Hurðaskellir frá Borg kemur með látum! Svakalegur!!!

Það er orðin rík hefð meðal bjórframleiðenda hér heima að brugga eitthvað spennandi og gómsætt fyrir jólin, Jólabjórinn!  Já það er alltaf nokkuð tilhlökkunarefni bjórnördsins að sjá hvað eða hvernig bjór kemur í aðdragandi jóla.  Sumir fara öruggu leiðina og gera alltaf sama bjórinn, sem er í lagi ef hann er góður, á meðan aðrir eru stöðugt að koma okkur á óvart með nýjum uppátækjum.  Þetta er svo sem ekki íslensk uppfinning, síður en svo en það er bara algjört aukaatriði.  Borg Brugghús hefur til þessa alltaf gert nýjan jólabjór undan farin ár og skírt í höfuðið á jólasveinunum okkar 13.  Giljagaur muna sumir eftir en hann hefur fest sig í sessi sem árlegur jólabjór frá brugghúsinu og hjá mörgum, þmt undirrituðum, orðinn ómissandi hluti af jólahaldinu.  Ekki skemmir svo fyrir að mikið af Borg bjórum henta vel til geymslu og þroskunar og taka þannig skemmtilegum breytingum þegar árin færast yfir. Giljagaur er þannig bjór og er nú orðið hefð hjá mörgum að opna árs eða tveggja ára Giljagaur á jólunum og bera saman við nýja Giljagaurinn.   Ég á t.d. alltaf amk árs gamlan gaur í skáp.

gilli2

Hurðaskellir er svo nýjasti jólabjórinn frá Borg og margir geta reiknað út að það eru 7 eftir ókomnir frá brugghúsinu þannig að við eigum amk 7 spennandi ár framundan.  Hurðaskellir er svakalegur enda mikill jólasveinn sem kemur með látum.  Það er óhætt að segja að Hurðaskellir komi með látum.  Við erum að tala um 11.5% Imperial Porter sem er þroskaður á rúgvískítunnum.   Munurinn á porter og stout er svo efni í heilmiklar pælingar, imperial porter stendur á flöskunni og þá er þetta imperial porter frekar en stout.

Það fyrsta sem maður tekur eftir er þessi lykt, hún er hreint út sagt ótrúleg, það er mikil sæta og súkkulaði með dálitlum kókoskeim.  Rom og rúsínur koma upp í hugan þó svo að hvorugt sé í þessum bjór.  Æðislegt.  Í munni er bjórinn strax mikill með notalegum hita frá áfenginu án þess þó að maður finni truflandi spritt.  Þessi 11.5% koma því vel út og eru skemmtilega falin á bak við sætan rúgvískíkeim og svo er ögn vanilla og kókos líklega frá tunnunni sem þó ná engum hæðum því það kemur fram ögn kaffirist í restina.   Bjórinn er þó ekki eins mjúkur og mikill í munni eins og lyktin gefur dálítið til kynna.

Þetta er einfaldlega magnaður bjór sem kemur væntanlega í búðir 15.11. og þá sennilega í litlu magni.  Þetta er eins og Giljagaur kjörinn bjór til geymslu og verður gaman að sjá hvernig hann verður 2018 eftir ár í skápnum.