Ég held áfram að leika mér með Mark Dredge’s Cooking With Beer við hönd og nú er það ceviche með súrbjór. Það er svo oft þannig að gott þarf alls ekki að vera flókið, þessi réttur er alls ekki flókinn og hann er ekki bara góður heldur mjög mjög góður. Einu sinni sem oftar þá fengum við Lovísu Ósk vinkonu okkar til að prófa með okkur bjór og mat. Útkoman var frábær, eiginlega fullkomin og ég veit að hún getur staðfest það.
Í þessari uppskrift á að vera súrbjór, talað er um gueuze en í raun má það vera hvaða súrbjór sem er, svo lengi sem hann er góður. Berliner Weisse og Gose koma t.d. vel til greina ef men finna ekki gueuze. Ég var búin að verða mér úti um allt hráefnið nema bjórinn þegar ég komst að því að bjórinn sem ég ætlaði að nota, Oud Beersel Oude Geuze var ekki til í Vínbúðinni. Ég ætlaði auðvitað að para sama bjór með réttnum þannig að ég var kominn í vanda. Við Íslendingar höfum ekki aðgang að miklu úrvali af súrbjór, ég kippti því með Oud Beersel Kriek sem er kirsuberjaútgáfan af sama bjór og svo sá ég Dugges/Stillwater Tropical Thunder sem er súrbjór reyndar með mangó, ástaraldin og ferskjum. Sama dag og ég ætlaði að elda réttinn áskotnaðist mér virkilega flottur Gose frá Sigga í RVK Brewing Company,(tilraunabrugg) sem er spennandi brugghús sem mun opna hér í borg innan tíðar. Þetta reddaði mér alveg og útkoman algjör snilld. Mun gera þennan rétt aftur og aftur og aftur.
Það sem þið þurfið (fyrir 4)
- Góðan þéttan fisk, smálúða er snilld eða þorskhnakkar, ca 250g
- 1/2 rauðlaukur skorinn í smátt
- 1/2 rauður chilli pipar, mjög smátt skorinn engin fræ
- Safi úr 1 límonu
- 50ml súrbjór (Gueuze, Gose eða Berliner Weisse)
- 1/2 tsk salt
- 1/2 tsk möluð kóríanderfræ
- 2 þroskaðar lárperur, skornar í sneiðar
- lúka af ferskum kóríander
Bjórinn með
Sem fyrr segir þá þarf bjórinn í ceviche að vera súrbjór því hann þarf að vinna á fiskinum með sýru og hamingju. Ég var með smakkprufu af Gose frá Sigga hjá RVK Brewing Company, sem er ögn sölt útgáfa af súrbjór frá Þýskalandi en í Vínbúðinni okkar er oftast til Oud Beersel Oude Gueuze sem er stórkostlegur gueuze. Það liggur beinast við að hafa sama bjórinn með en það má vel vera kriek eða ávaxtabættur súrbjór. Hér prófaði ég tvo og báður voru frábærir með þessu. Dugges/Stillwater Tropical Thunder og Oud Beersel Kriek.
Aðferðin
Þetta er svo skemmtilega einfalt. Leggið rauðlaukinn í ísbað í 10 mín til að draga úr bitinu aðeins. Skerið svo í smátt.
Skerið fiskinn í litla kubba, ca 1 cm á kant og setjið í stóra skál. Bætið svo öllum hinum hráefnum saman við nema lárperur og ferskan kóríander. Veltið þessu varlega saman og setjið í ískáp í ca klst, vökvinn verður að fjóta alveg yfir fiskinn, bætið við bjór eg þarf. Passið vel að hafa ekki of mikinn chilli pipar.
Raðið svo lárperuskífunum á fallegan disk, setjið fiskiblönduna yfir og skreytið með ferskum kóríander. Salt og pipar eftir smekk.
Pörunin
Þessi réttur er ofsalega flottur sem forréttur, hann er léttur, mildur og frískandi en samt bragðmikill. Fiskurinn nýtur sín vel en sýran lyftir honum upp og frískar upp á réttinn. Kóríander og lárperur skapa ljúfa fyllingu í réttinn og svo er örlítill bruni frá Chilli sem passar vel við sýruna. Saltið er alveg hæfilegt og leikur skemmtilega vel við milda beiskjuna frá rauðlauknum. Tropical Thunder frá Dugges , sem er sænskt brugghús sem er að gera það gott um þessar mundir, er súr en þó með talsvert sætan ávaxtablæ frá ástaraldin, mangó og ferskjum. Sýran í bjórnum lyftir sýrunni í réttnum án þess að yfirtaka neitt og svo koma þessir skemmtilegu ávextir með sem gera undur fyrir fiskinn. Allt án þess að stela neinum þrumum, fiskurinn fær að njóta sín til fulls. Við gátum ekki valið hvor bjórinn var betri pörun því Oud Beersel Kriek var alveg geggjaður með líka. Súr og funky en svo með þurra kirsuberjatóna. Hér koma berin ofsalega skemmtilega út á móti saltinu og beiskjunni réttnum. Allt er þetta svo létt og notalegt að maður á vel inni pláss fyrir góðan aðalrétt.