Djúpsteiktur þorskhnakki með dásamlegu baunamauki, franskar og spriklandi súrbjór!

Gordon Ramsay hefur verið að setja aðeins mark sitt á okkur hér hjá Bjór & Matur undanfarið.  Um daginn var það „scrambled eggs“ með stout, nú er það „fish & chips“ á breska vísu.  Fiskur er góður en djúpsteiktur fiskur er geggjaður.   Í þættinum um daginn (Masterchef) , þáttur 7 held ég að það hafi verið, sýndi Gordoninn okkar hvernig hann gerir hinn fullkomna „Fish & Chips“ í bjórdeigi.  Ég auðvitað ákvað að prófa þetta í gær á góðum vinum sem við fengum í heimsókn.  Útkoman var stórkostleg og þetta baunagums er eitthvað sem ég mun gera oftar með öðrum réttum, meira að segja börnin hámuðu í sig baunirnar.

Það sem þarf (fyrir 4):

 • Þorskhnakkar ca 1 kg
 • Hveiti 220 g
 • Lyftiduft 1 tsk
 • Sykur 1 tsk
 • Lager bjór, t.d. Stella Artois eða Mikkeller American Dream
 • Góð olía til að djúpsteikja í, amk 2 L
 • Salt
 • 4-5 stórar kartöflur
 • Reykt paprikukrydd eftir smekk
 • Fersk steinselja

  Fyrir Tartar Sósuna:

 • 1/2 krukka Majones
 • 1/2 dós sýrður rjómi
 • 2 msk Capers
 • 1 tsk Dijon sinnep
 • Sweet  relish gúrkumauk (t.d. Boston Gurka frá Felix), 2 tsk
 • Safi úr ferskri sítrónu eftir smekk (hálf er nóg)

  Fyrir baunagumsið:

 • Frosnar baunir, 1 poki
 • Smjör ca 4 mtsk
 • Hvítlaukur 2 geirar fínt saxaðir
 • 1 Skalottlaukur, fínt saxaður
 • Salt eftir smekk
 • ca 2 msk fersk mynta, fínt skorin

Bjórinn: Einhvern góðan súrbjór eða lager. Hér prófaði ég nokkra, American Dream frá Mikkeller, Sur Simcoe frá To Öl og Brjánsa frá Borg.

AÐFERÐ:

 1. Ok, það þarf að byrja á bjórdeiginu því það þarf að standa eins lengi og hægt er.  Þannig verður það meira krispí þegar það fer í djúpsteikinguna.   Setjið hveiti 220g, 1 tsk sykur og 1 tsk lyftiduft í stóra skál og hrærið.  Bætið bjórnum útí líklega þarf alveg heila flösku og hrærið vel.  Þetta á að verða þunnt eins og súrmjólk nánast, eða eins og pönnukökudeig.  Ef það eru kekkir þá sigtið þið þetta í gegnum sigti.  Saltið aðeins.  Ekki hræra of vel samt.  Látið svo standa.
  .
 2. Skerið Þorskinn í hæfilega bita, þeir eiga að vera dálítið þykkir.  Saltið báðu megin og látið liggja þannig.
  .
 3. Undirbúið nú meðlæti og kartöflurnar. Skrælið kartöflurnar og skerið í ræmur eftir smekk, passa að hafa allar ræmurnar eins þykkar því annars steikjast þær ójafnt. Græið tartar sósuna, hrærið hálfri krukku af majonesi og hálfri dós af sýrðum rjóma saman, saxið capers, 2 msk, og bætið útí ásamt 1 tsk af sinnepi, gúrkumauki og kreistið svo sítrónu yfir.  Smakkið þetta bara til. Það er erfitt að segja til nákvæmleg hlutföll, ég gerði þetta bara einhvern veginn og útkoman var frábær.
  .
 4. Baunagumsið, setjið einn poka af grænum baunum í pott og vatn í og látið suðu koma upp og malla bara stutt, ekki sjóða þetta neitt sérstaklega.  Þetta er meira svona til að mýkja baunirnar.  Sigtið svo vatnið frá, bætið 3-4 msk smjöri í pottinn og svo saxaða skarlottulauknum og mýkið aðeins í smjörinu á vægum hita.  Hellið svo baununum yfir og látið malla, kreistið hvítlauk (2 geirar) yfir og hrærið saman.  Maukið þetta svo með þar til gerðu apparati.  Ég veit ekkert hvað þetta er kallað.  Ef ykkur finnst þetta of þurrt þá bætið þið smjöri saman við.  Loks er bara að salta eftir smekk og sáldra myntunni yfir.  Þetta er fáránlega gott!
  .
 5. Svo er skemmtilegi parturinn, djúpsteikingin.  Ég reddaði mér gömlum djúpsteikingarpotti frá tengdó en það má vel nota stóran pott bara og sigti.  Setjið olíu í pottinn og hitið vel, Það er fínt að reyna að halda hitanum í 190 ráðum . Steikið svo kartöflurnar þar til þær eru orðnar gull brúnar, setjið í skál, saltið og sáldrið steinselju yfir og aðeins reykta papriku.
  .
 6. Fiskurinn er næstur,  Setjið hveiti í skál eða ílát sem hentar.  Salt og pipar í og svo veltið þið fiskibitunum vel uppúr hveitinu.  Hristið hveitið létt af og leggið svo í bjórdeigið.  Bitarnir eiga að fara alveg á kaf.  Takið svo hvern bita upp og látið renna aðeins af honum og leggið svo varlega í djúpsteikinguna.  Líklega fínt að hafa hvern bita ca 6-8 mín eða þar til litur er orðinn fallega gullinn.  Prófið bara einn bita fyrst og smakkið.  Saltið bitana eftir djúpsteikinguna.

Loks er þetta bara borið fram á fallegan hátt og svo má ekki gleyma sítrónunni sem kreist er yfir.

IMG_6571

BJÓRINN.
Hér er hægt að fara nokkrar leiðir, fiskur og fallegur lager er alltaf gott combo, lagerinn veitir krispí og flottan bakgrunn án þess að taka völdin, léttir grösugir humlarnir létta á fitunni í frönskunum og deiginu.  Kornið í bjórnum tengist líka vel við deigið og auðvitað er lager bjór í deiginu.  Nokkuð borðleggjandi.  Hér notaði ég American Dream frá Mikkeller en það er virkilega góður lager með mikið bragð.  Menn voru sammála því að þessi pörun hafi verið mjög fín.  

Mér finnst hins vegar skemmtilegast að para svona steiktan fisk með súrbjór (t.d. Berliner Weisse, Gose eða Gueuze).  Það er í raun augljóst, líkt og sítrónan yfir fiskinn.  Súrbjór gerir svipað fyrir fiskinn og sítrónan, auk þess magnar bjórinn upp sítrónuna og öfugt.  Ferkur sítruskeimurinn opnar upp þennan rétt og léttir á öllu og tvinnast frábærlega við baunagumsið.  Brjánsi er nr 52 í röðinni frá Borg Brugghús og er að koma í fasta sölu í ÁTVR.  Hér erum við með léttvægan 4% súrbjór sem gaman er að og gæti gengið sem frábær svaladrykkur.  Hann er mildur á tungu og frekar léttur.  Menn hafa hér farið öruggu leiðina til að höfða til sem flestra.  Bjórinn er flottur með fiskinum hér, hins vegar mætti hann vera nokkuð súrari fyrir mína parta en ég reyndar elska gallsúra bjóra sem rífa í kinnarnar og koma munnvatninu af stað.  Sigrún mín og Lovísa vinkona voru með Cava sem fordrykk, við prófuðum þetta með fiskinum og það var reyndar geggjað því Cava er þurrt og súrt og í kringum 11% og hefur því þróttinn til að taka nánast yfir og skapa nýja upplifun.   Ég prófaði svo einnig Sur Simcoe frá TO ÖL sem er dálítið humluð útgáfa af súrbjór (blanda lagers og súrbjórs kannski 🙂 ).  Bjór þessi er nokkuð súrari en Brjánsi og svo kemur létt beiskjan fram og notalegt sítrus bragðið frá Simcoe humlunum.  Þetta combo gekk mjög vel líka því á meðan Brjánsi á dálítið í hættu að falla í skuggann af fiskinum hér þá heldur Sur Simcoe vel velli og skín alltaf í gegn.

Alla vega, maturinn var frábær, ég mæli svo sannarlega með þessu og svo erum við með hugmynd af nokkrum bjórum til að prófa með!!!