Hátíðar Humarsúpa

Við erum alltaf í vandræðum með hvað við viljum hafa í matinn á jóladag. Það er einhvern veginn allt orðið þreytt og maður er eiginlega að springa. Þetta árið ákváðum við að gera humarsúpu og gera hana frá grunni. Við höfum ekki gert það sjálf áður en útkoman var hrikalega góð. Svo góð reyndar að nú er komin ný hefð hér á bæ, jóladags humarsúpan.

Við vorum mest megnis með lítinn humar í súpuna ásamt nokkrum stórum hölum ofan á. Við vorum sammála um að næst myndum við sleppa litu körlunum og nota bara stóran humar og þá hafa minna af honum. Það er miklu betra!

Það sem þarf (fyrir 4-5):

 • Humar í skel, stór, því stærri því betra. Slepptu litla súpu humarnum. Magn fer eftir smekk bara, 700 g er fínt t.d
 • Smjör, 50g
 • Ólifuolía
 • Rauð paprika, 1 stk skorin smátt
 • Gulur laukur, 1 stk, skorinn smátt
 • Blaðlaukur, 1 stk skorinn í sneiðar
 • Gulrætur, 2-3 stk skornar í litlar sneiðar
 • Hvítlaukur, 2-3 geirar
 • Tómat purré, 2 mtsk
 • Cayenne pipar, 1 tsk
 • Hvítvín 0,5 dl
 • Kókósmjólk, þykka gumsið efst/rjóminn, ca hálf dós.
 • Rjómi, 500 ml + þeyttur rjómi, 1 peli
 • Philadelfia rjómaostur, 200 g
 • Humarsoð (sjá að neðan)

Fyrir soðið:

 • Humarskeljar af 700g humar
 • Smjör, 50g
 • Ólifuolíu
 • Gulur laukur, 1 stk skorið gróft
 • Blaðlaukur, 1 stk skorinn í sneiðar
 • Gulrætur, 4 litlar skornar í litla bita
 • Hvítlauksgeirar, 3-4 skornir smátt
 • Fennel fræ, 2 tsk
 • Cayenne pipar, 1 tsk
 • Vatn, 2L
 • Hvítvín, 1,5-2 dl
 • Humarkraftur, 4 mtsk
 • Salt og pipar

Aðferðin

Svona gerðum við þetta. Byrjuðum á að afþýða humar yfir nótt. Skelflettum og hreinsuðum garnir úr. Svo er það smjör (50g) í stóran pott, ólifuolía og humarskeljarnar (af ca 700g humarhölum), 2 tsk fennelfræ og 1 tsk Cayenne pipar. Við brúnuðum skeljarnar í smá stund svona. Bættum svo útí skornum lauk (1 stk), blaðlauk skorinn í sneiðar (1 stk), smátt skornum gulrótum (4 stk) og hvítlauksgeirunum (3-4 stk).

Létum þetta mýkjast á rúmlega meðalhita. Svo bættum við ca 2 dl hvítvíni samanvið og fljótandi humarkrafti (4 mtsk) og létum aðeins sjóða niður. Lyktin á þessu stigi lofar svo sannarlega góðu. Loks bættum við 2 L vatni samanvið og náðum upp suðunni. Við létum þetta svo malla í líklega 3 tíma á lágum hita undir loki. Það má vel láta þetta malla lengur svo sem, þá verður soðið bara sterkara. Við sigtuðum svo soðið frá grænmetinu og lögðum til hliðar. Smakkið soðið til með salti og pipar.

Þá er það súpan sjálf. Þetta er mikið til sama innihald og í soðinu. Skárum niður 1 rauða papriku, 1 gulan lauk, 1 blaðlauk og ca 3 gulrætur. Mýktum þetta í potti í olíu og 50g smjöri ásamt Cayenne pipar (1 tsk). Bættum svo um hálfum dl hvítvíni samanvið. Þegar þetta er orðið mjúkt þá bættum við tómatpúrruni (2 mtsk) saman við og blönduðum vel. Settum þetta svo í blandara sem þolir hita (t.d. Vitamix) ásamt ca dl af soðinu og hvítlauksgeirum og maukuðum þetta vel þar til engar agnir voru sjáanlegar.

Settum svo maukið aftur í pottinn, bættum saman við soðinu og rjómaostinum (200 g) og hrærðum vel saman og náðum upp suðu. Bragðbætt með salti og pipar og jafnvel humarkrafti ef ykkur finnst vanta bragð. Þetta var mjög bragðmikið hjá okkur á þessu stigi. Þegar þetta var búið að malla dálítið bættum við 500 ml rjóma og svo kókosmjólk eftir smekk. Við notuðum í raun kókosrjómann sem er efst í dósinni og smökkuðum til. Þetta var ca hálf dós.

Svo er það humarinn (skelflettur). Ég steikti hann uppúr slatta af smjöri, pressuðum hvítlauk (3 geirar) og smá þurrkaðri steinselju (átti ekki til ferska). Mjög basic, bara passa að steikja þá frekar of lítið en hitt, súpan klárar svo verkið. Ef þið eruð með litla súpu humarhala þá skolið þið þá bara, þerrið og bætið þeim útí súpuna um leið og hún er borin fram. Þeir sjóða strax þar. Stóru humarhalana settum við ofan á súpuna þegar súpan var komin í skálarnar ásamt þeyttum rjóma.

Pörunin

Það þarf ekkert að para neitt við þetta en það er skemmtilegra, það var hátíð í bæ hjá okkur og við áttum flotta flösku af Dom Perignon kampavíni sem paraðist stórkostlega við súpuna. Gott hvítvín, þurr saison eða belgiskur tripel myndu eiga svakalega vel við líka.

Sigrún gerir ofsalega góðar brauðbollur og við ákváðum að hafa þær með súpunni, nýbakaðar og lungnamjúkar með smjöri. Frábær veilsa. Njótið.

Njótið

Jólaleg matarpörun með Lækninum í Eldhúsinu. „Stund milli stríða“!

Á dögunum hittumst við Bytturnar 3 og Læknirinn í Eldhúsinu heima hjá þeim síðarnefnda og prófuðum okkur áfram með mat og bjór. Sjá myndbandið hér að neðan. Þetta kom mjög vel út, maturinn einfaldur en stórkostlegur og bjórinn geggjaður með. Gott þarf svo sannarlega ekki að vera flókið.

Ragnar gerði 5 rétti fyrir okkur, er eru þeir og bjórinn sem passaði með.

Heit dönsk lifrarkæfa á rúgbrauði með beikon og smjörsteiktum sveppum toppað með pækluðum rauðlauk.

Hitið lifrarkæfu í ofni, steikið beikon á pönnu eða í ofni þannig að verði stökkt. Smjörsteikið sveppi og pæklið rauðlauk. Raðið svo kæfunni á gott rúgbrauð og svo beikon og sveppi ofan á það lokst skreytt með rauðlauknum.

Þessi réttur kom best út með Skyrjarmi bláberja súrbrjór sem gefur þessa berjasætu og sýru sem vantaði dálítið í réttinn en Askasleikir virkaði líka en gerði samt ekki mikið fyrir réttinn.

Ástarpungur með heimagerðu hangikjötssalati og tvíreyktu lambakjöti

Ástarpungar er vanmetið brauð, þessi samsetning er með því jólalegra sem gerist, algerlega frábær biti. Bakið ástarpunga eins og þið kunnið best. Skerið svo niður hangikjöt og mikið af því. Hrærið saman 1/3 hluta majones og 2/3 sýrðan rjóma og niðursoðnar gulrætur og baunir, smakkið til með salt og pipar. Setjið salatið ofan á ástarpung og skreytið með þunnum sneiðum af tvíreyktu lambakjöti.

Þessi réttur mun slá í gegn hjá ykkur. Báðir bjórarnir sem við prófuðum komu mjög vel út. Surtur 30 frá Borg er taðreyktur imperial stout. Hér er reykurinn í aðalhlutverki en einnig lúmsk sæta og beiskjubit. Reykurinn tengir hér vel við reykinn í lambinu. Giljagaur barley wine var svo svakalega flottur með þessum rétt. Þróttmikill bjór með sætum tónum, en beiskju sem klýfur upp þennan feita rétt. Þessi bjór samtvinnast inn í réttinn og breytir dálítið áherslunum.

Rúgbrauð með kryddsíld, eggi, kartöflum og rjómaosti

Síld er klassískt á jólunum. Hér þarf að nota góða síld. T.d. frá Klädesholmen. Útbúið síldina nokkrum dögum áður en þið notið hana.

 • 1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
 • 1 dós sýrður rjómi 
 • 3 msk majónes 
 • handfylli hakkað dill
 • 1 msk hlynsíróp
 •  1 1/2 msk Edmont Fallot dijon sinnep 
 • salt og pipar eftir smekk. 

Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum. 

Smyrjið gott rúgbrauð með smjöri, miklu smjöri, raðið svo sneiddum soðnum eggjum ofaná, kartöflu og svo síldinni og toppið með feitum sýrðum rjóma, 34%

Bjórinn með. Hér vorum við ekki alveg sammála, en þeir tveir bjórar sem stóðu uppúr voru Hurðaskellir 11.5% imperial porter aldraður á rúgvískítunnu. Hér datt mér í hug að nota Hurðaskelli sem staðgengil brennivínsins sem klassískt er með síldinni. Mjög skemmtilegt combo, en sumum okkar fannst of mikill þróttur í bjórnum sem er skiljanlegt.

Bjúgnakrækir pale ale féll mönnum betur í geð enda afar ljúfur og þægilegur bjór með sætum ávaxtatónum og léttri beiskju. Beiskjan hjálpar til við að opna upp fituna í réttinum og ljúfir sætutónar pakka síldinni dásamlega vel inn.

Våsterbottenostasíld á sænsku hrökkbrauði með dilli

Þessi réttur er magnaður. Hér notar Ragnar ost með síld sem hljómar reyndar ekki vel en er svakalega gott. Osturinn þarf að vera góður, Ragnar var með hinn sænska Västerbottenost sem er ofsalega flottur ostur.

 • 1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
 • 1 dós sýrður rjómi 
 • 2 harðsoðin egg
 • 1/2 dl majónes 
 • handfylli hökkuð steinselja
 • hnífsoddur af chilidufti
 • 1 1/2 dl rifinn Västerbottenostur 
 • salt og pipar eftir smekk

Síldin er undirbúin eins og að ofan. Svo er að sjóða eggin og skera niður og rífa niður ostinn. Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Setjið þetta svo ofan á gróft hrökkbrauð og berið fram með dillgrein.

Þetta er ofsalega gott, osturinn kemur lúmskt í gegn en maður finnur hann ekki nema vita af honum. Hér notuðum við Sölkunr 81 frá Borg sem er nýjasti villibjórinn þeirra og er þroskaður á Chardonnay og Sauvignon Blanc tunnum. Bjórinn er svakalegur, beittur, kolsýrður með þægilegum belgískum kryddum og svo þessum funky villikeim. Tengingin hér við réttin var alveg fullkomin, hér tvinnaðist réttur og bjór saman í fullkomna heild. Magnað. Askasleikir red ale kom líka frábærlega út með þessum rétti en fer með hann í allt aðra átt. Hér koma lúmskir malttónar vel fram og það er eins osturinn verði meira áberandi hér en með hinn bjórinn.

Lax grafinn í Marberg gini á ristuðu brauði með heimalagaðri graflaxsósu

Margerg er frábært alíslenskt gin sem er gott til drykkju en það er líka hægt að nota það í að grafa lax.

Grafið lax. Nú veit ég ekki hvernig Ragnar gerði þetta en hér er góð uppskrift af gröfnum urriða sem hefur reynst mér vel. Þá myndi maður svo dassa Marberg gini yfir fiskinn áður en hann er grafinn.

 • 1/2 msk hvítur pipar
 • 1,5 tsk fennel krydd
 • 1,5 msk gróft salt
 • 2 msk dill
 • 1,5 tsk aromat
 • ½ msk sykur
 • 1 lítill skallotlaukur fínt skorinn

Flakið laxinn og úrbeinið, og þerrið flökin og leggið svo í t.d. eldfast mót eða annað hentugt ílát.  Saxið laukinn smátt og blandið saman kryddunum í skál og dreifið jafnt yfir flökin. Slettið smá gini yfir.  Plastfilma yfir og svo í kæli í 4 sólarhringa. Snúið flökunum daglega. Hafið smá farg ofan á flökunum.  Fínt að frysta svo flökin og taka út rétt áður en þið skerið niður í þunnar sneiðar.

Ristið hvítt brauð, skerið út í hringi og raðið laxinum ofan ásamt graflaxsósu (heimagerð helst) og skreytið með dillgrein.

Hér algerlega negldi Giljagaur þetta. Það er eitthvað við Giljagaur og grafinn lax, fullkomið combo. Ginkeimurinn kom líka skemmtilega í gegn og tengdist við áfengið í bjórnum. Mögnuð pörun. Skyrjarmur tók svo þennan rétt í aðra átt með bláberjakeim sem kom æðislega vel út með laxinum. Sýran í bjórnum er líka kærkomin með þessu.

Heimagerðar piparkökur með gráðaosti og heimagerðri bláberjasultu

Bakið ykkar uppáhalds piparkökur. Raðið ofan á þær íslenskum gráðaosti og efst heimagerðri bláberjasultu. Þessi réttur er með þeim einfaldari en kemur alltaf jafn mikið á óvart. Við hins vegar gjörsamlega lyftum þessum rétti upp með Emblu imperial porter sem bruggaður er með sykurpúðum, hlynsírópi og appelsínum. Þessi blanda er sjúklega góð.

Við prófuðum að fara í allt aðra átt og reyndum Bjúgnakræki líka. Hér er mildur og þægilur pale ale með sætum ávaxtatónum sem koma þægilega á móti söltum ostinum en tengir svo við sætuna í piparkökunni.

Villigæsapaté með vinagrette, og klettasalati, fullkomið með Skyrjarmi bláberjabjór frá Borg.

Skyrjarmur er nýjasti jólabjórinn frá Borg Brugghús  en um er að ræða stórkostlegan bláberja súrbjór bruggaður með skyri og óvenjulega mikið af bláberjum.  Bjórinn er gríðarlega drekkanlegur, mildur og ljúfur með ögn súran blæ sem þó er óverulegur því bláberjasætan kemur vel á móti og skapar frábært jafnvægi.  Bláberin eru allsráðandi í þessum bjór og því fannst okkur rétt að prófa að para hann við einhverja villibráðina sem við erum vön að gæða okkur á yfir jólin.

Við prófuðum tvo rétti sem báðir steinlágu, villigæsapaté með klettasalati og bláberjavinagrette  eða hindberjavinagrette sem er jafn gott.  Þessi pörun kom virkilega vel út.  Patéið nýtur sín með klettasalatinu og sætsúru vinagrette-inu en svo kemur bláberja hamingjan frá bjórnum og bindur allt þetta í eina ljúfa heild sem skolast svo niður í mallakút.  Hvorugt tekur völdin, hvorki bjórinn né gæsin en einmitt þannig á þetta að vera.  Frábært.  Það er jafnvel hægt að sleppa vinagrette en þá er gott að fá sér sopa á meðan maður er með gæsina í munni.

IMG_7700.JPG
Hinn rétturinn er af sama toga en þó allt öðruvísi, heitreykt heiðagæs með vinagrette og klettasalati ofan á snittubrauð.  Hér er kjötið dálítið þurrt á tungu en með öööörlitlu af vinagrette kemur smá kontrast við villibragðið og mýkir kjötið sem fær að njóta sín í munni.  Bjórinn kemur svo á eftir og hreinsar góm og tungu með unaðslegum bláberjakeim, létt súrt og sætt sem tengir svakalega skemmtilega við villibragðið í gæsinni.  Ég veit ekki hvor rétturinn er betri þannig að við munum hafa þá báða með Skyrjarmi í jólaboðum þetta árið.

Tvíreykt hangikjöt og grafið lamb með tveim flottum jólabjórum!

Við hjónin uppgötvuðum í desember í fyrra algjörlega undursamlegt kjöt frá KjötsmiðjunniGrafið lamb og tvíreykt hangikjöt.  Við erum ekki að tala um hangikjötsstykki eins og maður er vanur heldur fínskorið næfurþunnt kjöt sem þeir vacumpakka á staðnum þarna í Kjötsmiðjunni.  Upplifunin er allt önnur en þegar maður er sjálfur að reyna að skera þetta af einhverjum lærisbút sem maður fær venjulega.  Grafna lambið er eins, töfrandi þunnar rauðar mjúkar sneiðar sem bráðna í munni.  Þvílíkur unaður.  Ég mæli eindregið með þessu.  Í fyrra lékum við okkur aðeins með bjórpörun með þessari dásemd og kom Giljagaur frá Borg fullkomlega vel út með tvíreykta hangiketinu á meðan léttari bjór á borð við Leifur Saison einnig frá Borg small alveg við viðkvæmari graflambið.  Nú er húsið skreytt að utan og desember að nálgast eins og óð fluga og þá fer maður að hugsa í jólakræsingum.  Í kvöld vorum við að klára skreytingar innandyra og þá þýðir ekkert að eyða öllu kvöldinu í eldamennsku.  Maður verður samt að fá jólafixið sitt og því völdum við grafna lambið og það tvíreykta því það er fljótlegt og einfalt í undirbúningi.  Þegar maður er eginlega of nýjungagjarn og experimental þá þýddi auðvitað ekki að fara í sömu pörun eins og í fyrra, maður verður að prófa eitthvað nýtt, eitthvað sem kallar fram alveg nýja upplifun.  Ég átti dós af jólabjórnum frá Bryggjunni Brugghús sem þeir kalla Fagnaðarerendið og er 5.5% belgískur dubbel, eins átti ég Mikkeller Ginger Brett IPA sem sló í gegn hjá okkur í fyrra.  Við mátuðum þessa tvo með kræsingum kvöldsins og komu þeir mjög vel út.  Tvíreykta hangikjötið er mjúkt og djúsí með nokkuð reyktum keim ásamt kryddi og svo auðvitað þetta einkennandi lambabragð þó svo að það sé í algjöru lágmarki.  Þetta kallar dálítið á bjór sem hefur sterkan persónuleika en eins og alltaf yfirgnæfir ekki kjötið.  Fagnaðarerendið kom mjög vel út, bjórinn er þægilega mildur og ber með sér ögn ávaxtasætu frá dökkum þurrkuðum ávöxtum og notalegan kryddkeim frá belgísku gerinu.  Reykurinn frá kjötinu blandast svo í bjórinn og við fáum út ofsalega skemmtilegan létt reyktan dubbel.  Alveg æðislegt.  Fagnaðarerendið er bara hinn ljúfasti jólabjór frá Bryggjunni og alls engir öfgar í neinar áttir.  Svo er hann svona líka ljómandi fallega dökkrauður.

IMG_6671-001

Grafna lambið er svo mildari útgáfa af þessum herlegheitum, hér er maður alveg laus við reykta keiminn ef hann truflar fólk. Kjötið er mjúkt og djúsí og bráðnar alveg í munni.  Það er ögn selta í því og pipar en svo blandast sætur hunangs kryddkeimur frá graflaxsósunni við ásamt beiskju frá stökku klettasallatinu.  Osturinn toppar þetta svo algjörlega, þurr, ögn saltur með notalega jörð.  Leifur frá Borg er mjög viðeigandi hérna en Ginger Brett IPA frá Mikkeller er svakalega skemmtilegur jólabjór.  Um er að ræða IPA með villigerinu Brettanomyces sem gefur alveg einstakt „funky“ bragð og svo er engifer í þessu sem skín vel í gegn.  Bjórinn er þannig ögn beiskur með þessum skemmtilega funky keim sem ekki er hægt að lýsa og svo er engiferið áberandi.  Virkilega skemmtilegt ofan á lambið og skapar dálítið nýja vídd í þessu.

Uppskrift:IMG_6665

Þetta er svo sem ekki mikil uppskrift.  Kjötið þarf að vera gott, ég hef smakkað mismunandi en það er fullkomið frá Kjötsmiðjunni því það kemur tilbúið í næfurþunnum sneiðum.

 • Tvíreykt hangikjöt, magn fer eftir hve mikið maður vill borða bara
 • Grafið lamb, magn eftir smekk
 • Klettasalat, hellingur
 • Graflaxssósa með grafna lambinu
 • Piparrótarsósa með því tvíreykta
 • Parmisan ostur eða svipaður til að rífa yfir.
 • Snittubrauð ef maður vill hafa undir þessu.

Gæsapaté með rauðlaukssultu og Backwoods Bastard

img_5697


RÉTTUR:  Gæsapaté frá Kjötbúðinni með rauðlaukssultu

BJÓRINN MEÐ: Þessi réttur kallar á eitthvað massíft og flókið, barley wine gengur líklega vel hér (eins og t.d. Giljagaur frá Borg) en við ákváðum að prófa scotch ale.  FOUNDERS BACKWOODS BASTARD er alveg magnaður bjór einn og sér en með þessum rétt verður hann mjög skemmtilega villtur og gerir gæsapatéið mun skemmtilegra.  Bjórinn er nýkominn í sölu í vínbúðinni og því ber að fagna.


 

Jól og áramót eru skemmtilegur tími því þá má maður leyfa sér alls konar kræsingar.  Ég hef undanfarin ár haft Backwoods Bastard sem einn af mínum áramótabjórum en þetta er algjörlega stórkostlegur bjór frá einu af mínum uppáhalds brugghúsum Founders.  Við erum að tala um 11.1% scotch ale sem er þroskaður í „single malt scotch“ eikartunnum í ár eða svo.  Hér eru menn að fá alls konar gotterí, karamellu, eik, kókos, vínlega sætu og auðvitað aðeins bourbon eða reyndar töluvert bourbon.  Það er líka þó nokkur beiskja í kauða og mikill þróttur.  Mér var hugsað til þessa bjórs þegar ég var staddur í Kjötbúðinni við Grensásveg fyrr í dag á Þorláksmessu að næla mér í nauta carpaccio fyrir aðfangadag.  Þar var mér boðið uppá ljómandi gæsapaté með rauðlaukssultu.  Ég fór strax að íhuga bjór með þessu og datt eiginlega strax Backwoods Bastard í hug en það þarf einmitt dálítið þróttmikinn bjór með svona rétt.

Við Sigrún ákváðum að prófa þetta núna til að sjá hvort þetta gæti gengið um áramótin.  Viti menn þetta svona líka smellpassar.  Gæsapatéið er dálítið feitt með piparkornum og villikeim en samt  látlaust allt saman, rauðlaukssultan er hins vegar nokkuð bragðsterk og mikil en hún lyftir alveg upp gæsinni og gerir hana stórskemmtilega.  Rétturinn þolir því nokkuð öflugan bjór.  Laukurinn er sætur og karamelliseraður en það er einmitt það sem kemur svo skemmtilega út með bjórnum.  Þar kemur sætur vínandinn vel út og svo tvinnast þetta allt saman með kókos og karamellu sem ýtir undir karamelluna í lauknum.  Maður hefði kannski ætlað að bjórinn myndi stela senunni en svo er ekki, þetta verður bara allt eitthvað svo mun flóknara og skemmtilegra svona. Beiskjan vinnur líka vel á móti fitunni og hreinsar pallettuna á milli bita. Þvílík hátíð sem er framundan.

Grafið lamb með graflaxsósu og Leif saison frá Borg.

img_5672

Það er stórkostlegt þegar maður dettur niður á eitthvað nýtt og gott.  Ég var í kjötbúðinni um daginn, Kjötsmiðjunni Fosshálsi að næla mér í tvíreykt hangikjöt og þá benti kjötmeistarinn mér á grafið lamb.  Okkur Sigrúnu fannst það hljóma vel og ákv að prófa, kjötmeistarinn mælti með graflaxsósu og soðið egg með.


RÉTTUR: Grafið lamb, fínskorið í þunnar sneiðar með ögn graflaxsósu og soðnu eggi.  Fínt á snittubrauð eða bara beint á diskinn.  

BJÓRINN MEÐ: bjórinn má ekki yfirtaka senuna, lambið er svo dásamlegt og ljúft og þarf að fá að njóta sín.  Mildur saison/sveitabjór á borð við LEIF frá Borg er flottur með. Við viljum íslenskan bjór með íslensku lambi ekki satt? Það væri vel hægt að velja SKAÐA saison líka frá Ölvisholti, eða einhvern erlendan ef maður vill svíkja lit!


 

Ég er hrifinn af tvíreykta lambinu en ég verð að segja að þetta grafna lamb er bara dásamlegt.  Það er svo mjúkt og djúsí með aðeins piparkryddi og öðru góðgæti.  Feiti „kindakeimurinn“ sem maður finnur í hangikjötinu er alveg fjarverandi.  Graflaxsósan er svo alveg sérstök, hún er samt sem áður alls ekki neitt sem þarf að vera með en lífgar samt uppá réttinn en lambið eitt og sér er bara svo gott.  Eggið er skemmtilegt með (á myndinni eru litlir puttar reyndar búnir að taka eggið og borða það en það verður að hafa það).

Hér eru dálítið viðkvæmir bragðtónar á ferð og þegar maður ætlar að para drykkinn með þarf að hafa það í huga, maður vill alls ekki yfirgnæfa réttinn með of öflugum drykk.  Rauðvínið er eiginlega of mikið myndi ég segja.  Við ákváðum að fara í sveitabjór eða saison með þessum rétt en við höfum lengið haft gaman að þessari pörun, þ.e.a.s saison með lambakjöti.  LEIFUR er sérstaklega skemmtilegur því í honum er íslenskt blóðberg sem passar vel við „jarðartóna“ í kjötinu. Venjulega er engin beiskja í saison og hann er skemmtilega kryddaður með ögn sítrustónum og í Leif er svo notað aðeins piparkorn.  Það var mjög gaman að sjá hvernig blóðbergið lifnaði við í bjórnum í þessari pörun.  Bjórinn bætti svo notalegu kryddi og sætum gerkeim við kjötið án þess að taka neitt frá því.  Mjög skemmtileg pörun sem vert er að prófa.

Giljagaur með tvíreyktu alíslensku lambi með heimagerðri piparrótarsósu og klettasallati

 

RÉTTUR:  Tvíreykt lamb frá Kjötsmiðjunni með heimagerðri piparrótarsósu og klettasallati á snittubrauði.  Lambið er fínskorið í þunnar sneiðar, sett á snittubrauð ofan á fersku kelttasallati og svo piparrótarsósa yfir.

Piparrótarsósan: það er allt í lagi að kaupa bara tilbúna sósu sem fæst t.d. í  flestum kjötbúðum ef maður er ekki að nenna þessu en annars er til aragrúi af uppskriftum á netinu, t.d. þessi hér á Eldhússögum.

 • 1 dós sýrður rjómi
 • 3 msk majónes
 • 1 pakki piparrótarmauk
 • 1 msk sítrónusafi
 • 1 msk hunang
 • 1 tsk salt

BJÓR MEÐ: Bjórinn með þarf að vera þróttmikill til að ráða við þennan rétt.  barley wine er alveg kjörinn stíll í verkefnið.  Hér völdum við Giljagaur frá Borg sem er einn af okkar uppáhalds jólabjórum.  Geggjað kombo.  Það eru því miður ekki margir barley wine bjórar í vínbúðinni en þó eru þeir til, spyrjið bara staffið í búðinni.


Við Íslendingar borðum alls konar kræsingar yfir hátíðarnar, einn vinsælasti rétturinn er gamla góða hangikjötið sem mér finnst reyndar persónulega alls ekkert spennandi. Tvíreykta lambið er hins vegar stórkostlegt og alveg borðleggjandi sem t.d. forréttur á aðfangadag eða áramótum, já eða bara sem nart á Þorláki yfir síðustu gjöfunum. Við Sigrún ákváðum þetta árið að prófa bjór með í staðinn fyrir rauðvínið sem reyndar kemur alltaf vel út með þessum rétti.

Kjötið fengum við í Kjötsmiðjunni Fosshálsi en þar bentu fróðir menn okkur svo á annan skemmtilegan rétt, grafið lamb sem á að vera gott með graflaxsósu og harðsoðnu eggi.  Við ákváðum að prófa bæði (sjá nánar hér).

img_5647

Tvíreykta lambið er dálítið feitt í munni með reyk og aðeins salti og svo þessum einkennandi hangikjötskeim sem við þekkjum öll og elskum en er þó mun mýkri og mildari en í venjulegu hangikjöti.  Persónulega finnst mér hefðbundið hangikjöt ekkert spennandi, já uss ég veit ekki dæma.  Piparrótarssósan kemur svo með örlítið kryddað og sætt bragð á móti og loks rífur beiskt klettasallatið aðeins í og skapar þarft jafnvægi.   Það er bæði hægt að gera sósuna sjálfur og finnast margar uppskriftir á netinu, t.d. hér á Eldhússögum en ef maður hefur ekki tíma er vel hægt að kaupa sósuna t.d. á sama stað og kjötið og það er oftast bara flott sósa.
Rétturinn stendur fyllilega teinréttur einn og sér en þegar maður parar saman við réttan bjór þá gerist eitthvað enn meira spes.   Þessi réttur er hins vegar töluvert öflugur og þarf sterkan og mikinn bjór sér við hlið, við völdum að prófa GILJAGAUR frá Borg, einfaldlega af því að það er stórkostlegur bjór og hann er svo sannarlega öflugur án þess að vera ruddalegur.  Já það má nefnilega ekki gleyma því að við erum ekki bara að leita eftir einhverjum bjór sem passar við matinn heldur viljum við góðan bjór, dásamlegan jafnvel og pörunin á að upphefja bæði réttinn og bjórinn.  Með Giljagaur  þá er þetta solid. Giljagaur er flottur barley wine sem þýðir þróttur og þó nokkur sæta, mér finnst svo Giljagaur alltaf bera með sér einhverja lúmska appelsínu í  bakgrunni.  Sætan í bjórnum kemur skemmtilega á móti reyknum og seltunni í kjötinu og passar vel við mjúka sæta bragðið í piparrótarsósunni.  Klettasallataið kemur svo með beiskjuna sem klýfur fituna í lambinu og gerir hana meira viðráðandi, einnig bakkar beiskjan í bjórnum þessa fléttu skemmtilega upp.  Rétturinn og bjórinn tvinnast saman og upphefja hvort annað án þessa að gleypa, stórkostlegt alveg.  Þetta er réttur sem verður á borðum á þessu heimili á aðfangadag svei mér þá.