Ég hef komist að því í gegnum tíðina að það er nánast vonlaust að taka heila bjórhátíð saman svo vel sé. Maður gleymir alltaf einhverju og svo auðvitað missir maður af helling á svona hátíð. Það er bara ekki hægt að smakka allt sem er í boði alla dagana. Það eru 37+ brugghús með 2-3 bjóra hvert og alltaf nýjir bjórar á degi hverjum. Vonlaust verkefni. Ég reyndi því að vera duglegur að hlera bæði hjá gestum og bruggurum hvað stæði uppúr hvert kvöld og auðvitað smakkaði ég líka helling sjálfur, guð minn góður, í raun of mikið. Það stendur uppúr hvað gæði bjórsins á þessari hátíð voru mikil, maður lenti sjaldan á vondum bjór þó svo að þeir hafi verið þarna inn á milli. Það skal svo hafa í huga að venjulega mælir maður með því að smakkaðir séu max 6-8 bjórar hverju sinni, eftir það verður allt frekar svipað og erfitt að dæma. Það segir sig sjálft að maður fer langt út fyrir þessi mörk á svona hátíð. Spurningin er, er eitthvað að marka svona dóma? Svo er það hitt, maður er með sinn uppáhalds stíl og það hefur áhrif ef maður dæmir öll brugghúsin út frá því, t.d. á flottur klassískur vandaður lager ekki séns ef þú drekkur bara imperial stout eða gallsúra villibjóra. Þessa hátíð henti ég öllu svona út um gluggann og reyndi að prófa alls konar stíla með opnum hug. Eins og staðan er í dag er það New England IPA sem heillar mig hvað mest sem og bakkelsis stout en ég er þó kominn með pínu leið á þessu. Súrt er alltaf gott en ég fæ oft leið á þeim stíl samt líka.
Alla vega, hér er einhvers konar samantekt. Í stuttu máli, frábær bjórhátíð með frábærum brugghúsum sem stóðu sig öll með prýði. Það neikvæða, bara til að klára þann pakka voru þrengsli og mannmergð, það var bara of mikið af fólki fyrir þennan stað. En það var svo sem annað hvort Ægisgarður eða ekkert og við kjósum að sjálf sögðu Ægisgarð og þökkum Hinna, Óla og co fyrir að gera þetta að veruleika enn einu sinni. Hitt sem truflaði mig var fjarlægðin, ég persónulega var rúmlega klukkutima að komast á áfangastað með strætó, þetta er í rassgati þarna á Granda! Annað var það svo ekki, kannski of margir dagar? Tveir dagar væru líklega meira en nóg.
Það er frábært að hafa eitthvað annað en bjór á svona hátíð, matarvagnarnir fyrir utan voru algjör snilld og í raun nauðsynlegt til að draga úr heilsuleysi næsta dag og ölvun ef út í það er farið. Nasl eins og allir bjórlegnu ostarnir frá MS og svo sérvalda súkkulaðið frá Omnom sem hægt var að para við bjórinn voru líka kærkomin viðbót og við vonumst til þess að þetta verði áfram hefð á komandi hátíðum. Tónlistin var vel til fundin þó svo að sumir kvörtuðu undan tónlistarstefnunni og hávaða. Ég get reyndar tekið undir að á föstudeginum var plötusnúðurinn með allt of hátt stillt, maður gat ekki rætt við bruggara eða félaga um bjórinn fyrir hávaða en house/techno er svo sannarlega viðeigandi að mínu mati og ekkert undan því að kvarta. Smekkur manna á tónlist er svo sem alltaf misjafn og algjörlega vonlaust að negla þetta. Dagur 3 var betri hvað þetta varðar og held ég allir sáttir bara. Svo var þarna húðflúrari sem tók að sér að skreyta fólk ef það vildi, pínu risky þegar ölvun er annars vegar en samt skemmtilegur valmöguleiki. Ég er samt feginn að hafa ekki fengið einhverja flugu í haus fyrsta kvöldið en það vita það allir sem hittu mig að ég var í stuði fyrir alls konar!
En ok, reynum að taka þetta saman. Ég segi það bara strax í upphafi að ég smakkaði ekkert frá Stigbergets eða Garage brewing en bæði þessi brugghús voru á lista yfir þá bása sem ég ætlaði að mæta á öll kvöldin. Þegar ég skoðaði básana voru þeir bara ekki með bjór sem mig langaði að smakka, súrbjór t.d. vil ég fá frá þeim sem virkilega kunna til verka og þegar úrvalið er svona sturlað þá ákvað ég að eyða mínum prósentum í þessa stóru. New England IPA er bjórinn sem ég þekki frá þessum brugghúsum en það var bara ekki í boði. Ég lét líka To Öl og Mikkeller vera, það er svo sem ekkert nýtt þar á bæ í rauninni. Þeir gera þó alltaf solid bjór, ekki misskilja mig, en ég skoða þessi brugghús á öðrum vettvangi. Cloudwater voru svo vonbrygði hátíðarinnar eins og í fyrra að mínu mati. Ég fann ekkert gott frá þeim. Reyndar rokka þeir í IPA stílnum en það var svo sem lítið frá þeim í þessum stíl að þessu sinni, mér skilst þó að þeir hafi rúllað upp tap takover á Mikkeller & Friends. Sem fyrr segir þá fór ég ekki í súrbjórinn þeirra en það var mikið af því í boði hjá þeim. Heyrði heldur engan tala um þá á þessari hátíð.
En ok ég ætla að prófa að taka þetta saman með því að flokka þetta dálítið. Þannið að ég set þetta fram svona:
Bestir í IPA á hátíðinni. Hér eru það án efa amerísku brugghúsin, NYC brugghúsin voru öll að rúlla þessu upp bæði í hazy NEIPA sem og hefðbundum IPA stíl. Ég smakkaði lítið frá Other Half en það er í miklu uppáhaldi, ég vissi bara að hverju ég myndi ganga þar og eyddi því magaplássi og ölvunarstigum í hin brugghúsin sem ég hafði ekki prófað áður. KCBC stóð uppúr vegna þess að allt sem ég smakkaði frá þeim var geggjað, líka imperial stoutarnir þeirra. Það sama má reyndar segja um Tired Hands sem voru með fullkomna IPA bjóra og Saison pour alla helgina, ekki einn einasti bjór frá þeim sem klikkaði. Svo kom Aslin verulega á óvart, það var líka mikið talað um þá á hátíðinni og var þetta að margra mati besta brugghús hátíðarinnar. Ég smakkaði alls ekki allt frá þeim en þeir áttu geggjaðan lactose súrbjór, fullkominn NEIPA og sturlaðan Imperial Stout sem ég smakkaði.
Ef við skoðum súrbjórinn þá voru ansi mörg brugghús með súrbjór sem hluta af sínu framlagi en aðeins nokkur sem nánast bara tefldu fram súrbjór eða wild ale. Hér voru efst á blaði kunnugleg nöfn, De Garde og Black Project stóðu uppúr að mínu mati en það var misjafnt milli daga hvort þeirra var að standa sig betur. Fonta Flora var að mínu mati alveg consistent alla hátíðina með sturlað stöff. Þeir eru enn að flakka um landið þegar þetta er skrifað og lítil sæt fluga laumaði því að mér að þeir væru að brugga með Ölverk á næstunni!
Hvað kom mest á óvart? Ég verð að segja að Brewhaha frá Malbygg var einn af þessum wow factorum, ég vissi að þetta myndi verða góður bjór enda Cycle brewing með puttana í þessu en bjórinn kom mun betur út en ég þorði að vona. Svakalegur. Jinga Brewing Company frá Peking Kína kom mér líka verulega á óvart, þeir voru með alveg frábæran freyðandi hrísgrjóna súrbjór sem hefur verið þroskaður á „mulberries“ og döðlum. Geggjaður bjór, What Abour Me?. Freyðandi og frískandi með sætum undirtón frá berjum og döðlum en í senn sýrður með ögn edik keim. Þetta var með skemmtilegustu bjórum hátíðarinnar að mínu mati. Svo kom ég eiginlega sjálfum mér á óvart yfir því hve mikið ég var hrifinn af steinbock bjórnum frá Fonta Flora. Ég er venjulega núll spenntur fyrir bock en þessi var ofsalega skemmtilegur.
Bestir í stout voru nokkur bruggús eins og von var vísa, flestir geta jú gert góðan stout eða imperial stout. KCBC var með alveg magnað stöff, ég smakkaði 3 mismunandi frá þeim og myndvinnslan á merkimiðunum er sturluð, Brewhaha þurfum við ekki að ræða frekar, spot on. Aslin var svo með líklega einn besta imperial stoutinn á hátíðinni, Mexican Hot Chocolate, 5 stjörnur! Það skal tekið fram að maður fór í imperial stoutinn alltaf undir lokin en þá er maður dálítið sósaður orðinn og ekki alveg 100% að marka það sem maður er að upplifa. En samt, þrátt fyrir það er ofanritað niðurstaðan.
Lagerinn að koma aftur? Það voru nokkur brugghús með lager á hátíðinni sem er frábært, við þurfum að passa okkur að gleyma ekki klassískum elegant og vönduðum bjórstílum á borð við lagerinn. B&M hefur ákveðið að dusta rykið af lagernum þetta árið og læra aftur að meta þennan flotta stíl. Ég verð samt að segja að ég hoppaði ekki hæð mína yfir þessum lagerum sem ég smakkaði en þeir voru samt sumir hverjir helvíti ljúffengir. Það ber þá helst að nefna lagerinn frá Ölverk sem var bara mjög „true to the style“ krispí og clean lager sem rann vel niður. Ég var svo mjög hrifinn af Prayer Group frá Tired Hands, hann var mjög spes vægast sagt, hveiti lager bruggaður með þýsku pilsner malti og hveiti og svo gerjaður með lager geri. Loks er bjórinn látinn liggja í 5 vikur á örlitlu magni af sítrónusafa, mjög skemmtilegt og nánast funky bragð. To Öl var líka með skemmtilegan Kölsch sem reyndar var DDH, sem sagt þurrhumlaður þannig að hann minnti dálítið á pale ale, pínu svindl. Svo var það steinbockinn frá Fonta Flora auðvitað,en þetta var mjög skemmtilegur bock en þeir nota grjót úr grjótnámu skammt frá brugghúsinu og hita það yfir eldi og svo henda þeir grjótinu út í bjórinn og ná þannig upp suðunni eins og gert var í árdaga. Bjórinn tekur vissulega í sig einhvern keim frá grjótinu. Frábær bjór og þessi 8.5% voru algjörlega hulin. Yuzu lagerinn frá RVK Brewing Co. var líka skemmtilegur en svo sem ekki beint klassískur lager.
Íslensku Brugghúsin, ég verð bara að viðurkenna að ég smakkaði alls ekki allt á íslensku básunum, bara það sem menn voru að ræða sín á milli eða ef mér þótti eitthvað sérlega spennandi. Ég lagði þetta fram fyrir sjálfan mig þannig að ég ætti meiri möguleika á að smakka íslenska bjórinn hér heima síðar á meðan mikið af þessum erlenda bjór er bara erfitt að komast í. Af sömu ástæðu lét ég Other Half eiginlega alveg vera, sem og Mikkeller og To Öl. Röng nálgun? Ég veit ekki en svona var þetta hjá mér þetta árið.
Flest var samt vandað og gott sem ég smakkaði frá íslensku brugghúsunum. Frá Malbygg var t.d. allt gott og flest allt sem ég hef áður smakkað, Brewhaha sló í gegn og svo voru þeir með skemmtilegan kiwi saison eða súrbjór sem var notalegur. Það sem vakti athygli mína var svo brut IPA frá þeim en það er IPA þar sem gerið sem ég held að hafi verið kampavínsger er látið gerja sykurinn alveg úr bjórnum þannig að final gravity (sykurþéttnin) í bjórnum er 0 sem er sama og vatn. Bjórinn var virkilega góður, kom mér á óvart, aðeins þurr en vel humlaður og þannig beiskur og fruity. Þetta vil ég fá á dósir, ég meina þetta er fullkominn bjór fyrir Keto fólkið smbr búblukúrinn sem ég hef áður skrifað um.
Ég smakkaði annan brut IPA á þessari hátíð, sá var frá Smiðjunni Brugghús sem er glænýtt brugghús á Vík. Þau voru á sinni fyrstu hátíð með fyrsta bjórinn sem kemur frá brugghúsinu þeirra, vel felst var nokkuð vel gert og ljúffengt til marks um frábæra byrjun. Brut IPAinn þeirra var góður en kannski ögn of sætur sem er skrítið þar sem final gravity er 0. B&M mun fylgjast áfram vel með þessu nýja brugghúsi.
Borg Brugghús kom mér lítið á óvart, allt gott frá þeim nánast og allt sem ég hef smakkað áður nema sambrugg þeirra með Ölverk sem var mjög næs. Svo var gaman af yuzu línunni frá RVK Brewing Co. en ég smakkaði lítið annað þar. Ölverk var sem fyrr segir með skemmtilegan lager og svo var þarna DIPA sem kom helvíti vel út, þurr og magnaður. Ég var líka virkilega ánægður með bláberja súrbjórinn hjá Brothers Brewing. Loks verð ég að nefna krækiberjabjórinn frá Og Natura en þeir gera vín og bjór sem nánast má kalla náttúruvín. Krækiberjabjórinn er fáanlegur í Vínbúðunum og er alls ekkert svo galinn. Vínið þeirra var líka skemmtilegt. Endilega tékkið á þessu í næstu ferð í Vínbúðina.
En ég bara get ekki haft þetta lengra að sinni. Ég er pottþétt að gleyma einhverju líka. En nú er þessu lokið og við bíðum í ár eftir næstu hátíð. Það er þó engin ástæða fyrir örvæntingu því íslensku brugghúsin okkar brugguðu helling af bjór með erlendu gestunum sem er væntanlega eitthvað sem við fáum að smakka hér heima á næstunni. Þannig brugguðu RVK Brewing Co. með Braw og svo öllum NYC brugghúsunum, Borg bruggaði amk með KCBC (ég er viiiiirkilega spenntur) og Lamplighter, KEX Brewing og Ægir Brugghús gerðu bjór með Other Half, KCBC og Lamplighter svo eitthvað sé nefnt. Og Malbygg léku sér með Dugges. Það er nóg að gerast sem sagt.
You must be logged in to post a comment.