Ég vil endilega benda á þetta meistaraverk sem stendur og bíður eftir þér í vínbúðunum. Bæði í stórri og minni flösku með fallegum korktappa sem haldið er í vírnetsfjötrum. Merkimiðinn er með þeim skemmtilegri sem maður hefur séð í langan tíma en það er svo sem ekki nóg, innihaldið er það sem máli skiptir ekki satt.
Í þessari flösku er dásamlega skemmtilegur bjór sem flokka mætti sem red wild IPA því hér hafa menn tekið höndum saman, þ.e.a.s Borg Brugghús og hið sænska Brekeriet sem frægt er fyrir súrbjór og wild ale. Rauðhetta er red sour frá Brekeriet sem ku vera helvíti næs einn og sér og Úlfinn þekkjum við landsmenn öll ekki sett enda stórfínn IPA. Borg og Brekeriet ákváðu að sulla þessu saman þannig að bruggaður var Úlfur og svo hleypt inn á gertankinn villigerið sem Brekeriet notar við gerjun á Rauðhettu og látið gerjast í tvö ár takk fyrir. Þetta er skemmtileg tilraun því menn vissu jú ekkert hvernig þetta myndi fara, myndi villigerið yfirtaka öll völd og skyggja á Úlfinn eða öfugt. Borg talar um á síðu sinni baráttu Rauðhettu og Úlfsins, hver gleypir hvern?
Bjórinn er glæsilegur og klárlega með miklu funk og villibragði og að mínu mati hefur hér Rauðhetta snúið á Úlfinn og hámað hann í sig. Það eru áberandi ber og sætir ávextir í nefi, ferskjur jafnvel? Í munni er bjórinn mjög bragðmikill og nokkuð kryddaður með miklum gerkeim. Hann er nokkuð súr en engin beiskja merkjanleg. Þetta er einfaldlega frábær villibjór og staðfesting á að Borg er komið á gott flug í villibjórgerð en Esja nr 60 markaði frábært upphaf á því ævintýri.