Systir hjá Dill Restaurant

Hér á síðunni tökum við stundum fyrir staði sem okkur finnast sérstaklega markverðir fyrir þær sakir að þar er hægt að fá framúrskarandi bjór og/eða náttúrúvín ásamt góðum mat. Þetta eru staðir sem okkur finnst frábært að koma á og við getum dekrað við öll skilningarvitin. Listinn okkar hér á B&M er ekki langur enda erum við bara mjög vandlát í þessum efnum.
Systir hjá Dill Restaurant er nýr staður hér í borg og okkur finnst hann eiga heima á listanum. Systir er þar sem gamli ónefndi pizzastaðurinn var við Hverfisgötu 12, fyrir ofan Dill Restaurant og fyrir neðan Mikkeller & Friends Reykjavík. Þið þekki flest staðinn, lítill en mjög heimilislegur og notalegur með geggjuðum pizzum. Nú er þessi staður allur en í staðinn er búið að lyfta staðnum aðeins upp og gera hann meira gourmet með tengingu við Dill. Hanastél og eðal vín virðast í forgrunni og svo er hægt að fá allan bjórinn sem í boði er að ofan frá Mikkeller & Friends og taka með niður sem fordrykk eða til að para með matnum að vild. Maturinn er settur saman og eldaður í Dill eldhúsinu á neðri hæðinni, Dill er auðvitað kapituli útaf fyrir sig en við ætlum ekki fjalla um hann frekar hér að þessu sinni en það verður samt sagt hér að hann verðskuldar svo sannarlega Michelin stjörnuna sína aftur.

Við Sigrún kíktum við á Systir fyrir nokkrum vikum í einn drykk eftir góða kvöldstund í bænum og vorum mjög ánægð. Kampavínsglasið var ofsalega gott og á frábæru verði, 2000kr og vel í látið. Hanastélin litu líka ofsalega vel út og greinilegt að það var fagmaður að verki á barnum. Matseðillinn lofaði góðu og við ákváðum því að koma aftur og skoða þetta betur sem við svo gerðum núna um helgina.

Matseðillinn á Systir er lítill en virðist vel skipulagður og úthugsaður. Þarna er eitthvað fyrir alla! Mér skilst líka að seðillinn taki breytingum annað slagið. Réttirnir eru skapaðir af kokkunum á Dill og eldaður þar í eldhúsinu undir vökulum augum Gunnars Karls matreiðslumeistara sem er kominn aftur heim eftir sigurför í New York borg þar sem hann ásamt teyminu á Agern lönduðu einni verðskuldaðri Michelin stjörnu hér um árið. Gunni er álíka hógvær og hann er snjall í eldhúsinu en ég leyfi mér að fullyrða hér að hann er dásamlegur kokkur og líklega einn af okkar bestu. Ég viðurkenni að ég hef smá „foodcrush“ á honum eftir að hafa upplifað matinn hans bæði á Dill og Agern í New York og svo núna á Systir.

20190717_194843.jpg

Það er fullkomið að byrja kvöldið á einum fordrykk, t.d. spennandi hanastél af barnum eða trítla upp á Mikkeller & Friends sem er einn af bestu bjórstöðum borgarinnar og næla sér ljúfan 9% Nelson Sauvin Brut Mango Passion súrbjór t.d. á meðan matseðillin er skoðaður. Þegar maður er á nýjum stað og þekkir ekki réttina er sniðugt að fara í smakkseðlana (tasting menu) ef slíkt er í boði því þá fær maður nasaþefinn af því sem menn eru að gera í eldhúsinu. Ekki er svo verra að taka vínpörunina (eða bjórpörun ef það er í boði) með ef maður treystir því að menn kunni sitt fag í þeim efnum. Það er nefnilega afar ánægjulegt að upplifa vandaða vín eða bjórpörun og fá þannig dálítið aðra og betri upplifun af réttunum.

Hafandi farið í gegnum bjórpörunina á Agern þegar Gunni réði þar ríkjum þá vissi ég að við værum í góðum málum hér. Við Sigrún fórum því í vínpörunina og sáum sko ekki eftir því. Hver réttur var bæði fallegur og vandaður og dálítið sérstakur. Þetta voru litlir en hæfilegir réttir, sem sagt minni útgáfur af réttunum ef þeir væru pantaðir stakir.

Við fórum samt frá borði nákvæmlega eins og maður vill fara frá svona borði, mettur en alls ekkert að springa. Maður vill svo ekkert fara frá svona borðum ef út í það er farið. Við eigum mjög erfitt með að tala hér um uppáhalds rétti eftir þetta kvöld en ef ég mætti bara panta einn rétt myndi ég taka gröfnu bleikjuna með fennel majo og engifer, þetta var svakalegt, reyndar myndi ég eiga erfitt með að panta ekki grísasíðuna sem var svo fáránlega mjúk og ljúf en þó stökk og mikil og í fullkomnu jafnvægi. Sigrún myndi panta sér þorskinn á kálbeði og helling af smjöri. Vínin með voru alveg „spot on“ og það leyndi sér ekki að þessar paranir voru alveg úthugsaðar. Við fengum freyðandi náttúruvín með fyrstu tveim réttunum og með þeim þriðja kom dásamlegt hvítvín. Nú er ég lítið fyrir hvítvín nema þau séu eitthvað spes og spennandi en ég get sagt ykkur að þetta vín, Isolano by Valdibella, var svakalegt og myndi ég kaupa það aftur og aftur og aftur ef ég gæti. Rauðvínið í lokin, Agape var líka frá Valdibella og álíka magnað og hvíta vínið en þetta vín steinlá með grísasíðunni, þvílík hamingja í munni. Við fengum svo ábót á það vín í lokin.

Þjónustan var vinaleg og heimilisleg en það er auðvelt að gleyma sér og gera meiri kröfur þegar maður er byrjaður að borða því maturinn er eitthvað sem maður gæti hafa fengið á Michelin stað. Systir er hins vegar ekki glerfínn Michelin staður, enda er það ekki meiningin, og því má ekki dæma hann sem slíkan þegar t.d. hnífapör gleymast með matnum, eða einn drykkurinn kom ekki á borðið. Í heildina var þetta stórkostlegt kvöld hjá okkur með nóg af spennandi verkefnum fyrir bragðlaukana. Við munum svo sannarlega koma þarna aftur bæði í ljúfan kvöldverð eða bara til að tilla okkur við barinn í smáréttina og drykki.

Takk fyrir okkur Systir!

Sturlaður viðburður á Mikkeller & Friends Reykjavík. Goðsögn í bjórveröldinni á klakanum!

Mig langar að segja ykkur frá dálitlu sem er alveg að fara gerast bara rétt handan við hornið, jú það eru að koma jól það er svo sem eitt og sér bara dásamlegt en það sem ég vildi nefna hér er að þessi jól, jólin 2017 munu líklega verða þau ljúfustu jól sem undirritaður hefur lifað.  Ég held meira að segja að fleiri muni deila þessari skoðun minni og hverjum er það svo að þakka?  Jú Steini og Co á Mikkeller & Friends Reykjavík eru að fara bjóða okkur í veislu og ekki bara veislu heldur veizlu með z-tu.  Ég ætla hér og nú að vera djarfur og leyfa mér að segja að þetta er bara það allra merkilegasta sem ég hef upplifað í íslenskri bjórsögu.  Já ekki dæma mig strax, menn verða að lesa aðeins áfram, ok ég viðurkenni samt að Bjórhátíðin á Kex 2018 verður líka svakaleg en hún kemur síðar.

Alla vega þann 23. Desember, eða á sjálfum heilaga Þorláki munu Reykvíkingar geta smakkað einns sögufrægasta bjór veraldar á Mikkeller & Friends Reykjavík frá Alchemist í Bandaríkjunum.  Við erum að tala Heady Topper sem er líklega einn umtalaðasti og eftirsóttasti bjór veraldar enda dæmdur besti bjór í heimi marg oft á mörgum vettvöngum.  Heady Topper hefur meira að segja verið bendlaður við að vera fyrsti New England IPA sögunnar og sá bjór sem lagði línurnar fyrir þennan stíl ef stíl má kalla.  Já sumir eru svo sem ekki sammála en það eru hins vegar allir, og þá meina ég allir sammála því að þessi bjór er frábær og jafnvel það besta sem menn hafa smakkað.  Nú er það svo að undirritaður hefur ekki smakkað þennan bjór sjálfur enda er það bara nánast vonlaust nema að þekkja réttu krókaleiðirnar.  Trúið mér, þessi bjór hefur verið á óskalista í mörg ár og það er kannski það sem gerir það að verkum að þessi viðburður fer efst á lista hjá mér í heimi bjórviðburða. Bjór & Matur getur ekki verið þekkt fyrir annað en að hafa smakkað frægasta bjór bjórsögunnar!  Mikið hlakkar mér til að loksins fá að smakka þetta undur.  Já og ekki nóg með það, Heady Topper er ekki eini bjórinn sem verður í boði frá Alchemist heldur verður líka hægt að nálgast dósir af Focal Banger sem virðist vera að taka við vinsældarkeflinu af Heady Topper og svo Beelzebub sem er geggjaður Imperali Stout skv alnetinu.

the-alchemist-focal-banger-pourÞetta verður veisla, Þorláksmessu veizla, gleymdu skötunni, gleymdu öllum Þorláksmessu hefðunum og byrjaðu jólin snemma á Mikkeller, það ætla ég amk að gera.  Ég held líka að við ættum öll að taka ofan af fyrir Steina og co hjá Mikkeller & Friends Reykjavík fyrir að gera þetta mögulegt og lyfta bjórmenningu þjóðarinnar á æðra plan!  Takk fyrir okkur Steini!

ATH myndir í þessum pistli voru teknar af alnetinu via google!