Ýmsar skemmtilegar breytingar á nokkrum kempum frá Borg.

Nú eru sko skemmtilegir tímar fyrir aðdáendur Úlfafjölskyldunnar frá Borg. Strákarnir hjá Borg eru nefnilega duglegir að prófa nýja hluti og þeir eru stöðugt að nostra við ölið og þróa það áfram til að ná fullkomnun.  Úlfur hefur t.d. breyst lítillega í gegnum árin og það sama má segja um Úlfrúnu ofl.  Nú hafa menn þar á bæ hins vegar gert dálítið stórar breytingar á í raun allri Úlfahjörðinni, Úlf, Úlf Úlf og Úlfrúnu, já og svo er auðvitað hinn glænýji Úlfur Úlfur Úlfur kominn í búðir líka en það er önnur saga.

NýrÚlfur og pizzaAllir Úlfarnir hafa fengið nýtt útlit, menn eru t.d hættir að sía bjórinn og því er hann loksins orðinn eins og mér finnst að svona bjór eigi að vera, mattur og djúsí.   Borg er líka að nota nýtt ger í Úlfana sína, skoskt ger líkt og menn nota í New England IPA sem ég skrifaði um hér bara í gær.  Ger þetta gefur af sér meiri ávaxtablæ og notalegheit.  Ég smakkaði nýja Úlf í gær með grillaðri pizzu og hann var alveg helvíti flottur og er ég eiginlega sáttari við hann svona heldur en áður.  Kannski bara kominn með pínu leið á honum í gamla búningnum?  Nýji ÚLFUR er vissulega með sinn gamla góða Úlf karakter en hann er núna meira djúsí og mýkri en hefur þó beiskjuna sína eins og vera ber.   Ég mæli með að menn prófi þetta sem fyrst, pökkunardagur á flöskunum er 12.7.17.

ÚLFRÚN hefur verið dálítið út og suður frá upphafi, alltaf að breytast aðeins en nú er held ég endanleg útgáfa komin fram sem er talsvert breytt frá fyrstu lögun. Í síðustu eða þarsíðustu viku tilkynnti Borg að Úlfrún væri nú með nýja skoska gerinu og ekki eins tær í útliti en svo hafa þeir breytt honum aðeins eftir það.  Ég er t.d. hér með dós sem var töppuð í fyrradag, já 18.7.17 takk fyrir, gerist ekki ferskara.   Valli og Óli (Borg) sögðu mér að þessi útgáfa væri líklega endanleg, algjörlega ósíaður, með skoska gerinu og beiskja töluvert minni en áður, í raun eins og Úlfrún átti alltaf að vera.  Bjórinn er bruggaður þannig að humlar eru settir í bjórinn eftir suðuna, hann er með skosku geri, mattur og djúsí og svo nota menn hafra, hveiti og rúg. Svo þegar beiskja hefur verið dempuð eins og nú er þá hefur þessi bjór í raun allt sem bjór þarf að hafa til að vera kallaður New England IPA (NEIPA).   Hvorki Valli né Óli vildu hins vegar gefa neitt upp um hvort Úlfrún sé NEIPA eða ekki enda er það í raun bara ekki aðal atriðið, aðal málið er eins og ávalt, að neytandinn kunni að meta bjórinn.  Valli glotti samt dálítið þegar ég spurði hann ef það merkir eitthvað! Fyrir mína parta þá er hér um að ræða bjór sem er vel í áttina að vera NEIPA, hann er ekki eins djúsí djúsí eins og ég vil hafa góðan NEIPA en hann er þó þarna innan marka og virkilega ljúfur og flottur, „New Englandish IPA?“.  Úlfrún er bjór sem ég mun nota sem sumarbjór nr eitt hér eftir.

IMG_6500

ÚLFUR ÚLFUR er líka breyttur og enn í umferð en eins og kunnugt er kemur Úlfur Úlfur venjulega bara út í kringum 1. apríl.  Menn eru þó aðeins að leika sér með hann og laga til og því fæst hann enn, það stendur þó ekki til svo ég viti að bjórinn sé kominn til að vera árið um kring.   Úlfur Úlfur er með nýja skoska gerinu og hann er líka alveg ósíaður.  Í glasi lítur hann ofsalega vel út, eins og NEIPA svei mér þá, mattur og djúsí. Fyrir mína parta er hann hins vegar of þurr og beiskur fyrir stílinn en góður er hann svo sannarlega og líklega sá besti hingað til.  Óli Rúnar (Borg) vill heldur ekki meina að menn hafi verið að reyna að brugga New England IPA sérstaklega.   Um að gera að drífa sig í þessa karla á meðan þeir eru ferskir.

Loks má nefna að AYCAYIA er kominn aftur og alveg nýtt batch og því afar ferskur, svo var að detta í hús nýr SÆMUNDUR, settur á dós 18.7.17 og ku hann vera með nokkuð minni beiskju en sá fyrsti.

En næsta „stopp“ ÚLFUR ÚLFUR ÚLFUR triple IPA!!!

Úlfur úlfur?

Flesta mánuði ársins er engan íslenskan double IPA að finna á Íslandi.  Staðan breytist hins vegar blessunarlega ár hvert þann 1. apríl þegar Úlfur Úlfur frá Borg dettur í búðir og bari. Um er að ræða flottan bjór sem mögulega er eini 1. apríl bjór veraldar?  Úlfur Úlfur er klárlega stóri bróðir Úlfs en hann er töluvert öflugari (9%) og að margra  mati helmingi betri. Bjór þessi hefur verið í dálitlu uppáhaldi hjá Bjór&Matur síðustu ár og okkur finnst það eiginlega pínu súrt að geta ekki komist í hann alla daga ársins.

Hvað er double IPA?  Við getum líka talað um imperial IPA en Imperial IPA er eins og nafnið bendir til öflugari útgáfa af venjulegum IPA. Stíllinn er töluvert humlaður og er oft töluvert beiskari fyrir vikið. Hann er einnig hærri í áfengisprósentum og nær stundum 10-11% eða jafnvel enn hærra (þá er reyndar talað um tripel IPA). Til þess að fá bjórinn svona sterkann þarf mikið af malti. Malt er sætt og því er Imperial bjórinn oft dálítið sætari en sá venjulegi. Þetta er einnig þróttmikill bjór með mikinn þéttleika og fyllingu og beiskjan er yfirleitt í góðu jafnvægi við sætann undirtóninn frá maltinu. Bjórinn verður því ekki of sætur eða of beiskur, nema jú ef menn eru viljandi að stuða bragðlaukana eins og vinsælt er orðið nú til dags reyndar.

Úlfur Úlfur er bragðmikill og flottur en verður þó ekki alls ekki ruddalegur eða erfiður. Beiskjan er áberandi en sætan á móti mildar hann og svo koma ávaxtaríkir humlarnir inn með líka. Ofsalega flottur bjór þegar hann er ferskur, já FERSKUR það þarf nefnilega að athuga að svona bjór, DIPA eða IPA þarf að drekka eins ferskan og hægt er því humlarnir sem eru jú í lykilhlutverki í þessum bjórstíl missa mátt sinn frekar fljótt.  Það þýðir að þó bjórinn komi bara einu sinni á ári að þá borgar sig ekki að hamstra og sitja svo uppi með bjór sem er orðinn „döll“ eða líflaus, nema maður ætli að drekka mikið af honum á stuttum tíma auðvitað.

MATARPÖRUN: Það getur verið dálítið snúið að finna rétti sem ganga með double IPA því beiskjan og áfengið eiga það til að „dominera“.   Saltir réttir og ekki verra ef þeir eru dálítið feitir eru hins vegar flott pörun fyrir IPA.  Hér er flott að prófa eitthvað massíft sem heldur velli gagnvart bjórnum, við erum að tala um t.d. þróttmikið grillað kjöt hvers konar með bragðmiklum og djúsí sósum og grilluðu grænmeti, en grillunin myndar ristaðan karmelliseraðan hjúp á kjötið og grænmetið ef það er marinerað í sykurbaseruðum legi.  Karamellukeimurinn tvinnast vel við sætt karamellumaltið í bjórnum og feitar sósur og fitan í kjötinu opnast upp með beiskjunni. Beiskjubitið gerir einnig þungan réttinn léttari og þægilegri.  Ég tala svo ekki um ef manni tekst að koma beikoni að…..t.d. að vefja því utan um kjötið og grilla það þannig, þá erum við komin með saltið og enn meiri fitu.  Dásamlegt.

Önnur frábær hugmynd eru ostar, bragðsterkur cheddarstilton ostur eða jafnvel blámygluostur en allir þessir ostar eru dálítið saltir og skilja eftir sig rjómakennda slykju í gómi sem beiskir humlarnir og áfengið elska að hreinsa af en þannig opnast palletan fyrir viðkvæmari bragðflækjum ostanna.  Mér finnst sætur ávaxtablærinn frá humlunum koma ofsalega vel út með þroskuðum blámyglunni t.d.

Ég verð svo að benda á IPA gulrótarkökuna sem er án efa frábær með Úlf Úlf, prófa það um næstu helgi ef allt gengur eftir.