Pylsur og bjór er ekkert nýtt, menn hafa notað þessa pörun nánast frá upphafi ára eða hér um bil og menn sjóða jafnvel pyslurnar sínar upp úr bjór. Með klassískri „eina með öllu“ er ískaldur og þægilegur lagerbjór alveg rakið, þægileg beiskjan, grösugir humlarnir og notalegt gosið í bjórnum heldur uppi pylsunni og hreinsar pallettuna á milli bita og svo er bara eitthvað sem gerist svo undurfallegt og gott þegar steiktur laukurinn nær að tengja við sætt pilsnermaltið í ölinu.
Sem sagt, lagerinn er örugg pörun við pylsurnar almennt en það er hægt að tala um pylsur og svo er hægt að tala um PYLSUR!!!!. Já ég er að meina „gourmet“ pylsur. Þeir sem hafa kíkt á Bjórgarðinn vita hvað ég er að tala um en þeir eru dálítið sniðugir í að búa til geggjaðar sælkerapylsur sem hægt er að skola niður með flottu úrvali af bjór. Þetta hefur reyndar dalað aðeins hjá þeim verð ég að segja því nú er aðeins hægt að fá tvær mismunandi tegundir af pylsum hjá þeim en þær eru svo sannarlega ljúffengar.
Við Sigrún prófuðum að leika okkur með pylsurétti eftir að hafa orðið fyrir hugljómun á Bjórgarðinum fyrir einhverju síðan, við ákváðum svo að endurtaka leikinn núna um helgina í bústaðarferð með fjölskyldunni og finna fullkominn bjór með hverjum rétt. Við hefðum auðveldlega getað valið lager eða pilsner til að vera örugg og fengið flotta pörun en oft er gaman að taka smá áhættur því verðlaunin geta verið ríkuleg.
RÉTTUR: Sælkerapylsur frá Pylsumeistaranum á þrjá vegu.
I. ÞÝSK BRATWURST með parmaskinku, kartöflusalati, steiktum lauk og bjórsinnepssósu í fínu brauði.
Sinnepssósa: Sinnep, t.d. bjórsinnep frá Pylsumeistaranum er hrært saman við sýrðan rjóma og majones. Stillið af eftir smekk en látið sinneðið skína vel í gegn.
II. OSTAPYLSA MEÐ MEXIKÓSKU ÍVAFI, baunachilli, salsasósu og með rifnum piparosti og ferskum kóríander yfir í fínu brauði.
Baunachillíið er svo eftirfarandi : Þetta er dálítið bara svona eftir tilfinningunni, steiktur saxaður laukur, smátt söxuð rauð paprika, chilli paste úr búð eftir smekk, ekki hafa þetta of sterkt og svo soðnar nýrnabaunir. Loks er gott að krydda með t.d. fajitas kryddi.
III. STEIKARPYLSA MEÐ STEIKTRI ÖND (roasted duck), bjórlegnum rauðlauk og dásamlegri hoisin sósu líka í fínu brauði.
Bjórleginn rauðlaukur: sá sami og við notuðum í rifna grísa tacoið.
Rauðlaukur er skorinn í fínar ræmur og látinn í krukku eða ílát með loki. Svo er 100g sykur, 25g salt og 125ml af eplaediki soðið saman í 4 mín eða svo. Þessu er svo hellt yfir laukinn ásamt 125ml af reyktum imperial stout, hér kemur LAVA STOUT ofsalega vel út. Látið þetta svo standa og mýkjast í amk klst áður en þið setjið laukinn á pylsuna.
BJÓRINN:
Með þýsku kartöflusalatspylsunni þurfum við léttan og mildan bjór því þessi réttur er látlaus með viðkvæma bragðnúansa! Pilsner, ljós lager, kölsch, pale ale eða jafnvel þýskur heitibjór eru allt bjórstílar sem ganga hér vel við. Við notuðum hér PILS ORGANIC frá Víking bara svona til að prófa gamlan félaga.
Steikta öndin er mikill karakter en hún drepur dálítið niður pilsnerinn. Hér þarf aðeins stærri bjór t.d. belgian strong ale og jafnvel belgískan quadrupel. Við vorum með DUVEL frá Moortgat og LA TRAPPE QUADRUPEL sem er töluvert öflugari en báðir mjög flottir með. Imperial stout er líka flott hérna, LAVA STOUT er t.d. eins og skapaður fyrir þennan rétt.
Loks er það ostapylsan með mexíkósku yfirbragði. Pilsnerinn gengur alveg en fyrir meira líf og fjör er það pale ale eða IPA. ÚLFRÚN SESSION IPA frá Borg negldi þetta alveg hjá okkur.

SAMSETNINGIN: Það er frekar einfallt að gera þessa rétti, aðal atriðið er bara að raða réttum hráefnum saman á fallegan máta. Gott er samt að byrja á bjórlegna rauðlauknum (sjá að ofan) því hann þarf aðeins tíma til að laukurinn verði mjúkur og fínn. Svo er bara að hita pylsurnar í ofni t.d. eða grilla ef maður er í stuði sem er enn betra. Gott er að henda parmaskinkunni aðeins í ofn og gera hana meira krispí og ná þannig einnig fram seltunni. Svo klippir maður hana í minni búta. Kartöflusalatið má vera bara það sem þið eruð vön að gera eða það sem þið kippið með úr búðinni. Svo er það bara gamli góði steikti laukurinn og loks sinnepssósan yfir þegar hún er tilbúin.
Fyrir mexíkósku pylsuna er gott að rífa piparostinn dálítið fínt og svo aðeins henda pylsunni í ofninn til að bræða ostinn þegar hann er kominn á pylsuna. Alls ekki of lengi samt.
Svo er bara að njóta. Okkur reiknast svo til að ein og hálf pylsa sé temmilegt fyrir einn fullorðinn, tvær er alveg max.
BJÓR PÆLINGAR: Ef maður vill vera öruggur með góða pörun þá fer maður í ljósa lagerinn/pilsner, hann getur bara ekki klikkað. Hins vegar getur maður skapað enn meiri dýpt og flækjur með ögn flóknari bjórpörun. Með þýsku kartöflusalatspylsunni þurfum við samt bara léttan og mildan bjór því þessi pylsa er látlaus með viðkvæma bragðnúansa! Munum samt að við viljum líka að bjórinn sé góður og njóti sín, ekki bara rétturinn. Venjulega hefði ég farið hér í BRIO frá Borg, enda þýskur pilsner en við létum undan áskorun og prófuðum PILS ORGANIC frá Víking. Þetta er bjór úr „craft beer“ línu Víkings sem mér fannst góður hér fyrir nokkrum árum síðan og var eiginlega búinn að gleyma. Pils Organic kemur bara mjög vel út með þessu, elegant, krispí með netta beiskju en samt látlaus, einmitt það sem pylsan þarf. Reyndar væri þýskur hveitibjór ekki vitlaus hugmynd hér heldur, þýskt með þýsku ekki satt? Svo koma aðrir stílar vel til greina ss kölsch, pale ale og mildir IPA (Founders All Day Session IPA t.d.).

Pylsan með steiktu öndinni er mikill karakter, við erum með alls konar í gangi, bragðmikla pylsu, þunga öndina og svo hoisin sósuna sem er dálítið áberandi. Sýrði laukurinn tekur líka dálítið í. Þessi blanda getur drepið dálítið niður pilsnerinn. Hér þarf aðeins stærri bjór með sem styður við bragðið og heldur velli. Bjór eins og t.d. belgian strong ale. Gamli góði DUVELinn frá Moortgat kom t.d. mjög vel út. Hér erum við með dálítið þróttmikinn bjór með sætum belgískum gerkryddum og ögn vínanda en litla beiskju. Belgísku gerkryddin draga fram pylsuna sem kemur vel í gegn og bjórinn tónar mjög vel við sætuna í hoisin sósunni og lauknum. Reyndar er þessi sýrði bjórlaukur magnaður með öllum bjór. Vá þetta var skemmtileg upplifun. Við reyndum líka LA TRAPPE QUADRUPEL sem er töluvert öflugari en Duvelinn enda belgískur quadrupel, vínandinn er mjög áberandi en þó myndar hann vínlega sætu sem fer vel með dálítið þungum réttinum. LAVA STOUT er svo algjörlega magnaður með þessari pylsu, hér gengur bara allt upp enda er laukurinn LAVA leginn og steikta öndin fær aðeins á sig reyktan blæ og rist frá bjórnum og svo kallar bjórinn einnig fram reykkeiminn í pylsunni.
Loks er það ostapylsan með mexíkósku yfirbragði. Hér er mikið að gerast, pilsnerinn gengur alveg en það er enn skemmtilegra að lyfta pylsunni aðeins upp með t.d. pale ale eða IPA. Við eigum alltaf ÚLFRÚN SESSION IPA frá Borg og varð hún því fyrir valinu hér, bjórinn gjörsamlega negldi þetta alveg, dásamlegir blómlegir humlarnir smjúga inn á milli bragða í pylsunni og varpa smá sítrus keim á þetta allt saman og létta aðeins réttinn og svo opnar beiskjan upp bráðnaða ostinn og fituna í pylsunni. Ég skal segja ykkur að þegar hér var komið sögu í smakkinu var maður orðinn ansi saddur en léttleikinn og notaleg beiskjan í bjórnum skapaði einhvern veginn pláss í maganum til að klára rest.

Það er dálítið skemmtilegt að bera svona kræsingar á borð, fólk er bara ekki vant svona pylsum. Hér erum við bara með þrjár hugmyndir en það má vel leika sé með önnur hráefni og samsetingnar. Aðal atriðið er að hráefnið sé gott og svo bara hafa gaman. Allar pylsurnar voru að þessu sinni frá Pylsumeistaranum við Laugalæk en hann er bæði sanngjarn í verði og með gott úrval af gæðapylsum. Svo er um að gera að vera ekki að stressa sig of mikið að gera allt frá grunni í þessa pylsurétti það gæti orðið mjög tímafrekt, hér er aðal málið að finna góðar samsetningar og raða fallega saman. Kartöflusalat, steiktan lauk og öndina má vel fá bara úr verslun t.d.
Njótið!
You must be logged in to post a comment.