Paradísarfuglinn með Pekko humlum var að detta inn á barina!

Borg Brugghús heldur áfram með tilraunalínuna sína (T-línuna) og kemur hér með Paradísarfuglinn Nr T15, 5.2% Pale Ale af skýjuðu gerðinni.  Þetta  er helvíti skemmtilegur pale ale.  Fyrir það fyrsta er hann bruggaður með íslensku byggi eða bygg- yrki til að hafa þetta rétt. Bygg yrki þetta sem ber nafnið Kría, var ræktað í Noregi og svo maltað þar líka hjá  Bonsak gårdsmalteri .  Að auki erum við hér að fá að prófa alveg glænýjan humal hjá Borg sem kallast Pekko.  Pekko er amerískur humall sem kom fram á sjónarsviðið í kringum 2016 eða svo.  Nafnið er komið af einhverjum finnskum landbúnaðar Guði afhverju sem það nú er?  Líkt og svo algengt er með amerísku humlana þá er þessi nokkuð blómlegur og djúsí með suðrænum ávöxtum og sítrónugrasi skv lýsingum.  Við höfum aldrei smakkað þetta afbrygði áður hér á B&M og því skemmtilegt tækifæri að fá hann í bjór einan og sér en Paradísarfuglinn er „single hop“ bjór sem þýðir bara að það er einungis ein tegund af humlum í bjórnum og því fær hann að njóta sín til fulls.

Paradísarfuglinn er þægilegur, léttur með frískandi safaríkum humlum sem koma mjög vel út.  Kornið er dálítið erfitt að meta en það alla vega virkar helvíti vel hérna.   Þessi gaur var að lenda á sérvöldum börum borgarinnar fyrr í kvöld.  Tékkið á honum á meðan hann er ferskur.