Hrærð egg að hætti Masterchef með Beer Geek Breakfast stout í morgunmat

Má bjóða þér hinn fullkomna morgunverð á laugardagsmorgni?  Dásamleg hrærð egg eins og Gordon Ramsay gerir það á ristuðu súrdeigsbrauði með grilluðum tómötum og bacon og svo Beer Geek Breakfast Stout frá Mikkeller með!

Ég hef alltaf haft dálítið gaman að því að fylgjast með matreiðsluþáttum í sjónvarpinu.  Mér finnst sérlega gaman að hinum ofvirka snillingi Gordon Ramsay en hann gerir margt ansi ljúft.  Ég hef stundum prófað að apa eftir honum með misgóðum árangri. Gordoninn hefur í gegnum tíðina oft talað um hve erfitt sé að gera hrærð egg (scrambled egg) svo vel sé.  Það er svo vandasamt að hann lætur nýja kokka í eldhúsum hans um víða veröld elda þetta fyrir sig og ef þeir gera það rétt þá veit hann að þeir muni spjara sig.

Hér mé sjá kappann sýna hvernig þetta er gert (myndbrot).  Ég ákvað að láta vaða í þetta því mér finnst stundum gott að fá mér hrærð egg með einhverju brösuðu ss bacon í morgunmat um helgar t.d og ekki verra að fá góðan stout með.  Fyrsta tilraunin klikkaði auðvitað hjá mér og ég endaði með hrærð egg bara svona eins og maður er vanur, allt í lagi en ekkert sérstakt.  Ég dreif mig strax í aðra tilraun og þá tókst þetta og guð minn góður hve mikill munur var á þessum tveimur útgáfum.  Seinni rétturinn var alveg magnaður og minnti í raun bara ekkert á þetta klassíska hrærða egg sem ég er amk vanur.   Þetta var svo mjúkt og „fluffy“ og einhvern veginn bráðnaði bara í munni.   Svo þarf ljúft meðlæti með og þá er ekkert betra en bakaðir smátómatar til að gefa sætuna og svo gamla góða baconið (er það ekki alltaf gott með?) og auðvitað þarf eggjahræran að liggja ofan á þykkri sneið af ristuðu súrdeigsbrauði.  Ekki spara í brauðið, það drepur allt niður að hafa bara eitthvað heimilisbrauð undir þessu.  

Innkaupalistinn (fyrir 4):

9 egg
Smjör, 3 klípur
Kokteiltómatar
Bacon
Sýrður rjómi, 3 tsk
Graslaukur, klipptur fínt
Salt og pipar
Gott brauð, helst nýbakað súrdeigsbrauð skorið gróft

Aðferðin:

Ok ég er langt frá því að vera einhver matreiðslumeistari en mér tókst þetta í annari tilraun þannig að þú átt góðan möguleika og erfiðið er sko þess virði, konan t.d. ljómaði öll.  Trikkið er að ofhita ekki eggin því þá verða þau kekkjótt og renna til.  Svo má alls ekki krydda eggin fyrr en í blálokin því piparinn litar eggjahræruna gráa en við viljum hafa hana skínandi gula og saltið brýtur upp eggin og skemmir áferðina.

Hitið ofninn, setjið tómata í eldfast mót, olíu yfir og salt og pipar.  Látið svo inn við ca 180 gráður.  Skerið niður bacon í litla strimla og raðið á ofnplötu inn í sama ofn.  Látið malla á meðan þið hrærið eggin.  Setjið eggin í stóran pott og þrjár klípur af smjöri, ca 3 kúgaðar teskeiðar, jafnvel aðeins meira.  Ekki hafa of heitt undir, svo er bara að hræra vel með sleikju, skafa botninn allan jafnt og þétt stanslaust.  Takið pottinn af reglulega til að kæla niður, hrærið reglulega.  Smám saman byrjar þetta að þykkna og verða að eggjahræru.  Þegar hræran er að verða klár, við erum að tala um rjómakennd og aðeins kekkjótt þá takið þið af hellunni og bætið 3 tsk af sýrðum rjóma útí og hrærið.  Hér megið þið salta og pipra  að vild.  Hræran á að renna dálítið en þó halda sér á brauðinu.  

Takið bacon og tómata úr ofninum og raðið á disk, ristið súrdeigsbrauðið og setjið á diskinn og dreifið svo eggjahrærunni yfir.  Loks klippið þið graslaukinn yfir.  Smellið svo bjór í glas og vekjið makann.

Bjórinn:

Mér fannst tilvalið að hafa öl með þessu, ég meina það er hádegi á laugardegi og hvað er þá betra en MIKKELLER BEER GEEK BREAKFAST sem eins og nafnið gefur til kynna er morgunverðarbjór….eða þannig!  Bjórinn er amk stórkostlegur með áberandi ristuðu korni og kaffi sem gefur rist og kaffikeim sem er jú eitthvað sem flestir tengja við morgunverð ekki satt?  Beiskjan frá humlunum tekst vel á við fituna í bacon sneiðunum og smjörinu og opnar allt upp, sætan frá tómötunum tvinnast svo í sætbeiskum dansi með humlunum og verður þannig ekki of mikil.  Karamellukeimurinn af ristuðu brauðinu magnast dálítið upp líka með maltinu í bjórnum. Allt er þetta dálítið „heavy“ réttur en fersk beskjan og kolsýran frá bjórnum léttir á þessu öllu og gerir þetta bara dásamlegt. 

2 athugasemdir við “Hrærð egg að hætti Masterchef með Beer Geek Breakfast stout í morgunmat

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s