Fyrsti íslenski triple IPA bjórinn, Úlfur Úlfur Úlfur!

Ég hef fjallað um IPA, double IPA og New England IPA (nýjasta færslan hér) og nú er komið að því að skoða triple IPA.  Þetta er í raun ekki flókið, IPA eða india pale ale (sjá nánar hér) er einn vinsælasti bjórstíll veraldar meðal bjóráhugafólks.  Einkennandi fyrir stílinn eru ferskir humlar sem gefa áberandi beiskju og hann liggur frá 5% til svona 7%.  ÚLFUR frá Borg er gott dæmi um IPA, eiginlega virkilega gott dæmi, sérstaklega nýja útgáfan sem kom út á dögunum.

DIPA eða double IPA, stundum kallaði IIPA eða imperial IPA er svo bara IPA sem er töluvert öflugari bæði í áfengi og humlum.  Það er að segja það er mun meira af humlum í bjórnum en það þarf ekki endilega að þýða miklu meiri beiskju, venjan er þó að beiskjan er meiri í DIPA en IPA.  Áfengið nær oftast frá 8% og upp í 9-10%.  ÚLFUR ÚLFUR er t.d. DIPA!

IMG_6512

Triple IPA (IIIPA) er svo hvað?  Jú þú gískaðir rétt, enn öflugari IPA, við erum að tala um haug og aftur haug af humlum og töluverða beiskju og svo áfengi frá 10% og uppúr.  Munið bara að þótt áfengið sé svona mikið þá þýðir það ekki endilega að bjórinn sé sprittaður og rammur því til að ná svona miklu áfengi þarf mikið magn af malti sem þýðir mikið af sykri.  Bæði DIPA og IIIPA geta því verið nokkuð sætari en IPA en auðvitað finnur maður þróttinn og hitann frá áfenginu.    ÚLFUR ÚLFUR ÚLFUR (ÚÚÚ) er einmitt triple IPA og fyrstur sinnar tegundar á Íslandi. Borg hefur aldrei notað eins mikið af humlum í einn bjór, Citra og El Dorado humla sem eru þekktir fyrir djúsí suðræna ávaxtatóna.  Svo nota þeir sérstrakan amerískan gerstofn, eins konar „super ger“ sem þolir mikið áfengi sem er nauðsynlegt þegar svona stór bjór á í hlut.  Þennan stofn ræktuðu bruggmeistarar Borgar sérstaklega upp fyrir þennan bjór.  Gerið gefur af sér ljúft og milt ávaxtabragð sem tvinnast vel við humlana.  ÚÚÚ pakkar heilum 11% áfengis takk fyrir en það kemur ekki sérstaklega fram í bragði.  Maður finnur vel fyrir þessum prósentum en meira á formi hita og þéttleika.

Úlfur úlfur úlfur er kominn í vínbúðirnar núna og hann á eins og alltaf þegar IPA á í hlut að drekkast í gær!