Ýmsar skemmtilegar breytingar á nokkrum kempum frá Borg.

Nú eru sko skemmtilegir tímar fyrir aðdáendur Úlfafjölskyldunnar frá Borg. Strákarnir hjá Borg eru nefnilega duglegir að prófa nýja hluti og þeir eru stöðugt að nostra við ölið og þróa það áfram til að ná fullkomnun.  Úlfur hefur t.d. breyst lítillega í gegnum árin og það sama má segja um Úlfrúnu ofl.  Nú hafa menn þar á bæ hins vegar gert dálítið stórar breytingar á í raun allri Úlfahjörðinni, Úlf, Úlf Úlf og Úlfrúnu, já og svo er auðvitað hinn glænýji Úlfur Úlfur Úlfur kominn í búðir líka en það er önnur saga.

NýrÚlfur og pizzaAllir Úlfarnir hafa fengið nýtt útlit, menn eru t.d hættir að sía bjórinn og því er hann loksins orðinn eins og mér finnst að svona bjór eigi að vera, mattur og djúsí.   Borg er líka að nota nýtt ger í Úlfana sína, skoskt ger líkt og menn nota í New England IPA sem ég skrifaði um hér bara í gær.  Ger þetta gefur af sér meiri ávaxtablæ og notalegheit.  Ég smakkaði nýja Úlf í gær með grillaðri pizzu og hann var alveg helvíti flottur og er ég eiginlega sáttari við hann svona heldur en áður.  Kannski bara kominn með pínu leið á honum í gamla búningnum?  Nýji ÚLFUR er vissulega með sinn gamla góða Úlf karakter en hann er núna meira djúsí og mýkri en hefur þó beiskjuna sína eins og vera ber.   Ég mæli með að menn prófi þetta sem fyrst, pökkunardagur á flöskunum er 12.7.17.

ÚLFRÚN hefur verið dálítið út og suður frá upphafi, alltaf að breytast aðeins en nú er held ég endanleg útgáfa komin fram sem er talsvert breytt frá fyrstu lögun. Í síðustu eða þarsíðustu viku tilkynnti Borg að Úlfrún væri nú með nýja skoska gerinu og ekki eins tær í útliti en svo hafa þeir breytt honum aðeins eftir það.  Ég er t.d. hér með dós sem var töppuð í fyrradag, já 18.7.17 takk fyrir, gerist ekki ferskara.   Valli og Óli (Borg) sögðu mér að þessi útgáfa væri líklega endanleg, algjörlega ósíaður, með skoska gerinu og beiskja töluvert minni en áður, í raun eins og Úlfrún átti alltaf að vera.  Bjórinn er bruggaður þannig að humlar eru settir í bjórinn eftir suðuna, hann er með skosku geri, mattur og djúsí og svo nota menn hafra, hveiti og rúg. Svo þegar beiskja hefur verið dempuð eins og nú er þá hefur þessi bjór í raun allt sem bjór þarf að hafa til að vera kallaður New England IPA (NEIPA).   Hvorki Valli né Óli vildu hins vegar gefa neitt upp um hvort Úlfrún sé NEIPA eða ekki enda er það í raun bara ekki aðal atriðið, aðal málið er eins og ávalt, að neytandinn kunni að meta bjórinn.  Valli glotti samt dálítið þegar ég spurði hann ef það merkir eitthvað! Fyrir mína parta þá er hér um að ræða bjór sem er vel í áttina að vera NEIPA, hann er ekki eins djúsí djúsí eins og ég vil hafa góðan NEIPA en hann er þó þarna innan marka og virkilega ljúfur og flottur, „New Englandish IPA?“.  Úlfrún er bjór sem ég mun nota sem sumarbjór nr eitt hér eftir.

IMG_6500

ÚLFUR ÚLFUR er líka breyttur og enn í umferð en eins og kunnugt er kemur Úlfur Úlfur venjulega bara út í kringum 1. apríl.  Menn eru þó aðeins að leika sér með hann og laga til og því fæst hann enn, það stendur þó ekki til svo ég viti að bjórinn sé kominn til að vera árið um kring.   Úlfur Úlfur er með nýja skoska gerinu og hann er líka alveg ósíaður.  Í glasi lítur hann ofsalega vel út, eins og NEIPA svei mér þá, mattur og djúsí. Fyrir mína parta er hann hins vegar of þurr og beiskur fyrir stílinn en góður er hann svo sannarlega og líklega sá besti hingað til.  Óli Rúnar (Borg) vill heldur ekki meina að menn hafi verið að reyna að brugga New England IPA sérstaklega.   Um að gera að drífa sig í þessa karla á meðan þeir eru ferskir.

Loks má nefna að AYCAYIA er kominn aftur og alveg nýtt batch og því afar ferskur, svo var að detta í hús nýr SÆMUNDUR, settur á dós 18.7.17 og ku hann vera með nokkuð minni beiskju en sá fyrsti.

En næsta „stopp“ ÚLFUR ÚLFUR ÚLFUR triple IPA!!!

Sælkerapylsur á þrjá vegu með pilsner, belgískum strong ale og IPA

Pylsur og bjór er ekkert nýtt, menn hafa notað þessa pörun nánast frá upphafi ára eða hér um bil og menn sjóða jafnvel pyslurnar sínar upp úr bjór.  Með klassískri „eina með öllu“ er ískaldur og þægilegur lagerbjór alveg rakið, þægileg beiskjan, grösugir humlarnir og notalegt gosið í bjórnum heldur uppi pylsunni og hreinsar pallettuna á milli bita og svo er bara eitthvað sem gerist svo undurfallegt og gott þegar steiktur laukurinn nær að tengja við sætt pilsnermaltið í ölinu.

Sem sagt, lagerinn er örugg pörun við pylsurnar almennt en það er hægt að tala um pylsur og svo er hægt að tala um PYLSUR!!!!.  Já ég er að meina „gourmet“ pylsur.  Þeir sem hafa kíkt á Bjórgarðinn vita hvað ég er að tala um en þeir eru dálítið sniðugir í að búa til geggjaðar sælkerapylsur sem hægt er að skola niður með flottu úrvali af bjór.  Þetta hefur reyndar dalað aðeins hjá þeim verð ég að segja því nú er aðeins hægt að fá tvær mismunandi tegundir af pylsum hjá þeim en þær eru svo sannarlega ljúffengar.

Við Sigrún prófuðum að leika okkur með pylsurétti eftir að hafa orðið fyrir hugljómun á Bjórgarðinum fyrir einhverju síðan, við ákváðum svo að endurtaka leikinn núna um helgina í bústaðarferð með fjölskyldunni og finna fullkominn bjór með hverjum rétt.  Við hefðum auðveldlega getað valið lager eða pilsner til að vera örugg og fengið flotta pörun en oft er gaman að taka smá áhættur því verðlaunin geta verið ríkuleg.


RÉTTUR: Sælkerapylsur frá Pylsumeistaranum á þrjá vegu.

I. ÞÝSK BRATWURST með parmaskinku, kartöflusalati, steiktum lauk og bjórsinnepssósu í fínu brauði.

Sinnepssósa:  Sinnep, t.d. bjórsinnep frá Pylsumeistaranum er hrært saman við sýrðan rjóma og majones.  Stillið af eftir smekk en látið sinneðið skína vel í gegn.

II. OSTAPYLSA MEÐ MEXIKÓSKU ÍVAFI, baunachilli, salsasósu og með rifnum piparosti og ferskum kóríander yfir í fínu brauði.

Baunachillíið er svo eftirfarandi : Þetta er dálítið bara svona eftir tilfinningunni, steiktur saxaður laukur, smátt söxuð rauð paprika, chilli paste úr búð eftir smekk, ekki hafa þetta of sterkt og svo soðnar nýrnabaunir.  Loks er gott að krydda með t.d. fajitas kryddi.


III. STEIKARPYLSA MEРSTEIKTRI ÖND (roasted duck), bjórlegnum rauðlauk og dásamlegri hoisin sósu líka í fínu brauði.


Bjórleginn rauðlaukur:
 sá sami og við notuðum í rifna grísa tacoið.
Rauðlaukur er skorinn í fínar ræmur og látinn í krukku eða ílát með loki.  Svo er 100g sykur, 25g salt og 125ml af eplaediki soðið saman í 4 mín eða svo.  Þessu er svo hellt yfir laukinn ásamt 125ml af reyktum imperial stout, hér kemur LAVA STOUT ofsalega vel út.  Látið þetta svo standa og mýkjast í amk klst áður en þið setjið laukinn á pylsuna.

BJÓRINN:
Með þýsku kartöflusalatspylsunni þurfum við léttan og mildan bjór því þessi réttur er látlaus með viðkvæma bragðnúansa!  Pilsner, ljós lager, kölsch, pale ale eða jafnvel þýskur heitibjór eru allt bjórstílar sem ganga hér vel við.  Við notuðum hér PILS ORGANIC frá Víking bara svona til að prófa gamlan félaga.

Steikta öndin er mikill karakter en hún drepur dálítið niður pilsnerinn.  Hér þarf aðeins stærri bjór t.d. belgian strong ale og jafnvel belgískan quadrupel.  Við vorum með DUVEL frá Moortgat og LA TRAPPE QUADRUPEL sem er töluvert öflugari en báðir mjög flottir með.  Imperial stout er líka flott hérna, LAVA STOUT er t.d. eins og skapaður fyrir þennan rétt.

Loks er það ostapylsan með mexíkósku yfirbragði. Pilsnerinn gengur alveg en fyrir meira líf og fjör er það pale ale eða IPAÚLFRÚN SESSION IPA frá Borg negldi þetta alveg hjá okkur.


img_5936

SAMSETNINGIN: Það er frekar einfallt að gera þessa rétti, aðal atriðið er bara að raða réttum hráefnum saman á fallegan máta.  Gott er samt að byrja á bjórlegna rauðlauknum (sjá að ofan) því hann þarf aðeins tíma til að laukurinn verði mjúkur og fínn.   Svo er bara að hita pylsurnar í ofni t.d. eða grilla ef maður er í stuði sem er enn betra.  Gott er að henda parmaskinkunni aðeins í ofn og gera hana meira krispí og ná þannig einnig fram seltunni.  Svo klippir maður hana í minni búta.   Kartöflusalatið má vera bara það sem þið eruð vön að gera eða það sem þið kippið með úr búðinni. Svo er það bara gamli góði steikti laukurinn og loks sinnepssósan yfir þegar hún er tilbúin.  

Fyrir mexíkósku pylsuna er gott að rífa piparostinn dálítið fínt og svo aðeins henda pylsunni í ofninn til að bræða ostinn þegar hann er kominn á pylsuna.  Alls ekki of lengi samt.

Svo er bara að njóta.  Okkur reiknast svo til að ein og hálf pylsa sé temmilegt fyrir einn fullorðinn, tvær er alveg max.

BJÓR PÆLINGAR: Ef maður vill vera öruggur með góða pörun þá fer maður í ljósa lagerinn/pilsner, hann getur bara ekki klikkað.  Hins vegar getur maður skapað enn meiri dýpt og flækjur með ögn flóknari bjórpörun.  Með þýsku kartöflusalatspylsunni þurfum við samt bara léttan og mildan bjór því þessi pylsa er látlaus með viðkvæma bragðnúansa! Munum samt að við viljum líka að bjórinn sé góður og njóti sín, ekki bara rétturinn. Venjulega hefði ég farið hér í BRIO frá Borg, enda þýskur pilsner en við létum undan áskorun og prófuðum PILS ORGANIC frá Víking.  Þetta er bjór úr „craft beer“ línu Víkings sem mér fannst góður hér fyrir nokkrum árum síðan og var eiginlega búinn að gleyma. Pils Organic kemur bara mjög vel út með þessu, elegant, krispí með netta beiskju en samt látlaus, einmitt það sem pylsan þarf.    Reyndar væri þýskur hveitibjór ekki vitlaus hugmynd hér heldur, þýskt með þýsku ekki satt?  Svo koma aðrir stílar vel til greina ss kölsch, pale ale og mildir IPA (Founders All Day Session IPA t.d.).

img_5964

Pylsan með steiktu öndinni er mikill karakter, við erum með alls konar í gangi, bragðmikla pylsu, þunga öndina og svo hoisin sósuna sem er dálítið áberandi.  Sýrði laukurinn tekur líka dálítið í.  Þessi blanda getur drepið dálítið niður pilsnerinn.  Hér þarf aðeins stærri bjór með sem styður við bragðið og heldur velli.  Bjór eins og t.d. belgian strong ale.  Gamli góði DUVELinn frá Moortgat kom t.d. mjög vel út.  Hér erum við með dálítið þróttmikinn bjór með sætum belgískum gerkryddum og ögn vínanda en litla beiskju. Belgísku gerkryddin draga fram pylsuna sem kemur vel í gegn og bjórinn tónar mjög vel við sætuna í hoisin sósunni og lauknum.  Reyndar er þessi sýrði bjórlaukur magnaður með öllum bjór. Vá þetta var skemmtileg upplifun.  Við reyndum líka LA TRAPPE QUADRUPEL sem er töluvert öflugari en Duvelinn enda belgískur quadrupel, vínandinn er mjög áberandi en þó myndar hann vínlega sætu sem fer vel með dálítið þungum réttinum.  LAVA STOUT er svo algjörlega magnaður með þessari pylsu, hér gengur bara allt upp enda er laukurinn LAVA leginn og steikta öndin fær aðeins á sig reyktan blæ og rist frá bjórnum og svo kallar bjórinn einnig fram reykkeiminn í pylsunni.

Loks er það ostapylsan með mexíkósku yfirbragði.  Hér er mikið að gerast, pilsnerinn gengur alveg en það er enn skemmtilegra að lyfta pylsunni aðeins upp með t.d. pale ale eða IPA. Við eigum alltaf ÚLFRÚN SESSION IPA frá Borg og varð hún því fyrir valinu hér, bjórinn gjörsamlega negldi þetta alveg, dásamlegir blómlegir humlarnir smjúga inn á milli bragða í pylsunni og varpa smá sítrus keim á þetta allt saman og létta aðeins réttinn og svo opnar beiskjan upp bráðnaða ostinn og fituna í pylsunni.  Ég skal segja ykkur að þegar hér var komið sögu í smakkinu var maður orðinn ansi saddur en léttleikinn og notaleg beiskjan í bjórnum skapaði einhvern veginn pláss í maganum til að klára rest.

img_5967

Það er dálítið skemmtilegt að bera svona kræsingar á borð, fólk er bara ekki vant svona pylsum.  Hér erum við bara með þrjár hugmyndir en það má vel leika sé með önnur hráefni og samsetingnar.  Aðal atriðið er að hráefnið sé gott og svo bara hafa gaman.  Allar pylsurnar voru að þessu sinni frá Pylsumeistaranum við Laugalæk en hann er bæði sanngjarn í verði og með gott úrval af gæðapylsum.  Svo er um að gera að vera ekki að stressa sig of mikið að gera allt frá grunni í þessa pylsurétti það gæti orðið mjög tímafrekt, hér er aðal málið að finna góðar samsetningar og raða fallega saman.  Kartöflusalat, steiktan lauk og öndina má vel fá bara úr verslun t.d.

Njótið!

 

Úlfur og Úlfrún frá Borg með mjúku taco með tikka masala, kóríander, smjörsteiktum rauðlauk,lime, chilli ofl góðgæti

Ég elska taco og sérstaklega mjúkt taco eða soft taco það er bara svo dásamlega „fluffy“ og mjúkt og það er hægt að setja allan andskotann í þetta.  Ég hef verið að leita að uppskrift að deigi um langt skeið, aldrei fundið neitt spennandi…  Ég ákv því að prófa bara eitthvað allt annað, naanbrauðið hennar Sigrúnar minnar sem hún gerir alltaf þegar við höfum indverskt.  Það er reyndar líka hægt að nota tandori naan brauð sem fæst t.d í Bónus en þetta brauð er bara stórgott þegar það er sett í brauðristina eða í ofn. Það verður dúnamjúkt og er mjög bragðgott og bara alls ekki síðra en heimagert…svona þegar maður er með haug af börnum og hefur varla tíma til að anda.  


RÉTTUR: Soft taco tvær áttir, fylltar með steiktum þorskbitum annars vegar og kjúklingi hins vegar marinerað í tikka masala með ferskum chilli, lime safa, hvítlauk, kóríander og rjóma.  Meðlæti: Gúrkustrimlar, rauðir paprikustrimlar, smjörsteiktur rauðlaukur og haugur af ferskum kóríander.  Tvær kaldar sósur, Tikka Masalasósa blönduð með sýrðum rjóma og svo sýrður rjómi með slatta af limesafa, smá hvítlauk og salti.

TACO BRAUÐ: í raun heimagert naan brauð að hætti Sigrúnar.

  • 1 tsk ger
  • 2 matskeiðar olía
  • 3 bollar hveiti
  • 4 matskeiðar jógúrt (t.d. grísk jógúrt)
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk hunang
  • 3/4 bollar volgt vatn

Þurrefnum er blandað saman ásamt geri. Oliu, hunangi, jógúrti og vatni er einnig blandað saman og svo sett saman við þurrefnin. Hnoðum þetta vel og látið hefast í 30 til 60 mín. Því lengur því betra.  Svo er bara  að skipta deiginu niður og fletja út í hæfilega stórar flatbökur. Næst er olía hituð á pönnu, stingið svo nokkur göt með gafli í hverja köku og steikið á pönnunni. Snúa við og steikja hina hliðina þegar loftbólur byrja að myndast.  Flott er að fá aðeins brunabletti hér og þar.  Gott er svo að leggja brauðið saman svo það myndi hálfmána.

BJÓRINNÞað getur verið erfitt að finna góða matarpörun fyrir IPA en hér gengur hann eins og flís við rass.  Við prófuðum bæði ÚLF IPA og systur hans ÚLFRÚNU frá Borg sem er mildari á tungu mtt beiskju.  Úlfur með kjúklinga tacoinu er geggjað, opnar réttinn alveg upp á gátt og daðrar við bragðlaukana milli bita.  Hann lífgar upp á chilli-ið í réttinum en kóriander og lime safinn dempa samt áhrifin.  Saman skapa öll þessi „element“ mjög flotta heild.  Úlfrún er svo aðeins mildari sem hentar þorskinum mun betur en Úlfurinn sem stelur dálítið senunni.  Úlfrún fer mildum höndum um fiskinn en stendur samt fyllilega fyrir sínu gagnvart kryddunum í marineringunni.  Kóríander og IPA fer svo bara einhvern veginn svo ofsalega vel saman. Elska þetta!

Það má vel nota aðra IPA bjóra ss Gæðing Tuma Humal, Founders All Day, BrewDog Punk IPA ofl.


Að eiga góða kvöldstund með vinum yfir góðum bjór og mat sem smellpassar við  þarf ekki að þýða flókið hráefni og margra klukkustunda eldamennsku.  Taco er eins konar skyndibiti, nei það ER einfaldlega skyndibiti og ef maður hefur gott vald á bakstri og er fljótur að skella í smá deig þá er þetta bara frekar einfallt en ef menn treysta sér ekki í það þá endilega prófa Tandori Naan brauðið í Bónus, án gríns það gengur vel með þessu. En byrjum á byrjuninni, það þarf að græja marineringuna fyrst en hún er sára einföld.

MARINERING.  Tikka masala sósa, heimatilbúin ef þið hafið tíma eða úr krukku bara frá Hagkaup/Bónus.  Slatti af rjóma með, salt og pipar.  Ég bætti smá tandori kryddi með og kreisti lime yfir, heilmikið lime, úr einum jafnvel tveim ávöxtum.  Saxaður ferskur kóríander, fínskorinn ferskur chilli og nokkur pressuð hvítlauksrif og svo öllu bara hrært saman og hellt yfir fiskinn og kjúklinginn.  Látið endilega miklu meira lime safa yfir fiskinn, t.d. úr heilu lime aukalega.

img_5789

NAAN BRAUÐ: Gott að drífa svo brauðið af því deigið þarf að standa og hefast.  Þurrefnum (sjá að ofan) er blandað saman ásamt geri. Oliu, hunangi, jógúrti og vatni er einnig blandað saman og svo sett saman við þurrefnin. Hnoðum þetta vel og látið hefast í 30 til 60 mín. Því lengur því betra.  Svo er bara  að skipta deiginu niður og fletja út í hæfilega stórar flatbökur. Næst er olía hituð á pönnu, stingið svo nokkur göt með gafli í hverja köku og steikið á pönnunni. Snúa við og steikja hina hliðina þegar loftbólur byrja að myndast.  Flott er að fá aðeins brunabletti hér og þar.  Gott er svo að leggja brauðið saman svo það myndi hálfmána.

MEÐLÆTI: Það er gott að hafa smá sætu með þessu öllu, t.d. smjörsteiktan rauðlauk með smá sykri gerir gæfu muninn.  Bara láta malla aðeins á pönnunni þar til orðinn, mjúkur og djúsí.  Svo er grófsaxaður kóríander algjört möst en án hans er þessi réttur ekkert.  Loks er gott að hafa fínskorna rauða papriku og gúrku með.  Kínakál er líka flott.  Gott er að skera þetta allt niður og hafa tilbúið í skálum.

Próteinið er svo steikt á pönnu rétt fyrir framreiðslu.   Bæði kjúklingur og fiskur er skorinn í litla bita eða ræmur og  svo er bara að raða þessu flott í tacoið.  Það kemur vel út að klippa niður smjörpappír í ferninga og setja utan um brauðið en þá lítur þetta út eins og alvöru „street food“.  Það er hægt að leika sér endalaust með sósur, í þennan rétt höfðum við tvær kaldar, tikka masala blandað í sýrðan rjóma og svo sýrðan rjóma með lime safa, smá hvítlauk og salt og gott er að hafa þær báðar saman í einu.  Fiskurinn lifnar svo alveg við með lime safa og því er gott að kreista lime yfir fisk tacoið rétt fyrir framreiðslu.

IMG_5795.JPG

BJÓRINN.  Taco kallar á bjór í léttari kantinum en hann má þó hafa smá karakter.  Humlar og létt beiskja ganga vel með kryddunum í tacoinu og tikka masala blöndunni en það þarf að passa að beiskjan yfirgnæfi ekki prótein eins og fiskinn.  Sætur karamelluseraður laukurinn og létt beiskjan í bjórnum eru ofsalega ljúfar andstæður og svo er súri lime keimurinn geggjaður með sítrustónum sem oft má finna í humlunum.  Hér er kjörið að velja sér pale ale eða IPA svo fremi sem beiskja er stillt í hóf en það eru vissulega til þarna úti gríðarlega beiskir IPA bjórar.  Góður lager eða pilsner gengur svo sannarlega hér líka en muna bara að ekki sætta þig við einhvern meðal lager bara af því að það gengur með matnum, við viljum að „bæði sé betra“ þ.e.a.s bæði bjór og matur á að geta staðið fyrir sínu.  Ég get ekki annað en að nefna hér BRIO frá Borg sem mér finns með betri pilsner bjórum á Íslandi og svo má ekki gleima Mikkeller American Dream sem er algjör draumur.

img_5786ÚLFUR var fyrsti IPA bjór okkar Íslendinga og ég hef verið ástfanginn af honum alveg frá fyrsta degi enda stórkostlegur IPA, sérstaklega þegar maður nælir sér í hann ferskan og spriklandi.  Það getur verið dálítið erfitt að finna mat sem passar við IPA því beiskjan getur verið vand með farin.  Ég var því himinlifandi þegar ég áttaði mig á  hversu flott soft taco parast við Úlfinn því ég hef eiginlega verið að leita eftir hinum fullkomna rétt fyrir hann um nokkurt skeið.  Reyndar er hann pínu ágengur með fisk tacoinu en gengur samt, litla systir hans ÚLFRÚN er hins vegar stórkostleg með fisknum.  Hér fær maður djúsí humla, væga beiskju og sítrus sem blandast stórkostlega við fiskinn og svo ég tali nú ekki um lime safann.