Systir hjá Dill Restaurant

Hér á síðunni tökum við stundum fyrir staði sem okkur finnast sérstaklega markverðir fyrir þær sakir að þar er hægt að fá framúrskarandi bjór og/eða náttúrúvín ásamt góðum mat. Þetta eru staðir sem okkur finnst frábært að koma á og við getum dekrað við öll skilningarvitin. Listinn okkar hér á B&M er ekki langur enda erum við bara mjög vandlát í þessum efnum.
Systir hjá Dill Restaurant er nýr staður hér í borg og okkur finnst hann eiga heima á listanum. Systir er þar sem gamli ónefndi pizzastaðurinn var við Hverfisgötu 12, fyrir ofan Dill Restaurant og fyrir neðan Mikkeller & Friends Reykjavík. Þið þekki flest staðinn, lítill en mjög heimilislegur og notalegur með geggjuðum pizzum. Nú er þessi staður allur en í staðinn er búið að lyfta staðnum aðeins upp og gera hann meira gourmet með tengingu við Dill. Hanastél og eðal vín virðast í forgrunni og svo er hægt að fá allan bjórinn sem í boði er að ofan frá Mikkeller & Friends og taka með niður sem fordrykk eða til að para með matnum að vild. Maturinn er settur saman og eldaður í Dill eldhúsinu á neðri hæðinni, Dill er auðvitað kapituli útaf fyrir sig en við ætlum ekki fjalla um hann frekar hér að þessu sinni en það verður samt sagt hér að hann verðskuldar svo sannarlega Michelin stjörnuna sína aftur.

Við Sigrún kíktum við á Systir fyrir nokkrum vikum í einn drykk eftir góða kvöldstund í bænum og vorum mjög ánægð. Kampavínsglasið var ofsalega gott og á frábæru verði, 2000kr og vel í látið. Hanastélin litu líka ofsalega vel út og greinilegt að það var fagmaður að verki á barnum. Matseðillinn lofaði góðu og við ákváðum því að koma aftur og skoða þetta betur sem við svo gerðum núna um helgina.

Matseðillinn á Systir er lítill en virðist vel skipulagður og úthugsaður. Þarna er eitthvað fyrir alla! Mér skilst líka að seðillinn taki breytingum annað slagið. Réttirnir eru skapaðir af kokkunum á Dill og eldaður þar í eldhúsinu undir vökulum augum Gunnars Karls matreiðslumeistara sem er kominn aftur heim eftir sigurför í New York borg þar sem hann ásamt teyminu á Agern lönduðu einni verðskuldaðri Michelin stjörnu hér um árið. Gunni er álíka hógvær og hann er snjall í eldhúsinu en ég leyfi mér að fullyrða hér að hann er dásamlegur kokkur og líklega einn af okkar bestu. Ég viðurkenni að ég hef smá „foodcrush“ á honum eftir að hafa upplifað matinn hans bæði á Dill og Agern í New York og svo núna á Systir.

20190717_194843.jpg

Það er fullkomið að byrja kvöldið á einum fordrykk, t.d. spennandi hanastél af barnum eða trítla upp á Mikkeller & Friends sem er einn af bestu bjórstöðum borgarinnar og næla sér ljúfan 9% Nelson Sauvin Brut Mango Passion súrbjór t.d. á meðan matseðillin er skoðaður. Þegar maður er á nýjum stað og þekkir ekki réttina er sniðugt að fara í smakkseðlana (tasting menu) ef slíkt er í boði því þá fær maður nasaþefinn af því sem menn eru að gera í eldhúsinu. Ekki er svo verra að taka vínpörunina (eða bjórpörun ef það er í boði) með ef maður treystir því að menn kunni sitt fag í þeim efnum. Það er nefnilega afar ánægjulegt að upplifa vandaða vín eða bjórpörun og fá þannig dálítið aðra og betri upplifun af réttunum.

Hafandi farið í gegnum bjórpörunina á Agern þegar Gunni réði þar ríkjum þá vissi ég að við værum í góðum málum hér. Við Sigrún fórum því í vínpörunina og sáum sko ekki eftir því. Hver réttur var bæði fallegur og vandaður og dálítið sérstakur. Þetta voru litlir en hæfilegir réttir, sem sagt minni útgáfur af réttunum ef þeir væru pantaðir stakir.

Við fórum samt frá borði nákvæmlega eins og maður vill fara frá svona borði, mettur en alls ekkert að springa. Maður vill svo ekkert fara frá svona borðum ef út í það er farið. Við eigum mjög erfitt með að tala hér um uppáhalds rétti eftir þetta kvöld en ef ég mætti bara panta einn rétt myndi ég taka gröfnu bleikjuna með fennel majo og engifer, þetta var svakalegt, reyndar myndi ég eiga erfitt með að panta ekki grísasíðuna sem var svo fáránlega mjúk og ljúf en þó stökk og mikil og í fullkomnu jafnvægi. Sigrún myndi panta sér þorskinn á kálbeði og helling af smjöri. Vínin með voru alveg „spot on“ og það leyndi sér ekki að þessar paranir voru alveg úthugsaðar. Við fengum freyðandi náttúruvín með fyrstu tveim réttunum og með þeim þriðja kom dásamlegt hvítvín. Nú er ég lítið fyrir hvítvín nema þau séu eitthvað spes og spennandi en ég get sagt ykkur að þetta vín, Isolano by Valdibella, var svakalegt og myndi ég kaupa það aftur og aftur og aftur ef ég gæti. Rauðvínið í lokin, Agape var líka frá Valdibella og álíka magnað og hvíta vínið en þetta vín steinlá með grísasíðunni, þvílík hamingja í munni. Við fengum svo ábót á það vín í lokin.

Þjónustan var vinaleg og heimilisleg en það er auðvelt að gleyma sér og gera meiri kröfur þegar maður er byrjaður að borða því maturinn er eitthvað sem maður gæti hafa fengið á Michelin stað. Systir er hins vegar ekki glerfínn Michelin staður, enda er það ekki meiningin, og því má ekki dæma hann sem slíkan þegar t.d. hnífapör gleymast með matnum, eða einn drykkurinn kom ekki á borðið. Í heildina var þetta stórkostlegt kvöld hjá okkur með nóg af spennandi verkefnum fyrir bragðlaukana. Við munum svo sannarlega koma þarna aftur bæði í ljúfan kvöldverð eða bara til að tilla okkur við barinn í smáréttina og drykki.

Takk fyrir okkur Systir!

Breyttu miðbænum í stóra mathöll eina kvöldstund

Það er dálítið fast í okkur að þegar við gerum okkur glaðan dag og förum út að borða að þá þurfum við að verja öllu kvöldinu á einum og sama staðnum. Við veljum okkur veitingastað sem okkur líst vel á og erum þar þangað til við höfum borgað reikninginn og höldum heim á leið. Oft er það samt þannig að við erum ekkert endilega ánægð með alla réttina sem við fáum, forrétturinn er kannski fínn, aðalrétturinn geggjaður en eftirrétturinn bara lala. Oft er maturinn frábær en drykkirnir ekkert spennandi eða öfugt. Við Sigrún höfum stundum talað um hvað væri sniðugt að prófa það besta á mismunandi stöðum, t.d. taka eftiréttinn á öðrum stað en aðalréttinn, og jafnvel milli drykk á enn öðrum stað!

Um daginn ákváðum við að prófa þetta. Við fengum óvænt pössun fyrir börnin og ákváðum að nýta tækifærið og gera vel við okkur. Auðvitað allt of seint að panta borð á laugardagskvöldi á veitingastað. Við tókum því prufukeyrslu á þennan títt nefnda draum okkar.

RVKMEAT
Reykjavík Meat í forrétt

Við byrjuðum á Reykjavík Meat í forrétt og drykk, þessi staður er bara frábær, við höfum borðað á honum áður og var allt gott sem við fengum okkur og þjónustan vinaleg og spot on. Verðlag er líka mjög gott þarna og kokdillarnir veglegir og hrikalega góðir, t.d. er besti Espresso Martini í bænum þarna og Pornstar Martini er líklega það besta sem við höfum fengið í kokdillum í langan tíma. Það sem dró okkur á Meat þetta kvöld var allt þetta og svo frábært verð á kampavínsglasinu en þarna fær maður glasið af Moet á 1800 kr sem er afar sanngjarnt verð fyrir góðar búblur. Við fengum okkur svo nauta carpaccio með þessu en það er alveg fáránlega gott á Meat. Annað sem ég verð að taka fram er klósettið á Reykjavík Meat en við höfum bara aldrei komið inn á eins huggulegt klósett á neinum veitingastað, ofsalega nett, já ég veit, áhugavert, það er svo hreint og snyrtileg að maður gæti vel borðað forréttinn þarna svei mér þá! Þó svo að við hefðum vel getað borðað þarna allt kvöldið þá fengum við jú bara borð af því að við lofuðum að vera bara í forrétt, auk þess langaði okkur að prufa hugmyndina okkar!

Public
Aðalréttur eða réttir á Public House

Eftir forrétt og drykk röltum við því á Public House í frábæru veðri. Við komumst að því hversu gott það er að rölta svona um bæinn milli rétta, þannig skapast meira pláss og maður verður allur einhvern veginn léttari á því. Það var líka ofsalega góð stemning í miðborginni þetta kvöld. Það er allt gott á Public en „so not pizza“ er þess virði að nefna sérstaklega en hún er líklega frá öðrum hnetti, við pöntum okkur alltaf þennan rétt þegar við kíkjum á Public og grísa soðbrauðið er í miklu uppáhaldi hjá mér líka. Við fengum okkur 3 litla rétti saman og drykk með. Á þessum stað er sniðugt að prófa marga rétti og deila en það er eiginlega hugmyndafræði staðarins en auðvitað má maður panta sér margar so not pizza t.d. ef maður vill, ég geri það mögulega næst. Svo var kominn tími á meira rölt og millidrykk svona til að láta aðeins sjatna enda of snemmt að henda sér í eftirréttinn.

Við litum við á Mikkeller & Friends Reykjavík en þar er alltaf eitthvað gott að fá á krana. Ég fékk mér hrikalega flottan súrbjór frá De Garde en frúin bætti á sig kampavíni af bestu sort. Við tilltum okkur niður á Systir Restaurant sem er glænýr staður en matseðillinn þarna er virkilega spennandi og munum við klárlega taka tékk á honum á næstunni. Notaleg stemning, gott spjall og ljúfir drykkir.

20190427_210619-0159554541.jpeg
Sjúkur eftirréttur á KOL Restaurant

Við vorum löngu búin að ákveða eftirréttinn, við höfum meira að segja stundum velt því fyrir okkur að fara bara beint í eftirréttinn þarna og svo heim. Jább, ég er að tala um hvítu súkkulaði ostakökuna með ástaraldin kókos sorbet og ítölsku marens (meringue) á Kol Restaurant. Þessi réttur er svo ótrúlegur, bragðlaukarnir eiga ekki séns, þeir steinliggja í sjokki, hér gengur allt upp, áferðin, bæði mjúkt, stökkt, kalt og djúsí og svo er bragðið magnað, hvítt súkkulaði með fersku ástaraldin mauki og svo kókos flögum með léttri rist, og þetta marens, Guð minn góður! Það er eiginlega óvirðing við réttinn að reyna að lýsa honum, maður verður að smakka. Við fengum strax pláss við barinn sem var bara það sem okkur langaði, gaman að sitja þarna í miðjum hamagangnum og fylgjast með barþjónunum hrista og blanda alls konar drykki. Maturinn kom svo þarna fram beint úr eldhúsinu þannig að við sátum þarna umlukin alls konar angan af hinum og þessum réttinum. Reyndar buðu þeir okkur líka borð ef við vildum en þetta var bara fullkomið svona.

Já þetta var alveg magnað kvöld, það besta frá 4 stöðum borgarinnar, notaleg stemning, gott rölt og frábær félagsskapur. Maður kom einhvern veginn svo léttur og notalegur út úr þessu kvöldi, ekki pakksaddur eins og svo oft. Við vorum þó ekki alveg tilbúin í heimferð þarna eftir Kol og röltum því aftur á Reykjavík Meat í loka drykk. Þar var okkur boðið í huggulegt horn og fengum stórbrotið rauðvín Hess Collection 19 Block Mountain Cuvée sem því miður verður ekki fáanlegt lengi því vínviðurinn brann víst allur í brununum miklu í Kaliforníu hérna um árið. Þetta var alveg stórkostlegt vín, venjulega selt í flöskuvís en þar sem þeir voru að lofa þjónunum að smakka máttum við kaupa glös fyrir okkur.

Já við mælum svo sannarlega með þessu, við breyttum í raun miðbænum í eina stóra mathöll og völdum það besta frá þeim bestu.