Best fyrir 2018 Nr.C12 er áramótabomban frá Borg og The Brothers Brewery 2017

Þá er hann kominn í verslanir, áramótabjórinn frá Borg brugghús 2017 sem að þessu sinni er samstarf milli Borg og The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum sem er spennandi lítið brugghús á uppleið.  Bjórinn heitir Best fyrir 2018 eða BF2018 Nr. C12 og er númer 12 í röð samstarfsverkefna Borgar.  Nafngiftin er skemmtileg og bráðsniðug því hún auðveldar manni allar ákvarðanatökur á borð við hvort maður eigi að spara bjórinn og hvenær eigi að drekka hann.  Boðskapurinn er í raun bara að drekka þetta sem fyrst því það eru gæði í húfi, vilji maður svo fara alveg eftir ábendingunum þá hefur maður sem sagt 5 daga til stefnu.

Stíllinn er ávaxtaríkur skýjaður IPA sem sumir myndu kalla New England IPA (NEIPA) og er bara alls ekki galið því að mínu mati er þetta einmitt í anda þess konar bjóra, „djúsí“, „hazy“ og humlaður.  Þetta er virkilega flottur bjór og minnir dálítið á Midt Om Natten sem kom út bara rétt fyrir um tveim vikum eða svo nema hvað að þessi er aðeins meiri af styrkleika með sín 7.6% áfengis, enda er þetta áramótabjór ekki satt?  Skreytingarnar á merkimiðanum eru einnig vel lukkaðar og smell passa við áramótastemninguna, svona glansandi með áberandi litum og silfri.   Mér fannst t.d. eins og bjórinn væri hluti af borðskreytingunni á myndinni hér að ofan.  Það er Perla nokkur Kristins sem á heiðurinn að þessu en ég þekki svo sem engin deili á henni frekar nema hvað að hún er augljóslega fær á sínu sviði.

Bjórinn er ljúfur og mildur og maður finnur lítið fyrir áfenginu.  Safaríkir og blómlegir humlar gefa notalegan ávaxtakeim og áferð.  Þægilegt gos og svo alveg hæfileg beiskja, alls ekki mikil.   Þetta er bjór sem ég held að margir verði ástfangnir af.  Það er hins vegar ekkert víst að allir fái að smakka því bjórinn er framleiddur í takmörkuðu magni.  Maður verður samt að passa sig á að hamstra ekki í Vínbúðinni því það þarf jú að drekka þetta sem fyrst…ekki geyma!

Varðandi matarpörun!  Ég held að þessi karl komi vel út með öllu þessu þunga og fituga sem við erum með á áramótunum.  Beiskjan og humlarnir vinna vel á móti fitu og djúsí sósum og svo er þessi létti ávaxtablær skemmtilegur með t.d. kalkúninum eða hamborgarhryggnum.  Ég ætla amk sjálfur að prófa með áramótakalkúninum!

Gleðilegt ár!

Skýjaða NEPA æðið á Íslandi er það eitthvað?

New England IPA (NEIPA eða NEPA), er það sem allir eru að tala um, “The Haze Craze“ eins og sumir kalla það!  En hvað er í gangi?  NEIPA er bjórstíll sem er að gera allt vitlaust um þessar mundir, eða alla vega í nágrannalöndum okkar enda ekkert skrítið.  Stíllinn sem er tiltölulega nýr af nálinni er ný túlkun brugghúsa á New England svæðinu í Bandaríkjunum á hinum ástkæra india pale ale (IPA) stíl sem notið hefur mikilla vinsælda um heim allan um áraraðir. Sumir segja að stíllinn hafi byrjað með HEADY TOPPER frá Alchemist sem líklega er einn eftirsóttasti bjór veraldar?  Ég skal ekki segja en ég get þó sagt það að þessi bjórstíll er algjört hnossgæti.   Stíllinn er einkennandi mattur og oftast ljós eða heiðgulur og minnir um margt á djúsí ávaxtasafa.  Ávaxtasafi er í raun ekki fjarri lagi því það er heill hellingur af safaríkum, tropical humlum í þessum bjórum sem eru settir í bjórinn eftir að suðu er lokið í bruggferlinu.   Á þann máta er beiskju stillt í hóf en við fáum þess í stað allt þetta dásamlega ávaxtaríka humalbragð og þessa skýjuðu áferð.  Gerið skiptir alltaf máli þegar kemur að bjór og oftast nota menn breska eða ameríska stofna í NEIPA en það eru svo sem engin lög til um það .

20170513_123517Ég verð að segja að ég kolféll fyrir þessum stíl enda hef ég alla tíð hallast meira að ósíuðu útgáfunum af IPA og ég bara elska þetta dásamlega fruity humalbragð.  Sumir strangtrúaðir bjórspekulantar eru hins vegar ósáttir og vilja meina að hér sé verið að upphefja eiginleika í bjór sem hefur verið tengt við óvandaða framleiðslu, sem sagt gruggið og svo eru hin “hárnákvæmu“ vísindi að tímasetja humlaviðætur í suðunni fokin út um gluggann.   Óvandaður bjór þar sem enginn þarf að hugsa, bara sturta öllum humlunum útí eftir suðu og málið er dautt.   Ég skal ekki segja, en fyrir mitt leiti er aðal málið útkoman í lokin, ef bjórinn er góður þá er mér persónulega sama um hversu flókið bruggferlið var, ég get reyndar sagt ykkur að það er bara ekkert auðvelt að brugga þennan stíl, ég hef reynt nokkrum sinnum og ekki komist nálægt því sem þessir töframenn eru að ná fram sem vel kunna til verka.

Hvar getur maður svo komist í herlegheitin?  Jú erlendis auðvitað, t.d. fara menn mikið héðan til Boston en þar eru algjörir snillingar sem hafa masterað þennan bjórstíl ss Trillium Brewing og Tree House Brewing og mæli ég sterklega með að menn prófi þessa, í Kaupmannahöfn hafa snillingarnir Mikkeller og WarPigs náð algjörri fullkomnun í þessu líka og svo verð ég að nefna Other Half í Brooklyn New York en annars eru flest almennileg brugghús að reyna fyrir sér í þessum bjórstíl nú orðið.  Hér heima er hins vegar ekki auðvelt að komast í NEIPA bjór og ég furða mig eiginlega á því.   Það hafa vissulega verið event þar sem NEIPA bjór hefur dottið inn á bari eins og t.d. á Mikkeller & Friends Reykjavík en þetta er þó sára sára sjaldan.  Borg brugghús hefur reynt fyrir sér í þessu en þeir brugguðu New England bjór með Gæðingi á síðasta ári en sá bjór fór í örlitlu magni bara á kúta á einhverja fáa bari bæjarins.  Ég náði amk ekki að smakka.   Það má svo auðvitað alltaf deila dálítið um hvenær bjór er NEIPA eða ekki, ég er svo sem með ákveðnar skoðanir hvað það varðar og miðað við það þá hef ég ekki séð eða smakkað neinn NEIPA frá Borg (það má svo sannarlega vera mér ósammála, t.d. hvað með Lóu eða nýja Úlf Úlf?), vonum að það standi til bóta, það sama má segja um Gæðing.  The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum eru að gera virkilega góðan bjór almennt og þeir eru með bjór sem þeir kalla DIRTY JULIE sem þeir segja að sé New England IPA.  Ég hef ekki smakkað hann en sem komið er en það er svo sannarlega á “to do“ listanum.  Vandinn er að ég á aldrei leið til Vestmannaeyja en það er eina leiðin til að smakka þennan bjór eins og staðan er í dag.  Hins vegar hefur fluga á vegg sagt mér að við hér á meginlandinu getum átt von á að komast í Dirty Julie í höfuðborginni áður en um langt líður.  Hlakka til.   Svo eru það strákarnir Hinni, Steini og Eymar í Kex Brewing, þeir eru svo sannarlega að svara kallinu og hafa verið að gera ekki einn eða tvo heldur nokkra NEIPA bjóra undanfarna mánuði.  Ég hef smakkað nokkra hjá þeim og þeir eru alveg að ná þessu að mínu mati.  LESS IS NEVER MORE sem þeir gerðu með WarPigs fyrr á árinu var t.d. sérstaklega góður og finnst mér að þar hafi menn algjörlega neglt stílinn.  Ég þekki þessa stráka persónulega og veit að þeir eru svo sannarlega ekki hættir.  Ég verð svo að nefna Bryggjan Brugghús, þeir gerðu NEPA bjór sem líklega er enn hægt að fá hjá þeim.  Ég smakkaði hann fyrr á árinu en var ekki hrifinn, fínn bjór en ekki New England IPA eins og ég vil hafa þá.  Bergur bruggmeistari gerir annars mjög flottan bjór og hef ég oftast verið ánægður með Bryggju bjórinn til þessa.

18118487_10155392762454274_8415856751555779110_n

Það er sem sagt þannig að það er ekki hægt að fá þennan geggjaða bjórstíl út í búð og enn sem komið er þarf að fara til Vestmannaeyja í Dirty Julie (sagt með fyrirvara þar sem ég hef ekki smakkað bjórinn, kannski minnir hann ekkert á stílinn?) eða bíða eftir að Kex Brewing komi með kút undir á Mikkeller & Friends.  Það er reyndar stundum hægt að fá NEIPA dósir á Mikkeller & Friends frá brugghúsi þeirra í San Diego og þarf bara að fylgjast með á fésinu.  Fyrir mína parta þá er þetta samt óásættanlegt ástand, ég vil geta amk gengið að góðum NEIPA vísum á krana einhvers staðar, þetta er besti bjórstíllinn fyrir mig um þessar mundir.  Auðvitað væri enn betra að geta kippt með dós af þessu í vínbúðinni.  Vandinn er samt að hér er um gríðarlega viðkvæma ferskvöru að ræða og þá þarf rennslið að vera gott svo hann staðni ekki í hillunum og því skil ég svo sem vel að menn þori ekki alveg þangað enn sem komið er.

Það verður spennandi að sjá hvað gerist á næstu mánuðum.  Ég væri alveg sáttur við að sjá Borg NEIPA krana fast á Skúla Craft bar t.d.