Nú eru sko skemmtilegir tímar fyrir aðdáendur Úlfafjölskyldunnar frá Borg. Strákarnir hjá Borg eru nefnilega duglegir að prófa nýja hluti og þeir eru stöðugt að nostra við ölið og þróa það áfram til að ná fullkomnun. Úlfur hefur t.d. breyst lítillega í gegnum árin og það sama má segja um Úlfrúnu ofl. Nú hafa menn þar á bæ hins vegar gert dálítið stórar breytingar á í raun allri Úlfahjörðinni, Úlf, Úlf Úlf og Úlfrúnu, já og svo er auðvitað hinn glænýji Úlfur Úlfur Úlfur kominn í búðir líka en það er önnur saga.
Allir Úlfarnir hafa fengið nýtt útlit, menn eru t.d hættir að sía bjórinn og því er hann loksins orðinn eins og mér finnst að svona bjór eigi að vera, mattur og djúsí. Borg er líka að nota nýtt ger í Úlfana sína, skoskt ger líkt og menn nota í New England IPA sem ég skrifaði um hér bara í gær. Ger þetta gefur af sér meiri ávaxtablæ og notalegheit. Ég smakkaði nýja Úlf í gær með grillaðri pizzu og hann var alveg helvíti flottur og er ég eiginlega sáttari við hann svona heldur en áður. Kannski bara kominn með pínu leið á honum í gamla búningnum? Nýji ÚLFUR er vissulega með sinn gamla góða Úlf karakter en hann er núna meira djúsí og mýkri en hefur þó beiskjuna sína eins og vera ber. Ég mæli með að menn prófi þetta sem fyrst, pökkunardagur á flöskunum er 12.7.17.
ÚLFRÚN hefur verið dálítið út og suður frá upphafi, alltaf að breytast aðeins en nú er held ég endanleg útgáfa komin fram sem er talsvert breytt frá fyrstu lögun. Í síðustu eða þarsíðustu viku tilkynnti Borg að Úlfrún væri nú með nýja skoska gerinu og ekki eins tær í útliti en svo hafa þeir breytt honum aðeins eftir það. Ég er t.d. hér með dós sem var töppuð í fyrradag, já 18.7.17 takk fyrir, gerist ekki ferskara. Valli og Óli (Borg) sögðu mér að þessi útgáfa væri líklega endanleg, algjörlega ósíaður, með skoska gerinu og beiskja töluvert minni en áður, í raun eins og Úlfrún átti alltaf að vera. Bjórinn er bruggaður þannig að humlar eru settir í bjórinn eftir suðuna, hann er með skosku geri, mattur og djúsí og svo nota menn hafra, hveiti og rúg. Svo þegar beiskja hefur verið dempuð eins og nú er þá hefur þessi bjór í raun allt sem bjór þarf að hafa til að vera kallaður New England IPA (NEIPA). Hvorki Valli né Óli vildu hins vegar gefa neitt upp um hvort Úlfrún sé NEIPA eða ekki enda er það í raun bara ekki aðal atriðið, aðal málið er eins og ávalt, að neytandinn kunni að meta bjórinn. Valli glotti samt dálítið þegar ég spurði hann ef það merkir eitthvað! Fyrir mína parta þá er hér um að ræða bjór sem er vel í áttina að vera NEIPA, hann er ekki eins djúsí djúsí eins og ég vil hafa góðan NEIPA en hann er þó þarna innan marka og virkilega ljúfur og flottur, „New Englandish IPA?“. Úlfrún er bjór sem ég mun nota sem sumarbjór nr eitt hér eftir.
ÚLFUR ÚLFUR er líka breyttur og enn í umferð en eins og kunnugt er kemur Úlfur Úlfur venjulega bara út í kringum 1. apríl. Menn eru þó aðeins að leika sér með hann og laga til og því fæst hann enn, það stendur þó ekki til svo ég viti að bjórinn sé kominn til að vera árið um kring. Úlfur Úlfur er með nýja skoska gerinu og hann er líka alveg ósíaður. Í glasi lítur hann ofsalega vel út, eins og NEIPA svei mér þá, mattur og djúsí. Fyrir mína parta er hann hins vegar of þurr og beiskur fyrir stílinn en góður er hann svo sannarlega og líklega sá besti hingað til. Óli Rúnar (Borg) vill heldur ekki meina að menn hafi verið að reyna að brugga New England IPA sérstaklega. Um að gera að drífa sig í þessa karla á meðan þeir eru ferskir.
Loks má nefna að AYCAYIA er kominn aftur og alveg nýtt batch og því afar ferskur, svo var að detta í hús nýr SÆMUNDUR, settur á dós 18.7.17 og ku hann vera með nokkuð minni beiskju en sá fyrsti.
En næsta „stopp“ ÚLFUR ÚLFUR ÚLFUR triple IPA!!!
2 athugasemdir við “Ýmsar skemmtilegar breytingar á nokkrum kempum frá Borg.”