Við erum alltaf í vandræðum með hvað við viljum hafa í matinn á jóladag. Það er einhvern veginn allt orðið þreytt og maður er eiginlega að springa. Þetta árið ákváðum við að gera humarsúpu og gera hana frá grunni. Við höfum ekki gert það sjálf áður en útkoman var hrikalega góð. Svo góð reyndar að nú er komin ný hefð hér á bæ, jóladags humarsúpan.
Við vorum mest megnis með lítinn humar í súpuna ásamt nokkrum stórum hölum ofan á. Við vorum sammála um að næst myndum við sleppa litu körlunum og nota bara stóran humar og þá hafa minna af honum. Það er miklu betra!
Það sem þarf (fyrir 4-5):
- Humar í skel, stór, því stærri því betra. Slepptu litla súpu humarnum. Magn fer eftir smekk bara, 700 g er fínt t.d
- Smjör, 50g
- Ólifuolía
- Rauð paprika, 1 stk skorin smátt
- Gulur laukur, 1 stk, skorinn smátt
- Blaðlaukur, 1 stk skorinn í sneiðar
- Gulrætur, 2-3 stk skornar í litlar sneiðar
- Hvítlaukur, 2-3 geirar
- Tómat purré, 2 mtsk
- Cayenne pipar, 1 tsk
- Hvítvín 0,5 dl
- Kókósmjólk, þykka gumsið efst/rjóminn, ca hálf dós.
- Rjómi, 500 ml + þeyttur rjómi, 1 peli
- Philadelfia rjómaostur, 200 g
- Humarsoð (sjá að neðan)
Fyrir soðið:
- Humarskeljar af 700g humar
- Smjör, 50g
- Ólifuolíu
- Gulur laukur, 1 stk skorið gróft
- Blaðlaukur, 1 stk skorinn í sneiðar
- Gulrætur, 4 litlar skornar í litla bita
- Hvítlauksgeirar, 3-4 skornir smátt
- Fennel fræ, 2 tsk
- Cayenne pipar, 1 tsk
- Vatn, 2L
- Hvítvín, 1,5-2 dl
- Humarkraftur, 4 mtsk
- Salt og pipar
Aðferðin
Svona gerðum við þetta. Byrjuðum á að afþýða humar yfir nótt. Skelflettum og hreinsuðum garnir úr. Svo er það smjör (50g) í stóran pott, ólifuolía og humarskeljarnar (af ca 700g humarhölum), 2 tsk fennelfræ og 1 tsk Cayenne pipar. Við brúnuðum skeljarnar í smá stund svona. Bættum svo útí skornum lauk (1 stk), blaðlauk skorinn í sneiðar (1 stk), smátt skornum gulrótum (4 stk) og hvítlauksgeirunum (3-4 stk).

Létum þetta mýkjast á rúmlega meðalhita. Svo bættum við ca 2 dl hvítvíni samanvið og fljótandi humarkrafti (4 mtsk) og létum aðeins sjóða niður. Lyktin á þessu stigi lofar svo sannarlega góðu. Loks bættum við 2 L vatni samanvið og náðum upp suðunni. Við létum þetta svo malla í líklega 3 tíma á lágum hita undir loki. Það má vel láta þetta malla lengur svo sem, þá verður soðið bara sterkara. Við sigtuðum svo soðið frá grænmetinu og lögðum til hliðar. Smakkið soðið til með salti og pipar.
Þá er það súpan sjálf. Þetta er mikið til sama innihald og í soðinu. Skárum niður 1 rauða papriku, 1 gulan lauk, 1 blaðlauk og ca 3 gulrætur. Mýktum þetta í potti í olíu og 50g smjöri ásamt Cayenne pipar (1 tsk). Bættum svo um hálfum dl hvítvíni samanvið. Þegar þetta er orðið mjúkt þá bættum við tómatpúrruni (2 mtsk) saman við og blönduðum vel. Settum þetta svo í blandara sem þolir hita (t.d. Vitamix) ásamt ca dl af soðinu og hvítlauksgeirum og maukuðum þetta vel þar til engar agnir voru sjáanlegar.

Settum svo maukið aftur í pottinn, bættum saman við soðinu og rjómaostinum (200 g) og hrærðum vel saman og náðum upp suðu. Bragðbætt með salti og pipar og jafnvel humarkrafti ef ykkur finnst vanta bragð. Þetta var mjög bragðmikið hjá okkur á þessu stigi. Þegar þetta var búið að malla dálítið bættum við 500 ml rjóma og svo kókosmjólk eftir smekk. Við notuðum í raun kókosrjómann sem er efst í dósinni og smökkuðum til. Þetta var ca hálf dós.
Svo er það humarinn (skelflettur). Ég steikti hann uppúr slatta af smjöri, pressuðum hvítlauk (3 geirar) og smá þurrkaðri steinselju (átti ekki til ferska). Mjög basic, bara passa að steikja þá frekar of lítið en hitt, súpan klárar svo verkið. Ef þið eruð með litla súpu humarhala þá skolið þið þá bara, þerrið og bætið þeim útí súpuna um leið og hún er borin fram. Þeir sjóða strax þar. Stóru humarhalana settum við ofan á súpuna þegar súpan var komin í skálarnar ásamt þeyttum rjóma.

Pörunin
Það þarf ekkert að para neitt við þetta en það er skemmtilegra, það var hátíð í bæ hjá okkur og við áttum flotta flösku af Dom Perignon kampavíni sem paraðist stórkostlega við súpuna. Gott hvítvín, þurr saison eða belgiskur tripel myndu eiga svakalega vel við líka.
Sigrún gerir ofsalega góðar brauðbollur og við ákváðum að hafa þær með súpunni, nýbakaðar og lungnamjúkar með smjöri. Frábær veilsa. Njótið.
Njótið
You must be logged in to post a comment.