Flesta mánuði ársins er engan íslenskan double IPA að finna á Íslandi. Staðan breytist hins vegar blessunarlega ár hvert þann 1. apríl þegar Úlfur Úlfur frá Borg dettur í búðir og bari. Um er að ræða flottan bjór sem mögulega er eini 1. apríl bjór veraldar? Úlfur Úlfur er klárlega stóri bróðir Úlfs en hann er töluvert öflugari (9%) og að margra mati helmingi betri. Bjór þessi hefur verið í dálitlu uppáhaldi hjá Bjór&Matur síðustu ár og okkur finnst það eiginlega pínu súrt að geta ekki komist í hann alla daga ársins.
Hvað er double IPA? Við getum líka talað um imperial IPA en Imperial IPA er eins og nafnið bendir til öflugari útgáfa af venjulegum IPA. Stíllinn er töluvert humlaður og er oft töluvert beiskari fyrir vikið. Hann er einnig hærri í áfengisprósentum og nær stundum 10-11% eða jafnvel enn hærra (þá er reyndar talað um tripel IPA). Til þess að fá bjórinn svona sterkann þarf mikið af malti. Malt er sætt og því er Imperial bjórinn oft dálítið sætari en sá venjulegi. Þetta er einnig þróttmikill bjór með mikinn þéttleika og fyllingu og beiskjan er yfirleitt í góðu jafnvægi við sætann undirtóninn frá maltinu. Bjórinn verður því ekki of sætur eða of beiskur, nema jú ef menn eru viljandi að stuða bragðlaukana eins og vinsælt er orðið nú til dags reyndar.
Úlfur Úlfur er bragðmikill og flottur en verður þó ekki alls ekki ruddalegur eða erfiður. Beiskjan er áberandi en sætan á móti mildar hann og svo koma ávaxtaríkir humlarnir inn með líka. Ofsalega flottur bjór þegar hann er ferskur, já FERSKUR það þarf nefnilega að athuga að svona bjór, DIPA eða IPA þarf að drekka eins ferskan og hægt er því humlarnir sem eru jú í lykilhlutverki í þessum bjórstíl missa mátt sinn frekar fljótt. Það þýðir að þó bjórinn komi bara einu sinni á ári að þá borgar sig ekki að hamstra og sitja svo uppi með bjór sem er orðinn „döll“ eða líflaus, nema maður ætli að drekka mikið af honum á stuttum tíma auðvitað.
MATARPÖRUN: Það getur verið dálítið snúið að finna rétti sem ganga með double IPA því beiskjan og áfengið eiga það til að „dominera“. Saltir réttir og ekki verra ef þeir eru dálítið feitir eru hins vegar flott pörun fyrir IPA. Hér er flott að prófa eitthvað massíft sem heldur velli gagnvart bjórnum, við erum að tala um t.d. þróttmikið grillað kjöt hvers konar með bragðmiklum og djúsí sósum og grilluðu grænmeti, en grillunin myndar ristaðan karmelliseraðan hjúp á kjötið og grænmetið ef það er marinerað í sykurbaseruðum legi. Karamellukeimurinn tvinnast vel við sætt karamellumaltið í bjórnum og feitar sósur og fitan í kjötinu opnast upp með beiskjunni. Beiskjubitið gerir einnig þungan réttinn léttari og þægilegri. Ég tala svo ekki um ef manni tekst að koma beikoni að…..t.d. að vefja því utan um kjötið og grilla það þannig, þá erum við komin með saltið og enn meiri fitu. Dásamlegt.
Önnur frábær hugmynd eru ostar, bragðsterkur cheddar, stilton ostur eða jafnvel blámygluostur en allir þessir ostar eru dálítið saltir og skilja eftir sig rjómakennda slykju í gómi sem beiskir humlarnir og áfengið elska að hreinsa af en þannig opnast palletan fyrir viðkvæmari bragðflækjum ostanna. Mér finnst sætur ávaxtablærinn frá humlunum koma ofsalega vel út með þroskuðum blámyglunni t.d.
Ég verð svo að benda á IPA gulrótarkökuna sem er án efa frábær með Úlf Úlf, prófa það um næstu helgi ef allt gengur eftir.