Founders brewing hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér, saga brugghússins er ein af þessum fallegu ævintýrum sem enduðu vel. Það voru tveir áhugasamir heimabruggarar sem ákváðu að segja störfum sínum lausum og snúa sér alfarið að bjórgerð fyrir almennan markað. Þeir helltu sér út í svimandi há bankalán og stofnuðu svo brugghúsið árið 1997. Þetta var í Grand Rapids í Michigan. Í upphafi brugguðu þeir bara hefðbundinn bjór, ekki vondan en ekkert sem menn tóku sérstaklega eftir, þeir voru á barmi gjaldþrots þegar þeir félagar Mike Stevens og Dave Engbers ákváðu að venda kvæðum í kross og skapa bjór eins og þeir vildu í raun sjálfir sjá bjórinn. Bjór með hortugheit, eitthvað sem var ekki fyrir fjöldan heldur meira fyrir alvöru bjórnörda. Þetta gekk svona líka vel upp hjá þeim félögum. Vinsældir bjórsins jukust ár frá ári og nú er brugghúsið metið meðal bestu brugghúsa veraldar. Á stærsta brjórsamfélagi veraldar Ratebeer.com hefur brugghúsið verið í efstu þremur sætunum undan farin ár. Þeir eiga einnig nokkra bjóra á lista yfir 50 bestu bjóra veraldar og bjór þeirra hefur unnið margoft til verðlauna á hinum ýmsu bjórkeppnum.
KBS eða Kentucky Breakfast Stout er í dag meðal eftirsóttustu bjóra í veröldinni og er í raun ekki hlaupið af því að ná sér í flösku. Saga bjórsins hefst árið 2001 þegar Dave Engbers er staddur á barnum sínum og einn gestanna gefur honum súkkulaðihúðaða espresso kaffibaun til að smakka. Það vildi svo til að Dave var þarna með Founders Porter við hönd sem hann skolaði bauninni niður með. Þarna varð hann fyrir hugljómun, afhverju ekki að blanda súkkulaði, kaffi og bjór saman? Þetta varð kveikjan af einum vinsælasta stout veraldar, Founders Breakfast Stout sem kemur út ár hvert milli september og desember og er stundum hægt að finna þenna bjór hér heima. Meira fikt og pælingar leiddu svo til þess að þeir félagar ákváðu að prófa dálítið galna hugmynd að sjá hvað myndi gerast ef bjór myndi liggja á notuðum bourbon tunnum en þá þessum tíma voru menn ekki farnir að gera þetta. Þeir sömdu við Jack Daniels um að fá nokkrar notaðar tunnur, eitthvað sem þótti frekar undaleg bón á þessum tíma, og fylltu þær með Breakfast Stout. Þarna duttu menn niður á eitthvað alveg nýtt og eftir nokkrar fínstillingar leit KBS dagsins ljós. Bjórinn var og er fáanlegur í mjög takmörkuðu magni því það eru takmörk fyrir því hve mörgum tunnum maður getur komið fyrir á lager. Bjórinn liggur nefnilega þarna í heilt ár. Útkoman er stórkostlegur mjúkur og djúsí imperial stout (11.8%) með vanillukeim, kaffi, súkkulaði og svo auðvitað áberandi bourbon. Þetta er bara eitthvað sem menn verða að prófa. Nú er svo komið að þessi bjór er fáanlegur í ÁTVR. Eitthvað sem er í raun galið þar sem fólk stendur í röðum til að ná sér í flöksu þegar KBS dettur í sölu ár hvert í kringum apríl.
KBS er dásamlegur til að njóta einn og sér á síðkvöldi til að innsigla góðan dag eða með nokkrum vel völdum súkkulaðimolum eftir góða máltíð.
Ein athugasemd við “KBS sjaldgæfur gullmoli á ótrúlegum stað”