldrei hægt að gleðja alla.  Þrengslin voru áfram að trufla undirritaðan hins vegar, það var í raun varla hægt að rölta milli bása fyrir fólki.  Kannski er það bara ég sem er viðkvæmur sérstaklega á degi tvö? En verður líklega að teljast jákvætt fyrir hátíðina þegar vel er mætt.

Ef við skoðum bjórinn þá er það mín tilfinning að súrbjórinn sé dálítið ríkjandi á þessari hátíð, þegar maður spyr fólk hvað menn mæla með þá var það alltaf súrbjór eða imperial stout sem nefndur var til sögunnar.  Ekkert IPA eins og á síðasta ári þar sem haze æðið var alls ráðandi.  Súrbjórarnir eru svo sannarlega víða og gæðin eru rosaleg.  Fonta Flora var með tvo virkilega flotta í kvöld og Black Project með geggjað bottle pour, wild ale sem legið hefur á whisky tunnum og svo blandað í nektarínum annars vegar og ferskjum hins vegar.  Þessir báðir voru geggjaðir og líklega það besta í kvöld í súrbjórunum.   Brekeriet var reyndar með alveg frábæran súrbjór líka, Vild Krikon sem er súrbjór með Damson ávexti (eitthvað plómu dæmi) og svo þroskaður á French Wine Foeders í 10 mánuði.   Borg frumsýndi svo Rauðhettu og Úlfinn í kvöld en það er samstarfsverkefni Brekeriet og Borgar.   Þetta er í raun blanda af Rauðhettu sem er red wild ale og svo Úlfi sem er IPA þannig að úr verður wild IPA ekki satt?  Þessi bjór er mjög skemmtilegur og maður veit bara ekki alveg hvar maður á að staðsetja hann, fyrir mér er þetta meira wild ale en IPA alla vega.

20190222_190352.jpg

Dugges var svo með imperial stout sem margir voru að tala um, banana toffee chocolate stout, en þó ég sé hrifinn af bakkelsisbjór þá var ég ekki að fíla þennan . Of væminn og skrítinn bara.  Other Half var með mjög flottan imperial stout sem var dálítið umtalaður, mér fannst hann ágætur en ekkert í líkingu við monsterið frá Malbygg í gær, Brewhaha.  Malbygg strákarnir ætla mögulega að bjóða Brewhaha á morgun en hann er annars kominn í vínbúðir í mjög takmörkuðu magni.  Malbygg var með helvíti skemmtilegan brut IPA sem kom mjög vel út.  Brut þýðir í raun að hann er eins og freyðivínið, gerjaður til fullst þannig að allur sykur eða því sem næst er gerjaður úr bjórnum.  Tilvalinn fyrir þá sem eru t.d. á keto fæði.   Smiðjan brugghús var líka með brut IPA, sá var heldur sætari en Malbygg útgáfan en samt skemmtilegur, mætti kannski þurrhumla aðeins lengur?

Tired Hands hélt áfram að heilla í kvöld, þeir voru með frábæra IPA bjóra og svo Saison sem mikið var talað um, flestir sem ég hitti mæltu með honum alla vega.  Geggjaður, Rustic Pentagram, súrbjór með mango og amarillo humlum, bruggaður með hveitimalti og látinn þroskast á french oak fouders!  Verulega gott.  Tired Hands hefur til þessa verið með fullt hús stiga.  Geggjað brugghús.

20190221_170842.jpg

Ég fór annars ekkert í NYC brugghúsin að þessu sinni nema í stoutinn frá OH.  Ég heyrði menn hins vegar tala vel um KCBC bjórinn, þeir voru með geggjaðan DIPA víst.  Á morgun held ég að ég hvíli súrbjórinn og vinni meira í IPA og imp stout.  Sjáumst þá!

Paradísarfuglinn með Pekko humlum var að detta inn á barina!

Borg Brugghús heldur áfram með tilraunalínuna sína (T-línuna) og kemur hér með Paradísarfuglinn Nr T15, 5.2% Pale Ale af skýjuðu gerðinni.  Þetta  er helvíti skemmtilegur pale ale.  Fyrir það fyrsta er hann bruggaður með íslensku byggi eða bygg- yrki til að hafa þetta rétt. Bygg yrki þetta sem ber nafnið Kría, var ræktað í Noregi og svo maltað þar líka hjá  Bonsak gårdsmalteri .  Að auki erum við hér að fá að prófa alveg glænýjan humal hjá Borg sem kallast Pekko.  Pekko er amerískur humall sem kom fram á sjónarsviðið í kringum 2016 eða svo.  Nafnið er komið af einhverjum finnskum landbúnaðar Guði afhverju sem það nú er?  Líkt og svo algengt er með amerísku humlana þá er þessi nokkuð blómlegur og djúsí með suðrænum ávöxtum og sítrónugrasi skv lýsingum.  Við höfum aldrei smakkað þetta afbrygði áður hér á B&M og því skemmtilegt tækifæri að fá hann í bjór einan og sér en Paradísarfuglinn er „single hop“ bjór sem þýðir bara að það er einungis ein tegund af humlum í bjórnum og því fær hann að njóta sín til fulls.

Paradísarfuglinn er þægilegur, léttur með frískandi safaríkum humlum sem koma mjög vel út.  Kornið er dálítið erfitt að meta en það alla vega virkar helvíti vel hérna.   Þessi gaur var að lenda á sérvöldum börum borgarinnar fyrr í kvöld.  Tékkið á honum á meðan hann er ferskur.

Esja nr. 60, kaflaskipti í bjórgerð?

Við höfum séð mikið af IPA bjórum frá íslenskum brugghúsum undanfarin ár enda ekkert skritíð, IPA er líklega einn vinsælasti bjórstíll veraldar alla vega meðal bjórunnenda.  Borg hefur verið að gera mjög gott mót í þeim efnum undanfarið með sérdeilis ljúffengum New England IPA bjórum og er þá skemmst að minnast Áramótastaupsins sem kom bara út í fyrradag.  Nú hins vegar hefur brugghúsið brotið ákveðið blað í íslenskri bjórsögu með tilkomu Esju nr 60 (5.7%) sem er tilkomumikill villibjór eða wild ale svo kallað.  Esja er í grunninn líklega belgískur saison gerjaður með villigerjablöndu af belgískum toga og má þar nefna til sögunnar brettanomyces sem er líklega þekktasta villigerið.  Bjórinn hefur svo verið að þroskast í Chardonnay tunnum í nær 3 ár.  Villigerið gerir bjórinn dálítið sýrðan án þess að gera hann súran og svo er áberandi hið margslungna „funk“ frá m.a. brettanomyces gerinu sem stundum er kallað „brett keimur“ og er afar erfitt að lýsa með orðum.  Chardonnay tunnan gæðir bjórinn dálítið æðra flækjustigi og útkoman er með betri villibjórum sem maður hefur fengið í langan tíma og án efa það allra besta í þessum flokki hér heima fyrir.  Að gera bjór á svona háu stigi er alls ekki auðvelt og sýnir mikinn metnað og hæfileika bjórgerðarmanna, en það krefst mikils skilnings á hvernig villiger og önnur hráefni vinna saman og þroskast með tímanum, og ekki síst mikillar þolinmæði að enda með bjór 3 árum síðar sem er svona fágaður og í flottu jafnvægi.  Hér er ekkert of mikið af neinu, sætu, sýru, beiskju, kolsýru, brett eða hvað það kann nú að kallast.  Ég verð að viðurkenna að þegar ég heyrði af þessum bjór fyrst fyrir þremur árum þá var ég ekkert sérlega spenntur því ég er mjög vandlátur þegar kemur að villibjór og treysti ég yfirleitt engum nema Belgunum til að gera þetta rétt.  Ég ætla hins vegar á þessum fína aðfangadegi að éta það allt ofan í mig og ég verð að segja að fyrir mér þá er Borg með þessum bjór að sýna okkur að það er orðið fullorðið, alvörugefið brugghús á heimsklassa!

Jafnvel þó Borg gefi þennan bjór ekki út sem sérstakan áramótabjór þá myndi ég segja að hér sé alveg fullkominn áramótabjór á ferð.  Bjórinn kemur í fallegum 750ml flöskum með korktappa og vírneti eins og kampavín enda töluvert mikið af búblum og þrýstingur í honum.  Bjórinn er einnig dálítið súr og þurr eins og freyðivín og nógu mildur til að ganga með flestum mat.  Ég held að hann muni passa vel með fylltum kalkúni og með því en þannig verður það amk á okkar borðum hér.   Bjórinn kemur í búðir skilst mér á fimmtudag eða föstudag og í takmörkuðu upplagi, einar 1300 flöskur þannig að verið vakandi.

Gleðileg jól og áramót!

Haustrunk nýr gose bjór frá Borg í samstarfi við Wacken!

Ekki má rugla Gosa, litlu hraðlygnu strengjabrúðunni með langa nefið, við gose sem er sérkennilegur og forn bjórstíll sem hefur síðustu ár verið að fá mikla athygli í bjórheiminum.  Kaninn er sérstaklega hrifinn af þessum bjórstíl og við erum farin að sjá hann í mun meira mæli hér heima líka undanfarið.  Gose á rætur sínar að rekja til Þýskalands fyrir einhverjum þúsundum árum síðan. Hann dregur nafn sitt af ánni Gose sem rennur í gegnum miðaldarbæinn Goslar þaðan sem bjórinn er talinn hafa komið. Gose er súr hveitibjór bruggaður með ögn söltu vatni úr ánni (sem reyndar er meiri lækur) Gose á sínum tíma en í dag bæta men auðvitað salti í bjórinn. Gose er svo jafnan kryddaður með kóríander og mildum humlum. Bjórstíllinn, sem var vinsælasti bjór í Leipzig og nágrenni í kringum 1900, dó næstum því út á stríðsárunum en í kringum árið 2000 var honum sem betur fer komið til bjargar og stíllinn endurlífgaður.

biere-illustration-01-gose
Gose er forn þýskur súrbjór frá Goslar

Haustrunk Nr.C17 sem líklega má bera fram “hásdrúnk” á germönsku er nýr collab bjór frá Borg brugghús og þýska brugghúsinu Wacken Brauerei og er einmitt af gerðinni gose.  Hér hafa menn svo poppað bjórinn aðeins upp með apríkósum, hafþyrnum og vanillu sennilega til að gera hann meira íslendingavænni?  Það er svo skemmtileg staðreynd að Helge frá Wacken mætti á klakann með vatn úr Gose sem sett var í suðuna, svona meira til að tengja bjórinn við lækinn á táknrænan máta.

En þessi herlegheit er nú komin í sölu, ég hef ekki smakkað hann ennþá en klassískt er gose súr á tungu, vel kolsýrður, léttur og mildur með öööörlítilli seltu sem svo sem finnst ekki mikið.  Haustrunk er svo með áhugaverðum ávöxtum sem munu líka setja sinn svip á þetta allt.   Hlakka til að prófa!

Bjór í Barcelona, staðan í dag!

Ég lenti óvænt í sólarhrings stoppi í Barcelona á dögunum á leið minni frá Róm vegna flugvandamála og svo kom ég aftur nokkrum vikum síðar (þegar þetta er skrifa).  Ég notaði tækifærið og skoðaði bjórsenuna í borginni sem er á góðu flugi og hefur verið síðustu ár.  Nú er ég hér í 5. sinn og það er bara alltaf eitthvað nýtt að bætast við.  Ég hef áður einhvers staðar skrifað um bjór í Barcelona og um Edge Brewing sem var valið besta nýja brugghús heims á Ratbeer árið 2014 en það hefur ýmislegt breyst síðan þá.  Ég ætla ekki að fara í einhverjar langlokur hér að þessu sinni…eða það er amk planið.

20160725_172701.jpgSíðast var ég í borginni 2016 og heimsótti ma. Edge Brewing sælla minninga en á þeim tíma var Mikkeller Barcelona bara að opna og BrewDog nýlega komnir.  Þetta eru svo sem góðkunningjar bjórunnenda og þarf ekki að fara frekar í þá sálma hér.  Þess má þó geta að maturinn á Mikkeller var virkilega flottur klassískur barmatur, ég borðaði þarna nokkrum sinnum.  Það góða við þetta er að BrewDog og Mikkeller eru bara rétt hjá hvor öðrum og það sem meira er, BierCab er þarna líka rétt hjá bara.  BierCab hefur lengi vel verið titlaður besti craft bar borgarinnar en þar eru að finna 30 krana með alls konar góðgæti frá öllum heiminum.  Þeir eru líka með stóran og áhugaverðan matseðil.  Samfast við BierCab er svo mjög flott bjórbúð með góðu úrvali af flöskubjór frá flottustu brugghúsum veraldar, líklega með betri bjórbúðum í Barcelona. Í þessari ferð fann ég þarna t.d. Yellow Belly frá Omnipollo sem ég hef leitað að í nokkur ár.

Ofan á þetta allt bætist svo við Garage Beer Company sem opnaði dyr sínar skammt frá BrewDog og Mikkeller fyrir einum þrem árum síðan.  Já ég bara vissi ekki af þeim þegar ég var þarna að þvælast 2016 fjandinn hafi það 🙂  Í dag eru þessir gaurar á hraðri uppleið í bjórveröldinni og gera með betri bjórum Spánar.  Sumir kannast kannski við þá af Bjórfestinni á Kex á síðasta ári?  Þeir gera bara magnaðan bjór og ekkert múður.  Við Sigrún fengum okkur aðeins í gogg þarna, flottan burger og svo geggjaðan bjór, hazy NEIPA auðvitað og nokkra mismunandi.   Ég mæli með Soup sem er þeirra best seller um þessar mundir.  Barinn er flottur en allt mjög hrátt og einfalt.  Ekkert glis og glimmer.  Þjónustan var frekar hæg reyndar, það tók ansi mörg andartök að panta bjór, reyndar var verið að þjálfa starfsmann þarna og svo má ekki gera lítið úr því að ég var ansi tæpur á tíma, átti vél heim til Íslands 5 tímum síðar.  En þrátt fyrir allt þá setjum við þennan stað efst á lista yfir staði til að heimsækja ef bjór er það sem menn vilja í Barcelona.

20180601_185946-02.jpeg

Við römbuðum reyndar einnig inn á tvo aðra ansi magnaða staði, þetta eru systurstaðir reknir af dönskum bjóráhugamönnum.   Danir og bjór virðast vera allstaðar svei mér þá.  Annars vegar er það Kælderkold og hins vegar Ölgod.  Kælderkold hefur verið hér í borg síðustu 4 árin, ég vissi bara ekki af honum fyrr en ég rambaði óvart inn á hann í gotneska hverfinu skammt frá Römblunni.  10 kranar með bjór frá öllum heimsins hornum þmt local svo sem The Garage Brewing, Soma ofl.  Virkilega ljúft að rekast á þetta, staðurinn er samt pínu lítill en maður getur tekið með sér dósir to go.  Ölgod er hins vegar töluvert stærri og ekki svo langt frá.  Staðurinn opnaði 2016 og er með 30 dælur og myndarlegan matseðil.  Þetta er fullkominn staður til að tilla sér á, eftir dag á ströndinni eða í „mollinu“, og fá sér í gogg.

En svona til að taka þetta saman í stuttu máli þá eru meðmæli Bjór & Matur þessi:

Best er að koma sér á Placa de Catalunya sem er mjög miðsvæðis miðað við þetta allt.  Það er auðvelt að komast þangað.  T.d. fer flugrútan beint þangað.  Svo er tiltölulega stutt að rölta í bjórinn (sjá kort).

Ölgod. Algjört möst ef þú ert að þvælast í miðbænum, á La Rambla (sem mér finnst persónulega hræðilegur staður), Gotneska hverfinu eða á ströndinni t.d. þá er stutt að fara á Ölgod.  Kælderkold ef þú ert aðframkominn og nærð ekki á Ölgod.

 

Sumir kjúklingar eru betri en aðrir, Massaður Kjúklingur er bestur!!!

Veður hefur verið vægast sagt ógeðslegt hér á Fróni í allt sumar, allt sumar sko en þá er gott að hafa góða menn sem gera handa manni góðan bjór.  Að undanförnu hafa sérstaklega tvö brugghús hér heima séð um að hjálpa okkur að gleyma viðbjóðnum fyrir utan gluggana okkar með frábærum bjór sem er algjörlega í takt við tíðarandann, sem sagt skýjaður en ofsalega ferskur og safaríkur bjór.  Við erum að auðvitað að tala um Borg Brugghús og Malbygg sem hafa verið skýjum ofar undanfarið og raðað út New England IPA eins og enginn sé morgundagurinn.  Úff þvílíkur orðaleikur.

Síðustu NEIPA bjórar frá Borg hafa verið framúrskarandi og allt frá upphafi hefur Malbygg verið að gera betri og betri bjór.  Sá nýjasti frá Malbygg, sem var bara að fara á dósir ÁÐAN, heitir Massaður Kjúklingur og er 8% double New England IPA með haug og helling af humlum, Citra, Mosaic og svo Columbus held ég, þurrhumlaður fjórum sinnum takk fyrir.  Bjórinn kemur í dósir í vínbúðir vonandi strax eftir helgi en eitthvað fyrr á  dælur á næsta bar.  Vá hvað þetta er gott, það besta frá Malbygg til þessa að mínu mati.IMG_7567-01.jpeg

Lamplighter Brewing, rísandi stjarna í samstarfi við Borg Brugghús í Boston!

Lamplighter í Boston er ein af þessum rísandi stjörnum í bjórheiminum í dag eða amk í Bandaríkjunum.  Ef ég á að miða við eitthvað þá er tilfinning mín dálítið eins og með Omnipollo fyrir nokkrum árum.  Ég spáði þeim velgengi og nú eru þeir á lista yfir 10 bestu brugghúsum veraldar, það er alltaf gaman að vera sannspár.  Ég er með þessa tilfinningu fyrir Lamplighter.  Þeir eru staðsettir á frábærum stað í rólegu hverfi í Cambridge Boston, við erum að tala um brugghús með glæsilegu tap-room eða bruggstofu eins og við viljum kalla það á íslenskunni.  Hér færðu allt sem þeir hafa að bjóða á meðan þú nýtur útsýnisins yfir í brugghúsið sjálft því allur veggurinn á bak við barinn er úr gleri og þar fyrir innan gerast röfrarnir.  Staðurinn er hrár en samt ofsalega hlýlegur og stemningin er góð, enda úir hér og grúir af metnaðarfullum bjórþyrstum ofvitum frá Harvard, MIT og öðrum minni skólum hér í kring, það er eitthvað svona „Brain Power“ í lofti.

Já hér eru allir með einhverja þekkingu á einhverju og skoðanir láta ekki á sér kræla svo mikið er víst.  Hér situr fólk og vinnur að fyrirlestrum eða öðrum verkefnum yfir ljúfum bjór og ræðir málin. Af þessum sökum eru menn ofsalega harðir hérna, þú getur ekki pantað bjór nema framvísa skilríkjum en þá færðu líka stimpil á handarbakið og ert góður það sem eftir lifir kvölds.  Ég fékk reyndar engan stimpil!  Bruggstofan er svo ekki bara fyrir bjór því á daginn og til held ég kl 16 eða 17 er  bruggstofan eins konar kaffíhús þar sem þú færð frábært kaffi og bakkelsi með af bestu sort.  Þú getur auðvitað líka laumað þér í bjórinn ef stemningin er þannig.

20180420_140205.jpg

Lamplighter er heima á Íslandi og reyndar víðar þekkt fyrir að brugga gríðarlega vandaðan NEIPA (New England IPA) og margir nefna Trillium í sömu andrá og Lamplighter en þeir eru jú þekktir sem eitt besta brugghús Bandaríkjanna og þótt víðar væri leitað. Þeir eru guðir í NEIPA gerð svo mikið er víst.  Við ræddum þetta aðeins ég og Tyler sem er bruggmeistari staðarins og einn af eigendum.  Rétt eins og pöpullinn þá taldi ég Lamplighter nefnilega sérhæfa sig í „Trillium style“ IPA en það er bara alls ekki rétt.  Þeir gera vissulega framúrskarandi imperial NEIPA á borð við Rapid Rapid, Birds of A Feather og svo ekki sé minnst á So Much For Subtlety sem var bara að detta á krana hjá þeim, algjörlega sjúkur NEIPA.

Tyler vill samt ekki að Lamplighter verði þekkt fyrir að vera eins og Trillium, hann neitar  því reyndar ekki að það er gaman að fá svona viðurkenningu sem það vissulega er að líkja NEIPA bjórnum þeirra við Trillium en Tyler sér Lamplighter fyrir sér í mun fjölbreyttari bjór.  Hann er mjög hrifinn af allst konar bjórstílum og hefur mikinn metnað fyrir því að halda í hefðirnar og vanda til verks, uppáhalds bjórstíllinn hans er virkilega vandaður lager segir hann, hvort sem það var grín eða ekki.  Tyler vill t.d. brugga kölsch sem hann getur stoltur boðið hörðustu bjórnördum Þýskalands eða belgian tripel sem jafnast á við það besta frá Belgíu, sem sagt alls ekki humlaðar „amerískar“ útgáfur af þessum stílum.

20180420_144100NEIPA er sem sagt aðeins brot af því sem þeir brugga hjá Lamplighter.  Kranalistinn ber þess merki, í kvöld eru t.d. bara þrír double IPA af New England gerð á lista, allt hitt er alls konar.  Tyler gaf mér að smakka flest á listanum og meira til.  Rapid Rapid er góður í dós en af krana er hann algjörlega guðdómlegur!  Ég smakkaði líka Kieran sem er sá bjór sem selst hvað minnst hjá þeim.  Barley wine er bara ekki bjórstíll sem menn þekkja eða þora í hér í Nýja Englandi sagði Tyler mér.  Ég verð hins vegar að segja að þessi bjór var það besta sem ég hef smakkað í þessari ferð og þá er ég líka að tala um allan Trillium bjórinn.   Já ég elska NEIPA en þessi barley wine var algjörlega frábær.  Það að hann seljist ekki hratt er svo sem bara í góðu lagi því hann má alveg eldast á kút í rólegheitunum.

Ég smakkaði einnig hjá þeim fyrstu afurð úr tunnuprógramminu þeirra, sem sagt bjór sem fær að þroskast á eikartunnum.  Rhapsody 8.2% er svakalega flottur súrbjór sem legið hefur á french oak tunnum í 13 mánuði.  Tyler var mjög ánægður með útkomuna enda sá fyrsti sem kemur úr þessu verkefni þeirra sem lofar góðu fyrir það sem er á leiðinni.

Við ræddum m.a Ísland og Bjórhátíðina á Kex, Tyler sagðist hafa verið afar ánægður með hátíðina en hann og félagar voru á staðnum ásamt öðrum frábærum brugghúsum eins og menn vita líkast til.  Lamplighter var eitt af þessum stóru nöfnum í ár.  Þeir mættu sannir hugsjóninni með alls konar bjór, ekki bara skýjaðan NEIPA.  Ef hann fær boð aftur að ári mun hann svo sannarlega mæta og tók ég af honum loforð að við myndum brugga saman bjór í skúrnum mínum heima (nano).  Ég lofaði honum bjór, heitum potti og norðurljósum sem þýðir að ég hef ár til að koma mér upp heitum potti.

20180420_144753-01-01Talandi um samstarfsbjór þá var ég mjög spenntur að heimsækja Lamplighter einmitt um þetta leiti því þeir Tyler og félagar brugguðu bjór heima á Íslandi með KEX Brewing og Borg Brugghús, sem kunnugt er orðið en útkoman var Borealis Baby sem ég verð að segja að sló persónulega í gegn hjá mér, ég er ekki viss hvort eitthvað sé enn til af honum heima en viljum við ekki fá hann aftur og á dósir?  Borg Brugghús mætti svo hingað út í síðasta mánuði og bruggaði annan bjór í Lamplighter, Sneaker Wave 7% heitir sá og fór hann bæði á dósir og krana hér fyrir rúmum tveim vikum síðan.  Nafnið spratt upp úr samræðum þeirra heima á klakanum þegar þeir voru að ræða hættulegar öldur sem geta hrifið grunlausa túrista á haf út, sneaker wave, ég veit svo sem ekki af hverju tal þeirra barst að þessu en svona er það.   Borg flutti með sér haug að íslensku blóðbergi til Boston og var það notað í þennan skemmtilega kryddaða new england IPA.   Bjórinn var að sjálfsögðu drukkinn á staðnum í Borg glasi sem Tyler féll alveg fyrir, það vakti furðu mína hve mikla gleði meðal Lamplighter teymisins það vakti.  Gaman að því.  En bjórinn er mjög skemmtilegur, safaríkur og nettur með áberandi blóðbergi í bakgrunni.  Tyler sagði  að blóðbergið hafi verið mjög magnað í upphafi en á þessum tveim vikum hefur dregið töluvert úr því.  Fyrir mína parta hefði það ekki mátt vera meira þannig að ég er sáttur.

 Já þetta var skemmtileg heimsókn en erfið daginn eftir samt því Tyler er rausnarlegur heim að sækja.

 

KBS sjaldgæfur gullmoli á ótrúlegum stað

Founders brewing hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér, saga brugghússins er ein af þessum fallegu ævintýrum sem enduðu vel.  Það voru tveir áhugasamir heimabruggarar sem ákváðu að segja störfum sínum lausum og snúa sér alfarið að bjórgerð fyrir almennan markað.  Þeir helltu sér út í svimandi há bankalán og stofnuðu svo brugghúsið árið 1997.  Þetta var í Grand Rapids í Michigan.  Í upphafi brugguðu þeir bara hefðbundinn bjór, ekki vondan en ekkert sem menn tóku sérstaklega eftir, þeir voru á barmi gjaldþrots þegar þeir félagar Mike Stevens og Dave Engbers ákváðu að venda kvæðum í kross og skapa bjór eins og þeir vildu í raun sjálfir sjá bjórinn.  Bjór með hortugheit, eitthvað sem var ekki fyrir fjöldan heldur meira fyrir alvöru bjórnörda.  Þetta gekk svona líka vel upp hjá þeim félögum.  Vinsældir bjórsins jukust ár frá ári og nú er brugghúsið metið meðal bestu brugghúsa veraldar.  Á stærsta brjórsamfélagi veraldar Ratebeer.com hefur brugghúsið verið í efstu þremur sætunum undan farin ár.  Þeir eiga einnig nokkra bjóra á lista yfir 50 bestu bjóra veraldar og bjór þeirra hefur unnið margoft til verðlauna á hinum ýmsu bjórkeppnum.

Image result for founders breakfast stoutKBS eða Kentucky Breakfast Stout er í dag meðal eftirsóttustu bjóra í veröldinni og er í raun ekki hlaupið af því að ná sér í flösku.  Saga bjórsins hefst árið 2001 þegar Dave Engbers er staddur á barnum sínum og einn gestanna gefur honum súkkulaðihúðaða espresso kaffibaun til að smakka.  Það vildi svo til að Dave var þarna með Founders Porter við hönd sem hann skolaði bauninni niður með.  Þarna varð hann fyrir hugljómun, afhverju ekki að blanda súkkulaði, kaffi og bjór saman?  Þetta varð kveikjan af  einum vinsælasta stout veraldar, Founders Breakfast Stout sem kemur út ár hvert milli september og desember og er stundum hægt að finna þenna bjór hér heima.   Meira fikt og pælingar leiddu svo til þess að þeir félagar ákváðu að prófa dálítið galna hugmynd að sjá hvað myndi gerast ef bjór myndi liggja á notuðum bourbon tunnum en þá þessum tíma voru menn ekki farnir að gera þetta.  Þeir sömdu við Jack Daniels um að fá nokkrar notaðar tunnur, eitthvað sem þótti frekar undaleg bón á þessum tíma, og fylltu þær með Breakfast Stout.   Þarna duttu menn niður á eitthvað alveg nýtt og eftir nokkrar fínstillingar leit KBS dagsins ljós.  Bjórinn var og er fáanlegur í mjög takmörkuðu magni því það eru takmörk fyrir því hve mörgum tunnum maður getur komið fyrir á lager.  Bjórinn liggur nefnilega þarna í heilt ár.   Útkoman er stórkostlegur  mjúkur og djúsí imperial stout (11.8%) með vanillukeim, kaffi, súkkulaði og svo auðvitað áberandi bourbon.  Þetta er bara eitthvað sem menn verða að prófa.  Nú er svo komið að þessi bjór er fáanlegur í ÁTVR.  Eitthvað sem er í raun galið þar sem fólk stendur í röðum til að ná sér í flöksu þegar KBS dettur í sölu ár hvert í kringum apríl.

KBS er dásamlegur til að njóta einn og sér á síðkvöldi til að innsigla góðan dag eða með nokkrum vel völdum súkkulaðimolum eftir góða máltíð.