Lífið gengur í endalausa hringi og það sama má segja um tískustrauma og stefnur og smekk manna held ég. Í upphafi (fyrir 20 árum) var maður sjálfur bara í lager bjór, bara þessum klassíska ljósa lager sem á rætur sínar að rekja til hins gullna pilseners frá Tékklandi fyrir ansi mörgum áratugum. Svo fór maður að fikta í ölinu, færði sig yfir í belgíska ölið enda ljúft og milt og ekki svo krefjandi. Þaðan lá leiðin yfir í ameríska ölið, pale ale og india pale ale og svo varð fjandinn laus, maður fór að elska humlabombur og rótsterka bjórstíla á borð við DIPA, tripel IPA, og imperial stout og barley wine helst tunnuþroskað í drasl á alls konar áfengis tunnum. Svo hefur funkið alltaf verið líka „on the side“ þ.e.a.s funky villibjórarnir og gallsúru súrölin. Þetta hefur mallað svona síðustu árin þar til New England IPA stíllinn kom fram og algjörlega heltók mig. Bakkelsis bjórinn með öllu sínu gotteríi á líka hug minn allan um þessar mundir. Lagerinn er fyrir löngu dauður hjá mér en þegar ég fór að hugsa um það síðustu vikur finnst mér það miður. Það var alltaf staður og stund fyrir góðan lager en góður lager er alls ekki eitthvað sem auðvelt er að gera. Við heimabruggarar höfum lítið fyrir að brugga pale ale eða IPA en lagerinn er snúnari. Ég hef enn ekki smakkað góðan heimagerðan lager.
Craft brugghúsin úti í hinum stóra heimi hafa sum hver reynt að halda stílnum lifandi fyrir bjórnördunum en það reynist oft erfitt þegar menn hrópa eftir meiri djús, meiri beiskju eða meiri sýru og svo fram eftir götum. Það eru hins vegar til virkilega flottir pilsner bjórar og lager af ýmsum toga þarna úti. B&M hefur ákveðið að nota árið 2019 í að endurvekja lagerinn í hjartanu og koma honum aftur á blað. Það var því sönn ánægja þegar Borg Brugghús kom með þennan nýja bjór sinn sem bruggaður er með Fræbbblunum í tilefni 30 ára afmæli bjórs á Íslandi en Fræbbblarnir voru eins og margir harðir gagnrýnendur bjórbannsins og kom það stundum fram í lagatextum hljómsveitarinnar. Bjórinn heitir bara því lýsandi nafni Bjór! NrC18 og er skv merkimiðanum india pale lager en undirritaður kýs að kalla hann hoppy pilsner eða premium lager. Bjór þessi er svo sannarlega kærkomin tilbreyting frá öllum skýjabjórnum sem reyndar er unaðslegur en stundum þarf maður hlé. Þetta er frábær bjór, kristal tær, hreinn á tungu með krispí humlum og þó nokkurri sætu frá korninu. Svo er hann vel humlaður með citra humlum þannig að hann verður ekstra safaríkur en nær þó alls ekki að verða þannig að kalla mætti pale ale eða IPA. Bjór er held ég bjór sem allir ættu að eiga auðvelt með að elska. Svona þegar ég hugsa út í það þá minnir hann dálítið á American Dream frá Mikkeller sem fæst í vínbúðunum.
Frábært, takk fyrir mig Borg og Fræbbblar!
Ein athugasemd við “Bjór! C18 frá Borg og Fræbbblunum, er lagerinn að koma aftur?”