Þorrabjórinn 2019, Surtur 61 með súkkulaði-blóðmör!

Þorrinn 2019 er hinumegin við hornið með öllum þeim óbjóði sem honum fylgir, hins vegar er líka margt gott við Þorrann, við bóndarnir fáum blóm sumir hverjir og Surtsdagar ganga í garð en það er þá sem Surtinum frá Borg er sleppt lausum.  Ár hvert koma nokkrir nýjir Surtar frá  þeim, hver með sínu sniði en allir eru þeir af gerðinni imperial stout.  Einn ef þeim þetta árið er Surtur 61 sem er dálítið öðruvísi en flestir Surtarnir til þessa.  Hér erum við að tala um imperial stout,  sem einfaldlega er stout sem er nokkuð hár í áfengi, jafnan vel yfir 8%, getur farið upp í 15% eða hærra. Surtur 61 er 12.1%, já ekki gera lítið úr þessu 0,1% það telur.  Bjórstíll þessi einkennist af þrótt og þéttleika með keim af  dökku súkkulaði og ristuðu kaffi og getur verið ýmist nokkuð beiskur eins og hin ameríska túlkun en jafnan er hann nokkuð sætur á tungu og jafnast þetta þannig ágætlega út.

Surtur 61 er ekki bara imperial stout því hann er  bruggaður með Gunnars kleinuhringjum og hlynsýrópi  í ríkulegu magni og svo látinn eldast á bourbon tunnum og rúg whiskey tunnum  í einhverja mánuði en svona bjór getum við kallað „pastry stout“ eða einfaldlega bakkelsis bjór.  Oftast er um að ræða stout eða imperial stout eins og hér þó svo að aðrir grunnstílar komi vel til greina. Bakkelsis bjór er svo sem ekki til sem viðurkenndur stíll og ekki er til nein ein rétt túlkun á hvað flokkast sem bakkelsis bjór.  Sumir nota þetta orð yfir bjór sem bruggaður er með einhverju sætabrauði ss snúðum, kleinuhringjum, vínarbrauði eða álíka sem þá er sett í annað hvort við meskingu eða eftir gerjun, já eða jafnvel í suðuna sjálfa, reynið svo að fá uppúr Valla og Snorra (RVK Brewing) hvar í ferlinu þeir settu snúðana frá Brauð og co í Co & Co bjórinn sinn, lokuð bók en reyndar önnur saga!  Aðrir tala um bakkelsis bjór ef bjórinn líkist bakkelsi eða sætum eftirréttum og er hann þá bragðbættur með einhverju ss súkkulaði, hnetusmjöri, vanillu, sykurpúðum eða hvað það kann að vera.

„Bjórstíll“ þessi er orðinn dálítið áberandi erlendis en menn eru aðeins farnir að leika sér hér heima með þetta sem er mikið fagnaðarerendi (sjá nánar hér).  Bakkelsis bjór fellur hins vegar misvel í kramið hjá fólki, sumir einfaldlega hata þetta á meðan aðrir elska hann.  Svo allt þar á milli.  Sumir vilja meina að ekki sé um bjór að ræða sem að mínu mati er bara bull. Það sem fer fyrir brjóstið á mönnum eru allar þessar viðbætur (adjuncts) og þeir vilja meina að svona drykkir sé ekki hægt að flokka sem bjór en hvenær hættir bjór að vera bjór annars?  Ef hann er gerður úr vatni, byggi, humlum og geri þá er það bjór, sama hvað menn reyna að segja, punktur.  Það má til gamans benda á að hér áður var ekki notast við humla í bjórgerð, humlar í bjór er tiltölulega nýtt fyrirbæri, eða þannig en tilkoma humlanna hefur umbylt bjórnum og gert hann mun meira aðlaðandi og drekkanlegri.

En þetta er bara skemmtilegt, pastry bjór er amk valmöguleiki fyrir fólk sem vill salgæti á fljótandi formi og er ekki fast í fortíðinni.  Surtur 61 er skínandi dæmi um bakkelsis bjór en hann er þéttur og mikil og með mikla sætu.  Hér fer lítið fyrir ristuðu kaffi eða beiskju sem er í góðu lagi þegar maður veit út í hvað maður er að fara.  Konan mín elskar þennan bjór t.d.

Súkkulaði Blóðmör á Þorranum

En ok, BLÓÐMÖRIN!  Það er Þorri og þá borða menn vont, ég hata Þorramat, eitt af þessu vonda er slátur ekki satt?  Við ákváðum að reyna að bæta úr matarvenjum okkar á Þorranum og reiða fram súkkulaði „Þorra“ blóðmör af bestu sort og prófa að para við Surt 61.  Þetta kemur afskaplega vel út og gæti jafnvel orðið uppáhalds Þorramatur sumra með tímanum.   Mögulega er hér á ferð fyrsta  og eina súkkulaði blóðmör veraldar? Ég verð að viðurkenna það að í grunninn er þetta uppskrift frá Nigella Lawson, chocolate salami.  Ég gerði þetta fyrir jólin og gestir mínir töluðu allir um að þetta væri eins og slátur.  Ég ákvað því að endurgera þetta fyrir Þorrann og móta á annan hátt þannig að útkoman er blóðmör úr súkkulaði.  Mér finnst þetta koma vel út, ekkert voðalega lystugt að sjá en samt, hvað er lystugt á Þorra?

IMG_20190101_170727_584.jpg

Það sem þarf í þetta er:

  • 250 g gott súkkulaði, helst 70%, má vera suðusúkkulaði að hluta til.
  • 250 g  Bastogne Duo kex frá Lu
  • 100 g mjúkt ósaltað smjör
  • 150 g sykur (meðhöndlaður sjá að neðan)
  • 3 egg
  • 2 mtsk amaretto
  • 2 mtsk ósætt bökunar kakó
  • 75 g hýðislausar möndlur, gróft skornar
  • 75 g herslihnetur, gróft skornar
  • 50 g pistas hnetur gróft skornar

Aðferð:

Setjið vatn í pott, leggið hitaþolna skál yfir, ekki láta vatnið snerta skálina.  Komið upp suðu en alls ekki bullsjóða.  Bræðið svo súkkulaðið í skálinni.  Á meðan súkkulaðið bráðnar er fínt að gróf saxa allar hneturnar og mylja Bastogne kexið niður, ekki þannig að það verði að dufti samt.

Þegar súkkulaðið er bráðnað er skálin sett á kaldan stað, ekki þó í ískáp.  Því næst þurfum við að breyta strásykri í aðeins fíngerðari sykur.  Setjið sykurinn í matvinnsluvél og „malið“ sykurinn dálítið.  Hann verður fíngerðari og meira eins og „caster sugar“.

Setjið svo smjörið út í matvinnsluvélina, það þarf að vera dálítið mjúkt.  Maukið vel og færið yfir í hrærivél.  Setjið svo þeytara haus á vélina og þeytið létt, bætið eggjunum einu í einu saman við.  Svo bætið þið við Amaretto og blandið áfram.  Næst sigtið þið bökunarkakó saman við kælda súkkulaðið og blandið vel saman.  Þegar þetta er orðið falleg blanda þá hrærið þið þessu saman við eggjablönduna í hrærivélinni.

Þegar þið eruð komin með flotta mjúka blöndu þá  bætið þið hnetunum saman við og kexinu.  Hrærið vel saman þannig að allt sé þakið súkkulaði.  Hendið svo skálinni í ískáp í 30 mín.  Ekki lengur.  Setjið svo blönduna á matarfilmu og rúllið og mótið að vild.  Ef þið viljið fá þetta eins og blóðmör þá gerið þið nánast eins og kúlu, pakkið inn í plastfilmu og setjið í frysti.   Til að fá þetta blóðmörsútlið þá keypti ég blóðmör og klippti sauminn af og klessti á súkkulaði blóðmörina.  Passa bara að borða þetta ekki, þetta er bara fyrir myndina!  Geymið í frysti og takið út rétt áður en þetta er borið fram.  Njótið.!

Surtur 8.5 með dásamlegum blámygluosti

Nú er ég lítið fyrir Þorramat og í raun skil ég ekki afhverju fólk leggur sér þetta til munns en smekkur manna er auðvitað misjafn og allt það.  Mér hefur reynst ómögulegt að finna bjór til að para við Þorramatinn nema þá helst eitthvað sem er svo potent og magnað að það nær að drepa alveg niður óbragðið frá Þorramatnum.  Þetta er líklega  hugmyndin með íslenska Brennivíninu sem menn drekka með þessu eða hvað?  Surtur imperial stout frá Borg brugghús gæti staðið sig vel sem staðgengill brennivínsins því hann er jafnan þræl mikill og magnaður?  Surtur er Þorrabjór þeirra Borg manna en þeir gera alltaf nýjar útgáfur af hinum upprunanlega Surt 8 ár hvert.  Bjórinn kemur jafnan út á bóndadaginn en ég hef kallað þennan tímaSurtsdaga síðan við héldum þá hátíðlega á Skúla Craft Bar á sínum tíma.  Surtsdagar eru spennandi tími, jól bjóráhugafólks og nautnaseggja því það ríkir mikil eftirvænting eftir að sjá hvernig Surt bjórar koma frá Borg hverju sinni.  Í ár eru þeir t.d. 5.

img_5840Ég hef fyrir löngu gefist upp á að reyna að para bjór við Þorramat en þar sem Þorramatur er jafnan úldinn og myglaður datt mér í hug að draga fram uppáhalds ostinn minn, blámygluostinn sem vissulega er myglaður og þá „Þorralegur“ eða hvað?  Það er vel þekkt að imperial stout á vel við blámygluostinn en osturinn hefur þróttinn til að halda vel velli gagnvart stórum bjórum.  Ég ákvað að prófa SURT 8.5 2017 sem nú er fáanlegur frá og með bóndadeginum í vínbúðinni.  Surtur 8.5 er 13.2% imperial stout þroskaður á Armagnac tunnum og hann fer svo vel með blámygluostinum að það er í raun undravert.  Osturinn er bragðsterkur og mikill með áberandi seltu og mikla mýkt sem skilur eftir sig skán í gómnum.  Surturinn kemur inn með sinn þrótt og beiskju en á sama tíma sætu og mýkt. Beiskjan hreinsar skánina af gómnum og opnar alveg upp bragðflækjurnar í ostinum og sætan fer vel á móti seltunni í ostinum.  Bjórinn og osturinn tvinnast saman og verða saman ofsalega rúnaðir og mjúkir í munni.  Vínkeimurinn frá tunnunni skín aðeins í gegn og gerir upplifunina meira elegant.  Prófið að smjatta aðeins á ostinum og fáið ykkur svo sopa af bjórnum áður en ostbitanum er rennt niður.  Sprengja!

Já þetta er svo sannarlega gott „Þorrakombo“, ég prófaði að sjálfsögðu líka með SURT 8.4 sem er þroskaður á Single Malt Whisky tunnum, öðruvísi en álíka magnaður með þessum osti.