Hrefna 40.1 Moscatel Roxo tunnuþroskað belgiskt sterköl á köldu vetrarkvöldi

Ég veit ekki hvort þið munið eftir Hrefnu #40 frá Borg, belgian strong ale bruggaður með krækiberjum sérstaklega fyrir Grillmarkaðinn.  Mig minnir þetta hafi verið fyrir ári síðan eða rúmlega það kannski.  Það er líklega enn hægt að fá flösku á Skúla Craft bar eða Grillmarkaðinum og er vel þess virði að prófa enda flottur bjór.  Nú er svo kominn ný Hrefna,  Hrefna 40.1 sem er 11% belgian strong ale tunnuþorskaður í 10 mánuði á Moscatel Roxo tunnu.  Já og hann er líka bruggaður með íslenskum krækiberjum.  Nú eru kannski ekki allir að drekka Moscatel á hverjum degi, ég veit að ég geri það alls ekki en sá drykkur er af portúgölskum uppruna og er styrkt eftirétta vín oftast yfir 60% áfengis, gert er úr hinni hvítu sætu Moscatel vínþrúgu.  Roxo er svo afbrigði Moscatel vínþrúgunnar sem er dálítið bleik að lit og ku vera gríðarlega sjaldgæf ef marka má internetið!

Roxo Moscatel from Setúbal 17-17,5/20 or 92-94/100 pts 0.75l images

Hrefna 40.1 er tær og falleg í glasi með koparlituðum blæ ekki ósvipað Moscatel drykknum sjálfum.  Það er mikil lykt úr glasinu, krydd og sætir tónar, jafnvel hunang og appelsína?  Í munni er mikil vínleg sæta og töluverður áfengisbruni með sætum heitum undirtón, hunang jafnvel! Mér finnst ég finna krækiberin alveg í blá restina en kannski er það bara af því að ég veit af þeim þarna?  Já þetta er  áhugaverður bjór vægast sagt og hann hitar mann án efa upp að innan.
Ég held að menn verði að nálgast þennan bjór fyrir það sem hann er, öflugur belgískur stong með áberandi áhrif frá tunnunni, alls enginn svaladrykkur.

Hrefna 40.1 kemur út í afar afar litlu upplagi og fer bara á valda bari og líkast til Grillmarkaðinn.  Þannig að ef fólk vill sjokkera sig aðeins þá þarf að hafa dálítið fyrir því!

Hurðaskellir frá Borg kemur með látum! Svakalegur!!!

Það er orðin rík hefð meðal bjórframleiðenda hér heima að brugga eitthvað spennandi og gómsætt fyrir jólin, Jólabjórinn!  Já það er alltaf nokkuð tilhlökkunarefni bjórnördsins að sjá hvað eða hvernig bjór kemur í aðdragandi jóla.  Sumir fara öruggu leiðina og gera alltaf sama bjórinn, sem er í lagi ef hann er góður, á meðan aðrir eru stöðugt að koma okkur á óvart með nýjum uppátækjum.  Þetta er svo sem ekki íslensk uppfinning, síður en svo en það er bara algjört aukaatriði.  Borg Brugghús hefur til þessa alltaf gert nýjan jólabjór undan farin ár og skírt í höfuðið á jólasveinunum okkar 13.  Giljagaur muna sumir eftir en hann hefur fest sig í sessi sem árlegur jólabjór frá brugghúsinu og hjá mörgum, þmt undirrituðum, orðinn ómissandi hluti af jólahaldinu.  Ekki skemmir svo fyrir að mikið af Borg bjórum henta vel til geymslu og þroskunar og taka þannig skemmtilegum breytingum þegar árin færast yfir. Giljagaur er þannig bjór og er nú orðið hefð hjá mörgum að opna árs eða tveggja ára Giljagaur á jólunum og bera saman við nýja Giljagaurinn.   Ég á t.d. alltaf amk árs gamlan gaur í skáp.

gilli2

Hurðaskellir er svo nýjasti jólabjórinn frá Borg og margir geta reiknað út að það eru 7 eftir ókomnir frá brugghúsinu þannig að við eigum amk 7 spennandi ár framundan.  Hurðaskellir er svakalegur enda mikill jólasveinn sem kemur með látum.  Það er óhætt að segja að Hurðaskellir komi með látum.  Við erum að tala um 11.5% Imperial Porter sem er þroskaður á rúgvískítunnum.   Munurinn á porter og stout er svo efni í heilmiklar pælingar, imperial porter stendur á flöskunni og þá er þetta imperial porter frekar en stout.

Það fyrsta sem maður tekur eftir er þessi lykt, hún er hreint út sagt ótrúleg, það er mikil sæta og súkkulaði með dálitlum kókoskeim.  Rom og rúsínur koma upp í hugan þó svo að hvorugt sé í þessum bjór.  Æðislegt.  Í munni er bjórinn strax mikill með notalegum hita frá áfenginu án þess þó að maður finni truflandi spritt.  Þessi 11.5% koma því vel út og eru skemmtilega falin á bak við sætan rúgvískíkeim og svo er ögn vanilla og kókos líklega frá tunnunni sem þó ná engum hæðum því það kemur fram ögn kaffirist í restina.   Bjórinn er þó ekki eins mjúkur og mikill í munni eins og lyktin gefur dálítið til kynna.

Þetta er einfaldlega magnaður bjór sem kemur væntanlega í búðir 15.11. og þá sennilega í litlu magni.  Þetta er eins og Giljagaur kjörinn bjór til geymslu og verður gaman að sjá hvernig hann verður 2018 eftir ár í skápnum.

RVK Brewing Company, nýtt brugghús handan við hornið!

Það hefur mikið verið að gerast í hinum íslenska bjórheimi undanfarin 3-4 ár og margt mjög spennandi framundan skal ég segja ykkur.  Brugghús eru byrjuð að poppa upp eins og gorkúlur og önnur á teikniborðum.  Eitt af þeim brugghúsum sem eru í pípunum er RVK Brewing Company í Skipholtinu en ég verð að segja að ég er virkilega spenntur fyrir þessu.  Fyrir því eru tvær ástæður, í fyrsta lagi þá er karlinn í brúnni á þeim bæ Sigurður Snorrason hagfræðingur og heimabruggari og alls enginn nýgræðingur þegar kemur að bjór.  Siggi er mikill bjórkarl og hefur lengi verið að grúska í heimabruggi með góðum árangri leyfi ég mér að segja.  Auk þess bjó kauði hér á árum áður í Bandaríkjunum þar sem bjórmenningin er á virkilega háu plani og því má leiða líkum að því að bjórinn hans muni bera keim af amerískri bjórhefð sem er nákvæmlega það sem við viljum hér.

Hin ástæðan er svo sú að ég heimsótti Sigga í verðandi RVK Brewing nú á dögunum og fékk að sjá og heyra hvað framundan er. Allt virkilega lofandi.  Ég smakkaði auk þess  nokkra tilraunabjóra frá þeim, t.d. pilsnerinn sem þeir eru að þróa sem var ofsalega flottur og imperial stoutinn þeirra féll líka algjörlega í kramið hjá mér. Báðir þessir bjórar báru merki þess að skapari þeirra gerir þetta að alúð og vandvirkni.

20171020_162711
Pilsnerinn var flottur, bragðmikill, mjúkur með góða fyllingu.

Brugghúsið er sem sagt að taka á sig mynd í þessum skrifuðu orðum, 500L bruggtækin standa gljáfægð og fín og bíða þess að verða tengd og skipulag á brugghúsinu ásamt bruggstofunni (tap room) komið á hreint.  Við Siggi ræddum saman um framhaldið og þá möguleika sem eru í stöðunni og ég get sagt ykkur að þarna á þessum bænum eru menn bara að hugsa nákvæmlega það sama og ég myndi hugsa sem einfaldlega verður að teljast spennandi…..sérstaklega fyrir mig!  Það er ekki klárt hvenær brugghúsið verður komið á fullt sving en líklega mun það bara gerast á næstu mánuðum eða fljótlega eftir áramótin.  Húsnæðið býður svo upp á ýmislegt og hver veit nema við fáum að sjá fyrsta alvöru „tap roomið“ á Íslandi innan tíðar?

20171020_163301
Þessar flottur græjur fara bráðum að töfra fram ölið

Já árið 2018 verður skemmtilegt ár svei mér þá og svo eru fleiri brugghús í deiglunni en nánar um það síðar!

Forsíðumyndin er tekin af fésbókarsíðu RVK Brewing Company!

Fyrsti íslenski triple IPA bjórinn, Úlfur Úlfur Úlfur!

Ég hef fjallað um IPA, double IPA og New England IPA (nýjasta færslan hér) og nú er komið að því að skoða triple IPA.  Þetta er í raun ekki flókið, IPA eða india pale ale (sjá nánar hér) er einn vinsælasti bjórstíll veraldar meðal bjóráhugafólks.  Einkennandi fyrir stílinn eru ferskir humlar sem gefa áberandi beiskju og hann liggur frá 5% til svona 7%.  ÚLFUR frá Borg er gott dæmi um IPA, eiginlega virkilega gott dæmi, sérstaklega nýja útgáfan sem kom út á dögunum.

DIPA eða double IPA, stundum kallaði IIPA eða imperial IPA er svo bara IPA sem er töluvert öflugari bæði í áfengi og humlum.  Það er að segja það er mun meira af humlum í bjórnum en það þarf ekki endilega að þýða miklu meiri beiskju, venjan er þó að beiskjan er meiri í DIPA en IPA.  Áfengið nær oftast frá 8% og upp í 9-10%.  ÚLFUR ÚLFUR er t.d. DIPA!

IMG_6512

Triple IPA (IIIPA) er svo hvað?  Jú þú gískaðir rétt, enn öflugari IPA, við erum að tala um haug og aftur haug af humlum og töluverða beiskju og svo áfengi frá 10% og uppúr.  Munið bara að þótt áfengið sé svona mikið þá þýðir það ekki endilega að bjórinn sé sprittaður og rammur því til að ná svona miklu áfengi þarf mikið magn af malti sem þýðir mikið af sykri.  Bæði DIPA og IIIPA geta því verið nokkuð sætari en IPA en auðvitað finnur maður þróttinn og hitann frá áfenginu.    ÚLFUR ÚLFUR ÚLFUR (ÚÚÚ) er einmitt triple IPA og fyrstur sinnar tegundar á Íslandi. Borg hefur aldrei notað eins mikið af humlum í einn bjór, Citra og El Dorado humla sem eru þekktir fyrir djúsí suðræna ávaxtatóna.  Svo nota þeir sérstrakan amerískan gerstofn, eins konar „super ger“ sem þolir mikið áfengi sem er nauðsynlegt þegar svona stór bjór á í hlut.  Þennan stofn ræktuðu bruggmeistarar Borgar sérstaklega upp fyrir þennan bjór.  Gerið gefur af sér ljúft og milt ávaxtabragð sem tvinnast vel við humlana.  ÚÚÚ pakkar heilum 11% áfengis takk fyrir en það kemur ekki sérstaklega fram í bragði.  Maður finnur vel fyrir þessum prósentum en meira á formi hita og þéttleika.

Úlfur úlfur úlfur er kominn í vínbúðirnar núna og hann á eins og alltaf þegar IPA á í hlut að drekkast í gær!

Ýmsar skemmtilegar breytingar á nokkrum kempum frá Borg.

Nú eru sko skemmtilegir tímar fyrir aðdáendur Úlfafjölskyldunnar frá Borg. Strákarnir hjá Borg eru nefnilega duglegir að prófa nýja hluti og þeir eru stöðugt að nostra við ölið og þróa það áfram til að ná fullkomnun.  Úlfur hefur t.d. breyst lítillega í gegnum árin og það sama má segja um Úlfrúnu ofl.  Nú hafa menn þar á bæ hins vegar gert dálítið stórar breytingar á í raun allri Úlfahjörðinni, Úlf, Úlf Úlf og Úlfrúnu, já og svo er auðvitað hinn glænýji Úlfur Úlfur Úlfur kominn í búðir líka en það er önnur saga.

NýrÚlfur og pizzaAllir Úlfarnir hafa fengið nýtt útlit, menn eru t.d hættir að sía bjórinn og því er hann loksins orðinn eins og mér finnst að svona bjór eigi að vera, mattur og djúsí.   Borg er líka að nota nýtt ger í Úlfana sína, skoskt ger líkt og menn nota í New England IPA sem ég skrifaði um hér bara í gær.  Ger þetta gefur af sér meiri ávaxtablæ og notalegheit.  Ég smakkaði nýja Úlf í gær með grillaðri pizzu og hann var alveg helvíti flottur og er ég eiginlega sáttari við hann svona heldur en áður.  Kannski bara kominn með pínu leið á honum í gamla búningnum?  Nýji ÚLFUR er vissulega með sinn gamla góða Úlf karakter en hann er núna meira djúsí og mýkri en hefur þó beiskjuna sína eins og vera ber.   Ég mæli með að menn prófi þetta sem fyrst, pökkunardagur á flöskunum er 12.7.17.

ÚLFRÚN hefur verið dálítið út og suður frá upphafi, alltaf að breytast aðeins en nú er held ég endanleg útgáfa komin fram sem er talsvert breytt frá fyrstu lögun. Í síðustu eða þarsíðustu viku tilkynnti Borg að Úlfrún væri nú með nýja skoska gerinu og ekki eins tær í útliti en svo hafa þeir breytt honum aðeins eftir það.  Ég er t.d. hér með dós sem var töppuð í fyrradag, já 18.7.17 takk fyrir, gerist ekki ferskara.   Valli og Óli (Borg) sögðu mér að þessi útgáfa væri líklega endanleg, algjörlega ósíaður, með skoska gerinu og beiskja töluvert minni en áður, í raun eins og Úlfrún átti alltaf að vera.  Bjórinn er bruggaður þannig að humlar eru settir í bjórinn eftir suðuna, hann er með skosku geri, mattur og djúsí og svo nota menn hafra, hveiti og rúg. Svo þegar beiskja hefur verið dempuð eins og nú er þá hefur þessi bjór í raun allt sem bjór þarf að hafa til að vera kallaður New England IPA (NEIPA).   Hvorki Valli né Óli vildu hins vegar gefa neitt upp um hvort Úlfrún sé NEIPA eða ekki enda er það í raun bara ekki aðal atriðið, aðal málið er eins og ávalt, að neytandinn kunni að meta bjórinn.  Valli glotti samt dálítið þegar ég spurði hann ef það merkir eitthvað! Fyrir mína parta þá er hér um að ræða bjór sem er vel í áttina að vera NEIPA, hann er ekki eins djúsí djúsí eins og ég vil hafa góðan NEIPA en hann er þó þarna innan marka og virkilega ljúfur og flottur, „New Englandish IPA?“.  Úlfrún er bjór sem ég mun nota sem sumarbjór nr eitt hér eftir.

IMG_6500

ÚLFUR ÚLFUR er líka breyttur og enn í umferð en eins og kunnugt er kemur Úlfur Úlfur venjulega bara út í kringum 1. apríl.  Menn eru þó aðeins að leika sér með hann og laga til og því fæst hann enn, það stendur þó ekki til svo ég viti að bjórinn sé kominn til að vera árið um kring.   Úlfur Úlfur er með nýja skoska gerinu og hann er líka alveg ósíaður.  Í glasi lítur hann ofsalega vel út, eins og NEIPA svei mér þá, mattur og djúsí. Fyrir mína parta er hann hins vegar of þurr og beiskur fyrir stílinn en góður er hann svo sannarlega og líklega sá besti hingað til.  Óli Rúnar (Borg) vill heldur ekki meina að menn hafi verið að reyna að brugga New England IPA sérstaklega.   Um að gera að drífa sig í þessa karla á meðan þeir eru ferskir.

Loks má nefna að AYCAYIA er kominn aftur og alveg nýtt batch og því afar ferskur, svo var að detta í hús nýr SÆMUNDUR, settur á dós 18.7.17 og ku hann vera með nokkuð minni beiskju en sá fyrsti.

En næsta „stopp“ ÚLFUR ÚLFUR ÚLFUR triple IPA!!!

Skýjaða NEPA æðið á Íslandi er það eitthvað?

New England IPA (NEIPA eða NEPA), er það sem allir eru að tala um, “The Haze Craze“ eins og sumir kalla það!  En hvað er í gangi?  NEIPA er bjórstíll sem er að gera allt vitlaust um þessar mundir, eða alla vega í nágrannalöndum okkar enda ekkert skrítið.  Stíllinn sem er tiltölulega nýr af nálinni er ný túlkun brugghúsa á New England svæðinu í Bandaríkjunum á hinum ástkæra india pale ale (IPA) stíl sem notið hefur mikilla vinsælda um heim allan um áraraðir. Sumir segja að stíllinn hafi byrjað með HEADY TOPPER frá Alchemist sem líklega er einn eftirsóttasti bjór veraldar?  Ég skal ekki segja en ég get þó sagt það að þessi bjórstíll er algjört hnossgæti.   Stíllinn er einkennandi mattur og oftast ljós eða heiðgulur og minnir um margt á djúsí ávaxtasafa.  Ávaxtasafi er í raun ekki fjarri lagi því það er heill hellingur af safaríkum, tropical humlum í þessum bjórum sem eru settir í bjórinn eftir að suðu er lokið í bruggferlinu.   Á þann máta er beiskju stillt í hóf en við fáum þess í stað allt þetta dásamlega ávaxtaríka humalbragð og þessa skýjuðu áferð.  Gerið skiptir alltaf máli þegar kemur að bjór og oftast nota menn breska eða ameríska stofna í NEIPA en það eru svo sem engin lög til um það .

20170513_123517Ég verð að segja að ég kolféll fyrir þessum stíl enda hef ég alla tíð hallast meira að ósíuðu útgáfunum af IPA og ég bara elska þetta dásamlega fruity humalbragð.  Sumir strangtrúaðir bjórspekulantar eru hins vegar ósáttir og vilja meina að hér sé verið að upphefja eiginleika í bjór sem hefur verið tengt við óvandaða framleiðslu, sem sagt gruggið og svo eru hin “hárnákvæmu“ vísindi að tímasetja humlaviðætur í suðunni fokin út um gluggann.   Óvandaður bjór þar sem enginn þarf að hugsa, bara sturta öllum humlunum útí eftir suðu og málið er dautt.   Ég skal ekki segja, en fyrir mitt leiti er aðal málið útkoman í lokin, ef bjórinn er góður þá er mér persónulega sama um hversu flókið bruggferlið var, ég get reyndar sagt ykkur að það er bara ekkert auðvelt að brugga þennan stíl, ég hef reynt nokkrum sinnum og ekki komist nálægt því sem þessir töframenn eru að ná fram sem vel kunna til verka.

Hvar getur maður svo komist í herlegheitin?  Jú erlendis auðvitað, t.d. fara menn mikið héðan til Boston en þar eru algjörir snillingar sem hafa masterað þennan bjórstíl ss Trillium Brewing og Tree House Brewing og mæli ég sterklega með að menn prófi þessa, í Kaupmannahöfn hafa snillingarnir Mikkeller og WarPigs náð algjörri fullkomnun í þessu líka og svo verð ég að nefna Other Half í Brooklyn New York en annars eru flest almennileg brugghús að reyna fyrir sér í þessum bjórstíl nú orðið.  Hér heima er hins vegar ekki auðvelt að komast í NEIPA bjór og ég furða mig eiginlega á því.   Það hafa vissulega verið event þar sem NEIPA bjór hefur dottið inn á bari eins og t.d. á Mikkeller & Friends Reykjavík en þetta er þó sára sára sjaldan.  Borg brugghús hefur reynt fyrir sér í þessu en þeir brugguðu New England bjór með Gæðingi á síðasta ári en sá bjór fór í örlitlu magni bara á kúta á einhverja fáa bari bæjarins.  Ég náði amk ekki að smakka.   Það má svo auðvitað alltaf deila dálítið um hvenær bjór er NEIPA eða ekki, ég er svo sem með ákveðnar skoðanir hvað það varðar og miðað við það þá hef ég ekki séð eða smakkað neinn NEIPA frá Borg (það má svo sannarlega vera mér ósammála, t.d. hvað með Lóu eða nýja Úlf Úlf?), vonum að það standi til bóta, það sama má segja um Gæðing.  The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum eru að gera virkilega góðan bjór almennt og þeir eru með bjór sem þeir kalla DIRTY JULIE sem þeir segja að sé New England IPA.  Ég hef ekki smakkað hann en sem komið er en það er svo sannarlega á “to do“ listanum.  Vandinn er að ég á aldrei leið til Vestmannaeyja en það er eina leiðin til að smakka þennan bjór eins og staðan er í dag.  Hins vegar hefur fluga á vegg sagt mér að við hér á meginlandinu getum átt von á að komast í Dirty Julie í höfuðborginni áður en um langt líður.  Hlakka til.   Svo eru það strákarnir Hinni, Steini og Eymar í Kex Brewing, þeir eru svo sannarlega að svara kallinu og hafa verið að gera ekki einn eða tvo heldur nokkra NEIPA bjóra undanfarna mánuði.  Ég hef smakkað nokkra hjá þeim og þeir eru alveg að ná þessu að mínu mati.  LESS IS NEVER MORE sem þeir gerðu með WarPigs fyrr á árinu var t.d. sérstaklega góður og finnst mér að þar hafi menn algjörlega neglt stílinn.  Ég þekki þessa stráka persónulega og veit að þeir eru svo sannarlega ekki hættir.  Ég verð svo að nefna Bryggjan Brugghús, þeir gerðu NEPA bjór sem líklega er enn hægt að fá hjá þeim.  Ég smakkaði hann fyrr á árinu en var ekki hrifinn, fínn bjór en ekki New England IPA eins og ég vil hafa þá.  Bergur bruggmeistari gerir annars mjög flottan bjór og hef ég oftast verið ánægður með Bryggju bjórinn til þessa.

18118487_10155392762454274_8415856751555779110_n

Það er sem sagt þannig að það er ekki hægt að fá þennan geggjaða bjórstíl út í búð og enn sem komið er þarf að fara til Vestmannaeyja í Dirty Julie (sagt með fyrirvara þar sem ég hef ekki smakkað bjórinn, kannski minnir hann ekkert á stílinn?) eða bíða eftir að Kex Brewing komi með kút undir á Mikkeller & Friends.  Það er reyndar stundum hægt að fá NEIPA dósir á Mikkeller & Friends frá brugghúsi þeirra í San Diego og þarf bara að fylgjast með á fésinu.  Fyrir mína parta þá er þetta samt óásættanlegt ástand, ég vil geta amk gengið að góðum NEIPA vísum á krana einhvers staðar, þetta er besti bjórstíllinn fyrir mig um þessar mundir.  Auðvitað væri enn betra að geta kippt með dós af þessu í vínbúðinni.  Vandinn er samt að hér er um gríðarlega viðkvæma ferskvöru að ræða og þá þarf rennslið að vera gott svo hann staðni ekki í hillunum og því skil ég svo sem vel að menn þori ekki alveg þangað enn sem komið er.

Það verður spennandi að sjá hvað gerist á næstu mánuðum.  Ég væri alveg sáttur við að sjá Borg NEIPA krana fast á Skúla Craft bar t.d.

KBS sjaldgæfur gullmoli á ótrúlegum stað

Founders brewing hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér, saga brugghússins er ein af þessum fallegu ævintýrum sem enduðu vel.  Það voru tveir áhugasamir heimabruggarar sem ákváðu að segja störfum sínum lausum og snúa sér alfarið að bjórgerð fyrir almennan markað.  Þeir helltu sér út í svimandi há bankalán og stofnuðu svo brugghúsið árið 1997.  Þetta var í Grand Rapids í Michigan.  Í upphafi brugguðu þeir bara hefðbundinn bjór, ekki vondan en ekkert sem menn tóku sérstaklega eftir, þeir voru á barmi gjaldþrots þegar þeir félagar Mike Stevens og Dave Engbers ákváðu að venda kvæðum í kross og skapa bjór eins og þeir vildu í raun sjálfir sjá bjórinn.  Bjór með hortugheit, eitthvað sem var ekki fyrir fjöldan heldur meira fyrir alvöru bjórnörda.  Þetta gekk svona líka vel upp hjá þeim félögum.  Vinsældir bjórsins jukust ár frá ári og nú er brugghúsið metið meðal bestu brugghúsa veraldar.  Á stærsta brjórsamfélagi veraldar Ratebeer.com hefur brugghúsið verið í efstu þremur sætunum undan farin ár.  Þeir eiga einnig nokkra bjóra á lista yfir 50 bestu bjóra veraldar og bjór þeirra hefur unnið margoft til verðlauna á hinum ýmsu bjórkeppnum.

Image result for founders breakfast stoutKBS eða Kentucky Breakfast Stout er í dag meðal eftirsóttustu bjóra í veröldinni og er í raun ekki hlaupið af því að ná sér í flösku.  Saga bjórsins hefst árið 2001 þegar Dave Engbers er staddur á barnum sínum og einn gestanna gefur honum súkkulaðihúðaða espresso kaffibaun til að smakka.  Það vildi svo til að Dave var þarna með Founders Porter við hönd sem hann skolaði bauninni niður með.  Þarna varð hann fyrir hugljómun, afhverju ekki að blanda súkkulaði, kaffi og bjór saman?  Þetta varð kveikjan af  einum vinsælasta stout veraldar, Founders Breakfast Stout sem kemur út ár hvert milli september og desember og er stundum hægt að finna þenna bjór hér heima.   Meira fikt og pælingar leiddu svo til þess að þeir félagar ákváðu að prófa dálítið galna hugmynd að sjá hvað myndi gerast ef bjór myndi liggja á notuðum bourbon tunnum en þá þessum tíma voru menn ekki farnir að gera þetta.  Þeir sömdu við Jack Daniels um að fá nokkrar notaðar tunnur, eitthvað sem þótti frekar undaleg bón á þessum tíma, og fylltu þær með Breakfast Stout.   Þarna duttu menn niður á eitthvað alveg nýtt og eftir nokkrar fínstillingar leit KBS dagsins ljós.  Bjórinn var og er fáanlegur í mjög takmörkuðu magni því það eru takmörk fyrir því hve mörgum tunnum maður getur komið fyrir á lager.  Bjórinn liggur nefnilega þarna í heilt ár.   Útkoman er stórkostlegur  mjúkur og djúsí imperial stout (11.8%) með vanillukeim, kaffi, súkkulaði og svo auðvitað áberandi bourbon.  Þetta er bara eitthvað sem menn verða að prófa.  Nú er svo komið að þessi bjór er fáanlegur í ÁTVR.  Eitthvað sem er í raun galið þar sem fólk stendur í röðum til að ná sér í flöksu þegar KBS dettur í sölu ár hvert í kringum apríl.

KBS er dásamlegur til að njóta einn og sér á síðkvöldi til að innsigla góðan dag eða með nokkrum vel völdum súkkulaðimolum eftir góða máltíð.

Borg/Tanker collab, Chocosourus

Gaurarnir í Borg brugghús sitja ekki auðum höndum þessa dagana, þeir eru á stöðugum þeytingi bruggandi bjór út um allar jarðir.  Hér er það Tanker Brewery í Tallin Eistlandi. Bjórinn kalla þeir Chocosourus C8 og já það er líklega gert með vilja að skrifa „sourus“ en ekki „saurus“ þrátt fyrir risaeðluna á merkimiðanum því um er að ræða súrbjór.  Í bjórinn nota þeir svo  kakóhismi frá Omnon súkkulaðigerð sem skýrir fyrri hluta nafnsins dálítið.  Já við erum að tala um spriklandi ferskan súkkulaðisúrbjór, ekki klassísk túlkun á stílnum en svo sannarlega skemmtileg.  Súkkulaði og ber, er það ekki eitthvað?  Súkkulaðihúðuð hindber eða jarðaber eru t.d. oooofsalega flott.

Bjórinn er ferskur og spriklandi á tungu með súrum undirtón og alls konar mildum ávöxtum.  Það má svo finna örlítið súkkulaði í bakgrunni, það hjálpar reyndar að vita af
því í bjórnum samt. Bjórinn er ofsalega fallegur í glasi en froðan staldrar stutt við.
Mjög skemmtilegur súrbjór sem gengur svo IMG_6253.JPGsannarlega sem sumarbjór.   Nú er um að gera að fylgjast með ef menn vilja næla sér í flösku en hann dettur í Vínbúðir og bari á næstu dögum.  Venja er að um mjög takmarkað magn sé að ræða þegar kemur að collab!

MATARPÆLING: Þetta er bara skemmtilegur bjór einn og sér en ég veit að hann myndi elska djúsí súkkulaðieftirrétti með ferskum berjum á borð við hindber eða brómber t.d.  Besta súkkulaðimús í heimi kemur sterklega til greina en þar erum við jú bæði með hindber,brómber og jarðaber í djúsí dökkri súkkulaðimús, þvílík pörun, ætli maður prófi þetta ekki bara um helgina?  Svo gengur hvíta súkkulaðifrauðið með fersku ástaraldin einnig mjög vel með þessum.  Já það er svo sannarlega gaman að vera til.

Öflugasti bjór Íslandssögunnar, Garún Garún!

IMG_6135Borg brugghús er orðið þekkt fyrir að brugga bjór sem teygir sig vel út fyrir öll box og ramma, þeir hafa samt aldrei farið svona langt.  Garún Garún, öflugasti bjór Íslandssögunnar, TUTTUGUOGEITT PRÓSENT (21%) takk fyrir.  Þetta er rosalegt eigum við að kalla þetta TRIPEL STOUT?  Maður hugsar spritt og bruni en þegar maður smakkar þá er bjórinn bara allt allt annað en það.  Þetta er Garún á sterum, vá!!!!  Till að ná bjór svona hátt í áfengi þarf til að byrja með helling og ég meina helling af malti en það þýðir auðvitað hellingur af sykri, mér skilst reyndar að uppskriftin sé sú sama og fyrir Garúnu (11.5%).  Svo beita þessir öðlingar tækni sem við getum kallað frosteimingu þar sem þeir eiginlega frysta vatnið úr bjórnum og styrkja hann þannig.  Svo er bjórinn látinn þroskast og gerjast á notuðum koníakstunnum í nokkra mánuði en við það tekur bjórinn í sig bragðið úr tunnunni og frá koníakinu sem lá á tunnunni.

Öflugasti bjór frá Íslandssögunnar hvorki meira né minna!

Útkoman er kolgeggjuð en gengur upp.  Ég mæli eiginlega með því að menn opni flöskuna í litlu rými því þegar þessu er hellt í glas þá ryðst upp úr glasinu ilmvöndur sem fyllir öll vit og herbergið sem maður er í.  Þetta er rosalegt, sætur vínlegur keimur með kaffiblæ og eik.  Í munni fer bjórinn hamförum um braðglaukana en er samt varkár og tillitssamur.  Það kom mér reyndar á óvart hversu notalegur bjórinn er en í senn rosalegur.  Ég er ekki að segja að hann sé mildur, þetta er „mother fucker“ en þéttleikinn og mikil sæta gera hann spennandi og viðráðanlegan og svo kemur þessi svakalegi áfengishiti og loks koníakstunnan í bakgrunni.   Mín fyrsta hugsun eftir fyrsta sopann var Bourbon County stout!!!  Eitthvað sem hefur verið ofarlega á lista hjá mér yfir bestu bjóra veraldar.   Ég ætla bara að enda þetta hér, þetta er það langsamlega besta sem ég hef smakkað frá Borg Brugghús frá upphafi, punktur og basta.

Hvað matarpörun varðar þá…..gleymið því, við viljum ekki hafa nokkur áhrif á þetta bragð og svo er bara ekkert sem heldur velli á móti þessu monsteri.  Þetta er bjór sem maður opnar eftir matinn til að njóta með góðum vin eða elskhuga til að gera gott kvöld ógleymanlegt!  Það verður svo gaman að sjá hvernig þessi karl mun þroskast næstu árin.  Endilega kaupa tvær eða þrjár flöskur.  Eina til að sötra strax og svo tvær til að smakka næstu tvö árin.

Úlfur úlfur?

Flesta mánuði ársins er engan íslenskan double IPA að finna á Íslandi.  Staðan breytist hins vegar blessunarlega ár hvert þann 1. apríl þegar Úlfur Úlfur frá Borg dettur í búðir og bari. Um er að ræða flottan bjór sem mögulega er eini 1. apríl bjór veraldar?  Úlfur Úlfur er klárlega stóri bróðir Úlfs en hann er töluvert öflugari (9%) og að margra  mati helmingi betri. Bjór þessi hefur verið í dálitlu uppáhaldi hjá Bjór&Matur síðustu ár og okkur finnst það eiginlega pínu súrt að geta ekki komist í hann alla daga ársins.

Hvað er double IPA?  Við getum líka talað um imperial IPA en Imperial IPA er eins og nafnið bendir til öflugari útgáfa af venjulegum IPA. Stíllinn er töluvert humlaður og er oft töluvert beiskari fyrir vikið. Hann er einnig hærri í áfengisprósentum og nær stundum 10-11% eða jafnvel enn hærra (þá er reyndar talað um tripel IPA). Til þess að fá bjórinn svona sterkann þarf mikið af malti. Malt er sætt og því er Imperial bjórinn oft dálítið sætari en sá venjulegi. Þetta er einnig þróttmikill bjór með mikinn þéttleika og fyllingu og beiskjan er yfirleitt í góðu jafnvægi við sætann undirtóninn frá maltinu. Bjórinn verður því ekki of sætur eða of beiskur, nema jú ef menn eru viljandi að stuða bragðlaukana eins og vinsælt er orðið nú til dags reyndar.

Úlfur Úlfur er bragðmikill og flottur en verður þó ekki alls ekki ruddalegur eða erfiður. Beiskjan er áberandi en sætan á móti mildar hann og svo koma ávaxtaríkir humlarnir inn með líka. Ofsalega flottur bjór þegar hann er ferskur, já FERSKUR það þarf nefnilega að athuga að svona bjór, DIPA eða IPA þarf að drekka eins ferskan og hægt er því humlarnir sem eru jú í lykilhlutverki í þessum bjórstíl missa mátt sinn frekar fljótt.  Það þýðir að þó bjórinn komi bara einu sinni á ári að þá borgar sig ekki að hamstra og sitja svo uppi með bjór sem er orðinn „döll“ eða líflaus, nema maður ætli að drekka mikið af honum á stuttum tíma auðvitað.

MATARPÖRUN: Það getur verið dálítið snúið að finna rétti sem ganga með double IPA því beiskjan og áfengið eiga það til að „dominera“.   Saltir réttir og ekki verra ef þeir eru dálítið feitir eru hins vegar flott pörun fyrir IPA.  Hér er flott að prófa eitthvað massíft sem heldur velli gagnvart bjórnum, við erum að tala um t.d. þróttmikið grillað kjöt hvers konar með bragðmiklum og djúsí sósum og grilluðu grænmeti, en grillunin myndar ristaðan karmelliseraðan hjúp á kjötið og grænmetið ef það er marinerað í sykurbaseruðum legi.  Karamellukeimurinn tvinnast vel við sætt karamellumaltið í bjórnum og feitar sósur og fitan í kjötinu opnast upp með beiskjunni. Beiskjubitið gerir einnig þungan réttinn léttari og þægilegri.  Ég tala svo ekki um ef manni tekst að koma beikoni að…..t.d. að vefja því utan um kjötið og grilla það þannig, þá erum við komin með saltið og enn meiri fitu.  Dásamlegt.

Önnur frábær hugmynd eru ostar, bragðsterkur cheddarstilton ostur eða jafnvel blámygluostur en allir þessir ostar eru dálítið saltir og skilja eftir sig rjómakennda slykju í gómi sem beiskir humlarnir og áfengið elska að hreinsa af en þannig opnast palletan fyrir viðkvæmari bragðflækjum ostanna.  Mér finnst sætur ávaxtablærinn frá humlunum koma ofsalega vel út með þroskuðum blámyglunni t.d.

Ég verð svo að benda á IPA gulrótarkökuna sem er án efa frábær með Úlf Úlf, prófa það um næstu helgi ef allt gengur eftir.